Kósakkar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Zaporízjzja-kósakkar skrifa bréf til Tyrkjasoldáns — Málverk eftir Ílja Repín (1891).
Úkraínskir kósakkar fagna 500 ára afmæli Zaporízjzja-kósakka árið 1990.
Kósakkadans – Málverk eftir Stanisław Masłowski (1883).

Kósakkar eru hópar aðallega austur-slavneskra (en upphaflega tyrkískra) þjóðernishópa sem rekja uppruna sinn til gresja Úkraínu. Þeir hófu að mynda lausleg samfélög með hermennskusniði í Úkraínu og suðurhluta Rússlands á 14. öld.

Kósakkar hafa sögulega lotið formlegum yfirráðum ýmissa austur-evrópskra ríkja en hafa gjarnan fengið að njóta talsverðs sjálfræðis í skiptum fyrir herþjónustu þeirra. Kósakkar eru þekktir fyrir lýðræðislegar hefðir, fyrir hestamennsku og fyrir öflug riddaralið sín. Þeir hafa leikið lykilhlutverk í þróun bæði úkraínskrar og rússneskrar menningar.

Söguágrip[breyta | breyta frumkóða]

Kósakkar voru upphaflega ánauðugir bændur sem flúðu frá Rússlandi, Póllandi og Litáen. Tatarar, Mongólar og ýmsir ævintýramenn gengu í lið með þeim og mynduðu með þeim sjálfstæð samfélög á gresjunum í Úkraínu og í suðurhluta Rússlands.[1] Þeir gerðu með sér eins konar varnarbandalag þar sem giltu strangar reglur sem minntu á herlög. Í fyrstu viðurkenndu þeir engin lög nema sín eigin, jafnvel ekki lög yfirvalda í Moskvu.[2] Sjálft orðið kósakki útleggst sem „frjáls maður“ á tyrknesku.[3]

Kósakkar urðu útverðir Slava í viðureignum þeirra við veldi Tatara á Krímskaga og gegn bandamönnum þess í Tyrkjaveldi. Þeir börðust með Heilaga rómverska ríkinu gegn Tyrkjum og börðust ýmist með Rússum gegn Pólverjum eða með Pólverjum gegn Rússum.[1] Tatarar fóru gjarnan ránshendi um heimalönd kósakka eftir að Rússar hættu að greiða þeim skatta á 15. öld og þetta stuðlaði að því að kósakkarnir gerðu varnarbandalögin sín á milli.[2]

Samfélög fyrstu kósakkanna voru skipulögð þannig að þeir byggðu sér víggirta bæi eða nýlendur. Innan samfélaganna höfðu menn sameign og allir voru jafn réttháir. Leiðtogar kósakka voru kjörnir til ákveðins tíma. Fyrsta nýlenda kósakka með þessu sniði var á bökkum Donár og þaðan eru hinir svokölluðu Don-kósakkar komnir.[2]

Með öflugri herþjónustu sinni í þágu bæði Pólverja og Rússa fengu kósakkar að njóta töluverðrar sjálfsstjórnar og ýmissa forréttinda innan þessara ríkja. Útþensla Rússaveldis í suðurátt og tilraunir Pólverja til að treysta völd litháískra bandamanna sinna í Úkraínu leiddu hins vegar til töluverðrar skerðingar á sjálfræði Kósakka. Þetta leiddi til þess að kósakkar gerðu víðtækar uppreisnir gegn báðum ríkjunum.[1] Árið 1648 brutust kósakkar undan yfirráðum Pólverja og stofnuðu sjálfstætt kósakkalýðveldi þar sem nú er miðhluti Úkraínu. Kósakkarnir gengust Rússakeisara á hönd sex árum síðar en um öld síðar lét Katrín mikla Rússakeisaraynja endanlega leysa upp kósakkalýðveldið þar sem hún vildi að lendur þess heyrðu beint undir keisaradæmið.[4]

Kósakkar fluttu sig lengra í austur eftir því sem Rússaveldi stækkaði og léku lykilhlutverk í að leggja Síberíu undir Rússakeisara á 16. og 17. öld.[2]

Á 19. öld mynduðu kósakkar sjálfstæðar riddarasveitir á útjöðrum rússneska keisaradæmisins og urðu frægir bæði fyrir mikla grimmd og frábæra hestamennsku. Samfélag þeirra þótti lýðræðislega skipulagt og því litu rússneskir desembristar, sem reyndu að gera uppreisn gegn Rússakeisara árið 1825, á stjórnhætti kósakka sem fyrirmynd að lýðræðisumbótum í Rússlandi.[1]

Í rússnesku borgarastyrjöldinni á árunum 1918 til 1921 börðust langflestir kósakkar með hvítliðum á móti bolsévikum. Þeir stofnuðu sjálfstætt kósakkalýðveldi, Don-lýðveldið, á Don-svæðinu á tíma styrjaldarinnar. Bolsévikar litu á kósakka sem handbendi gagnbyltingarsinna og ríkra bænda, svokallaðra kúlakka, og því voru margir þeirra drepnir eftir sigur bolsévika í borgarastyrjöldinni, sér í lagi á stjórnartíð Stalíns. Margir kósakkar flúðu land og löndum þeirra var breytt í samyrkjubú. Eftir sigur Sovétríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni lét Stalín senda riddaralið kósakka í útlegð til Síberíu.[1]

Í sovésku valdaránstilrauninni 1991 fylktu margir kósakkar sér að baki Borís Jeltsín. Viss þjóðleg endurvakning varð meðal kósakka við fall Sovétríkjanna og margir þeirra fóru að krefjast gamallar sjálfsstjórnar og fornra fríðinda á ný.[1]

Þekktir kósakkar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 Guðmundur Halldórsson (4. október 1992). „Kósakkarnir koma“. Morgunblaðið. bls. 4-5.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Sigurður Helgason (1. september 1943). „Kósakkar“. Unga Ísland. bls. 111-116.
  3. Aron Daði Þórisson (6. júní 2022). „Galdrar kósakka“. Stundin. Sótt 21. september 2022.
  4. „Hermenn og vísindamenn vinna saman í Saporisjía“. RÚV. 18. september 2022. Sótt 22. september 2022.