Haraldur hein
Haraldur hein eða Haraldur 3. (um 1041 – 1080) var konungur Danmerkur frá því að faðir hans, Sveinn Ástríðarson, lést 1076 og til dauðadags. Móðir hans er óþekkt en hann var einn af mörgum frillusonum Sveins.
Haraldur tók þátt í síðustu víkingaferðinni til Englands árið 1069, þar sem danskir víkingar reyndu að notfæra sér óánægju Englendinga með Vilhjálm bastarð og menn hans, sem höfðu þá lagt England undir sig, en varð ekki ágengt. Þegar Sveinn Ástríðarson dó gerðu tveir sona hans, Haraldur og Knútur, tilkall til krúnunnar og er sagt að Haraldur hafi verið valinn því hann var talinn friðsamari þeirra tveggja en Knútur vildi reyna að ná Englandi á ný undir Danakonung.
Stjórnartíð Haraldar var friðsamleg að frátöldum skærum við bræður hans, Knút og Eirík góða. Haraldur átti góð samskipti við kirkjuna eins og faðir hans og til eru nokkur bréf þar sem páfinn styður málstað Haraldar gegn bræðrum hans. Hann dró líka taum bænda gegn höfðingjum í ýmsum málum og gerði skóga krúnunnar að almenningum. Viðurnefni hans, hein, þýðir brýni og hefur ýmist verið túlkað þannig að hann hafi ekki þótt nógu harður af sér eða á jákvæðan hátt, þar sem brýni er nauðsynlegt verkfæri til að skerpa hnífa og sverð.
Haraldur lét engin börn eftir sig en kona hans var Margrét Ásbjörnsdóttir. Hann var grafinn við Dalby-kirkju á Skáni.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Harald Hen“ á dönsku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. mars 2010.
Fyrirrennari: Sveinn Ástríðarson |
|
Eftirmaður: Knútur helgi |