Fara í innihald

Katar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Qatar)
Katarríki
دولة قطر
Dawlat Qatar
Fáni Katar Skjaldarmerki Katar
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
As Salam al Amiri
Staðsetning Katar
Höfuðborg Dóha
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Furstadæmi

Emír Tamim bin Hamad Al Thani (تميم بن حمد بن خليفة آل ثاني)
Forsætisráðherra Khalid bin Khalifa bin Abdul Aziz Al Thani (خالد بن خليفة بن عبد العزيز آل الثاني)
Sjálfstæði
 • Viðurkennt 3. september 1971 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
158. sæti
11.581 km²
0,8
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
139. sæti
2.795.484
176/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 357,338 millj. dala (51. sæti)
 • Á mann 138.910 dalir (6. sæti)
VÞL (2019) 0.848 (45. sæti)
Gjaldmiðill katarskur ríal (QAR)
Tímabelti UTC+3
Þjóðarlén .qa
Landsnúmer +974

Katar er smáríki í Mið-Austurlöndum, á nesi sem skagar út í Persaflóa út frá Arabíuskaganum. Katar á einungis landamæri að Sádí-Arabíu en í bígerð er að reisa brú til eyjunnar Barein sem yrði um 40 km löng. Vegna olíuauðs er Katar eitt ríkasta land í heimi.

Steinaldarverkfæri hafa fundist á svæðinu sem bendir til þess að fólk hafi búið á svæðinu fyrir um 50.000 árum. Eftir landvinninga múslima á 7. öld réðu ýmis kalífadæmi yfir svæðinu þar á meðal Umayya-kalífadæmið og Abbasídaveldið. Perluviðskipti urðu mikilvæg og Katar varð viðkomustaður kaupmanna á leið til Austurlanda. Ottómanveldið réði yfir svæðinu síðla á 19. öld og þar til að fyrri heimstyrjöldinni þegar það tapaði landsvæðum sínum í Miðausturlöndum. Þá varð Katar breskt verndarsvæði þar til landið fékk sjálfstæði árið 1971. Olía fannst um miðja 20. öld og gerbreytti efnahagnum.

Al Thani-fjölskyldan hefur ríkt yfir frá miðri 19. öld og er landið furstadæmi. Hamad bin Khalifa Al Thani steypti föður sínum, Khalifa bin Hamad Al Thani, af stóli árið 1995 í friðsamlegri hallarbyltingu. Hann vék síðan fyrir syni sínum, Tamim bin Hamad Al Thani, árið 2013. Ráðgjafarþing Katar semur lög landsins en emírinn hefur lokaorðið í öllum málum. Lög Katar eru blanda af borgaralegum lögum og sjaríalögum.

Árið 2017 ákváðu sjö ríki, að frumkvæði Sádí-Arabíu að slíta stjórnmálasambandi við Katar vegna meints stuðnings þeirra við hryðjuverkasamtök.[1]

Í Katar eru þriðju stærstu gas- og olíulindir heims og eru þær metnar meiri en 25 milljarðar tunna. Þessar auðlindir hafa gert Katar að einu ríkasta landi heims og mest þróaða landi Arabaheimsins.

Katar er skilgreint af Alþjóðabankanum sem hátekjuhagkerfi og sem 19. friðsælasta land heims. Katar fylgir þróunarstefnu þar sem ætlunin er að skapa fjölbreyttari grundvöll undir efnahagslífið, meðal annars með þróun ferðaþjónustu, og auka sjálfbærni.

Landið hélt Asíuleikana 2006, Heimsmeistaramótið í handknattleik 2015 og Heimsmeistaramótið í knattspyrnu 2022.

Fjölmargir farandverkamenn starfa og búa í Katar og eru þeir um 90% íbúa landsins, flestir frá Suður- og Austur-Asíu. Katar hefur verið gagnrýnt fyrir hvernig farið er með verkamennina hvað varðar aðbúnað, laun og vörslu vegabréfa.

Rómverski rithöfundurinn Pliníus eldri skráði eina elstu frásögnina um íbúa skagans, um miðja fyrstu öld, og nefndi þá Catharrei. Hugsanlega var nafnið dregið af heiti byggðarinnar.[2][3] Einni öld síðar gerði Kládíus Ptólmæos fyrsta kortið sem sýnir skagann og notaði heitið Catara.[3][4] Kortið sýnir líka bæ sem nefnist Cadara, austan við skagann.[5] Heitið Catara (og Catarei yfir íbúana)[6] var notað fram á 18. öld, þegar rithátturinn Katara varð almennari.[5] Í ensku voru ýmsar orðmyndir notaðar þar til Qatar varð á endanum sú eina viðurkennda.[7]

Í staðlaðri arabísku er heitið borið fram ˈqɑtˤɑr, en í flóaarabísku er það borið fram ˈɡitˤar.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Strönd Katar.

Katar er skagi sem skagar 160 km út í Persaflóa norður af Sádi-Arabíu. Landið liggur milli 24. og 27. breiddargráðu norður og 50. og 52. lengdargráðu austur. Megnið af landinu er lág og hrjóstrug slétta, þakin sandi. Í suðaustri er innhafið Khor Al Adaid, þar sem sandöldur umkringja vík í Persaflóa. Vetur eru mildir og sumrin mjög heit og rök.

Hæsti tindur Katar er Qurayn Abu al Bawl, 103 metrar á hæð,[8] í Jebel Dukhan í vesturhlutanum. Jebel Dukhan eru lágir kalksteinsklettar sem liggja í norður-suðurátt frá Zikrit, gegnum Umm Bab, að suðurlandamærunum. Þar eru líka helstu olíulindir Katar á þurru landi, en helstu gaslindirnar eru í Persaflóa, norðvestan við skagann.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]
Tamim bin Hamad Al Thani hefur verið emír frá 2013.

Formlega er Katar þingbundin konungsstjórn,[9][10] en hin miklu völd sem emírinn hefur gera að verkum að landið er á mörkum þess að teljast einveldi[11][12] undir stjórn Al Thani-fjölskyldunnar.[13][14] Al Thani hefur verið konungsætt Katar frá stofnun hennar árið 1825.[8] Árið 2003 tók Katar upp stjórnarskrá sem gerir ráð fyrir kosningu 30 af 45 þingmönnum.[8][15][16] Stjórnarskráin var samþykkt með miklum meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem næstum 98% voru fylgjandi henni.[17][18]

Amiri Diwan Katar, stjórnarskrifstofa emírsins.

Tamim bin Hamad Al Thani er áttundi emír Katar. Faðir hans fékk honum völdin í hendur 25. júní 2013.[19] Emírinn hefur einn leyfi til að skipa forsætisráðherra og aðra ráðherra í ríkisstjórn Katar, sem er æðsta stjórnvald landsins.[20] Stjórnin hefur frumkvæði að löggjöf.[20]

Á ráðgjafarþingi Katar sitja 30 kjörnir fulltrúar og 15 fulltrúar sem emírinn skipar. Þingið getur hafnað löggjöf með einföldum meirihluta, og getur sagt ráðherrum upp, forsætisráðherra þar á meðal, með 2/3 atkvæða. Fyrstu þingkosningarnar fóru fram í október 2021 eftir að hafa verið frestað nokkrum sinnum.[21][22][23]

Stofnun stjórnmálaflokka og verkalýðsfélaga er bönnuð samkvæmt lögum Katar.[24]

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Sveitarfélög í Katar frá 2014.

Frá 2014 hefur Katar verið skipt í átta sveitarfélög (baladiyah).[25]

Nr. Sveitarfélag
(baladiyah)
بلدية Íbúar
(2015)[26]
Stærð
(km2)
1 Al Shamal الشمال 8.794 859,8
2 Al Khor الخور 202.031 1.613,3
3 Al-Shahaniya الشحانية 187.571 3.309,0
4 Umm Salal أم صلال 90.835 318,4
5 Al Daayen الضعاين 54.339 290,2
6 Ad Dawhah (Dóha) الدوحة 956.457 202,7
7 Al Rayyan الريان 605.712 2.450
8 Al Wakrah الوكرة 299.037 2.577,7
  Dawlat Qatar دولة قطر 2.404.776 11.621,1

Í tölfræðiútreikningum er sveitarfélögunum skipt í 98 svæði[26] sem aftur skiptast í blokkir.[27]

Íbúafjöldi í Katar er breytilegur eftir árstímum, þar sem landið reiðir sig í miklum mæli á erlent vinnuafl. Árið 2020 voru íbúar í Katar 2,8 milljónir, mikill meirihluti þeirra erlendir ríkisborgarar. Aðeins 313.000 íbúar (13% mannfjöldans) voru katarskir ríkisborgarar, en 2,3 milljónir (88%) erlent starfsfólk.[28]

Um 1,5 milljónir, eða 60% mannfjöldans, eru frá Suður-Asíu. Stærsti hópurinn er frá Indlandi, eða 650.000 árið 2017.[28] Þar á eftir komu 350.000 Nepalar, 280.000 frá Bangladess, 145.000 frá Srí Lanka og 125.000 Pakistanar. Erlent verkafólk sem ekki er frá Suður-Asíu er um 28% mannfjöldans, flestir, eða 260.000, frá Filippseyjum og 200.000 frá Egyptalandi, og síðan hópar frá mörgum öðrum löndum.[28]

Íbúahverfi á Perlunni, manngerðri eyju við Katar.

Elstu íbúatöl frá Katar eru frá 1892 og voru skráð af landstjórum Tyrkjaveldis á svæðinu. Þau náðu eingöngu til borganna og töldu 9.830 íbúa.[29]

Manntal frá árinu 2010 taldi 1.699.435 íbúa.[30] Í janúar 2013 mat tölfræðistofnun Katar mannfjöldann vera 1.903.447, þar af 1.405.164 karla og 498.283 konur.[31] Þegar fyrsta opinbera manntalið var gert árið 1970 voru íbúar 111.133.[32] Íbúafjöldinn þrefaldaðist á einum áratug fram til 2011, en hann var um 600.000 árið 2001. Katarskir borgarar urðu þá aðeins 15% mannfjöldans.[33] Aðflutningur karlkyns verkamanna hefur skekkt kynjahlutfallið og konur eru nú fjórðungur mannfjöldans.

Landsþróunaráætlun Katar (2011-16) gerði ráð fyrir að íbúar myndu ná 1,78 milljónum árið 2013, 1,81 milljón árið 2014, 1,84 milljónum 2015 og 1,86 milljónum 2016, sem þýddi aðeins 2,1% árlegan vöxt, en mannfjöldinn hafði náð 1,83 milljónum þegar árið 2012 og vöxturinn var 7,5% miðað við fyrra ár.[34] Heildarmannfjöldi í Katar náði 2,46 milljónum í nóvember 2015, sem var 8,5% aukning frá fyrra ári, langt umfram opinberar áætlanir.[35]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Katar einangrast hratt Rúv, skoðað 13. júní 2017.
  2. Casey, Paula; Vine, Peter (1992). The heritage of Qatar. Immel Publishing. bls. 17. ISBN 9780907151500.
  3. 3,0 3,1 „History of Qatar“. Qatar Statistics Authority. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. júní 2017. Sótt 11. maí 2015.
  4. „Maps“. Qatar National Library. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. júní 2017. Sótt 11. maí 2015.
  5. 5,0 5,1 „About us“. Katara. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. júlí 2015. Sótt 11. maí 2015.
  6. Hazlitt, William (1851). The Classical Gazetteer: A Dictionary of Ancient Geography, Sacred and Profane. Whittaker & co.
  7. Rahman, Habibur (2010). The Emergence of Qatar: The Turbulent Years 1627–1916. London: Routledge. bls. 1. ISBN 9780710312136.
  8. 8,0 8,1 8,2 „Qatar“. CIA World Factbook. Central Intelligence Agency. 8. febrúar 2012. Sótt 4. mars 2012.
  9. BBC News, How democratic is the Middle East?, 9 September 2005.
  10. United States Department of State Country Reports on Human Rights Practices for 2011: Qatar, 2011.
  11. Gardener, David. „Qatar shows how to manage a modern monarchy“. Financial Times.
  12. „Embassy of Canada to the State of Qatar“. Government of Canada (enska). Sótt 4. febrúar 2021.
  13. „BBC NEWS – Middle East – How democratic is the Middle East?“. news.bbc.co.uk. Sótt 5. júní 2017.
  14. „Documents“ (PDF). www.state.gov.
  15. Lambert, Jennifer (2011). „Political Reform in Qatar: Participation, Legitimacy and Security“. Middle East Policy. 19 (1). Afrit af upprunalegu geymt þann 16. janúar 2013. Sótt 6. apríl 2022.
  16. „Qatar to hold advisory council elections in 2013“. Reuters (UK edition). Reuters. 1. nóvember 2011. Afrit af upprunalegu geymt þann 18 janúar 2016. Sótt 4. mars 2012.
  17. „IFES Election Guide – Elections: Qatar Referendum Apr 29 2003“. www.electionguide.org. Afrit af upprunalegu geymt þann 13 maí 2020. Sótt 5. júní 2017.
  18. „Qatar 2003“. www.princeton.edu. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. október 2017. Sótt 5. júní 2017.
  19. „Qatari emir Sheikh Hamad hands power to son Tamim“. BBC. 25. júní 2013. Sótt 25. júní 2013.
  20. 20,0 20,1 „Council of Ministers“. Embassy of the State of Qatar in Washington DC. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. júní 2010. Sótt 4. mars 2012.
  21. Thafer, Dania (14. október 2021). „Qatar's first elected parliament may have more power than other Persian Gulf legislatures. Here's why“. The Washington Post. Sótt 2. apríl 2022.
  22. „Qatari elections: A PR stunt or a step toward democracy? | DW | 24.08.2021“. DW.COM (bresk enska). Sótt 7. nóvember 2021.
  23. „Legislative elections in Qatar postponed until at least 2019“. Doha News (bandarísk enska). 17. júní 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2017. Sótt 26. maí 2017.
  24. „The People Want Reform… In Qatar, Too“. Jadaliyya. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. október 2017. Sótt 9. febrúar 2015.
  25. „Qatar Municipalities“. Qatar Ministry of Municipality and Environment. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 febrúar 2020. Sótt 8. ágúst 2017.
  26. 26,0 26,1 „2015 Population census“ (PDF). Ministry of Development Planning and Statistics. apríl 2015. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 17 júlí 2016. Sótt 8. ágúst 2017.
  27. „Population By Gender, Municipality And Zone, March 2004“. General Secretariat for Development Planning. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. desember 2006.
  28. 28,0 28,1 28,2 „Population of Qatar by nationality – 2017 report“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25 desember 2018. Sótt 7. febrúar 2017.
  29. Kursun, Zekeriya (2004). Katar'da Osmanlilar 1871–1916. Turk Tarih Kurumu.
  30. „Populations“. Qsa.gov.qa. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. júlí 2010. Sótt 2. október 2010.
  31. „Population structure“. Qatar Statistics Authority. 31. janúar 2013. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. maí 2013.
  32. „History of Census in Qatar“. Qatar Statistics Authority. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. apríl 2010. Sótt 16. júní 2013.
  33. „Qatar's delicate balancing act“. BBC News. 16. janúar 2013. Sótt 23. maí 2013.
  34. Pandit, Mobin (5. janúar 2013). „Population rise will push up rents“. The Peninsula Qatar. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. október 2013.
  35. Kovessy, Peter. „Though many leave Qatar, there are more people here than ever“. DohaNews.Co. Doha News. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. janúar 2016. Sótt 17. janúar 2016.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.