Túniska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Túníska karlalandsliðið í knattspyrnu
Gælunafnنسور قرطاج "Aigles de Carthage" (Ernir Karþagó)
Íþróttasamband(Arabíska: الجامعة التونسية لكرة القدم) Túníska knattspyrnusambandið
ÁlfusambandCAF
ÞjálfariMondher Kebaier
AðstoðarþjálfariAdel Sellimi
FyrirliðiWahbi Khazri
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
36 (febrúar 2022)
14 (apríl - maí 2018)
65 (Júlí 2010)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
4-2 gegn Líbíu (2. júní, 1957)
Stærsti sigur
8-1 gegn Taívan (18. ágúst 1960)
7-0 gegn Tógó (7.janúar 2000)
7-0 gegn Malaví (26.mars 2005)
8-1 gegn Djibútí (12. júní 2015)
Mesta tap
1-10 gegn Ungverjalandi (24. júlí 1960)
Heimsmeistaramót
Keppnir5 (fyrst árið 1978)
Besti árangurRiðlakeppni 1978, 1998, 2002, 2006, 2018
Afríkubikarinn
Keppnir20 (fyrst árið 1962)
Besti árangurMeistarar (2004)

Túníska karlalandsliðið í knattspyrnu er fulltrúi Túnis í knattspyrnu, og er stjórnað af Túniska knattspyrnusambandinu. Liðið hefur fimm sinnum komist í úrslitakeppni HM í knattspyrnu og einu sinni unnið Afríkukeppnina í fótbolta.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta knattspyrnufélagið í Túnis, Racing Club de Tunis var stofnað 1904-5 og fór með sigur af hólmi á fyrsta meistaramótinu sem haldið var árið 1907. Frakkar voru fyrirferðarmiklir á upphafsskeiði íþróttarinnar í landinu en heimamönnum fór fjölgandi og fljótlega komu fram lið alfarið skipuð innfæddum Túnisbúum.

Áður en Túnis öðlaðist sjálfstæði árið 1956 höfðu óopinber landslið verið mynduð með leikmönnum úr túnísku deildinni. Fyrsti leikur slíks liðs var árið 1928 þegar það tapaði 9:2 fyrir b-landsliði Frakka. Fyrsti sigurinn vannst ekki fyrr en 1939, þá gegn liði áhugamanna frá París.

1956-62: Upphafsskeiðið[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar Túnis voru þegar lögð drög að stofnun knattspyrnusambands til að halda utan um deildarkeppnina, sem áður hafði verið á vegum franska knattspyrnusambandsins. Landsliðshópur var myndaður og nokkrir æfingaleikir leiknir, s.s. við Alsír og austurríska félagið FC Admira Wacker Mödling. Fyrsti formlegi landsleikurinn var hins vegar á Arabaleikjunum í júní 1957, þar sem Túnis vann 4:3 sigur á Líbýu. Sigurgangan hélt áfram í næstu leikjum og komst Túnis alla leið í úrslitin á þessu fyrsta móti sínu, en tapaði þar fyrir Sýrlendingum.

Undir stjórn júgóslavneska þjálfarans Milan Kristić tryggði Túnis sér sæti á sínu fyrsta stórmóti, knattspyrnukeppni ÓL 1960. Liðið náði forystunni gegn Pólverjum í fyrsta leik, en tapaði að lokum 6:1. Betur gekk í leikjum gegn Argentínu og Danmörku en Túnis fór samt stigalaust frá keppni.

1962-78: Gullkynslóðin[breyta | breyta frumkóða]

Túnis tók í fyrsta sinn þátt í Afríkubikarnum árið 1962, komst í úrslitakeppnina og endaði að lokum í þriðja sæti. Árið eftir vann landsliðið sinn fyrsta titil á Arabaleikunum. Árið 1965 var Túnis í hlutverki gestgjafa í Afríkubikarnum. Sex lið tóku þátt í úrslitakeppninni þar sem Gana varði titil sinn eftir að hafa unnið Túnis 3:2 í framlengdum úrslitaleik.

Eftir Afríkubikarinn 1965 hætti Túnis þátttöku í mótinu til ársins 1976 og komst ekki í úrslit aftur fyrr en 1978. Ástæða þeirrar ákvörðunar var sú að knattspyrnusambandið kaus að leggja meiri áherslu á samskipti við Arabaþjóðir fyrir botni Miðjarðarhafs.

Túnis tók í fyrsta sinn þátt í forkeppni HM 1970 en féll út í 2. umferð eftir oddaleik gegn Marokkó, sem hreppti að lokum sæti Afríku í úrslitakeppninni. Fjórum árum síðar féll liðið aftur úr keppni í 2. umferð, eftir að hafa áður slegið Egypta úr leik.

Árið 1978 var viðburðaríkt í fótboltanum í Túnis. Eftir að hafa snúið aftur í Afríkubikarnum tveimur árum fyrr, komst liðið í úrslitakeppnina sem fram fór í Gana. Túnis hafnaði í öðru sæti síns riðils og mætti heimamönnum í undanúrslitum. Viðureignin tapaðist 1:0. Við tók bronsleikur gegn Nígeríu. Undir lok fyrri hálfleiks, í stöðunni 1:1, mótmæltu leikmenn Túnis úrskurði dómarans með því að ganga af velli. Leikurinn dæmdist því tapaður 2:0 og Túnis var meinað að keppa á næsta móti tveimur árum síðar.

Landslið Túnis á HM í Argentínu.

Stærsti atburður ársins var þó þátttakan á HM í Argentínu. Leið Túnis í úrslitakeppnina var strembin. Í fyrstu umferð þurfti liðið að slá út Marokkó í vítaspyrnukeppni, en þetta var í fyrsta sinn sem grípa þurfti til slíks í leik í heimsmeistarakeppni. Í annarri umferð voru nágrannarnir frá Alsír slegnir úr leik, Gínea í þriðju umferð og loks Egyptaland og Nígería í úrslitariðli.

Ekki var búist við stórafrekum af hálfu Túnis enda andstæðingarnir ógnarsterkir og afrísku liði hafði aldrei tekist að vinna leik í úrslitakeppni HM. Annað kom á daginn. Í fyrsta leik sigraði Túnis lið Mexíkó 3:1, eftir að hafa verið 0:1 undir í hálfleik. Næstu mótherjar voru Pólverjar, bronsliðið frá HM 1974. Mark Grzegorz Lato undir lok fyrri hálfleiks skildi að lokum á milli liðanna og því ljóst að Túnis þurfti að sigra heimsmeistara Vestur-Þjóðverja til að komast áfram. Öllum að óvörum lauk leiknum með markalausu jafntefli. Túnis féll úr leik með sæmd og fengu leikmennirnir heiðursmóttökur við heimkomuna. Frammistaðan jók mjg þrýstinginn á FIFA að fjölga fulltrúum Afríku á HM.

1978-94: Landslið í lægð[breyta | breyta frumkóða]

Ekki tókst að byggja á velgengninni á HM 1978. Túnis féll úr keppni í fyrstu umferð forkeppni HM 1982, komst í úrslitaeinvígi á móti Alsír fyrir HM 1986 en tapaði þar illa og Kamerún hirti sætið á HM 1990 eftir hreint úrslitaeinvígi. Sætum Afríku fjölgaði um eitt fyrir HM 1994 en eftir harða baráttu í forriðli mátti Túnis láta í lægra haldi fyrir Marokkó.

Raunar þurfti Túnis að sitja heima þegar kom að öllum stórmótum frá 1980 til 1992 nema tveimur. Liðið komst í úrslit Afríkukeppninnar 1982 og Ólympíuleikana 1988 en féll í bæði skiptin út í fyrstu umferð. Á þessum árum var ört skipt um þjálfara og stöðugleiki liðsins var með minnsta móti. Árið 1994 voru Túnisbúar gestgjafar í Afríkubikarnum í annað sinn í sögunni. Árangurinn olli sérstökum vonbriguðum þar sem liðið tapaði og gerði jafntefli í leikjum sínum tveimur og lenti í neðsta sæti í sínum forriðli.

1994-2002: Viðspyrnu náð[breyta | breyta frumkóða]

Eftir vonbrigðin á heimavelli var ákveðið að ráða reynslumikinn þjálfara, Pólverjann Henryk Kasperczak sem áður hafði m.a. þjálfað til Fílabeinsstrandarinnar. Undir hans stjórn komst Túnis ekki aðeins í úrslitakeppni Afríbikarsins 1996 heldur alla leið í úrslitaleikinn þar sem það tapaði 2:0 fyrir Suður-Afríku. Sama ár komst Túnis á Ólympíuleikana í Atlanta, komst ekki upp úr riðlinum en gerði þó jafntefli við Argentínu.

Kasperczak var enn við stjórnvölinn tveimur árum síðar þegar Túnis komst bæði í úrslitakeppni Afríkubikarsins og HM í Frakklandi. Afrikumótið var haldið í Búrkína Fasó og tapaði Túnis fyrir heimamönnum í vítaspyrnukeppni í fjórðungsúrslitum. Frammistaðan á heimsmeistaramótinu olli vonbrigðum. Liðið var í raun fallið úr keppni eftir töp gegn Englandi og Kólumbíu í tveimur fyrstu leikjunum. Jafntefli gegn Rúmenum, sem þegar voru komnir áfram, reyndist lítil sárabót.

Árangurinn í Frakklandi kostaði Kasperczak starfið og í hans stað var ráðinn Ítalinn Francesco Scoglio. Undir hans stjórn endaði Túnis í fjórða sæti Afríkukeppninnar 2000 eftir tap gegn Kamerún í undanúrslitum og í vítakeppni gegn Suður-Afríku í bronsleiknum.

Henri Michel, fyrrum landsliðsþjálfari Frakklands, stjórnaði Túnis í úrslitum Afríkukeppninnar 2002 en var rekinn þegar liðið féll úr leik án þess að skora eitt einasta mark. Túnis var einnig meðal keppnisliða á HM 2002 í Japan og Suður-Kóreu. Þar tapaði liðið fyrir heimamönnum Japönum og Rússum en gerði jafntefli við Belga.

2002-2008: Bestir í Afríku[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnendur knattspyrnusambands Túnis voru staðráðnir í að lið þeirra skyldi mæta sterkt til leiks í Afríkubikarinn 2004 á heimavelli. Eftir að hafa íhugað marga nafntogaða þjálfara varð Roger Lemerre, fyrrum landsliðsþjálfari Frakklands, fyrir valinu. Fyrir mótið var Túnis sjöunda efst á heimslista FIFA af þátttökuþjóðunum sextán og því ekki talið sérlega sigurstranglegt þrátt fyrir forskot heimavallarins.

Túnismenn þurftu ekki mikið að hafa fyrir toppsætinu í sínum riðli, unnu tvo leiki og gerðu eitt jafntefli. Í fjórðungsúrslitum unnu þeir Senegal í hörkuleik, þá Nígeríu í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum og lok Marokkó í úrslitaleiknum, 2:1. Þetta var fyrsti og enn sem komið er eini sigur Túnis í keppninni og var honum innilega fagnað. Lemerre hafði áður unnið EM 2000 sem þjálfari Frakka og varð því fyrstur í sögunni til að stýra liðum til sigurs í tveimur álfukeppnum.

Sem Afríkumeistarar öðluðust Túnismenn keppnisrétt í Álfukeppni FIFA sem fram fór í Þýskalandi árið 2005. Túnis tapaði fyrir Argentínu og Þjóðverjum en vann 2:0 sigur á Áströlum. Sama ár tryggði liðið sér keppnisrétt í úrslitakeppni HM 2006 sem einnig fór fram í Þýskalandi.

Undirbúningurinn fyrir HM 2006 hófst í Afríkukeppninni sama ár, þar sem Túnis mistókst að verja titil sinn eftir tap í fjórðungsúrslitum gegn Nígeríu eftir vítaspyrnukeppni. Í aðdraganda heimsmeistarakeppninnar bárust þær gleðifregnir að kantmaðurinn David Jemmali hefði fallist á að leika með landsliðinu. Hann var kunnasti knattspyrnumaður af túnisísku ætterni og lék í frönsku deildinni, en hafði fram að þessu ekki fengist til að leika fyrir hönd Túnis.

Fyrsti leikur Túnis í úrslitakeppninni var gegn Sádi-Arabíu í leik sem bæði lið urðu að vinna. Útkoman varð hálfgerð bræðrabylta, 2:2 jafntefli þar sem Túnis náði að jafna metin í uppbótartíma. Eftir þessa vondu byrjun var komið að sterku liði Spánverja. Túnis náði forystunni snemma leiks og hélt henni þar til tæpar tuttugu mínútur voru eftir. En þá var þrekið búið og spænska liðið skoraði þrjú mörk á lokakaflanum. Svipað var upp á teningnum í lokaleiknum. Þar hélt Túnis hreinu gegn Úkraínu í rúmar sjötíu mínútur en andstæðingarnir unnu að lokum 1:0.

Að margra mati hafði Lemerre verið alltof varnarsinnaður á HM og íhugaði knattspyrnusambandið alvarlega að skipta honum út fyrir annan þjálfara. Hann fékk þó að sitja áfram og kom Túnis í úrslitakeppni Afríkumótsins 2008. Liðið var talið í hópi hinna sigurstranglegustu en féll úr leik fyrir Kamerún í fjórðungsúrslitum. Eftir tap í forkeppni næstu heimsmeistarakeppni um mitt ár 2008 var ákveðið að segja Lemerre upp störfum eftir sex ára þjónustu.

2008-2014: Setið heima[breyta | breyta frumkóða]

Stuðningsmenn Túnis voru orðnir góðu vanir eftir að hafa komist í úrslitakeppni þrennra heimsmeistaramóta í röð. Það var því erfitt að kyngja því að missa af tveimur næstu úrslitakeppnum, HM 2010 og HM 2014. Í fyrra skiptið var það Nígería sem bar ábyrgð á að Túnis mátti dúsa heima og í seinna skiptið Kamerún. Afríkumótið 2010 gekk litlu betur. Túnis komst í úrslitakeppnina en gerði jafntefli í öllum þremur leikjum sínum og féll úr keppni.

Arabíska vorið braust út í Túnis snemma árs 2011 og fór því næst eins og eldur í sinu um allan arabíska heiminn. Hin pólitíska upplausn bitnaði á landsliðinu, sem öllum að óvörum hafnaði fyrir neðan lið Grænhöfðaeyja. Þeirri niðurlægingu var afstýrt þegar Grænhöfðaeyjar voru dæmdar úr keppni fyrir brot á reglum, en sem fyrr segir mistókst Túnis samt að komast í úrslitin. Þjálfaraskipti voru tíð á þessum árum.

2014-: Landið rís á ný[breyta | breyta frumkóða]

Belgískur þjálfari, Georges Leekens, sem áður hafði m.a. stýrt landsliði Alsír, var ráðinn til starfa snemma árs 2014. Þótt hann stoppaði ekki nema rétt á annað ár klifraði liðið hratt upp styrkleikalista FIFA undir hans stjórn, fór úr 49da í 22að sæti.

Í úrslitum Afríkumótsins 2015 tókst Túnis undir stjórn Leekens að vinna riðil sinn í fyrsta sinn síðan 2008. Í fjórðungusúrslitum tapaði liðið fyrir heimamönnum frá Miðbaugs-Gíneu við afar vafasamar kringumstæður. Dómgæslan í leiknum þótti fyrir neðan allar hellur og var dómari leiksins settur í hálfs árs bann af Afríska knattspyrnusambandinu í kjölfarið.

Síðar á árinu 2015 sneri Henryk Kasperczak aftur sem landsliðsþjálfari. Hann kom Túnis í úrslitakeppni Afríkukeppninnar 2017, en aftur féll liðið úr leik í fjórðungsúrslitum, að þessu sinni gegn Búrkína Fasó. Slæm úrslit í æfingarleikjum síðar á árinu 2017 kostuðu Kasperczak starfið en eftirmaður hans kom Túnis í úrslitakeppni HM 2018.

Túnis mætti til leiks á HM í Rússlandi sem hæsta Afríkuliðið á FIFA-listanum og sú sautjánda hæsta á mótinu öllu. Liðið fékk erfitt hlutskipti og mætti bæði Belgum og Englendingum. Óvænt jafntefli virtist innan seilingar í upphafsleiknum gegn Englandi þegar Harry Kane skoraði 2:1 í uppbótartíma. Túnis átti aldrei raunhæfa möguleika á móti Belgum, tapaði 5:2 og HM-draumurinn var fyrir bí. Þetta var jafnframt stærsti ósigur Túnis í úrslitakeppni HM frá upphafi. Sigur á móti Panama í lokaleik var þó örlítill plástur á sárið.

Alain Giresse, gamli franski landsliðsmaðurinn, stýrði Túnis í Afríkukeppninni 2019 sem fram fór í Egyptalandi. Þrjú jafntefli með markatöluna 2:2 dugðu Túnis upp úr riðlakeppninni. Þegar þangað var komið tókst liðinu að sigra Gana í vítakeppni og þvínæst spútniklið Madagaskar. Senegalir reyndist ofjarlar Túnis í undanúrslitum en þurftu þó framlengingu til og mark Nígeríu á þriðju mínútu réð úrslitum í bronsleiknum.

Eftir níu ára hlé var Arababikarinn endurvakinn árið 2021 í Katar, að þessu sinni á vegum FIFA. Litlar væntingar voru gerðar til Túnisliðsins við komuna þangað en leikmenn efldust við hverja raun og fóru að lokum alla leið í úrslitin en töpuðu það fyrir Alsír.

Í mars 2022 tryggði Túnis sér keppnisrétt í úrslitakeppni HM í Katar. Það verður sjötta skiptið sem landið tekur þátt í úrslitakeppninni.