Miðmynd

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Miðmynd (skammstafað sem mm. eða miðm.) þekkist á því að endingin -st (sem kallast miðmyndarending) bætist við germyndina (t.d. Jón klæddist). Á undan miðmyndarendingunni falla þó niður endingarnar -ur, -r og r-ð

  • Dæmi:
þú kemur → þú kemst

Miðmynd segir frá því hvað gerandi/gerendur gerir/gera við eða fyrir sjálfan/sjálfa sig, t.d. hann leggst, þeir berjast.

Fyrir kemur að germynd lítur út sem miðmynd, til dæmis þú stökkst út í lækinn. Til að greina á milli er hentugt að skipta um persónu eða tölu; þú stökkst út í lækinn - > ég stökk út í lækinn - sem leiðir í ljós germynd, þar sem endingin -st verður að vera í öllum persónum í miðmynd.

Frá fornmáli til nútímans[breyta | breyta frumkóða]

Miðmyndarendingin -st (-zt) í nýmáli er til orðin úr endingunni -sk í fornmáli en hún var komin af afturbeygða fornafninu sik (í nýíslensku sig). Í fyrstu persónu eintölu var endingin þó -mk, í fleirtölu -sk; síðar kom -sk í stað -mk í eintölu.

Á síðari hluta 13. aldar var miðmyndarendingin z orðin algeng og virðist tákna ts-hljóð. Á 14. öld virðist framburðurinn hafa verið orðinn -st eins og nú, en oft ritað -zt eða -zst:

  • Dæmi:
ek kollumk > köllumz> köllumst > kallast;
þú, hann kallask > kallaz > kallast;
vér kollumsk > köllumz > köllumst,
þér kallisk > kalliz > kallist,
þeir kallask > kallaz > kallast.

Jón Helgason prófessor segir í bók sinni Handritaspjall að elstu handrit af íslandi, þau sem ætla má að skrifuð séu nálægt aldamótunum 1200 og þar á undan, hafi ýms skýr auðkenni sem greini þau frá öllum öðrum. Meðal þeirra auðkenna er þetta: „Miðmyndarending er -sk eða -sc) og munur á nafnhætti at iþrasc (iðrast) og hluttaksorði (hafa) iþratsc.“

Merkingareinkenni miðmyndar[breyta | breyta frumkóða]

Miðmynd er þá þannig til komin, að afturbeygða fornafninu sik (nú sig) hefur verið skeytt við sögnina, einkum til þess að tjá hvað einhver gerir við sjálfan sig. Með orðum dr. Bjarnar Guðfinnssonar er þetta þannig, er hann tilfærir helsta merkingareinkenni miðmyndar:

„Sá, sem framkvæmir verknaðinn og verður fyrir honum, er sami maðurinn.“
  • Dæmi af þessu tagi er:
Maðurinn klæddist = maðurinn klæddi sjálfan sig (sig sjálfur) eða: Stórveldin hervæddust = hervæddu sig.

Dr. Björn talaði einnig um helsta merkingareinkenni miðmyndar, þegar hann lýsti henni með þeim orðum sem að framan greinir. Honum var auðvitað kunnugt um að miðmyndin hefur einnig annars konar merkingu, þótt sjaldgæfari sé. Er þá fyrst til að taka hvað menn gera hvor við annan.

  • Dæmi:
Mennirnir börðust = mennirnir börðu hvor annan, eða: Systkinin kysstust = systkinin kysstu hvort annað.

Er þá sagt að miðmyndin hafi gagnvirka merkingu.

Þá er ógetið hins þriðja. Miðmynd er stundum notuð í merkingu þolmyndar. Ef við segjum til dæmis, að hljóðið heyrist ekki eða hesturinn finnist ekki, þá meinum við að hljóðið „verði ekki heyrt“ og hesturinn „verði ekki fundinn.“ Hljóðið og hesturinn eru þarna „þolendur“ þess verknaðar sem um er að ræða. Enn getum við sagt með svipuðu tali: Dyrnar lokast, hurðin opnast.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Linguistics stub.svg  Þessi málfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.