Jan Janszoon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Salé á 17. öld

Jan Janszoon van Haarlem þekktur undir nafninu Murat Reis yngri (um 1570 – 1641?) var fyrsti forseti og aðmíráll í lýðveldinu Salé og landstjóri yfir Oualidia, báðir þessir staðir eru í Marokkó. Einnig var hann hollenskur sjóræningi, einn af alræmdustu Barbarísjóræningjunum frá 17. öld, frægastur „Salé Rovers“ sjóræningjanna.

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Jan Janszoon var fæddur í Haarlem í Hollandi árið 1575. Lítið er vitað um fyrstu æviár hans en vitað er að hann kvæntist ungur og eignaðist dóttur, Lysbeth Janszoon.

Sjóræningjaferill[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1600 hóf Jan Janszoon feril sinn sem sjóræningi. Hann byrjaði sem hollenskur kapari sem sigldi frá heimaborg sinni Haarlem. Vann hann fyrir hollenska ríkið og var markmiðið að hrella spænsk skip í áttatíu ára stríðinu. Sjórán fyrir hollenska ríkið voru að Janszoons mati ekki nægilega arðbær þannig að hann fór líka að sigla undir flaggi sjóræningja úr Barbaríinu. Þegar hann réðist á spænsk skip var það í nafni hollensku stjórnarinnar en þegar hann réðist á skip annarra ríkja gerðist hann skipstjóri Ottomans og flaggaði rauða hálfmána Tyrkjanna eða fána annarra Afríkuþjóða við Miðjarðarhafið. Á þessu tímabili hafði hann yfirgefið sína hollensku fjölskyldu.

Handtekinn af Tyrkjum[breyta | breyta frumkóða]

Janszoon var handtekinn árið 1618 á eyjunni Lanzarote, sem er ein af Kanaríeyjum, af sjóræningjum úr Barbaríinu og fluttur til Algeirsborgar sem fangi. Þar skipti hann um trú og gerðist múslimi. Því er haldið fram að hann hafi verið neyddur til þessara trúskipta. Ottomanar viðhéldu áhrifum sínum fyrir hönd keisara síns með því að hvetja Mára opinberlega til að fara ránshendi gegn evrópskum ríkjum, sem börðust gegn Ottomanveldinu. Eftir að Janszoon snerist til íslams sigldi hann með hinum fræga sjóræningja Sulayman Rais (Slemen Reis), Hollendingi sem hét áður De Veenboer og Janszoon hafði þekkt. Sulayman hafði eins og Janszoon skipt um trú. En vegna þess að Algeirsborg hafði samið um frið við nokkrar Evrópuþjóðir, var ekki lengur hægt að selja þaðan góss, svo sem skip og skipsfarma. Eftir að Sulayman Rais var drepinn af fallbyssukúlu árið 1619 flutti Janszoon til hafnarborgarinnar Salé og byrjaði að gera þaðan út sem Barbarísjóræningi.

Árásir[breyta | breyta frumkóða]

Ólafur Egilsson var hertekinn í Vestmannaeyjum og skrifaði frásögn af herleiðingunni, Reisubók Ólafs Egilssonar.

Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1627 réð Janszoon danskan þræl til að vísa sér leið til Íslands. Við strendur Færeyja rændi hann fiskibáti. Skip hans sigldi til Grindavíkur og kom þangað 20. júní. Þar rændu þeir fé og fólki, tólf Íslendingum og þremur Dönum og drápu tvo menn. Á útleið hertóku þeir tvö dönsk skip og fönguðu áhafnir þeirra. Þeir sigldu síðan áleiðis til Bessastaða en þar steytti skip Janszoons á skeri en losnaði þó aftur. Hann sigldi við svo búið frá landinu 24. júní, hélt heim til Salé og seldi fanga sína þar í ánauð.[1]

Annað skip, sem var frá Algeirsborg en kann að hafa verið í einhverju samfloti við skip Janszoons, kom til Austfjarða 5. júlí og rændi þar næstu daga, aðallega í Berufirði og Breiðdal, og tók þar um 110 manns herfangi.[2] Skipið hélt síðan til Vestmannaeyja, en þar hafði annað skip slegist í lið með þeim. Ræningjarnir gengu á land í Vestmannaeyjum um miðjan júlí, fóru þar ránshendi, hertóku á þriðja hundrað manns en drápu 34, að því er talið er. Þetta fólk var flutt til Algeirsborgar og selt þar.[3]

Baltimore á Írlandi[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að hafa siglt um höfin í tvo mánuði, án þess að hafa náð góssi, náði Janszoon upplýsingum frá fanga að nafni John Hackett hvar best væri að ráðast að landi og bera sem mest úr býtum. Hackett sagði honum frá smábæ á Írlandi sem hét West Cork. Hann leiðbeindi Janszoon þangað og tókst með því að hindra að ráðist yrði á sinn heimabæ. Janszoon réðist til atlögu 20. júní 1631 og náði þar 108 manneskjum sem hann seldi sem þræla í Norður-Afríku. Janszoo hafði engann áhuga á Keltunum, sleppti þeim en tók aðeins Englendinga. Stuttu eftir árásina var Hackett handtekinn og hengdur fyrir glæp sinn. Aðeins tveir af þeim fjölda sem voru hnepptir í ánauð snéru aftur til síns heimalands.

Miðjarðarhaf[breyta | breyta frumkóða]

Jan Janszoon hagnaðist mikið af að stunda rán á eyjunum í Miðjarðarhafinu og urðu Baleariseyjarnar, Korsíka, Sardinía og suðurströnd Sikileyjar fyrir barðinu á honum og hans áhöfn. Oftast seldi hann ránsfenginn í Túnis þar sem hann var góður vinur þeirra sem þar réðu ríkjum. Janszoon sigldi um Miðjarðarhafið og barðist einnig á ströndum Krítar og Kýpur. Í áhöfn hans voru menn frá Hollandi, Marokkó, Arabíu og Tyrklandi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sagnakvöld IV. Ferlir.is.
  2. Tyrkjaránið. Geymt 2016-03-05 í Wayback Machine Á www.djupivogur.is
  3. Þorsteinn Helgason. „Hvað gerðist í Tyrkjaráninu?“. Vísindavefurinn 29.3.2006. http://visindavefur.is/?id=5743. (Skoðað 23.2.2012).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]