Fara í innihald

Haítí

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá République d'Haïti)
Haítí
République d'Haïti
Repiblik d Ayiti
Fáni Haítí Skjaldarmerki Haítí
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
L'Union Fait La Force
(franska: Samstaða færir styrk)
Þjóðsöngur:
La Dessalinienne
Staðsetning Haítí
Höfuðborg Port-au-Prince
Opinbert tungumál franska, haítískt blendingsmál
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Edgard Leblanc Fils
Forsætisráðherra Garry Conille
Sjálfstæði (frá Frakklandi)
 • Yfirlýst 1. janúar, 1804 
 • Viðurkennt 1825 (Fr), 1863 (BNA
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
143. sæti
27.750 km²
0,7
Mannfjöldi
 • Samtals (2023)
 • Þéttleiki byggðar
83. sæti
11.470.261
413/km²
VLF (KMJ) áætl. 2017
 • Samtals 19,979 millj. dala (144. sæti)
 • Á mann 1.819 dalir (174. sæti)
VÞL (2018) 0.503 (169. sæti)
Gjaldmiðill gourde (HTG)
Tímabelti UTC-5
Þjóðarlén .ht
Landsnúmer +509

Haítí (franska: Haiti, haítískt kreólamál: Ayiti), formlega Lýðveldið Haítí (franska: République d'Haïti; haítískt kreólamál: Repiblik D Ayiti), er land á vestari helmingi eyjunnar Hispaníólu, sem er ein af Stóru Antillaeyjum í Karíbahafi, austan við Jamaíka og Kúbu og sunnan við Bahamaeyjar og Turks- og Caicoseyjar. Það nær yfir þrjá áttundu hluta eyjunnar og á landamæri að Dóminíska lýðveldinu í austri. Landið nær auk þess yfir eyjarnar La Gonâve, Tortúga, Les Cayemites og Ile a Vache. Suðvestan við Haítí er óbyggða smáeyjan Navassaeyja undir stjórn Bandaríkjanna sem landið gerir tilkall til. Haítí er 27.750 km² að stærð og íbúar eru taldir vera rúmar 11 milljónir sem gerir landið að fjölmennasta landinu innan CARICOM og því næstfjölmennasta í Karíbahafi, á eftir Kúbu.

Eyjan var byggð Taínóum sem fluttust þangað frá Suður-Ameríku. Evrópubúar komu fyrst til eyjarinnar 5. desember 1492, í fyrstu ferð Kólumbusar, sem hélt að hann væri kominn til Indlands eða Kína. Kólumbus stofnaði þar síðar fyrstu nýlenduna í Nýja heiminum, La Navidad, þar sem nú er norðausturströnd Haítí. Spánn gerði tilkall til eyjarinnar og nefndi hana La Española. Eyjan var hluti af Spænska heimsveldinu þar til snemma á 17. öld. Frakkar hófu þá að stofna nýlendur á vesturhluta eyjarinnar og gerðu tilkall til hennar. Eftir Níu ára stríðið fengu Frakkar vesturhluta eyjunnar með friðarsamningum 1697. Þeir nefndu þann hluta Saint-Domingue. Frakkar stofnuðu sykurplantekrur sem ræktaðar voru með þrælum frá Afríku. Nýlendan var með þeim auðugustu í heimi.

Haítí var frönsk nýlenda og fyrsta landið í Ameríku til að lýsa yfir sjálfstæði, eftir einu þrælabyltingu í heimssögunni sem heppnaðist og leiddi til þess að sjálfstætt lýðveldi var stofnað. Þrátt fyrir þennan aldur er landið eitt af þeim fátækustu á vesturhveli jarðar.

Haítí varð fyrir gríðarlegum skemmdum í jarðskjálfta sem varð árið 2010 þann 12. janúar en hann mældist 7,0 á Richter og átti upptök sín skammt frá Port-au-Prince, höfuðborg Haítí. Ísland átti heiðurinn af því að vera fyrsta þjóðin sem kom Haítíbúum til hjálpar eftir jarðskjálftann.

Haítí er stofnaðili að Sameinuðu þjóðunum, Samtökum Ameríkuríkja, Samtökum Karíbahafsríkja og Samtökum frönskumælandi ríkja. Auk CARICOM er það aðili a Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alþjóðaviðskiptastofnuninni og Bandalagi ríkja í Rómönsku Ameríku og Karíbahafi. Þar sem fátækt og pólitískur óstöðugleiki hafa einkennt sögu Haítí er landið með lægstu vísitölu um þróun lífsgæða í Ameríku. Frá síðustu aldamótum hefur landið gengið í gegnum valdarán sem kallaði á afskipti Sameinuðu þjóðanna og jarðskjálfta sem olli dauða 250.000 manna.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Kort sem sýnir loftslagsbelti á Haítí.

Á Haítí er hitabeltisloftslag sem er breytilegt eftir hæð yfir sjávarmáli. Meðalhiti í Port-au-Prince er 23-31° í janúar og 25-35° í júlí. Úrkoma er breytileg eftir landshlutum og er meiri á sumum hlutum láglendis og í norður- og austurhlíðum fjalla. Þurrkatíminn á Haítí er frá nóvember til janúar.

Meðalúrkoma í Port-au-Prince er 1.370 mm. Það eru tvö regntímabil; apríl til júní og október til nóvember. Haítí verður reglulega fyrir alvarlegum þurrkum og flóðum, sem hafa enn verri afleiðingar vegna skógaeyðingar. Fellibylir ganga oft yfir landið auk þess sem hætta getur verið á jarðskjálftum.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Sýslur Haítí.

Haítí skiptist í tíu sýslur (départements) sem aftur skiptast í 42 umdæmi (arrondissements), sem skiptast í 145 sveitarfélög (communes) sem skiptast í 571 hverfi (sections communales). Sýslurnar eru:

  1. Nord-Ouest (höfuðstaður: Port-de-Paix)
  2. Nord (höfuðstaður: Cap-Haïtien)
  3. Nord-Est (höfuðstaður: Fort-Liberté)
  4. Artibonite (höfuðstaður: Gonaïves)
  5. Centre (höfuðstaður: Hinche)
  6. Ouest (höfuðstaður: Port-au-Prince)
  7. Grand'Anse (höfuðstaður: Jérémie)
  8. Nippes (höfuðstaður: Miragoâne)
  9. Sud (höfuðstaður: Les Cayes)
  10. Sud-Est (höfuðstaður: Jacmel)

Efnahagslíf

[breyta | breyta frumkóða]
Þróun landsframleiðslu á mann.
Útflutningsvörur árið 2019.

Haítí býr við markaðshagkerfi þar sem verg landsframleiðsla er tæplega 20 milljarðar dala en 1.800 dalir á mann (áætlað árið 2017).[1] Gjaldmiðill landsins nefnist gourde. Þrátt fyrir mikla ferðaþjónustu er Haítí eitt af fátækustu löndum Ameríku, þar sem spilling, óstöðugleiki, lélegir innviðir, skortur á heilbrigðisþjónustu og menntun eru nefnd sem helstu ástæðurnar.[1] Atvinnuleysi er mikið og margir Haítíbúar leita tækifæra utanlands. Viðskipti við landið hrundu eftir jarðskjálftann 2010 og kólerufaraldurinn sem kom í kjölfarið. Við það féll verg landsframleiðsla um 8%.[2] Árið 2010 var Haítí í 145. sæti af 182 löndum á vísitölu um þróun lífsgæða, og 57,3% þjóðarinnar liðu skort samkvæmt minnst þremur mælikvörðum á fátækt.[3]

Eftir umdeildar kosningar árið 2000 og ásakanir um spillingu stjórnar Jean-Bertrand Aristide[4] hættu Bandaríkin hjálparstarfi á Haítí milli 2001 og 2004.[5] Þegar Aristide hvarf frá völdum árið 2004 hélt hjálparstarf áfram og Brasilíuher leiddi friðargæslu í landinu. Eftir nærri fjögurra ára kreppu tók hagvöxtur við sér og náði 1,5% árið 2005.[6] Í september 2009 uppfyllti Haítí skilyrði Heavily Indebted Poor Countries-verkefnis Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Heimsbankans til að fá niðurfellingu erlendra skulda.[7]

Yfir 90% af tekjum hins opinbera á Haítí koma frá samningi við olíufyrirtækið Petrocaribe.[8]

Á Haítí eru tvö opinber tungumál: franska og haítíska (kreólamál). Franska er helsta ritmálið, stjórnsýslumálið og fjölmiðlamálið, og 42% íbúa tala hana.[9][10] Menntaðir Haítíbúar tala allir frönsku, hún er kennslumál í skólum og helsta viðskiptamálið. Franska er líka notuð við opinber tilefni eins og giftingar, útskriftir og í messum. Haítí er annað af tveimur sjálfstæðum löndum í Ameríku þar sem franska er opinbert mál, ásamt Kanada. Önnur Ameríkulönd þar sem franska er töluð eru öll undir yfirráðum Frakklands. Nær allir íbúar landsins tala haítísku sem er kreólamál byggt á frönsku. Sumir Haítíbúar sem búa nálægt landamærunum að Dóminíska lýðveldinu tala spænsku.[11]

Heilt á litið tala um 90-95% Haítíbúa haítísku og tæplega helmingur talar líka frönsku reiprennandi.[12] Haítíska hefur nýlega verið stöðluð.[13] Um 90% af orðaforða í haítísku er úr frönsku en málfræðin minnir meira á Vestur-Afríkumál. Þar má líka finna áhrif taínósku, spænsku og portúgölsku. [14] Haítíska er skyld öðrum frönskuskotnum kreólamálum, en minnir mest á antilleysku og louisiana-mál.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 „CIA World Factbook – Haiti“. Sótt 3. september 2019.
  2. „Haiti“. The World Factbook. Central Intelligence Agency. 22. september 2021.
  3. „International Human Development Indicators: Haiti“. United Nations Development Programme. 2010. Afrit af upprunalegu geymt þann 23. apríl 2011.
  4. „Jean Bertrand Aristide net worth“. WOW509. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2014.
  5. Farah Stockman (7. mars 2004). „Before fall of Aristide, Haiti hit by aid cutoff by“. Boston.com. Sótt 24. júlí 2013.
  6. „Haiti: Economy“. Michigan State University.
  7. „Haiti: Enhanced Initiative for Heavily Indebted Poor Countries“ (PDF). International Monetary Fund. september 2009. Sótt 24. júlí 2013.
  8. „Haiti Economy“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 2 janúar 2023. Sótt 11. apríl 2015.
  9. La langue française dans le monde 2014 (PDF). Nathan. 2014. ISBN 978-2-09-882654-0. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 12. apríl 2015. Sótt 20. maí 2015.
  10. À ce propos, voir l'essai Prétendus Créolismes : le couteau dans l'igname, Jean-Robert Léonidas, Cidihca, Montréal 1995
  11. „What Languages Are Spoken in Haiti?“. 29. júlí 2019.
  12. „Schools Teaching in Creole Instead of French on the Rise in Haiti“. 13. nóvember 2019.
  13. „creolenationallanguageofhaiti“. Indiana University. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. júní 2015. Sótt 11. janúar 2014.
  14. Bonenfant, Jacques L. (desember 1989). Haggerty, Richard A. (ritstjóri). „History of Haitian-Creole: From Pidgin to Lingua Franca and English Influence on the Language“ (PDF). Library of Congress Federal Research Division. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 24. september 2015. Sótt 1. janúar 2014.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.