Fara í innihald

Dómkirkjan í Dresden

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dómkirkjan í Dresden er óvenjuleg að formi til

Dómkirkjan í Dresden kallast Hofkirche. Hún var reist 1739-55 í barokkstíl og er stærsta kirkjan í Saxlandi. Hún er að sama skapi mjög óvenjuleg að formi til. Kirkjan nær gjöreyðilagðist í loftárásum 1945. Endurreisnin stóð alveg til 1965. Í grafhvelfingu liggja tugir fyrirmenna Saxlands.

Saga dómkirkjunnar

[breyta | breyta frumkóða]
Brúin milli kirkjunnar og hallarinnar

Það var Friðrik Ágúst II konungur Saxlands sem lét reisa dómkirkjuna 1739-1755. Kirkjan átti að verða konungskirkjan í borginni og var því kölluð Hofkirche, sem merkir hallarkirkja. Hún var vígð 29. júní 1751 heilagri þrenningu. Kirkjan var á sínum tíma ein skrautlegasta bygging Saxlands. Hún er 92 metra löng og 86 metra há. Formið er mjög óvenjulegt, þar sem tveir turnar rísa við sitt hvorn enda kirkjuskipsins. Skipið sjálft er einnig óvenjulegt, en öll er byggingin í barokkstíl. Frá kirkjunni liggur lokuð brú til hallarinnar, þannig að konungur og hans fólk þurti ekki að fara út á götu til að fara í kirkju. Dómkirkjan gjöreyðilagðist í loftárásum í febrúar 1945. Þakið hrundi niður og stór hluti ytri veggjanna einnig. Nær allt innviðið eyðilagðist. Eftir að hafa legið sem rústir í mörg ár eftir stríð var hafist handa við að endurreisa kirkjuna. Því verki lauk 1965. Þó fékk kirkjan ekki nýtt orgel fyrr en 1971.

Listaverk og dýrgripir

[breyta | breyta frumkóða]

Styttur heilagra

[breyta | breyta frumkóða]
Altaristaflan

Utan á byggingunni er styttur af 78 heilögum, gerðar af ítalska listamanninum Lorenzo Matielli. Hér er um höfuðpostulana að ræða, en einnig ýmsa aðra heilaga frá ýmsum stöðum í Evrópu. Þar má nefna heilagan Benedikt frá Núrsíu, stofnanda Benediktsreglunnar, heilagan Bernhard frá Clairvaux, franskan munk og einn ötullegastan talsmann krossferðanna, heilagur Frans frá Assisí og Hinrik I keisara.

Altaristaflan

[breyta | breyta frumkóða]
Kistur í grafhvelfingunni

Altaristaflan er gerð úr marmara og eru kantar gullslegnir. Málverkið er eftir Anton Raphael Mengs, sem málaði það 1752-1761. Það sýnir himnaför Jesú. Ramminn var gerður af konunglega myndhöggvaranum Joseph Deibel.

Grafhvelfing

[breyta | breyta frumkóða]

Í kirkjunni eru alls 49 kistur og hvíla þar ýmsir meðlimir kjörfursta- og konungsættarinnar í Saxlandi. Elsta kistan er frá 1721, en í henni hvílir sonur Ágústs III, sem lést ársgamall. Kirkjan sjálf var ekki vígð fyrr en 1751. Alls eru fjórar kistur eldri, en þær voru settar í grafhvelfinguna strax og hún var tilbúin. Yngsta kistan er frá 1947. Þá lá kirkjan í rústum, en kistan var sett í kirkjuna strax og hún hafði verið endurreist 1965.

Fyrirmynd greinarinnar var „Kathedrale von Dresden“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júní 2010.