Fara í innihald

Tokugawa Hidetada

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tokugawa Hidetada

Tokugawa Hidetada (japanska: 徳川 秀忠; 2. maí 157914. mars 1632) var annar sjógun Tokugawa-veldisins og ríkti frá 1605 þar til hann sagði af sér árið 1623. Hann var þriðji sonur Tokugawa Ieyasu, fyrsta sjóguns Tokugawa-veldisins. Hann tók við af föður sínum þar sem elsti sonur Ieyasus, Tokugawa Nobuyasu, hafði verið tekinn af lífi vegna gruns um samsæri gegn föður þeirra og annar sonur hans var ættleiddur af Toyotomi Hideyoshi þegar hann var ungabarn.

Hidetada átti þannig að taka þátt í orrustunni við Sekigahara árið 1600 þar sem hann stjórnaði sextán þúsund manna her, en þeir lentu í átökum við Sanada-ættina og náðu því ekki til orrustunnar í tíma. Samband feðganna beið mikinn hnekki við þetta en Ieyasu sagði þó af sér og lét syni sínum embætti sjóguns eftir árið 1605 en hélt eftir öllum raunverulegum völdum.

Við afsögn föður síns varð Hidetada höfuð ættarveldisins. Hann giftist Oeyo af Oda-ættinni og átti tvo syni, Tokugawa Iemitsu og Tokugawa Tadanaga, og tvær dætur, Sen prinsessu og Masako. Í andstöðu við vilja föður síns gifti hann Sen dóttur sína Toyotomi Hideyori sem átti harma að hefna gegn Tokugawa-ættinni. Þegar kom að uppgjöri milli þeirra leiddi Hidetada ásamt föður sínum umsátur um Ósakakastala sem lyktaði með lífláti Hideyoris.

Eftir lát Ieyasus 1616 tók Hidetada fyrst við stjórnartaumunum fyrir alvöru. Hann styrkti Tokugawa-ættina enn í sessi með því að gifta dóttur sína, Masako, keisaranum Go-Mizunoo. Dóttir þeirra tók síðar við keisaratign í Japan sem Meishō keisaraynja.

Líkt og faðir hans sagði Hidetada af sér 1623 og lét syni sínum, Tokugawa Iemitsu, sjógunstitilinn eftir en hélt samt eftir raunverulegum völdum. Á þeim tíma hóf hann skipulegar ofsóknir gegn kristnum mönnum og kristni í Japan með því að neyða kristna lénsherra til að taka líf sitt, banna kristnar bækur og skipa öllum kristnum mönnum að láta af trú sinni opinberlega eða deyja ella.

Fyrirrennari:
Tokugawa Ieyasu
Sjógun
(1605 – 1623)
Eftirmaður:
Tokugawa Iemitsu