Fara í innihald

Íslenska

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Íslensku)
Íslenska
Málsvæði Íslandi
Heimshluti Norður-Evrópu
Fjöldi málhafa um 373.000[1][2]
Ætt Indóevrópsk[3][4]
 Germönsk
  Norðurgermönsk[4]
   Vesturnorrænt[4][5]
    Íslenska
Skrifletur Íslenska stafrófið
Opinber staða
Opinbert
tungumál
Fáni Íslands Ísland
Norðurlandaráð
Stýrt af Árnastofnun
Tungumálakóðar
ISO 639-1 is
ISO 639-2 ice og isl
SIL ICE
ATH: Þessi grein gæti innihaldið hljóðfræðitákn úr alþjóðlega hljóðstafrófinu í Unicode.

Íslenska er vesturnorrænt, germanskt og indóevrópskt tungumál sem er einkum talað og ritað á Íslandi og er móðurmál langflestra Íslendinga.[6] Það hefur tekið minni breytingum frá fornnorrænu en önnur norræn mál[6] og er skyldara norsku og færeysku en sænsku og dönsku.[3][4]

Ólík mörgum öðrum vesturevrópskum tungumálum hefur íslenskan ítarlegt beygingarkerfi. Nafnorð og lýsingarorð eru beygð jafnt sem sagnir. Fjögur föll eru í íslensku, eins og í þýsku, en íslenskar nafnorðabeygingar eru flóknari en þær þýsku. Beygingarkerfið hefur ekki breyst mikið frá víkingaöld, þegar Norðmenn komu til Íslands með norræna tungumál sitt.

Meirihluti íslenskumælenda býr á Íslandi, eða um 300.000 manns.[7] Um 8.000 íslenskumælendur búa í Danmörku, en þar af eru 3.000 nemendur. Í Bandaríkjunum eru talendur málsins um 5.000, og í Kanada 1.400. Stærsti hópur kanadískra íslenskumælenda býr í Manitoba, sérstaklega í Gimli, þar sem Vestur-Íslendingar settust að. Þó að 97% Íslendinga telji íslensku móðurmál sitt er tungumálið nokkuð í rénun utan Íslands. Þeir sem tala íslensku utan Íslands eru oftast aðfluttir Íslendingar, nema í Gimli þar sem íslenskumælendur hafa búið frá 1880.

Árnastofnun sér um varðveislu málsins og hýsir miðaldahandrit sem skrifuð voru á Íslandi. Auk þess styður hún rannsóknir á málinu. Frá 1995 hefur verið haldið upp á dag íslenskrar tungu þann 16. nóvember á hverju ári, sem var fæðingardagur Jónas Hallgrímssonar skálds.

Sögu íslenskunnar má skipta í þrjú skeið: fornmál til um 1350, miðmál frá 1350 til um 1550 (eða 1600), og nútímamál frá lokum miðmáls. Á þeim tíma sem hefur liðið hafa orðið talsverðar breytingar á tungumálinu, einkum á orðaforða og framburði, en lítt á málfræði. Breytingar þessar, einkum á orðaforða, má rekja til breyttra lifnaðarhátta, breytinga á samfélaginu, nýrrar tækni og þekkingar, sem og áhrifa annarra tungumála á íslensku, einkum ensku og dönsku.

Íslenska tilheyrir hinni germönsku grein indóevrópskra tungumála sem greindist snemma í norður-, austur- og vesturgermönsk mál.[3][4] Íslenska á rætur sínar að rekja til elsta stigs norðurgermanskra mála: frumnorrænu, sem töluð var á Norðurlöndum á árunum 200 til 800.[4]

Í kringum víkingaöld (frá árinu 793–1066) greindist norrænan svo í austur- (dönsku og sænsku) og vesturnorrænu (íslensku, norsku, færeysku og norn) og er íslenska því skyldari norsku og færeysku en sænsku og dönsku.[5][4] Þá fluttu norskir landnámsmenn með sér tungumál sitt þegar þeir settust að á Íslandi á 9. öld en þeir komu flestir frá Vestur-Noregi.[4]

Frumgermanska

Austurgermönsk tungumál

Vesturgermönsk tungumál

Frumnorræna →
Fornnorræna
Vestur-norræna

Íslenska

Færeyska

Norska

Austur-norræna

Danska

Sænska

Forníslenska

[breyta | breyta frumkóða]

Það er álitamál hvenær íslenskan sjálf hafi orðið til og útilokað að tímasetja það nákvæmlega: íslenskan og norskan fjarlægðust svo hægt og rólega og voru þau orðin talsvert ólík í kringum 1400 en eðlilegast væri að segja að íslenska hafi orðið sértungumál þegar orðinn var einhver ákveðinn munur á því og því norsku.[6][4]

Sumir landnámsmenn voru frá Bretlandseyjum af norrænum og keltneskum uppruna og einnig fluttu landnámsmenn með sér fólk frá Írlandi.[5][4] Þrátt fyrir það hafa áhrif Kelta á íslenskuna ekki verið mikil eru einskorðuð við tökuorð, mannanöfn og örnefni.[5][4]

Í forníslensku var raddað blísturshljóð /z/, sem afraddaðist og styttust forliggjandi sérhljóðar (Özur → ÖssurGizur → Gjissur). Milli 1100 og 1200 urðu sr-um (samanber vas → var og es → er).  

Þátíð fyrstu persónu eintölu framsöguháttar veikra sagna sem nú endar með -i endaði með -a (ek kallaðaég kallaði). Beygingarendingar fyrstu persónu viðtengingarháttar hafa sömuleiðis breyst í hvort tveggja eintölu sem fleirtölu. Viðtengingarháttur fyrstu persónu eintölu nútíðar endaði í fornmálinu á -a (þótt ek brjóta), en ekki -i (þótt ég brjóti) eins og í dag. Í fleirtölu endaði hann á -im en ekki -um. Enn fremur breyttist miðmyndarendingin úr -sk í -st (barðisk → barðist). 

Miðíslenska

[breyta | breyta frumkóða]
Dagaheiti
Heiðið heiti Kirkjuheiti Nútímaheiti
sunnudagur drottinsdagur sunnudagur
mánadagur annar dagur mánudagur
týsdagur þriðji dagur þriðjudagur
óðinsdagur miðvikudagur miðvikudagur
þórsdagur fimmti dagur fimmtudagur
frjádagur föstudagur föstudagur
þváttdagur/laugardagur laugardagur laugardagur

Íslenskt ritmál hefur lítið breyst síðan á 11. öld með þeim afleiðingum að Íslendingar geta enn í dag — með nokkurri æfingu — lesið forn rit á borð við Landnámu, Snorra-Eddu og Íslendingasögurnar. Samræmd stafsetning, og þó einkum nútímastafsetning, auðveldar lesturinn þó mikið, auk þess sem orðaforði þessara rita er heldur takmarkaður. Meiri breytingar hafa orðið á framburði, en minni breytingar hafa orðið á málfræði.

Helstu breytingar á framburði í miðíslensku voru meðal annars aukin notkun samhljóðaruna. Eftir 1300 var u skotið inn á undan -r-endingum (samanber maðrmaður) í auknum mæli. Svo breyttist framburður á samhljóðalklösunum -ll- og -nn- úr [lː] og [n:] í [tl] og [tn]. Svo önghljóðuðust mörg lokhljóð, samanber mikmig, barnitbarnið.

Breytingar á málfræði voru minni en samt markverð. Tvítalan hvarf úr málinu, sem tíðkaðist í fyrstu og annarri persónu persónufornafna, og varð fleirtala. Svo varð fleirtalan hátíðlegt mál, en þéranir tíðkast ekki enda eru ávörp tiltölulega óformleg í daglegum samskiptum.[3] Nokkrar sterkar sagnir fengu veikar beygingar, samanber hratt → hrinti, fólfaldi, hjalphjálpaði, en athyglisvert er að sterku beygingarnar eru enn notaðar í ákveðnu samhengi. Endingar sagna í annarri persónu breyttust líka, samanber ferrferð, slærslærð og lesslest, líklega vegna áhrifa frá fornafni annarrar persónu.

Orðaforði íslenskunnar hefur breyst töluvert í gegnum söguna. Fjöldi tökuorða hefur bæst við málið, en á stigi miðíslensku voru þau aðallega úr grísku og latínu (samanber orð eins og biblía, kirkja og prestur).[4] Á 12. öldinni voru tekin upp ný dagaheiti (fyrir áhrif frá Jóni Ögmundarsyni Hólabiskupi) ólíkt því sem var í öðrum germönskum málum. Heiðin heiti og heitin í dag eru tilgreind í töflunni til hægri.

Nútímaíslenska

[breyta | breyta frumkóða]

Á upphafsstigi nútímaíslensku fór straumur tökuorða að vaxa ört. Mikið var tekið af orðum úr latínu og síðar dönsku, og viðhorf til þeirra voru misjöfn. Á 19. öld tóku Fjölnismenn upp hreintungustefnu og reyndu að koma tökuorðum úr umferð í málinu. Þau bjuggu til nýyrði úr íslenskum eða forníslenskum orðhlutum en þessi hefð er enn lifandi í dag. Dönsk orð eins og bíginna „byrja“, bítala „borga fyrir“ og forsækja „reyna“ voru hreinsuð úr málinu og eru ekki lengur notuð í dag.

Á 20. öld varð hreintungustefna opinber ríkisstefna en Orðanefnd verkfræðinga var stofnuð árið 1919. Þessi var fyrsta nefndin sem hafði það að markmiði að skipuleggja nýyrðasmíði á formlegan hátt. Íslensk málnefnd var stofnuð árið 1964, en hún sá um nýyrðasmíði í miklum mæli og greip meðal annars til samstarfs við fjölmiðla til að koma nýyrðum sínum í umferð. Íslensk málnefnd sameinaðist nokkrum öðrum stofnunum árið 2006 og varð svo að Árnastofnun.

Í dag koma langflest tökuorð úr ensku, en þetta endurspeglast í minni stöðu dönskunnar á Íslandi á 21. öld. Auk þess hefur dregið mikið úr notkun íslenskra mállýska og tungumálið er orðið  samræmdara um landið allt. Þetta er í miklum mæli þéttbýlisþróun um að kenna, en áhrif fjölmiðlanna frá höfuðborgarsvæðinu gegna einnig hlutverki í þessu.

Hljóðfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Í íslensku eru bæði einhljóð og tvíhljóð. Samhljóð geta verið annaðhvort rödduð eða órödduð. Greinarmunurinn á samhljóðum er yfirleitt gerður með röddun, nema á lokhljóðum. Lokhljóðin b, d og g eru órödduð og eini munurinn á þeim og p, t og k er fráblástur. Á undan löngu p, t eða k er aðblástur, en ekki á undan löngu b, d eða g. Aðblásið tt-hljóð samsvarar samhljóðaklasanum cht á þýsku og hollensku (samanber nótt, dóttir og þýska Nacht, Tochter og hollenska nacht, dochter).

Samhljóð
Varamælt Tannmælt Gómmælt Gómfyllumælt Raddglufumælt
Nefhljóð m n ɲ̊ ɲ ŋ̊ ŋ
Lokhljóð [pʰ] p [tʰ] t [cʰ] c [kʰ] k
Önghljóð blístursmæld s
óblístursmæld f v θ ð ç j x ɣ h
Hliðarhljóð l
Sveifluhljóð r

Sérhljóð

[breyta | breyta frumkóða]
Einhljóð
Frammælt Uppmælt
ókringt kringt
Nálægt [i]   [u]
Nær-nálægt [ɪ] [ʏ]  
Hálffjarlægt [ɛ] [œ] [ɔ]
Fjarlægt [a]
Tvíhljóð
Frammælt Uppmælt
Miðlægt [ei][œi] [ou]
Fjarlægt [ai] [au]

Málfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Íslenska beygingarkerfið er flókið og hefur ekki breyst mikið frá forníslensku. Nafnorð og fornöfn beygjast í kyni, tölu og föllum. Kynin eru þrjú: karlkyn, kvenkyn og hvorugkyn. Í hverju kyni eru misjafnar beygingarmyndir. Föllin fjögur sem voru til í forníslensku hafa öll varðveist, en þau eru nefnifall, þolfall, þágufall og eignarfall. Lýsingarorð beygjast í kyni, tölu, föllum og þremur stigum (frumstigi, miðstigi og efsta stigi). Auk þess hefur hvert lýsingarorð sterka og veika beygingu. Ákveðinn greinir er skeyttur við nafnorð, eins og á hinum norrænu málunum, en enginn óákveðinn greinir er til á íslensku. Töluorðin einn, tveir, þrír og fjórir beygjast í kyni og föllum, en hin töluorðin eru óbeygð. Þérun er í rauninni útdauð í málinu, og er notuð aðeins í kaldhæðnum eða hátíðlegum tilgangi í dag.

Sagnkerfið á íslensku er margbrotið. Sagnir beygjast í tveimur tíðum, persónu, tölu, háttum og myndum. Tíðarnir eru tvær, eins og á öðrum germönskum málum: nútíð og þátíð. Persónurnar eru þrjár: fyrsta, önnur og þriðja. Sagnhættirnir eru þrír: framsöguháttur, viðtengingarháttur (sem horfin úr hinum norrænu málunum) og boðháttur. Svo eru sagnmyndirnar, en þær eru þrjár: germynd, miðmynd og þolmynd. Miðmyndin er frekar sérstök, en uppruni hennar liggur í afturbeygða fornafninu sig. Deilt er um hvort hún eigi að vera talin sagnmynd, því margar sagnir í miðmynd hafa öðruvísi merkingar en samsvarandi germyndarformin, t.d. geragerast, takatakast. Íslenskar sagnir geta verið annað hvort sterkar eða veikar, en stærri fjöldi íslenskra sagna eru veikar en á hinum germönsku málunum. Flokkun íslenskra sagna er mismunandi, en talið er að flokkarinar eru allt að 3 til 7. Langflestar íslenskar sagnir enda með -a í nafnhætti, en það er lítill hópur sagna sem endar á . Tvær sagnir enda með -u í nafnhætti, en þær eru munu og skulu. Svo eru undantekningarnar þvo (þvá á forníslensku) og ske (tökuorð úr dönsku).

Orðaröðin á íslensku er frumlag-sögn-andlag (FSA), en hún er frekar frjálsleg og næstum hvaða orðaröð sem er má nota í skáldamáli. Samt sem áður er sögnin oftast í öðru sæti í setningunni, eins og á öðrum germönskum málum.

Varðveisla

[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsar ástæður eru fyrir því hversu vel málið hefur varðveist. Hefðbundna skýringin er auðvitað einangrun landsins en líklega hefur fullmikið verið gert úr því og er sú skýring ein tæpast fullnægjandi. Önnur ástæða sem oft er nefnd er sú að málið hafi varðveist í skinnhandritunum, hvort sem var um afþreyingarbókmenntir að ræða eða fræði. Handritin hafi verið lesin og innihald þeirra flutt fyrir þá sem ekki voru læsir, þannig hafi mál þeirra varðveist og orðaforði handritanna haldist í málinu.

Enn fremur hafi lærðir Íslendingar skrifað að miklu leyti á móðurmálinu, allt frá því að Ari fróði og fyrsti málfræðingurinn skráðu sín rit, þess vegna hafi latínuáhrif orðið minni en víða annars staðar. Kirkjunnar menn á Íslandi voru líka fljótir að tileinka sér aðferðir Marteins Lúthers og Biblían var snemma þýdd á íslensku. Biblíur og önnur trúarrit voru því snemma til á íslensku á helstu fræðasetrum landsins og prestar boðuðu Guðs orð á íslensku. Þessa kenningu má helst styðja með því að bera okkur saman við þjóðir sem ekki áttu Biblíu á eigin tungu, til dæmis Norðmenn en þeir notuðust við danska Biblíu. Orsakir þeirrar þróunar sem varð á íslensku verða seint útskýrðar til hlítar en þeir þættir sem nefndir eru hér að ofan hafa allir haft einhver áhrif.

Margir Íslendingar telja íslenskuna vera „upprunalegra“ mál en flest önnur og að hún hafi breyst minna. Það er ekki alls kostar rétt og má í því sambandi nefna að íslenskan hefur einungis fjögur föll af átta úr indóevrópska frummálinu, á meðan flest slavnesk mál hafa sex föll og pólska sjö. Þýska hefur einnig fjögur föll eins og íslenska og varðveitt eru rit á fornháþýsku sem eru mun eldri en íslensku handritin eða frá áttundu öld. Í Grikklandi er enn töluð gríska, rétt eins og fyrir þrjú þúsund árum og svo má lengi telja. Grikkir geta þó ekki skilið forngrísku eins og Íslendingar skilja texta á forníslensku, því breytingarnar voru of miklar milli forn-, mið- og nýgrísku, vegna ýmissa mállýskna sem höfðu áhrif hver á aðra. Öll þessi mál eiga það þó sameiginlegt að hafa breyst að einhverju leyti og er íslenskan þar engin undantekning.

Mállýskur

[breyta | breyta frumkóða]

Ísland er talið nær mállýskulaust land og skiptist ekki greinilega upp í mállýskusvæði.[3] Ýmis svæðisbundin afbrigði mynduðust í málinu, þrátt fyrir hinar litlu breytingar, en deildar meiningar eru um hvort sá munur geti kallast mállýskumunur. Hingað til hefur yfirleitt verið einblínt á framburðarmun þó einnig hafi einhver munur verið á orðanotkun. Málvöndunarmenn á fyrri hluta tuttugustu aldar gengu hart fram í að útrýma flámæli, einkum vegna þess að það var talið geta raskað samræmi milli talmáls og ritmáls. Skólarnir voru meðal annars notaðir í þeim tilgangi.

Mállýskumunur hefur dofnað talsvert á Íslandi á tuttugustu öld og sumar framburðarmállýskurnar eru nánast horfnar úr málinu.

Helstu íslensku framburðarmállýskurnar eru skaftfellskur einhljóðaframburður, vestfirskur einhljóðaframburður, harðmæli og raddaður framburður, ngl-framburður, bð- og gð-framburður, hv-framburður og rn- og rl-framburður.

Íslenska utan Íslands

[breyta | breyta frumkóða]

Íslenska er töluð af áhugamönnum og fólki af íslensku bergi brotnu víðsvegar um heim. Mest var af íslenskumælandi fólki í Kanada (t.d. í Gimli í Manitoba), og Bandaríkjunum (til dæmis Norður-Dakota) en þangað fluttust stórir hópar Íslendinga (kallaðir Vesturfarar) við lok 19. aldar, en íslenskukunnátta er þar nú lítil meðal yngra fólks.

Merk rit, rituð á íslensku

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Þjóðskrá“. www.skra.is. Sótt 29. október 2023.
  2. „Íslendingar búsettir erlendis“. www.skra.is. Sótt 2023-11-2.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Íslenska: í senn forn og ný
  4. 4,00 4,01 4,02 4,03 4,04 4,05 4,06 4,07 4,08 4,09 4,10 4,11 „Hver er uppruni íslenska tungumálsins?“. Vísindavefurinn.
  5. 5,0 5,1 5,2 5,3 „Er íslenska elsta tungumál í Evrópu? Hve gömul er hún?“. Vísindavefurinn.
  6. 6,0 6,1 6,2 „Hvernig er hægt að skilgreina íslenska tungu?“. Vísindavefurinn.
  7. Ethnologue, 19. útgáfa. Tölur frá 2015.
  • Gyldendals Tibinds Leksikon. 1977. Aðalritstjóri: Jørgen Bang, cand. mag.. Gyldendalske Boghandel, Nordisk Forlag A.S. Kaupmannahöfn.
  • Heimir Pálsson. 1999. Frá lærdómsöld til raunsæis - Íslenskar bókmenntir 1550-1900. Vaka-Helgafell hf., Reykjavík.
  • Íslensk orðabók. 1985. Árni Böðvarsson ritstýrði. Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík.
  • Íslenska Alfræðiorðabókin A-G. 1990. Ritstjórar: Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Örn og Örlygur hf., Reykjavík.
  • Íslenska Alfræðiorðabókin H-O. 1990. Ritstjórar: Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Örn og Örlygur hf., Reykjavík.
  • Íslenska Alfræðiorðabókin P-Ö. 1990. Ritstjórar: Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir. Örn og Örlygur hf., Reykjavík.
  • Ívar Björnsson. [Útgáfuár óþekkt]. Málsaga fyrir framhaldsskóla. 2. útgáfa. Offsetfjölritun hf., Reykjavík.

Greinar um íslensku

Orðabækur

[breyta | breyta frumkóða]
Germönsk tungumál
Indóevrópsk tungumál
Tungumál: Afríkanska | Danska | Enska | Færeyska | Hollenska | Íslenska | Jiddíska | Lúxemborgska | Norska | Sænska | Þýska
Mállýskur: Alemanníska | Alsatíska | Flæmska | Frísneska | Nýlendualemanníska | Lágþýska | Limburgíska