Gordana Siljanovska-Davkova
Gordana Siljanovska-Davkova | |
---|---|
Гордана Силјановска-Давкова | |
Forseti Norður-Makedóníu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 12. maí 2024 | |
Forsætisráðherra | Talat Xhaferi Hristijan Mickoski |
Forveri | Stevo Pendarovski |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 11. maí 1953 Ohrid, Makedóníu, Júgóslavíu |
Þjóðerni | Norður-makedónsk |
Stjórnmálaflokkur | VMRO-DPMNE |
Börn | 2 |
Háskóli | Háskólinn í Ljubljana |
Gordana Siljanovska-Davkova (makedónska: Гордана Силјановска-Давкова; f. 11. maí 1953) er makedónskur háskólaprófessor og lögfræðingur sem er sjötti og núverandi forseti Norður-Makedóníu frá maí 2024. Hún var frambjóðandi í forsetakosningum landsins árið 2019 en tapaði fyrir Stevo Pendarovski í seinni umferð. Hún bauð sig aftur fram í forsetakosningunum 2024 og vann stórsigur gegn Pendarovski. Hún er fyrsti kvenforseti Norður-Makedóníu.
Æska og menntun
[breyta | breyta frumkóða]Gordana Siljanovska-Davkova fæddist þann 11. maí 1953 í Ohrid í Júgóslavíu (nú Norður-Makedóníu).[1] Hún lauk grunn- og framhaldsskólanámi í Skopje. Hún útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Heilags Kýrils og Meþodíosar í Skopje árið 1978 og hlaut jafnframt mastersgráðu sína þaðan. Hún varði lokaritgerð sína, sem bar titilinn Sjálfsstjórn sveitarfélaga – milli venja og veruleika, við Háskólann í Ljubljana og útskrifaðist með doktorsgráðu árið 1994.[1][2]
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Hún varð lektor í stjórnmálakerfum við lagadeildina í Skopje árið 1989 og dósent í stjórnlagarétti og stjórnmálakerfum árið 1994. Hún varð prófessor árið 2004 og hefur upp frá því kennt áfanga í stjórnlagarétti, stjórnmálakerfum og samtímastjórnkerfum og sjálfsstjórn sveitarfélaga. Hún var meðlimur í stjórnlaganefnd makedónska þingsins frá 1990 til 1992 og ráðherra án ráðuneytis í fyrstu ríkisstjórn Branko Crvenkovski frá 1992 til 1994.
Hún var jafnframt sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna og varaforseti sjálfstæðs sérfræðihóps Evrópuráðsins um sjálfsstjórnir sveitarfélaga. Hún var meðlimur í Feneyjanefndinni frá 2008 til 2016, þar sem hún sat í undirnefndum um lýðræðislegar stofnanir, dómsvald, Rómönsku Ameríku og nefnd um stjórnskipulegt réttlæti. Hún er höfundur um 200 fræðiritgerða um stjórnlagamál og stjórnmálakerfi.[3]
Á landsfundi stjórnmálaflokksins VMRO-DPMNE í Struga árið 2019 var Siljanovska-Davkova útnefnd frambjóðandi flokksins fyrir forsetakosningar Norður-Makedóníu sama ár.[4] Eftir útnefningu hennar lofaði hún því að ef hún ynni myndi hún kalla til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu og taka aftur upp fyrra nafn ríkisins (Lýðveldið Makedónía).[5] Hún tapaði fyrir Stevo Pendarovski.
Siljanovska bauð sig aftur fram í forsetakosningum Norður-Makedóníu árið 2024. Í þetta sinn sigraði hún sitjandi forsetann Pendarovski með miklum mun og varð fyrst kvenna til að ná kjöri til embættis forseta Norður-Makedóníu.[6]
Nokkrum dögum fyrir embættisvígslu sína mælti Siljanovska með endurskoðun á vináttusamningi Norður-Makedóníu og Búlgaríu frá árinu 2017 og gegn því að fjallað væri um Búlgara í stjórnarskrá landsins. Án þess að þetta skilyrði verði uppfyllt getur Norður-Makedónía ekki hlotið aðild að Evrópusambandinu.[7] Starfandi forsætisráðherra Búlgaríu, Dimitar Glavchev, lýsti því yfir að Búlgaría myndi ekki miðla málum frekar með Norður-Makedóníu.[8] Búlgarski forsetinn Rumen Radev svaraði því að nauðsynlegt væri að gera breytingar á norður-makedónsku stjórnarskránni til að vernda réttindi Búlgara og koma í veg fyrir hatursorðræðu gegn Búlgaríu.[9]
Forsetatíð
[breyta | breyta frumkóða]Siljanovska sór embættiseið sem forseti þann 12. maí 2024. Í innsetningarræðu sinni lofaði hún að „kvengera“ og „Evrópuvæða“ landið og lagði áherslu á hlutverk kvenna í Norður-Makedóníu. Hún olli hins vegar deilum þegar hún vísaði til landsins sem „Makedóníu“ fremur en með opinberu heiti þess, „Norður-Makedóníu“. Þetta leiddi til þess að gríski sendiherrann Sofía Fílíppídú gekk út af athöfninni í mótmælaskyni. Gríska utanríkisráðuneytið lýsti því í kjölfarið yfir að ummæli Siljanovska væru brot gegn Prespa-samkomulaginu og að þau stofnuðu sambandi ríkjanna tveggja og aðildarviðræðum Norður-Makedóníu við Evrópusambandið í hættu. Gríski forsætisráðherrann Kýríakos Mítsotakís kallaði ummælin „ólögleg og óásættanleg“. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, gagnrýndi einnig orðaval Siljanovska-Davkova og lagði áherslu á að Norður-Makedónía gæti aðeins hlotið ESB-aðild að því gefnu að Prespa-samkomulagið væri virt. Embætti Siljanovska-Davkova svaraði með því móti að hún myndi virða alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins en að hún hefði „rétt til að nota nafnið Makedónía í ljósi réttar til sjálfsskilgreiningar“.[10][11][12]
Eftir að VMRO-DPMNE vann flest sæti í þingkosningum Norður-Makedóníu árið 2024 bað Siljanovska-Davkova leiðtoga flokksins, Hristijan Mickoski, að mynda nýja ríkisstjórn þann 6. júní.[13]
Einkahagir og skoðanir
[breyta | breyta frumkóða]Hún er gift og á tvö börn.[14]
Frá 2017 til 2018 var Siljanovska-Davkova á móti lögum sem viðurkenndu stöðu albanska tungumálsins í landinu.[15] Hún lítur á Prespa-samkomulagið á milli Grikklands og Norður-Makedóníu til að leysa úr nafnadeilu ríkjanna sem „brot gegn landslögum“ og „alvarlegt brot á sameiginlegum og einstaklingsbundnum réttindum borgara Makedóníu“.[16]
Hún er á móti vináttusamningi landsins við Búlgaríu, sem Davkova telur ekki gagnkvæman, og er á móti viðurkenningu á Búlgörum sem opinberum þjóðernisminnihluta í Norður-Makedóníu, sem er skilyrði sem Evrópusambandið hefur sett fyrir aðild landsins.[17]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Македонска енциклопедија, том II. Скопје, Македонска академија на науките и уметностите, 2009. ISBN 978-608-203-024-1. стр. 1358. (á makedónsku).
- ↑ „Gordana Siljanovska-Davkova – North Macedonia's first female president“. Media Information Agency. 12. maí 2024. Sótt 13. maí 2024.
- ↑ Биографија на проф. д-р Гордана Силјановска-Давкова, официјален веб портал на Geymt 17 febrúar 2019 í Wayback Machine
- ↑ НМ (16. febrúar 2019). „ВМРО-ДПМНЕ ќе ја кандидира Силјановска-Давкова на претседателските избори“. Нова Македонија (makedónska). Sótt 19. júní 2023.
- ↑ „Силјановска ќе игра "втор референдум" за Договорот од Преспа“. dw.com (makedónska). Afrit af uppruna á 25. mars 2024. Sótt 19. júní 2023.
- ↑ „North Macedonia elects first woman president as center-left incumbents suffer historic losses“. Associated Press (enska). 9. maí 2024. Afrit af uppruna á 9. maí 2024. Sótt 9. maí 2024.
- ↑ Дневник (2. maí 2024). „ВМРО-ДПМНЕ ще иска промени в Договора за приятелство с България“. Dnevnik (búlgarska). Sótt 13. maí 2024.
- ↑ „Главчев за Северна Македония: Ние повече отстъпки няма накъде да правим“. dariknews.bg (búlgarska). 9. maí 2024. Sótt 13. maí 2024.
- ↑ „Радев: Скоро ще проличи дали Силяновска ще работи за европейската перспектива на РСМ“. БГНЕС: Новини от България и Света (búlgarska). 9. maí 2024. Sótt 13. maí 2024.
- ↑ „North Macedonia's new president reignites a spat with Greece at her inauguration ceremony“. Associated Press (enska). 12. maí 2024. Afrit af uppruna á 13. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
- ↑ „North Macedonia's new president reignites a spat with Greece at her inauguration ceremony“. The Washington Post (enska). 12. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
- ↑ „North Macedonia's new president seeks to sidestep disputes with EU neighbors“. Associated Press (enska). 14. maí 2024. Sótt 14. maí 2024.
- ↑ „North Macedonia's center-right leader given official mandate to form government after election win“. Associated Press. 6. júní 2024.
- ↑ „Која е Гордана Сиљановска- Давкова?“. Macedonian Radio Television (makedónska). 12. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
- ↑ „Сиљановска Давкова: Ваквото воведување на Законот за јазиците е ноторно кршење на Деловникот кој што е најважен акт на Собранието“. Kurir.mk (makedónska). Afrit af upprunalegu geymt þann 20. apríl 2019. Sótt 19. júní 2023.
- ↑ „North Macedonia's New President Prefers The Country's Old Name“. Radio Free Europe/Radio Liberty. 9. maí 2024. Afrit af uppruna á 12. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
- ↑ „Новият македонски президент подсказа: Политиката ще е против България - Новини от Actualno“. www.actualno.com (búlgarska). 9. maí 2024. Sótt 13. maí 2024.