Fara í innihald

Játvarður góði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Játvarður góði (um 10035. janúar 1066) var konungur Englands frá 1042 til dauðadags og er yfirleitt talinn síðasti konungurinn af Wessex-ætt. Hann var tekinn í helgra manna tölu árið 1161 og er verndardýrlingur bresku konungsfjölskyldunnar.

Uppruni og útlegð[breyta | breyta frumkóða]

Játvarður var sonur Aðalráðs konungs ráðlausa og Emmu af Normandí. Þegar Danir gerðu innrás í England 1013 fór Emma drottning til Normandí með börn sín. Aðalráður dó í apríl 1016 og Játmundur járnsíða, eldri hálfbróðir Játvarðar, tók þá við ríki en dó sjö mánuðum síðar og Knútur mikli tók við ensku krúnunni. Hann giftist svo Emmu, móður Játvarðar. Játvarður var áfram í útlegð í Normandí næsta aldarfjórðunginn, á meðan Knútur og síðan synir hans, Haraldur hérafótur og Hörðaknútur (hálfbróðir Játvarðar) réðu ríkjum. Hann komst til metorða þar og var meðal annars einn þeirra sem Róbert hertogi af Normandí, frændi hans, útnefndi sem forráðamenn Vilhjálms sonar síns þegar hann hélt í pílagrímsferð til Landsins helga.

Árið 1036, eftir að Knútur mikli dó og Haraldur hérafótur sonur hans sölsaði undir sig völd í Englandi, fóru þeir Játvarður og Alfreð bróðir hans til Englands til að reyna að komast til valda en varð lítið ágengt. Játvarður sneri aftur til Normandí en Alfreð féll í hendur Guðina jarls af Wessex, sem lét blinda hann með glóandi skörungum og dó Alfreð skömmu síðar af sárum sínum.

Konungur Englands[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1041, þegar Hörða-Knútur hálfbróðir Játvarðar hafði tekið við ríkjum í Englandi, var Játvarður kvaddur heim og hugsanlega gerður að meðkonungi hans. Hörða-Knútur lést svo 8. júní 1042 og Játvarður var einróma kjörinn konungur. Móðir hans studdi þó Magnús góða Noregskonung og lét Játvarður fangelsa hana um tíma. Samband þeirra mæðgina var ekki gott og virðist Emma hafa haft lítið dálæti á börnum sínum af fyrra hjónabandi.

Stjórnartíð Játvarðar góða var friðsæl og blómleg en hann þurfti sífellt að takast á við þrjá valdamikla jarla: Guðina jarl af Wessex og jarlana af Mersíu og Norðymbralandi. Engilsaxnesku jörlunum þótti Játvarður normannskur í hugsun og hliðhollur Normönnum og varð Guðini jarl helsti leiðtogi andstöðunnar gegn normönnskum áhrifum. Breyttist það ekkert þótt Játvarður gengi að eiga Edit dóttur hans árið 1045. Upp úr sauð þegar Játvarður útnefndi Normannann Robert of Jumièges erkibiskup af Kantaraborg og Guðini var gerður útlægur ásamt sonum sínum árið 1051 og Edit drottning send í klaustur. Guðini sneri þó aftur með her ári síðar og Játvarður neyddist til að taka við honum að nýju og senda normannska ráðgjafa sína frá sér. Guðini dó 1053 og Haraldur sonur hans tók við jarldæminu.

Ríkiserfðir[breyta | breyta frumkóða]

Útför Játvarðar, sýnd á Bayeux-reflinum.

Játvarður og Edit voru barnlaus og ekki ljóst hver ætti að erfa krúnuna. Játvarður kallaði bróðurson sinn, Játvarð útlaga son Játmundar járnsíðu, heim árið 1056 en hann hafði dvalið nær alla ævi í útlegð í Ungverjalandi. Hann dó þó nokkrum mánuðum síðar. Játvarður útnefndi son hans, Játgeir Ætheling, erfingja sinn en hann naut lítils stuðnings enskra aðalsmanna, enda barn að aldri og talinn útlendingur. Játgeir var 14 ára þegar Játvarður afabróðir hans dó 5. janúar 1066 og Haraldur Guðinason var ekki seinn á sér að hrifsa krúnuna og láta kjósa sig konung. Aðrir gerðu þó einnig kröfu til ríkiserfða og voru þar helstir þeir Vilhjálmur hertogi af Normandí og Haraldur harðráði Noregskonungur.

Heilagur Játvarður[breyta | breyta frumkóða]

Hinrik 2. fékk Alexander III páfa til að taka Játvarð í dýrlingatölu árið 1161 og er hann verndardýrlingur konunga, erfiðra hjónabanda og fráskilinna. Hann var einnig verndardýrlingur Englands til 1348, þegar heilagur Georg tók við því hlutverki, en Játvarður er þó enn verndardýrlingur bresku konungsfjölskyldunnar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Hörða-Knútur
Konungur Englands
(1042 – 1066)
Eftirmaður:
Haraldur Guðinason