Fara í innihald

Gordana Siljanovska-Davkova

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gordana Siljanovska-Davkova
Гордана Силјановска-Давкова
Siljanovska-Davkova árið 2024.
Forseti Norður-Makedóníu
Núverandi
Tók við embætti
12. maí 2024
ForsætisráðherraTalat Xhaferi
Hristijan Mickoski
ForveriStevo Pendarovski
Persónulegar upplýsingar
Fædd11. maí 1953 (1953-05-11) (71 árs)
Ohrid, Makedóníu, Júgóslavíu
ÞjóðerniNorður-makedónsk
StjórnmálaflokkurVMRO-DPMNE
Börn2
HáskóliHáskólinn í Ljubljana

Gordana Siljanovska-Davkova (makedónska: Гордана Силјановска-Давкова; f. 11. maí 1953) er makedónskur háskólaprófessor og lögfræðingur sem er sjötti og núverandi forseti Norður-Makedóníu frá maí 2024. Hún var frambjóðandi í forsetakosningum landsins árið 2019 en tapaði fyrir Stevo Pendarovski í seinni umferð. Hún bauð sig aftur fram í forsetakosningunum 2024 og vann stórsigur gegn Pendarovski. Hún er fyrsti kvenforseti Norður-Makedóníu.

Æska og menntun

[breyta | breyta frumkóða]

Gordana Siljanovska-Davkova fæddist þann 11. maí 1953 í Ohrid í Júgóslavíu (nú Norður-Makedóníu).[1] Hún lauk grunn- og framhaldsskólanámi í Skopje. Hún útskrifaðist frá lagadeild Háskóla Heilags Kýrils og Meþodíosar í Skopje árið 1978 og hlaut jafnframt mastersgráðu sína þaðan. Hún varði lokaritgerð sína, sem bar titilinn Sjálfsstjórn sveitarfélaga – milli venja og veruleika, við Háskólann í Ljubljana og útskrifaðist með doktorsgráðu árið 1994.[1][2]

Hún varð lektor í stjórnmálakerfum við lagadeildina í Skopje árið 1989 og dósent í stjórnlagarétti og stjórnmálakerfum árið 1994. Hún varð prófessor árið 2004 og hefur upp frá því kennt áfanga í stjórnlagarétti, stjórnmálakerfum og samtímastjórnkerfum og sjálfsstjórn sveitarfélaga. Hún var meðlimur í stjórnlaganefnd makedónska þingsins frá 1990 til 1992 og ráðherra án ráðuneytis í fyrstu ríkisstjórn Branko Crvenkovski frá 1992 til 1994.

Hún var jafnframt sérfræðingur Sameinuðu þjóðanna og varaforseti sjálfstæðs sérfræðihóps Evrópuráðsins um sjálfsstjórnir sveitarfélaga. Hún var meðlimur í Feneyjanefndinni frá 2008 til 2016, þar sem hún sat í undirnefndum um lýðræðislegar stofnanir, dómsvald, Rómönsku Ameríku og nefnd um stjórnskipulegt réttlæti. Hún er höfundur um 200 fræðiritgerða um stjórnlagamál og stjórnmálakerfi.[3]

Á landsfundi stjórnmálaflokksins VMRO-DPMNE í Struga árið 2019 var Siljanovska-Davkova útnefnd frambjóðandi flokksins fyrir forsetakosningar Norður-Makedóníu sama ár.[4] Eftir útnefningu hennar lofaði hún því að ef hún ynni myndi hún kalla til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu og taka aftur upp fyrra nafn ríkisins (Lýðveldið Makedónía).[5] Hún tapaði fyrir Stevo Pendarovski.

Siljanovska bauð sig aftur fram í forsetakosningum Norður-Makedóníu árið 2024. Í þetta sinn sigraði hún sitjandi forsetann Pendarovski með miklum mun og varð fyrst kvenna til að ná kjöri til embættis forseta Norður-Makedóníu.[6]

Nokkrum dögum fyrir embættisvígslu sína mælti Siljanovska með endurskoðun á vináttusamningi Norður-Makedóníu og Búlgaríu frá árinu 2017 og gegn því að fjallað væri um Búlgara í stjórnarskrá landsins. Án þess að þetta skilyrði verði uppfyllt getur Norður-Makedónía ekki hlotið aðild að Evrópusambandinu.[7] Starfandi forsætisráðherra Búlgaríu, Dimitar Glavchev, lýsti því yfir að Búlgaría myndi ekki miðla málum frekar með Norður-Makedóníu.[8] Búlgarski forsetinn Rumen Radev svaraði því að nauðsynlegt væri að gera breytingar á norður-makedónsku stjórnarskránni til að vernda réttindi Búlgara og koma í veg fyrir hatursorðræðu gegn Búlgaríu.[9]

Forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]
Forsetaskiptin 2024

Siljanovska sór embættiseið sem forseti þann 12. maí 2024. Í innsetningarræðu sinni lofaði hún að „kvengera“ og „Evrópuvæða“ landið og lagði áherslu á hlutverk kvenna í Norður-Makedóníu. Hún olli hins vegar deilum þegar hún vísaði til landsins sem „Makedóníu“ fremur en með opinberu heiti þess, „Norður-Makedóníu“. Þetta leiddi til þess að gríski sendiherrann Sofía Fílíppídú gekk út af athöfninni í mótmælaskyni. Gríska utanríkisráðuneytið lýsti því í kjölfarið yfir að ummæli Siljanovska væru brot gegn Prespa-samkomulaginu og að þau stofnuðu sambandi ríkjanna tveggja og aðildarviðræðum Norður-Makedóníu við Evrópusambandið í hættu. Gríski forsætisráðherrann Kýríakos Mítsotakís kallaði ummælin „ólögleg og óásættanleg“. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, gagnrýndi einnig orðaval Siljanovska-Davkova og lagði áherslu á að Norður-Makedónía gæti aðeins hlotið ESB-aðild að því gefnu að Prespa-samkomulagið væri virt. Embætti Siljanovska-Davkova svaraði með því móti að hún myndi virða alþjóðlegar skuldbindingar ríkisins en að hún hefði „rétt til að nota nafnið Makedónía í ljósi réttar til sjálfsskilgreiningar“.[10][11][12]

Eftir að VMRO-DPMNE vann flest sæti í þingkosningum Norður-Makedóníu árið 2024 bað Siljanovska-Davkova leiðtoga flokksins, Hristijan Mickoski, að mynda nýja ríkisstjórn þann 6. júní.[13]

Einkahagir og skoðanir

[breyta | breyta frumkóða]

Hún er gift og á tvö börn.[14]

Frá 2017 til 2018 var Siljanovska-Davkova á móti lögum sem viðurkenndu stöðu albanska tungumálsins í landinu.[15] Hún lítur á Prespa-samkomulagið á milli Grikklands og Norður-Makedóníu til að leysa úr nafnadeilu ríkjanna sem „brot gegn landslögum“ og „alvarlegt brot á sameiginlegum og einstaklingsbundnum réttindum borgara Makedóníu“.[16]

Hún er á móti vináttusamningi landsins við Búlgaríu, sem Davkova telur ekki gagnkvæman, og er á móti viðurkenningu á Búlgörum sem opinberum þjóðernisminnihluta í Norður-Makedóníu, sem er skilyrði sem Evrópusambandið hefur sett fyrir aðild landsins.[17]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 Македонска енциклопедија, том II. Скопје, Македонска академија на науките и уметностите, 2009. ISBN 978-608-203-024-1. стр. 1358. (á makedónsku).
  2. „Gordana Siljanovska-Davkova – North Macedonia's first female president“. Media Information Agency. 12. maí 2024. Sótt 13. maí 2024.
  3. Биографија на проф. д-р Гордана Силјановска-Давкова, официјален веб портал на Geymt 17 febrúar 2019 í Wayback Machine
  4. НМ (16. febrúar 2019). „ВМРО-ДПМНЕ ќе ја кандидира Силјановска-Давкова на претседателските избори“. Нова Македонија (makedónska). Sótt 19. júní 2023.
  5. „Силјановска ќе игра "втор референдум" за Договорот од Преспа“. dw.com (makedónska). Afrit af uppruna á 25. mars 2024. Sótt 19. júní 2023.
  6. „North Macedonia elects first woman president as center-left incumbents suffer historic losses“. Associated Press (enska). 9. maí 2024. Afrit af uppruna á 9. maí 2024. Sótt 9. maí 2024.
  7. Дневник (2. maí 2024). „ВМРО-ДПМНЕ ще иска промени в Договора за приятелство с България“. Dnevnik (búlgarska). Sótt 13. maí 2024.
  8. „Главчев за Северна Македония: Ние повече отстъпки няма накъде да правим“. dariknews.bg (búlgarska). 9. maí 2024. Sótt 13. maí 2024.
  9. „Радев: Скоро ще проличи дали Силяновска ще работи за европейската перспектива на РСМ“. БГНЕС: Новини от България и Света (búlgarska). 9. maí 2024. Sótt 13. maí 2024.
  10. „North Macedonia's new president reignites a spat with Greece at her inauguration ceremony“. Associated Press (enska). 12. maí 2024. Afrit af uppruna á 13. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
  11. „North Macedonia's new president reignites a spat with Greece at her inauguration ceremony“. The Washington Post (enska). 12. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
  12. „North Macedonia's new president seeks to sidestep disputes with EU neighbors“. Associated Press (enska). 14. maí 2024. Sótt 14. maí 2024.
  13. „North Macedonia's center-right leader given official mandate to form government after election win“. Associated Press. 6. júní 2024.
  14. „Која е Гордана Сиљановска- Давкова?“. Macedonian Radio Television (makedónska). 12. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
  15. „Сиљановска Давкова: Ваквото воведување на Законот за јазиците е ноторно кршење на Деловникот кој што е најважен акт на Собранието“. Kurir.mk (makedónska). Afrit af upprunalegu geymt þann 20. apríl 2019. Sótt 19. júní 2023.
  16. „North Macedonia's New President Prefers The Country's Old Name“. Radio Free Europe/Radio Liberty. 9. maí 2024. Afrit af uppruna á 12. maí 2024. Sótt 12. maí 2024.
  17. „Новият македонски президент подсказа: Политиката ще е против България - Новини от Actualno“. www.actualno.com (búlgarska). 9. maí 2024. Sótt 13. maí 2024.