Fara í innihald

Játvarður 6.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Túdor-ætt Konungur Englands og Írlands
Túdor-ætt
Játvarður 6.
Játvarður 6.
Ríkisár 28. janúar 15476. júlí 1553
SkírnarnafnEdward Tudor
Fæddur12. október 1537
 Hampton-höll, Middlesex, Englandi
Dáinn6. júlí 1553 (15 ára)
 Greenwich-höll, Englandi
GröfWestminster Abbey
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Hinrik 8.
Móðir Jane Seymour

Játvarður 6. (12. október 1537 – 6. júlí 1553) var konungur Englands og Írlands frá 1547 til dauðadags. Hann var krýndur þann 20. febrúar 1547 þegar hann var níu ára og varð þar með einn yngsti einvaldur Englands.[1] Játvarður var sonur Hinriks 8. og Jane Seymour og varð þriðji enski einvaldurinn af Tudor-ætt.

Á valdatíð Játvarðar fór ráð ríkisstjóra með öll völd þar sem Játvarður náði aldrei lögaldri. Fyrir ráðinu fór móðurbróðir Játvarðar, Edward Seymour hertogi af Somerset, og síðan John Dudley, greifi af Warwick og síðar hertogi af Norðymbralandi.

Valdatíð Játvarðar einkenndist einnig af lélegum efnahagi og samfélagsóeirðum sem leiddu til uppreisnar árið 1549. Árið 1546 barðist England í stríði gegn Skotlandi til þess að neyða Skota til að fallast á giftingu Játvarðar og Maríu Skotadrottningar. Englendingar unnu sigur í orrustunni við Pinkie Cleugh en neyddust til að hörfa aftur til Englands þegar Frakkar réðust á bæinn Boulogne-sur-Mer á meginlandinu. Á valdatíð Játvarðar breyttist enska biskupakirkjan jafnframt og varð að skipulegri kirkjustofnun. Játvarður hafði mikinn áhuga á guðfræðilegum málefnum á meðan hann sat á konungsstól. Þótt Hinrik 8. hefði rofið tengsl ensku biskupakirkjunnar við páfann í Róm hafði hann aldrei afneitað kaþólskum sið og hefðum hans alveg. Það var í konungstíð Játvarðar sem róttækum siðbreytingum var komið á í ensku biskupakirkjunni; þ.á.m. afnám á skírlífi presta, notkun enskrar tungu í kirkjumálum og brotthvarf helgilíkneskja úr kirkjum. Skipuleggjandi þessara umbóta var Thomas Cranmer, erkibiskup af Kantaraborg.

Játvarður veiktist í janúar árið 1553 og þegar hirð hans gerði sér grein fyrir því að hann ætti skammt eftir ólifað skrifuðu ríkisstjórarnir upp erfðaskrá til þess að koma í veg fyrir að kaþólskur konungur kæmist aftur til valda eftir dauða hans. Játvarður útnefndi frænku sína, Lafði Jane Grey, arftaka sinn, og fór framhjá hálfsystrum sínum, Maríu (dóttur Katrínar af Aragóníu) og Elísabetu (dóttur Önnu Boleyn). Erfðaskrá Játvarðar var véfengd strax eftir dauða hans og Jane Grey varð ekki drottning nema í níu daga þar til María var krýnd drottning í hennar stað. María sneri við ýmsum kirkjuumbótum sem hafði verið komið á í valdatíð Játvarðar, en í síðari valdatíð Elísabetar var þó séð til þess að England varð aldrei aftur kaþólskt.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. J. J. Scarisbrick, Henry VIII, London, Penguin, 1971, bls. 548–549.


Fyrirrennari:
Hinrik 8.
Konungur Englands og Írlands
(28. janúar 15476. júlí 1553)
Eftirmaður:
Jane Grey