Fara í innihald

Velska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Velska karlalandsliðið í knattspyrnu
GælunafnDrekarnir eða Dreigiau (velska)
ÁlfusambandUEFA
ÞjálfariFáni Wales Craig Bellamy
FyrirliðiAaron Ramsey
LeikvangurCardiff City Stadium
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
29 (19. september 2024)
8 (2015)
117 (2011)
Besti árangurUndanúrslit (EM 2016)

Velska karlalandsliðið í knattspyrnu (velska: Tîm pêl-droed cenedlaethol Cymru) er fulltrúi Wales í alþjóðlegum knattspyrnukeppnum. Knattspyrnusamband Wales ( Football Association of Wales (FAW) ) var stofnað 1876 og er þriðja elsta knattspyrnusamband heims.

Besti árangur Wales í alþjóðakeppnum eru undanúrslit á EM 2016 þegar það komst fyrst á evrópukeppnina. Þar tapaði liðið fyrir verðandi meisturum Portúgal. Wales hefur komist tvisvar á HM, fyrst 1958 þar sem liðið tapaði gegn verðandi meisturum Brasilíu í fjórðungsúrslitum, og núna síðast árið 2022.

Fyrsti opinberi landsleikurinn í knattspyrnu var milli Englands og Skotlands árið 1872. Fjórum árum síðar birti G. A. Clay-Thomas, Walesverji sem búsettur var í Lundúnum auglýsingu í tveimur íþróttablöðum þar sem hann hvatti til þess að myndað yrði velskt landslið til að keppa í rúbbí við Skota eða Íra. Lögmaðurinn Llewelyn Kenrick, sem komið hafði að stofnun Druids F.C. í Wales svaraði kallinu en lagði þess í stað til að keppt yrði við Skota í knattspyrnu. Í febrúar 1876 skipulagði hann stofnun Knattspyrnusambands Wales til að greiða fyrir komandi viðureign.

Fyrstu kappleikir (1876-1884)

[breyta | breyta frumkóða]

Kröfurnar sem gerðar voru til leikmanna í þessu fyrsta landsliði var annað hvort að koma frá Wales eða að hafa búið þar í þrjú ár hið minnsta. Auglýst var eftir mögulegum þátttakendum í Lundúnarblöðunum. Frumraun landsliðsins fór fram þann 2. mars 1876 í Partick í Skotlandi. Lið Wales lék í hvítum treyjum og svörtum buxum, en hafði lítið að gera í klærnar á reynslumeiri andstæðingum sínum og tapaði 4:0.

Næstu tvö árin mættust þjóðirnar á nýjan leik og í bæði skiptin fóru Skotar með sigur af hólmi. Viðureignin 1878 fór sérdeilis illa þar sem hún rakst á við bikarleik Druids og Wrexham, sem gerði það að verkum að margir bestu leikmenn landsliðsins komu sér undan því að keppa og Skotar unnu 9:0, sem enn í dag er versti skellur Walesverja í landsleik.

Fyrsti kappleikur Wales og Englands fór fram á Kennington Oval árið 1879. Völlurinn var snævi þakinn og því ákveðið að stytta leiktímann niður í 60 mínútur. Sárafáir áhorfendur urðu vitni að fyrsta landsliðsmarki Wales þar sem William Davies skoraði í 2:1 tapi. Árið eftir leit fyrsti sigurinn dagsins ljós, 1:0 gegn Englendingum í leik sem fram fór í Blackburn.

Bretlandsmeistarakeppnin hefst (1884-1900)

[breyta | breyta frumkóða]
Billy Meredith lék 48 landsleiki á árunum 1895 til 1920.

Eftir nokkur ár af tilviljanakenndum vináttuleikjum milli Englands, Skotlands, Wales og Írlands var ákveðið árið 1884 að koma á skipulagðri keppni bresku landanna fjögurra. Keppnin var haldin árlega, en fyrstu ellefu skiptin höfnuðu Skotar og Englendingar í tveimur efstu sætunum, en Wales og Írland bitust um þriðja sætið og náðu sjaldnast að hirða stig af sterkari þjóðunum tveimur.

Árið 1888 unnu Walesverjar sinn stærsta sigur fyrr og síðar þegar þeir unnu írska liðið 11:0 í Wrexham. Yfirburðirnir í leiknum voru slíkir að hermt er að þrjír úr liði heimamanna hafi yfirgefið völlinn skömmu fyrir leikslok til þess að vera vissir um að ná lestinni sinni heim. Næsta keppnisár náði liðið sínu fyrsta jafntefli leik gegn Skotum, þrátt fyrir að hafa byrjað leikinn fyrsta hálftímann með útileikmann í marki á meðan beðið var eftir varamarkverði.

Árið 1895 náði Wales öðru sæti í Bretlandsmeistarakeppninni, í fyrsta sinn, eftir að hafa gert jafntefli í öllum þremur leikjum sínum. Þar kom m.a. við sögu nýliðinn Billy Meredith sem var ein af fyrstu stórstjörnum knattspyrnunnar og gerði garðinn frægan hjá bæði Manchester City og Manchester United. Ekki tókst að endurtaka þetta afrek næstu árin og kenndu Walesverjar því um að erfitt væri fyrir leikmenn að fá sig lausa frá enskum félagsliðum sínum fyrir landsliðsverkefni. Tillögur Knattspyrnusambands Wales um að skylda félög til að hleypa leikmönnum í landsleiki hlutu hins vegar lítinn hljómgrunn.

Tvennir titlar (1900-1920)

[breyta | breyta frumkóða]

Leiktíðina 1902-03 mátti Wales sætta sig við þá furðulegu stöðu að enda neðst í Bretlandsmeistarakeppninni á meðan hin þrjú liðin deildu sigrinum, öll með tvo sigurleiki þar sem markatala var ekki látin ráða úrslitum. Þetta taldist jafnframt fyrsti sigur Írlands í keppninni og þar með var Wales eina þátttökuþjóðin sem aldrei hafði orðið meistari. Úr þessu var bætt veturinn 1906-07 þegar Wales vann tvo leiki og gerði eitt jafntefli sem dugði til sigurs í Bretlandsmeistarakeppninni í fyrsta sinn. Englendingar hefðu getað jafnað Wales að stigum í lokaleik mótsins en náðu aðeins jafntefli gegn Skotum.

Ekki tókst að fylgja eftir þessum fyrsta sigri og næstu árin tapaði landsliðið oft illa og stundum með skrautlegum hætti, þannig þótti lítil reisn yfir því þegar Wales tapaði 1:0 fyrir Skotum árið 1910 þegar markvörðurinn fékk á sig mark úr langskoti á meðan hann átti í samræðum við áhorfanda og sneri baki við leiknum. Sami markvörður lék í jafnteflisleik gegn Skotum árið eftir þrátt fyrir að hafa handleggsbrotnað í leik með félagsliði sínu nokkru fyrr.

Bretlandsmeistarakeppnin var felld niður á árum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Keppni hófst að nýju veturinn 1919-20. Wales fór rólega af stað og náði með herjum 2:2 jafntefli í Írlandi. Í kjölfarið fylgdu hins vegar sigurleikir gegn Skotum og Englendingum og var það fyrsti sigurinn á enskum frá 1882. Wales varð meistari í annað sinn, en mesta athygli vakti þó frammistaða Meredith sem var orðinn 45 ára gamall.

Þriggja hesta hlaup (1920-1945)

[breyta | breyta frumkóða]

Bretlandsmeistarakeppnin 1919-20 var sú fyrsta af tuttugu sem fram fóru á árunum milli heimsstyrjalda. Á þessu tímabili urðu Walesverjar sjö sinnum meistarar, Englendingar jafnoft, Skotar ellefu sinnum en Írar aldrei (en í nokkur skipti voru tvö eða þrú lið krýnd meistarar). Þrátt fyrir gott gengi landsliðsins, stóð það að mörgu leyti í skugga velsku félagsliðanna sem fengu mun fleiri áhorfendur á leiki sína. Eins voru mikil brögð að því að leikmenn gæfu ekki kost á sér í landsliðið.

Árið 1929 hélt landslið Wales í mikla keppnisferð til Kanada þar sem leiknir voru fimmtán leikir gegn héraðsliðum, sem allir unnust. Viðureignirnar í Kanada töldust ekki formlegir landsleikir og lék Wales sinn fyrsta landsleik gegn liði utan Bretlandseyja ekki fyrr en vorið 1933, þar sem liðið gerði 1:1 jafntefli gegn Frökkum í París.

Árin 1934 og 1935 unnu Walesverjar í fyrsta og eina sinn Bretlandsmeistarakeppnina tvö ár í röð. Seinni titillinn vannst með dramatískum sigri á Englendingum á St James' Park. Áttundi og síðasti meistaratitill Walesverja fyrir stríð vannst svo leiktíðina 1938-39 þegar Wales, England og Skotland deildu gullverðlaununum. Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar féll allt kerfisbundið keppnishald niður en nokkrir vináttuleikir fóru fram, einkum í fjáröflunarskyni.

Á alþjóðasviðinu (1945-1957)

[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar gengu knattspyrnusamböndin á Bretlandseyjum til liðs við FIFA á nýjan leik, en deilur um þátttöku atvinnumanna á Ólympíuleikum höfðu leitt til úrsagnar þeirra á árunum milli stríða. Árið 1949 hélt landsliðið í keppnisferð til meginlandsins þar sem leikið var við Sviss, Belgíu og Portúgal. Allar viðureignirnar töpuðust, sem gaf vísbendingar um að staða velska liðsins í alþjóðlegum samanburði væri mun veikari en vonast hafði verið til.

Bresku liðin skráðu sig til leiks í forkeppni HM 1950 og var ákveðið að láta Bretlandsmeistarakeppnina þjóna hlutverki forkeppni. Wales hafnaði í þriðja sæti og komst því ekki í til Brasilíu. Sama keppnisfyrirkomulag var viðhaft fyrir HM fjórum árum síðar og þá endaði Wales í botnsætinu. Úrslit í keppnisferð til Evrópu þar sem liðið takaði 6:1 fyrir Frökkum og 5:2 gegn Júgóslövum gáfu heldur ekki til kynna að Walesverjar hefðu mikið erindi á stórmót.

HM-ævintýrið í Svíþjóð (1958)

[breyta | breyta frumkóða]
Viðureign Ísraela og Walesverja í umspilinu fyrir HM 1958.

Óhætt er að segja að Wales hafi farið fjallabaksleiðina á HM 1958. Horfið var frá svæðaskiptri forkeppni og dróst Wales í riðil með Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskalandi. Tékkar fóru með sigur af hólmi en Wales hafnaði í öðru sæti og HM-draumurinn virtist úti. Atburðir í öðrum heimshluta áttu þó eftir að breyta því.

Í forkeppni Asíu- og Afríkulanda höfðu allir mótherjar Ísraels gefið viðureignir sínar, yfirleitt af pólitískum ástæðum. FIFA úrskurðaði að ekki gengi að þjóð kæmist með þessum hætti í úrslitakeppnina án þess að sparka í bolta. Því var ákveðið að efna til umspils þar sem Ísrael mætti einhverju þeirra liða sem næst hefðu komist því að fara áfram. Ákvörðunin var tekin með miklum hraði og voru sumir evrópsku forriðlarnir ekki búnir og komu þau lið því ekki til álita. Úrúgvæ lýsti því yfir að lið þeirra hefði ekki áhuga á að komast á HM með þessum hætti og sama gerðu Belgar eftir að þeir voru dregnir í umspilið. Þá þurfti að draga á ný og kom nafn Wales upp úr pottinum. Wales hafði betur gegn Ísrael í báðum leikjum, 2:0 og tryggði sér þannig farmiðann til Svíþjóðar.

Wales dróst í riðil með heimamönnum Svía, Mexíkó og vængbrotnu ungversku liði eftir byltinguna þar í landi tveimur árum fyrr. Liðið gerði fyrst 1:1 jafntefli við Ungverja, sömu úrslit urðu gegn Mexíkó þar sem norður-ameríska liðið jafnaði í blálokin. Í lokaleiknum gerðu Wales og Svíþjóð markalaus jafntefli, sem leiddi til þess að Wales og Ungverjaland voru jöfn að stigum og þurftu að mætast í úrslitaleik tveimur dögum síðar, þar sem Wales hafði betur, 2:1. Vegna aukaleiksins þurfti Wales að leika þrjá leiki á fimm dögum, sem kann að hafa haft áhrif á frammistöðuna í fjórðungsúrslitaleiknum gegn Brasilíu. Eitt mark frá Pelé skildi liðin af, en Walesverjar gátu borið höfuðið hátt eftir sína fyrstu úrslitakeppni - og þá síðustu um langt árabil.

Fallandi gengi og hneykslið á Ninian Park (1959-1980)

[breyta | breyta frumkóða]

Wales tókst ekki að byggja á velgengninni á HM í Svíþjóð og næstu árin var liðið hvorki nærri því að komast í úrslit HM né EM. Í forkeppni HM 1974 varð liðið þó örlagavaldur þegar mark frá John Toshack gaf liðinu stig gegn erkifjendunum Englendingum, sem misstu sætið í úrslitakeppninni til Pólverja.

Það vantaði ekki dramatíkina hjá liði Wales í EM 1976. Wales tapaði fyrsta leiknum í riðlakeppninni gegn Austurríkismönnum en vann svo þá fimm leiki sem eftir voru. Þar með voru Valesverjar komnir í fjórðungsúrslit keppninnar, en einungis fjögur lið léku í úrslitakeppninni.

Mótherjarnir í fjórðungsúrslitum voru Júgóslavar og vakti einvígið mikla eftirvæntingu í Wales, ekki hvað síst eftir að liðið vann Englendinga í vináttuleik nokkrum vikum fyrir fyrri leikinn. Júgóslavar náðu yfirhöndinni í einvíginu með 2:0 sigri ytra. Engu að síður voru Valesverjar fullir bjartsýni og íhugaði knattspyrnusambandið alvarlega að flytja leikinn á Wembley til að fullnægja eftirspurn eftir miðum, að lokum var þó ákveðið að keppa á Ninian Park.

Taugarnar voru þandar fyrir viðureignina og bætti ekki úr skák að Rudi Glöckner, austur-þýskur dómari leiksins snöggreiddist þegar hann uppgötvaði að fáni Austur-Þýskalands var ekki við hún á vellinum og neitaði að byrja fyrr en úr því var bætt. Þetta skapaði gremju í garð dómarans sem jókst enn þegar hann gaf júgóslavneska liðinu umdeilda vítaspyrnu en dæmdi tvö mörk af heimamönnum. Áhorfendur tóku að grýta smámynt og bjórdósum í átt að dómaranum sem hótaði að flauta leikinn af. Að lokum tókst að ljúka leiknum, sem endaði 1:1, en þá fyrst varð fjandinn laus. Áhorfandi reyndi að ráðast á dómarann með hornfána, en barði í misgripum lögreglumann. Fyrstu viðbrögð UEFA voru að dæma Velsverja í tveggja ára bann frá alþjóðaknattspyrnu, en því var síðar breytt í sekt og heimaleikjabann.

England við stjórnvölinn (1980-1988)

[breyta | breyta frumkóða]

Mike England, fyrrum landsliðsfyrirliða, var falin stjórn velska landsliðsins árið 1980 þrátt fyrir að hafa enga þjálfarareynslu. Hann hitti leikmannahópinn í fyrsta sinn aðeins þremur dögum fyrir fyrsta leik og það gegn sjálfum Englendingum. Útkoman kom gleðilega á óvart - 4:1 sigur. Þetta gaf góðar vonir fyrir forkeppni HM 1982, sem byrjaði með ágætum á tveimur 4:0 sigrum, gegn Tyrkjum og Íslendingum í Reykjavík. Í kjölfarið fylgdu tveir sigrar, gegn Tékkóslóvakíu og Tyrklandi, auk jafnteflis við Sovétríkin. Annað sætið virtist innan seilingar og þar með sæti í úrslitakeppninni á Spáni. Wales náði hins vegar ekki nema einu stigi úr lokaleikjunum þremur, með óvæntu 2:2 jafntefli gegn Íslandi og enduðu jafnir Tékkum en með lakara markahlutfall. Íslenska liðið hafði mætt sérstaklega einbeitt til leiks, þar sem það áleit að leikmenn Wales hefðu gert lítið úr þeim með því að láta mynda sig með apagrímur.

Forkeppni Evrópumótsins 1984 þróaðist með svipuðum hætti. Wales náði prýðilegum úrslitum í fyrstu leikjum, þar á meðal 4:4 jafntefli í mögnuðum leik á útivelli gegn Júgóslövum, aðalkeppinautum sínum um toppsætið sem var það eina sem gaf keppnisrétt í úrslitum. Wales virtist ætla að ná takmarki sínu með sigri í lokaleik sínum, heima gegn Júgóslövum, en gestirnir jöfnuðu þegar skammt var til leiksloka. Enn var þó ekki öll von úti fyrir Walesverja sem hefðu komist áfram ef Júgóslavar og Búlgarir hefðu gert jafntefli í síðasta leik riðilsins. Allt stefndi í þau úrslit en á þriðju mínútu uppbótartíma tókst Júgóslövum að kreista út marki og enn sátu Walesverjar eftir með sárt ennið. Sama ár varð knattspyrnusambandið fyrir áfalli þegar ákveðið var að leggja niður Bresku meistarakeppnina, sem verið hafði ein helsta tekjulind sambandsins.

Íslendingar urðu aftur örlagavaldar Walesverja í forkeppni HM 1986 með því að vinna þá óvænt í Reykjavík í fyrsta leik. Þetta reyndust einu stig Íslendinga í riðlinum og gerðu það að verkum að Skotar náðu að tryggja sér annað sætið með jafntefli í Wales í lokaumferðinni. Stjörnum prýtt lið Wales sat eftir þrátt fyrir að hafa náð að vinna frægan 3:0 sigur á Spánverjum fyrr í keppninni.

Mike England fékk sitt fjórða og síðasta tækifæri til að koma landsliðinu á stórmót fyrir EM 1988. Þar mátti liðið sætta sig við þriðja sætið í jöfnum riðli þar sem Danir fóru með sigur af hólmi. Í kjölfarið ákvað knattspyrnusambandið að tími væri kominn á nýjan karl í brúnna. Mike England stýrði aldrei öðru knattspyrnuliði.

Terry Yorath (1988-1993)

[breyta | breyta frumkóða]
Terry Yorath og markahrókurinn Ian Rush.

Velska knattspyrnusambandið hafði hug á að fá Brian Clough til að taka við af England, en að lokum neitaði Nottingham Forest honum um að sinna landsliðsþjálfarstarfinu í hjáverkum. Gamla kempan Terry Yorath hafði tekið tímabundið við starfinu og ílengdist hann í embætti næstu fimm árin. Á þeim tíma þótti Wales ná bærilegum árangri miðað við þann mannskap sem þjálfarinn hafði úr að spila. Fyrir EM 1992 var liðið t.d. í baráttu um að komast áfram allt fram í síðasta leik eftir að hafa skellt Þjóðverjum á heimavelli með marki frá Mark Hughes, en Þjóðverjarnir reyndust of stór biti í seinni leiknum. Í aðdraganda þeirrar viðureignar höfðu Walesverjar m.a. leikið æfingaleik gegn Brasilíu og unnið.

Yorath fór nærri því að koma Wales á HM 1994. Sigur á heimavelli gegn Rúmenum hefði tryggt Wales farseðilinn til Bandaríkjanna ásamt Belgum. Gheorghe Hagi kom gestunum yfir en Dean Sounders jafnaði eftir klukkutíma leik, skömmu síðar misnotuðu heimamenn vítaspyrnu. Sigurmarkið kom hins vegar í hlut Rúmena sem nældu sér þar með í toppsætið í hnífjöfnum riðli. Úrslitin voru reiðarslag fyrir alla sem tengdust landsliðinu og lítil huggun fólgin í því að Wales kæmist í 27. sæti heimslistans, þeirra hæsta staða fram að því.

Nokkur mögur ár og rússneskt hneykslismál (1994-2004)

[breyta | breyta frumkóða]

Óljóst er hvort það var óánægja með úrslitin eða ósætti vegna launamála sem varð til þess að Terry Yorath hvar frá landsliðsþjálfarastarfinu en næstu ár einkenndust af örum mannabreytingum í þjálfarastólnum og hnignandi gegni. í forkeppni EM 1996 voru það einungis innbyrðisviðureignirnar gegn Albönum sem héldu Wales frá botninum. Það þótti sérlega vandræðalegt um þetta leyti þegar Wales mátti sætta sig við 2:1 tap í æfingarleik gegn enska félagsliðinu Leyton Orient, sem lék í fjórðu efstu deild á Englandi.

Sagan endurtók sig í forkeppnunum fyrir HM 1998 og 2002, sem og EM 2000. Í öll þessari skipta endaði Wales í næstneðsta sæti síns riðils, langt frá toppliðunum.

Mark Hughes tók við velska landsliðinu árið 1999, þótt hann væri enn spilandi leikmaður á Englandi og ætti eftir að vera næstu þrjú árin. Árangurinn var rýr framan af, sem fyrr sagði, en í forkeppni EM 2004 sprakk liðið óvænt út. Wales náði öðru sæti í forriðlinum á eftir Ítölum, sem Walesverjar skelltu þó á heimavelli 2:1 með sigurmarki frá Craig Bellamy. Árangurinn þýddi að Wales og Rússland mættust í umspilsleikjum um sæti í úrslitunum í Portúgal. Wales náði markalausu jafntefli í Moskvu, þar sem leikmaður rússneska liðsins féll á lyfjaprófi. Háværar kröfur komu fram um að UEFA myndi refsa rússneska liðinu, en þess í stað var látið gott heita að leikmaðurinn tæki ekki þátt í seinni leiknum í Wales. Þar unnu Rússar 0:1 og enn og aftur máttu Walesverjar sjá á eftir sæti á stórmóti og raunar þjálfaranum líka, því Hughes var ráðinn til Blackburn Rovers í kjölfarið.

Upp og niður (2005-2016)

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir 2004-forkeppnina tóku við nokkur tíðindalítil ár þar sem Wales var fjarri því að blanda sér í slaginn fyrir alvöru. Síðla árs 2010 var Gary Speed ráðinn landsliðsþjálfari. Hans fyrsta verk var að velja hinn tvítuga Aaron Ramsey sem yngsta fyrirliða Wales í sögunni. Í stjórnartíð Speed upplifði landsliðið sína lægstu stöðu á heimslista FIFA, númer 117 en tókst á skömmum tíma að verða hástökkvari ársins og fara upp í 45. sæti.

Chris Coleman tók við af Speed á árinu 2012. Árangurinn í forkeppni HM 2014 varð rýr en tveimur árum síðar gekk allt upp í forkeppni EM 2016. Belgar og Walesverjar höfðu nokkra yfirburði í sínum riðli og báðar þjóðir komust í úrslitakeppnina í Frakklandi. Wales var komið í sína aðra úrslitakeppni.

Afrekið í Frakklandi (2016)

[breyta | breyta frumkóða]

EM í Frakklandi var það stærsta í sögunni með 24 keppnisliðum. Lið Wales var raðað í neðsta styrkleikaflokk og mátti því búast við þungum riðli. Mótherjarnir voru Englendingar, Rússar og Slóvakar. Wales fór vel af stað og sigraði Slóvaka 2:1 í fyrsta leik. Þá tók við hörkuviðureign gegn Englendingum þar sem allt stefndi í jafntefli þar til Daniel Sturridge stal sigrinum fyrir enska liðið með sigurmarki í uppbótartíma. Leikmenn velska liðsins létu þetta þó ekki slá sig út af laginu og unnu 3:0 sigur á Rússum í lokaumferðinni og reyndust þau úrslit fleyta þeir í toppsæti riðilsins.

Það var Bretlandseyjaslagur í 16-liða úrslitum þar sem Wales og Norður-Írland mættust í París. Sjálfsmark þegar stundarfjórðungur var eftir skildi liðin tvö að og Wales var komið í fjórðungsúrslit. Þar mættu Walesverjar sterku belgísku liði sem talið hafði verið líklegt til afreka á mótinu. Belgarnir náðu forystunni en Wales svaraði með þremur mörkum og öllum að óvörum var liðið komið í undanúrslitin.

Mörk frá Ronaldo og Nani með nokkurra mínútna millibili í upphafi seinni hálfleiks skildu á milli Wales og Portúgal í fyrri undanúrslitaleiknum. Þar sem ekki var keppt sérstaklega um þriðja sætið var þátttöku Wales í keppninni lokið en langbesti árangurinn í sögu landsliðsins var staðreynd.

Aftur og nýbúnir (2016-2022)

[breyta | breyta frumkóða]

Fimm jafntefli í sex fyrstu leikjunum í forkeppni HM 2018 kom í veg fyrir að Wales kæmist á annað stórmótið í röð. Betur gekk í forkeppni EM 2020, sem þó var ekki haldið fyrr en á árinu 2021 vegna Covid-faraldursins. Líkt og fjórum árum fyrr var Wales skipað í lægsta styrkleikaflokk og dróst liðið með Ítölum, Svisslendingum og Tyrkjum.

Wales og Sviss gerðu jafntefli í fyrsta leik sínum í riðlinum. Sigur á Tyrkjum í næsta leik þýddi að Wales mátti heita öruggt um sæti í næstu umferð og kom þá ekki að sök þótt liðið tapaði fyrir Ítölum í lokaleiknum. Mótherjarnir í 16-liða úrslitum í Amsterdam voru Danir. Danska liðið reyndist ofjarl þess velska og sigraði 4:0.

Í forkeppni HM 2022 hafnaði Wales í öðru sæti á eftir Belgum. Fyrir vikið lenti liðið í umspilsleikjum gegn Austurríki og Úkraínu. Báðir leikir unnust með eins marks mun og Wales var því komið í úrslitakeppni HM í fyrsta sinn frá 1958.

HM í Katar (2022)

[breyta | breyta frumkóða]

Wales hóf keppni á HM 2022 í Katar með 1:1 jafntefli gegn Bandaríkjunum í fyrstu umferð B-riðils. Gareth Bale jafnaði úr vítaspyrnu og varð þar með fyrsti markaskorari Wales í úrslitakeppni í meira en sextíu ár.

Þekktir leikmenn

[breyta | breyta frumkóða]