Fara í innihald

Baden-Württemberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Baden-Württembergs Skjaldarmerki Baden-Württembergs
Fáni Baden-Württembergs
Fáni Baden-Württembergs
Skjaldarmerki Baden-Württembergs
Kjörorð

Upplýsingar
Opinbert tungumál: þýska
Höfuðstaður: Stuttgart
Stofnun:
Flatarmál: 35.751,46 km²
Mannfjöldi: 11.111.000 (2020)
Þéttleiki byggðar: 300/km²
Vefsíða: baden-wuerttemberg.de
Stjórnarfar
Forsætisráðherra: Winfried Kretschmann‎ (Grüne)
Lega

Baden-Württemberg er sambandsland í suðvestanverðu Þýskalandi. Það á landamæri að Bæjaraland i (Bayern), Rínarlandi-Pfalz (Rheinland-Pfalz) og Hessen, auk Frakklands og Sviss. Íbúar eru rúmar 11,1 milljón (2020). Höfuðstaður Baden-Württemberg er Stuttgart, en meðal annarra borga má nefna Heidelberg, Freiburg, Baden-Baden, Karlsruhe, Mannheim og Ulm. Meðal markverðra náttúrufyrirbæra í Baden-Württemberg má nefna Rínarfljót, Svartaskóg og Bodenvatn.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Fáninn samanstendur af tveimur láréttum röndum, svartri að ofan og gulri að neðan. Svarti liturinn stendur fyrir héruðin Württemberg og Hohenzollern. Guli liturinn stendur fyrir Baden. Fáninn var samþykktur 1953. Skjaldarmerkið sýnir þrjú svört ljón á gulum grunni. Þau eru merki Staufen-ættarinnar og hertoganna frá Sváfalandi (Schwaben). Til sitthvorrar handar eru hjörtur og griffill. Efst eru skildir gamalla héraða innan sambandslandsins. Miklar deilur risu um myndun skjaldarmerkisins og var það ekki samþykkt fyrr en 1954.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
 • Fyrir tíma Rómverja bjuggu germanir á svæðinu, til dæmis sváfar, alemannar og frankar.
 • 15 f.Kr. hertóku Rómverjar meginhluta svæðisins.
 • 85 e.Kr. stofnaði Domitíanus keisari skattlandið Germania superior á svæðinu. Það afmarkaðist í norðri af hinum þekkta landamæragarði Limes. Nokkrar þekktar borgir Rómverja eru Rottweil, Rottenburg, Heidelberg og Baden-Baden.
 • Á 5. öld féll Rómaveldi. Héraðið varð síðar hluti af frankaríkinu.
 • 843 var frankaríkinu skipt með Verdun-samningunum. Héraðið lendir í Austrien (austurhlutanum) og varð hluti af þýska ríkisinu.
 • Næstu aldir komust ýmsar aðalsættir til mikilla metorða og jafnvel til keisaradóms, svo sem Salier-ættin, Welfen-ættin, Staufen-ættin og Zähringer-ættin.
 • 1414-1418 var kirkjuþingið mikla haldið í borginni Konstanz við Bodenvatn. Þar var trúarleiðtoginn Jan Hus frá Bæheimi brenndur á báli. Einnig var endir bundinn á hina miklu kirkjuklofningu kaþólsku kirkjunnar.
 • 1524-1525 gerðu bændur mikla uppreisn (Deutscher Bauernkrieg) að mestu í héraðinu. Þegar hún var brotin á bak aftur munu um 100 þúsund uppreisnarmenn hafa legið í valnum.
 • 1622 fóru fram orrustur hjá Mingolsheim og Wimpfen í 30 ára stríðinu. Mikið var barist hingað og þangað næstu árin, til dæmis hjá Tuttlingen og Freiburg 1643 og 1644. Íbúum fækkaði um rúman helming í stríðinu.
 • 1689-1693 brenndu Frakkar nokkrar borgir og mörg þorp í erfðastríðinu í Pfalz, til dæmis Heidelberg, Mannheim og Pforzheim.
 • 1804 voru konungsríkin Württemberg og stórhertogadæmið Baden stofnuð á Napoleontímanum.
 • 1850 urðu bæði héruðin prússnesk að tilstuðlan Bismarcks.
 • 1919 urðu Baden og Württemberg að lýðveldum innan Weimar-lýðveldisins eftir tap Þjóðverja í heimstyrjöldinni fyrri.
 • 1945 hertóku Frakkar og Bandaríkjamenn héraðið í lok heimstyrjaldarinnar síðari og skiptist það milli hernámssvæða þeirra.
 • 1952 var Baden-Württemberg stofnað eftir mikla reikistefnu og kosningu um sameiningu franska og bandaríska hernámssvæðanna.
Gróft kort af Baden-Württemberg

Stærstu borgir Baden-Württembergs (31. des 2013):

Röð Borg Íbúar
1 Stuttgart 604 þúsund
2 Karlsruhe 299 þúsund
3 Mannheim 297 þúsund
4 Freiburg 220 þúsund
5 Heidelberg 152 þúsund
6 Ulm 119 þúsund
7 Heilbronn 118 þúsund
8 Pforzheim 117 þúsund
9 Reutlingen 111 þúsund
10 Esslingen 89 þúsund
11 Ludwigsburg 89 þúsund
12 Tübingen 85 þúsund
Alls 10,6 milljónir