Fara í innihald

Gormur gamli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gormur gamli av August Carl Vilhelm Thomsen

Gormur gamli (látinn 958/964[1]) var höfðingi á Jótlandi sem varð konungur Dana og hafði sem slíkur aðsetur í Jalangri (danska Jelling). Samkvæmt íslenskum fornsögum var hann barnabarn, eða barnabarnabarn, Sigurðar orms-í-auga sonar Ragnars loðbrókar. Faðir hans er talinn hafa heitið Hörðaknútur og verið Dani eða afkomandi danskra innflytjenda frá Normandí á 10. öld sem gerði kröfu til titils konungs að minnsta kosti hluta Jótlands. Jafnvel er talið að Gormur hafi komið til Danmerkur frá Englandi. Hann var giftur Þyri danabót sem sögð er hafa staðið fyrir gerð Danavirkis á landamærunum við Holtsetaland.

Með Gormi byrjar röð danskra konunga formlega og í gegnum hann röktu Danakonungar ætt sína til Ragnars loðbrókar. Vitað er um eldri konunga, sem í það minnsta sumir réðu yfir því sem í dag er Danmörk og hluta Svíþjóðar, en miklar eyður eru í heimildum frá þeim tíma og það er fyrst með Gormi og syni hans Haraldi sem nokkuð er vitað fyrir víst í þeim efnum.

Bein Gorms eru talin hafa fundist undir gólfi fyrstu kristnu kirkjunnar sem var reist á Jalangri nálægt tveimur grafhaugum sem venja er að kalla Gormshaug og Þóruhaug. Meðan Gormur var við völd er sagt að Danir hafi verið heiðnir, en sonur hans, Haraldur blátönn, hafi kristnað þá eins og segir á rúnaristum frá hans tíma. Adam frá Brimum segir að Unni erkibiskup frá Englandi hafi reynt að predika í Danmörku og Gormur hafi bannað honum það en sonur hans orðið fyrir áhrifum frá trúboðinu. Jafnvel er talið að Haraldur hafi sjálfur flutt bein foreldra sinna úr upprunalegum gröfum þeirra í kirkjuna, hugsanlega til að bjarga sálum þeirra. Haraldur lét reisa stóran rúnastein með Kristsmynd, Jalangurssteininn, til minningar um foreldra sína.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sven Rosborn/Pilemedia: "Föreläsningar från min fåtölj 4. Romantiserade vikingar.", 30. júní 2020 (YouTube-vídeó)


Fyrirrennari:
Sigtryggur
Danakonungur
(óvíst – 958/964)
Eftirmaður:
Haraldur blátönn