Kristófer af Bæjaralandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Kalmarsambandið Konungur Danmerkur,
Noregs og Svíþjóðar
Kalmarsambandið
Kristófer af Bæjaralandi
Kristófer af Bæjaralandi
Ríkisár Danmörk: 1440-1448
Svíþjóð: 1441-1448
Noregur: 1442-1448
SkírnarnafnChristoph von Neumarkt
Kjörorðekkert
Fæddur26. febrúar 1416
 ?
Dáinn6. janúar 1448
 Helsingjaborg
GröfHróarskeldudómkirkja
Konungsfjölskyldan
Faðir Jóhann af Pfalz-Neumarkt
Móðir Katarina Vratislava
DrottningDóróthea af Brandenborg
Börnengin

Kristófer af Bæjaralandi (26. febrúar 14166. janúar 1448) var kjörinn konungur Kalmarsambandsins eftir að Eiríkur af Pommern var settur af 1440 og samþykktur af þingum Svíþjóðar 1441 og Noregs 1442. Hann var sonur Jóhanns af Pfalz-Neumarkt og Katrínar, systur Eiríks. Hann var valinn sem ríkisstjóri af danska aðlinum 1439 og gerður að konungi árið eftir. Aðallinn í ríkisráðinu vildi konung sem væri þeim leiðitamur.

Þegar Kristófer tók við völdum virtist framtíðin ekki björt fyrir Kalmarsambandið, því bæði Noregur og Svíþjóð höfðu sagt sig úr því og árið 1441 gerðu jóskir bændur uppreisn. Bændahernum varð vel ágengt í fyrstu en síðar tókst Kristófer að vinna sigur á þeim og foringjar bændanna voru líflátnir. Kristófers hefur einna helst verið minnst fyrir hörkuna sem hann beitti bændurna eftir að hann barði uppreisnina niður. Seinna sama ár tókst Hans Laxmand erkibiskupi að komast að samkomulagi við Svía um að Kristófer yrði tekinn til konungs í Svíþjóð en Karl Knútsson Bonde fékk þó Gotland og Eyland að léni. Kristófer var hylltur sem konungur Svíþjóðar 13. nóvember. Árið eftir tókst Hans Laxmand einnig að semja um að Kristófer skyldi erfa norsku krúnuna. Hann var krýndur konungur Danmerkur 1. janúar 1443.

Kristófer veitti Kaupmannahöfn kaupstaðarréttindi 1443 og staðfesti hana sem höfuðborg. Um leið var verslun við útlendinga bönnuð í ríkjum Danakonungs og Eyrarsundstollurinn settur á að nýju. Þetta líkaði Hansasambandinu vitaskuld illa og hótuðu Hansaborgirnar að ganga í bandalag við Eirík af Pommern gegn Kristófer. Kristófer neyddist því til að veita Hansakaupmönnum að nýju réttindi til að versla milliliðalaust í ríkjum sínum.

Líklega var það líka vegna þrýstings frá Hansasambandinu sem Kristófer giftist í september 1445 Dórótheu af Brandenburg, dóttur Jóhanns markgreifa þar. Þau eignuðust engin börn og þegar Kristófer lést þremur árum síðar lauk setu afkomenda Valdimars atterdags á konungsstóli. Dóróthea drottning var aðeins 17-18 ára þegar hún varð ekkja. Hún giftist Kristjáni 1. 1449 og varð ættmóðir Aldinborgarættar.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Eiríkur af Pommern
Konungur Danmerkur
(1440 – 1448)
Eftirmaður:
Kristján I
Fyrirrennari:
Eiríkur af Pommern
Konungur Noregs
(1442 – 1448)
Eftirmaður:
Karl Knútsson Bonde
Fyrirrennari:
Eiríkur af Pommern
Konungur Svíþjóðar
(1441 – 1448)
Eftirmaður:
Karl Knútsson Bonde