Fara í innihald

1621-1630

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá 1621–1630)
3. áratugurinn: Umsátrið um La Rochelle í Frakklandi, Blóðbaðið í Jamestown, útför Trịnh Tùng í Víetnam, skipið Mayflower kemur til Ameríku, orrustan um Lutter am Barenberg.
Árþúsund: 2. árþúsundið
Öld: 16. öldin · 17. öldin · 18. öldin
Áratugir: 1601–1610 · 1611–1620 · 1621–1630 · 1631–1640 · 1641–1650
Ár: 1621 · 1622 · 1623 · 1624 · 1625 · 1626 · 1627 · 1628 · 1629 · 1630
Flokkar: Fædd · Dáin · Stofnað · Lagt niður

1621-1630 var þriðji áratugur 17. aldar sem telst til árnýaldar í sögu Evrópu.

Atburðir og aldarfar

[breyta | breyta frumkóða]
Buckingham hertogi ásamt eiginkonu sinni, Katherine Manners, og börnum þeirra á málverki eftir Gerrit von Honthorst frá 1628.
Titilsíða bókar Ólafs Egilssonar um Tyrkjaránið 1627.

Þrjátíu ára stríðið

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir sigur í orrustunni við Hvítafjall virtust Habsborgarar ósigrandi í Þrjátíu ára stríðinu. Hersveitir Spánarkonungs sóttu fram í Niðurlöndum og þegar Kristján 4. Danakonungur hugðist láta til sín taka fyrir hönd mótmælenda var hann gjörsigraður af hersveitum keisarans undir stjórn Tillys og Wallensteins og hrökklaðist yfir á Sjáland við illan leik. Keisaraherinn rak flóttann og rændi og ruplaði á Jótlandi. Við lok áratugarins stigu svo Svíar fram á völlinn með vel þjálfaðan her sem sneri stríðsgæfunni mótmælendum í vil.

Uppreisn húgenotta í Frakklandi

[breyta | breyta frumkóða]

Þau réttindi sem franskir húgenottar höfðu fengið með Nantes-tilskipuninni í valdatíð Hinriks 4. urðu óðum að engu í stjórnartíð Loðvíks 13. sem gerði hvað hann gat til að draga úr áhrifum tilskipunarinnar. Þetta leiddi til uppreisnar undir stjórn hertogans Henri Rohan. Loðvík hélt gegn uppreisnarmönnum í Suður-Frakklandi. Her hans mistókst að vinna virki húgenotta í Montauban 1621 og Montpellier 1622. Þessum átökum lauk með friðarsamkomulagi. 1624 varð Richelieu kardináli nýtt æðstaráð konungs. Uppreisn húgenotta hófst aftur 1625 og Richelieu gerði það að forgangsverkefni að ráða niðurlögum hennar. Hann leiddi umsátur um hafnarborgina La Rochelle 1627-1628 sem lyktaði með ósigri húgenotta þrátt fyrir aðstoð frá Englandi. 1629 vann kardinálinn síðan Montauban. Síðar það ár lauk uppreisninni með friðarsamkomulagi þar sem trúarleg réttindi húgenotta voru viðurkennd en pólitísk réttindi þeirra afnumin.

Borgarastyrjöld í Víetnam

[breyta | breyta frumkóða]

Í Víetnam ríkti Trịnh-ættin í nafni valdalauss keisara, eftir að hafa haft sigur í baráttunni við Mạc-ættina á 16. öld. Bandamenn þeirra, Nguyên-ættin, hafði þá fengið suðurhluta landsins í sinn hlut sem lén og gerðist nú æ sjálfstæðari gagnvart hirð Trịnh-lávarðanna í norðri, meðal annars vegna viðskipta við kaupmenn frá Portúgal. 1620 neitaði Nguyễn Phúc Nguyên að greiða skatta til hirðarinnar í Hanoi. Borgarastyrjöld braust síðan út árið 1627 þegar Trịnh Trang sendi herlið gegn Nguyên. Þrátt fyrir fjölmennt herlið tókst honum ekki að leggja suðurhlutann undir sig bæði vegna landfræðilegra hindrana og tengsla Nguyên-furstanna við erlenda kaupmenn sem gerðu þeim kleift að koma sér upp öflugu stórskotaliði. Borgarastyrjöldin stóð til 1673 þegar fylkingarnar sættust á landamæri milli sín. Sú skipting landsins var í gildi í hundrað ár eftir það.

Tilraun til einveldis í Englandi

[breyta | breyta frumkóða]

Í Englandi var grunnurinn lagður að Ensku borgarastyrjöldinni þegar Karl 1. tók við af föður sínum, Jakobi 1. Karl ætlaðist til konungshollustu af þinginu og áleit sig hafa sjálfstætt vald, líkt og faðir hans hafði gert. Hann hafði líka áhuga á að láta til sín taka í styrjöldunum á meginlandinu en enska þingið stóð í vegi fyrir þeim fyrirætlunum. Hann leysti þá upp þingið en neyddist til að kalla það saman aftur og skrifa undir réttindaskjal, því ella hefði hann ekki getað innheimt skatt.

Landnám í Nýja heiminum

[breyta | breyta frumkóða]

Sókn evrópskra landnema til Nýja heimsins hélt áfram, stöðugt fjölgaði í þeim nýlendum sem fyrir voru og nýjar nýlendur voru stofnaðar, eins og Portsmouth (New Hampshire), Salem, Nýja Amsterdam, Barbados og Sankti Kristófer og Nevis. Alkonkvínar reyndu að losa sig við þær nýlendur sem reistar höfðu verið í Virginíu með því að ráðast á Jamestown, en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Hollenskir og enskir sjóræningjar höfðu sig mikið í frammi gegn spænskum og portúgölskum skipum og nýlendum. Á Íslandi bar það við 1627 að herskip frá Barbaríinu, undir stjórn hollensks ræningjaforingja, drápu og rændu fólki í Grindavík og Vestmannaeyjum sem þeir seldu síðan í þrældóm í Algeirsborg. Ræningjaforinginn, Murat Reis (Jan Janszoon frá Haarlem) var áður skipstjóri á hollensku ræningjaskipi sem sjóræningjar frá Barbaríinu náðu á sitt vald árið 1618. Hann kaus að snúast til Íslam í Algeirsborg. 1619 hóf hann að gera út frá sjóræningjalýðveldinu Salé á Atlantshafsströnd Marokkó sem heyrði undir konung Marokkó að nafninu til. Fjórum árum eftir ránið í Vestmannaeyjum endurtók Janszoon leikinn í þorpinu Baltimore á Írlandi.

Málverk eftir Diego Velázquez af Filippusi 4. Spánarkonungi átján ára gömlum árið 1623.
Málverk frá fyrri hluta áratugarins sem sýnir stórmógúlinn Jahangir sigrast á fátæktinni.
1621 1622 1623 1624 1625 1626 1627 1628 1629 1630
Dalai Lama Ngawang Lobsang Gyatso (1617/1622-1682)
Dansk-norska ríkið Kristján 4. (1596-1648)
England, Írland og Skotland Jakob 1. (1603-1625) Karl 1. (1625-1649)
Eþíópía Susenyos (1608-1632)
Frakkland Loðvík 13. (1610-1643)
Hið heilaga rómverska ríki Ferdinand 2. (1619-1637)
Holland Mórits af Nassá staðarhaldari (1585-1625) Friðrik af Óraníu (1625-1647)
Japan Go-Mizunoo Japanskeisari (1611-1629) Meishō keisaraynja (1629-1643)
Tokugawa Hidetada sjógun (1605-1623) Tokugawa Iemitsu (1623-1651)
Krímkanatið Canibek Giray (1610-1623) Mehmed 3. Giray Canibek Giray (1628-1635)
Marokkó Zidan Abu Maali (1603-1627) Abu Marwan Abd al-Malik 2. (1627–1631)
Mingveldið Tianqi keisari (1620-1627) Chongzhen keisari (1627-1644)
Síðara Jinveldið Nurhaci (1616-1626) Huang Taiji (1626-1643)
Mógúlveldið Jahangir (1605-1627) Shah Jahan (1628-1658)
Ottómanaveldið Ósman 2. Mústafa 1. Múrað 4. (1623-1640)
Páfi Páll 5. (1605-1621) Gregoríus 15. Úrbanus 8. (1623-1644)
Pólsk-litháíska samveldið Sigmundur 3. Vasa (1587-1632)
Rússneska keisaradæmið Mikael Rómanov (1613 - 1645)
Safavídaríkið Abbas mikli (1589-1629) Safi Persakonungur (1629-1642)
Síam Songtham (1620-1628) Chetthathirat Athittayawong Prasat Thong (1629-1656)
Spánn og Portúgal Filippus 3. (1598-1621) Filippus 4. (1621-1665)
Svíþjóð Gústaf 2. Vasa (1611-1632)
Víetnam Lê Thần Tông (1619–1643)
Trịnh Tùng (1570-1623) Trịnh Tráng (1623-1657)