Fara í innihald

Játvarður 4.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Játvarður 4. konungur Englands og lávarður Írlands.

Játvarður 4. (28. apríl 14429. apríl 1483) var konungur Englands frá 1461 til 1470 og svo aftur frá 1471 til 1483. Hann var djarfur og snjall herstjórnandi og tapaði aldrei orrustu. Játvarður var að mörgu leyti hæfur konungur þótt hann þætti stundum sýna dómgreindarbrest og naut mikill vinsælda meðal þegna sinna. Hann er sagður hafa verið hávaxnastur allra enskra konunga, 1,93 m á hæð, og hraustlegur og íþróttamannslegur á yngri árum en þreknaði mjög með aldrinum.

Rósastríðin[breyta | breyta frumkóða]

Játvarður var af York-ættinni, elsti sonur Ríkharðs Plantagenet, 3. hertoga af York. og konu hans Cecily Neville, og bróðir Ríkharðs 3., sem síðar varð konungur Englands.

Ríkharður hertogi var leiðtogi York-ættarinnar í Rósastríðunum og barðist um ensku krúnuna við Hinrik 6., sem var af Lancaster-ættinni. Hann féll í orrustunni við Wakefield daginn fyrir gamlársdag 1460. Játvarður tók við leiðtogahlutverkinu og náði um vorið völdum með hjálp frænda síns, Richard Neville, 16. jarlsins af Warwick. Þeir náðu London í sínar hendur á meðan Hinrik og drottning hans, Margrét af Anjou, sem var hinn raunverulegi stjórnandi Lancaster-manna, voru í Norður-Englandi. Játvarður var lýstur konungur 4. mars 1461, tæplega nítján ára að aldri, og krýndur um sumarið, eftir að þeir Warwick höfðu unnið stórsigur á Lancaster-mönnum.

Hjónaband og ósætti við Warwick[breyta | breyta frumkóða]

Játvarður var mikill kvennamaður og átti margar hjákonur en 1464 giftist hann á laun ekkju, Elísabet Woodville, sem tengdist Lancaster-ætt. Hún var nokkrum árum eldri en konungur en sögð fegursta kona Englands. Ástæðan fyrir leyndinni var að konungur vissi að hertoginn af Warwick, helsti ráðgjafi hans, yrði ekki ánægður, enda hafði hann haft í hyggju að láta konung giftast einhverri evrópskri prinsessu til að styrkja pólitísk tengsl.

Warwick varð þó að sætta sig við orðinn hlut en brátt fjölgaði mjög ættmennum drottningar við hirðina og systkini hennar, sem voru fjölmörg, giftust inn í ýmsar helstu valdaættir landsins. Warwick var ekki ánægður með að ættmenni drottningar hefðu áhrif á konunginn og gerði því uppreisn gegn honum ásamt bróður Játvarðs, Georg hertoga af Clarence. Her þeirra og her konungsins mættust í bardaganum við Edgecote Moor árið 1469, þar sem her Játvarðs beið ósigur og var hann tekinn til fanga skömmu síðar.

Richard af Warwick ætlaði sér að stjórna í nafni Játvarðs en hafði ekki nægan stuðnings til þess og sættist því við konunginn um stundar sakir. Árið 1470 gerðu þó Richard og Georg af Clarence aftur uppreisn sem mistókst og í kjölfarið flúðu þeir til Frakklands. Þar ákváðu þeir að ganga í lið með Hinriki 6. - eða öllu heldur Margréti drottningu - og fengu einnig liðsinni Loðvíks 11. Frakkakonungs. Um haustið tókst þeim að velta Játvarði úr stóli og endurreistu Hinrik 6. sem konung Englands þótt öll völd væru í raun í höndum tvímenninganna.

Játvarður flúði til Frakklands og leitaði hælis hjá Karli djarfa, hertoga af Búrgund, sem giftur var systur hans, en snéri aftur árið eftir og gekk bróðir hans, Georg af Clarence, þá í lið með honum. Játvarður mætti svo herjum Lancaster-ættarinnar í nokkrum bardögum og sigraði þá, í einum bardaganna féll Richard af Warwick. Lokabardaginn var svo orrustan við Tewkesbury 4. maí 1471 og þar féll Játvarður af Westminster, einkasonur Hinriks 6. Stuttu síðar dó Hinrik 6. í Lundúnaturni og var sagður hafa dáið úr harmi en líklegt er talið að Játvarður hafi látið koma honum fyrir kattarnef.

Síðustu æviár og dauði[breyta | breyta frumkóða]

Friður ríkti innanlands í Englandi síðustu tólf ríkisstjórnarár Játvarðar en heilsu hans fór hrakandi og um páskana árið 1483 veiktist hann svo illa að ljóst var að hann væri dauðvona. Af tíu börnum þeirra Elizabeth voru sjö á lífi, þar af tveir synir, Játvarður, sem var tólf ára, og Ríkharður hertogi af York, sem var tæplega tíu ára. Játvarður útnefndi Ríkharð hertoga af Gloucester, yngsta bróður sinn, sem tilsjónarmann með hinum verðandi konungi og dó síðan. Ríkharður hertogi var fljótur að senda bróðursyni sína í Lundúnaturn, fá þá lýsta óskilgetna og sjálfan sig konung, en til prinsanna ungu hefur ekki spurst síðan.

Dætur Játvarðar og Elísabetar sem upp komust voru Elísabet af York, sem giftist Hinrik 7. og varð Englandsdrottning; Cecily, sem á barnsaldri var trúlofuð Jakobi 4. Skotakonungi og síðar Alexander hertoga af Albany, föðurbróður hans; Anne, sem giftist Thomas Howard, hertoga af Norfolk og föðurbróður Önnu Boleyn; Catherine, sem á barnsaldri var trúlofuð Jóhanni af Aragóníu, einkasyni Ferdinands og Ísabellu, og Bridget, sem varð nunna. Játvarður átti einnig nokkur óskilgetin börn með hjákonum sínum.


Fyrirrennari:
Hinrik 6.
Konungur Englands
Lávarður Írlands
(1461 – 1470)
Eftirmaður:
Hinrik 6.
Fyrirrennari:
Hinrik 6.
Konungur Englands
Lávarður Írlands
(1471 – 1483)
Eftirmaður:
Játvarður 5.