Fara í innihald

Filippus 2. Spánarkonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Habsborgarar Konungur Spánar
Habsborgarar
Filippus 2. Spánarkonungur
Filippus 2.
Ríkisár 16. janúar 155613. september 1598
SkírnarnafnFelipe de España
Fæddur21. maí 1527
 Palacio de Pimentel, Valladolid, Spáni
Dáinn13. september 1598 (71 árs)
 El Escorial, San Lorenzo de El Escorial, Spáni
GröfEl Escorial, San Lorenzo de El Escorial, Spáni
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Karl 5. keisari
Móðir Ísabella af Portúgal
DrottningMaría Manúela af Portúgal (g. 1543; d. 1545)
María 1. Englandsdrottning (g. 1554; d. 1558)
Elísabet af Valois (g. 1559; d. 1568)
Anna af Austurríki (g. 1570; d. 1580)
BörnKarl, Ísabella, Katrín, Ferdinand, Diego, Filippus

Filippus 2. Spánarkonungur (21. maí 152713. september 1598) var fyrsti formlegi konungur Spánar frá 1556 til 1598, konungur Napólí og Sikileyjar frá 1554 til 1558, konungur Portúgals (sem Filippus 1.) frá 1580 til 1598 og konungur Englands og Írlands (með Maríu konu sinni) frá 1553 til 1558. Hann réði einnig yfir Niðurlöndum frá 1556-1581.

Ætt og hjónabönd

[breyta | breyta frumkóða]

Filippus var eini sonur Karls 5. og Ísabellu af Portúgal sem komst til fullorðinsára. Sautján ára að aldri giftist hann jafnöldru sinni, Maríu Manúelu af Portúgal, en þau voru systkinabörn í báðar ættir. Hún ól son, Karl prins af Astúríu, árið 1545 en dó fáeinum dögum síðar.

Faðir Filippusar samdi um giftingu sonar síns og Maríu 1. Englandsdrottningar, sem var áratug eldri, árið 1554 og jafnframt að Filippus fengi konungstitil og héldi honum meðan María lifði. Hann er þó yfirleitt ekki talinn með í ensku kóngaröðinni. Á meðan Filippus var Englandskonungur tók hann við konungdómi á Spáni þegar faðir hans sagði af sér 16. janúar 1556. Filippus og María voru barnlaus og þegar María lést árið 1558 íhugaði hann um tíma að giftast yngri hálfsystur hennar Elísabetu til að halda völdum í Englandi. Af því varð þó ekki.

Friðarsamningur sem Spánverjar gerðu við Frakka árið 1559 batt endi á sextíu ára stríð þjóðanna. Hluti samkomulagsins var að Filippus giftist Elísabetu af Valois, dóttur Hinriks 2. Frakkakonungs. Hún hafði raunar verið trúlofuð Karli syni Filippusar en hann gekk ekki heill til skógar og varð úr að hún giftist konunginum sjálfum. Elísabet var aðeins 14 ára en Filippus 32 ára. Hjónaband þeirra virðist þó hafa verið farsælt. Elísabet ól tvær dætur sem lifðu en dó af barnsförum 1568 eftir að hafa fætt andvana son. Móðir hennar, Katrín af Medici, bauð Filippusi yngri systur hennar, Margréti, fyrir eiginkonu en hann afþakkaði.

Filippus þurfti hins vegar að eignast erfingja því Karl sonur hans lést sama ár og Elísabet. Árið 1570 giftist hann því í fjórða sinn, rúmlega tvítugri systurdóttur sinni, Önnu af Austurríki, og eignaðist með henni fjóra syni og eina dóttur, en aðeins einn sonur komst upp og var það Filippus 3.

Þegar Hinrik Portúgalskonungur lést 1580, aldraður og barnlaus, gerðu börn þriggja systkina hans tilkall til krúnunnar, þau Filippus, Katrín hertogaynja af Braganza og Anton príor af Crato, sem var kominn í beinan karllegg af Manúel 1. en var óskilgetinn. Anton lýsti sig konung en tæpum mánuði síðar hrakti Filippus hann úr landi og var síðan krýndur Filippus 1. af Portúgal 1581. Ríkjasamband Spánar og Portúgals hélst til 1640 þegar sonarsonur Katrínar, Jóhann 4., fékk erfðatilkall sitt viðurkennt og varð konungur Portúgals.

Stjórnartíð Filippusar

[breyta | breyta frumkóða]

Á valdatíma sínum þurfti Filippus að takast á við óðaverðbólgu heima fyrir (sem að hluta stafaði af innflutningi góðmálma frá Suður-Ameríku), sjórán Breta í Vestur-Indíum og við sjálfar strendur Spánar og aukinn þrýsting frá márum í Norður-Afríku. Hann átti í baráttu við Ottómanaveldið um yfirráð á Miðjarðarhafi og í sjóorrustunni við Lepanto árið 1571 vann hann í bandalagi við Genúumenn, Feneyinga, Mölturiddara og fleiri sigur á flota Ottómana og nær gjöreyddi honum. Þessi bardagi markaði þáttaskil í átökunum um yfirráð á Miðjarðarhafi og árið 1585 var gerður friðarsamningur við Ottómana.

Niðurlendingar, sem margir voru mótmælendur, voru ekki sáttir við yfirráð hins strangkaþólska Filippusar og kom oft til átaka þar. Árið 1581 gerði norðurhluti Niðurlanda uppreisn gegn honum og lýsti því yfir að hann hefði ekki lengur yfirráð þar. Niðurlönd voru að verða efnahagslegt stórveldi og stóðu því betur að vígi en Filippus, sem þurfti að takast á við efnahagserfiðleika og verðbólgu og varð gjaldþrota hvað eftir annað.

Filippus og Elísabet 1. Englandsdrottning, fyrrum mágkona hans, héldu frið sín á milli lengi framan af og það var ekki fyrr en enskir sjóræningjar fóru að ráðast á spænsk skip með blessun yfirvalda og Elísabet drottning að veita uppreisnarmönnum á Niðurlöndum beinan stuðning sem styrjöld hófst milli ríkjanna. Eftir að María Skotadrottning var tekin af lífi 1587 og Filippusi þótti útséð að kaþólskur þjóðhöfðingi kæmist til valda í Englandi fór hann að hugleiða innrás í landið. 1588 sendi hann Flotann ósigrandi gegn Englendingum en tapaði. Fleiri flotar voru sendir síðar og það var ekki fyrr en árið 1604, þegar Filippus og Elísabet voru bæði dáin, sem loks var saminn friður.

Ófriður milli Frakka og Spánverja hófst aftur árið 1590 og studdi Filippus Kaþólska bandalagið gegn mótmælendum undir forystu Hinriks 4. En spænski herinn hafði í mörg horn að líta og í friðarsamningunum í Vervins 1598 samþykktu Spánverjar að hverfa með allt sitt herlið frá Frakklandi. Sama ár lést Filippus.

Þrátt fyrir verðbólgu, efnahagserfiðleika og nær stöðugar styrjaldir og erjur reis veldi Spánverja aldrei hærra en á valdatíma Filippusar. Hann var strangtrúaður og efldi spænska rannsóknarréttinn mjög. Þó var valdaskeið hans blómaskeið í menningu og listum á Spáni og var upphaf hinnar svonefndu Gullaldar Spánar.

Á valdatíma hans voru Filippseyjar lagðar undir Spán og nefndar í höfuðið á honum.


Fyrirrennari:
Karl 5.
Konungur Spánar
(1556 – 1598)
Eftirmaður:
Filippus 3.
Fyrirrennari:
Anton 1.
Konungur Portúgals
(1580 – 1598)
Eftirmaður:
Filippus 3.