Gent

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gent
Skjaldarmerki Gent
Staðsetning Gent
LandBelgía
HéraðAustur-Flæmingjaland
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriMathias De Ciercq
Flatarmál
 • Samtals157,77 km2
Mannfjöldi
 (2022)
 • Samtals265.086
 • Þéttleiki1.700/km2
TímabeltiUTC +1 / UTC +2 (sumar)
Vefsíðagent.be

Gent er borg í Belgíu og jafnframt höfuðborg héraðsins Austur-Flæmingjalands. Með 260 þúsund íbúa (2018) er hún ennfremur næststærsta borgin í Belgíu á eftir Antwerpen. Gent er fæðingarborg Karls V keisara og var á sínum tíma stórborg í Evrópu.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Gent (franska: Gand) stendur við samflæði ánna Schelde og Leie vestarlega í Belgíu. Næstu stærri borgir eru Kortrijk til suðvesturs (45 km), Brussel til suðausturs (50 km), Brugge til norðvesturs (50 km) og Antwerpen til norðausturs (50 km). Hollensku landamærin eru aðeins 20 km til norðurs, en Norðursjór 60 km til vesturs. Í Gent er mikil höfn sem er tengd skipaskurðinum Gent-Terneuzen. Á honum komast stór hafskip norður til Oosterschelde í Sjálandi og þaðan til sjávar.

Fáni og skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Fáni Gent sýnir hvítt ljón (gulllitað áður), með gular klær og rauðri tungu. Á höfðinu er kóróna og um hálsinn gul ól með krossi. Ljónið er merki greifanna af Flæmingjalandi fyrr á öldum og á uppruna sinn líklega á 13. öld. Krossinn táknar líklega postulann Jóhannes sem er verndardýrðlingur borgarinnar. Skjaldarmerkið sýnir sama ljón, nema hvað það er dökkt. Skjöldurinn var áður með skjaldarbera og önnur merki, sem nú hafa horfið. Ungfrúin, grindverkið, síðara ljónið og fáninn bættust við 1990. Seint á 14. öld átti Gent í alvarlegum erjum við borgina Brugge. Í söngi sem saminn var eftirá birtist ungfrúin og ljón í garði sem hetjur Gent. Síðan þá hefur þetta merki komið fram víða í borginni og nú síðast í skjaldarmerkinu.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Gent er dregið af keltneska orðinu Gond, sem merkir rennandi vatn. Þegar germanir settust að á svæðinu tóku þeir nafnið hljóðfræðilega upp og kölluðu bæinn Ganda. Úr því varð svo Gent með tímanum. Borgin heitir enn Gand á frönsku, en Ghent á ensku. Gent er gjarnan kölluð Blómaborgin vegna þess að hún liggur á svæði þar sem mikil blómarækt er stunduð. Gælunafn borgarbúa er Stroppendragers (snöruberar) eftir að Karl V keisari braut á bak aftur uppreisn þeirra um miðja 16. öld og lét borgarbúa ganga um götur borgarinnar með snörur um hálsinn.

Saga Gent[breyta | breyta frumkóða]

Stórborgin Gent[breyta | breyta frumkóða]

Fundist hafa rómverskar menjar víða í Gent, þannig að Rómverjar munu hafa verið á svæðinu á fyrstu öldum tímatalsins. Í kringum 400 fluttust frankar á svæðið og settust þar að. Á 7. öld voru tvö klaustur stofnuð í Gent, sem þá var orðin álitlega stór. Tvisvar á 9. öld sigldu víkingar upp Schelde og eyddu byggðunum þar, fyrst 851. Víkingar sátu í mörg ár við bakka Schelde og eyddu byggðinni aftur 879. Það var Baldvin hinn sköllótti sem reisti sér virki seint á 9. öld á stað sem í dag er Gent. Við það þéttist byggðin í kring og Gent myndaðist sem bær. Gent óx hratt. Aðalatvinnuvegur borgarinnar var vefnaðariðnaður og var ull í miklum mæli innflutt frá Englandi og Skotlandi. Eftir tvo mikla borgarbruna á 12. öld (1120 og 1128) myndaðist mikið pláss fyrir betra byggingarskipulag. Auk þess hlaut borgin stóra og mikla borgarmúra. Á 13. öld voru íbúar orðnir allt að 60 þús og fjölgaði enn. Á þeim tíma var Gent orðin að næststærstu borg Evrópu norðan Alpa (á eftir París).

Síðmiðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Gent var aðalaðsetur greifanna af Flæmingjalandi (Vlaanderen). Borgarbúum var þó meinilla við yfirvald greifanna og gerðu nokkrum sinnum uppreisn gegn þeim með góðum árangri. Gent varð því að nokkurs konar borgríki innan Flæmingjalands. Þegar Búrgund erfði Niðurlönd öll á 15. öld neituðu borgarbúar að viðurkenna hertogann af Búrgund sem yfirvald sitt. Í orrustunni við Gavere 1453 sigraði hertoginn af Búrgund, Filippus III hinn góði, borgarherinn. Allt að 16 þús hermenn frá Gent létu lífið. Þetta þýddi talsverða röskun á efnahag og stjórn borgarinnar. Vægi Niðurlanda færðist yfir til Brabant og fóru nokkrar borgir framúr Gent hvað íbúatölu og efnahag skiptir (t.d. Antwerpen). Þegar Habsborg erfði Niðurlönd gerði Gent árið 1485 aðra tilraun til uppreisnar gegn Maximilian keisara, en án árangurs.

Habsborg[breyta | breyta frumkóða]

Karl V keisari refsaði borgarbúum harðlega 1536. Málverk eftir Tiziano.

Karl V keisari fæddist í Gent árið 1500. Þrátt fyrir það neituðu borgarbúar að styðja hann í stríði gegn Frans I Frakklandskonungi um yfirráð á Norður-Ítalíu árið 1536. Neitunin fór samfara almennri uppreisn gegn sköttum og öðrum yfirráðum. Karl gekk þegar í stað milli bols og höfuðs uppreisnarmönnum í heimaborg sinni. Nokkrir helstu leiðtogar uppreisnarmanna voru teknir af lífi. Aðrir voru látnir ganga um götur borgarinnar í iðrunarklæðum og snöru um hálsinn, biðjandi um náð og fyrirgefningu. Auk þess varð borgin að greiða háar sektir og hlýta strangari lögum. Eitt klaustranna var rifið og reist nýtt virki sem spænskur her fékk afnota af. Herinn átti að gæta aga borgarbúa og sjá til þess að engar frekari uppreisnir ættu sér stað. Þótt Gent væri ekki lengur efnaðasta borg Niðurlanda, var hún þó enn stórborg síns tíma. Á þessum tíma átti Karl keisari að hafa sagt: ‚Je mettrai Paris dans mon Gant/-d.‘ (‚Ég gæti sett París í hanskann minn / Gent mína‘ (Gant er hanski á frönsku, en Gand er franska heiti borgarinnar).

Sjálfstæðisstríð Niðurlanda[breyta | breyta frumkóða]

1556 erfði Filippus II Spán og Niðurlönd eftir Karl V keisara, föður sinn. Við þessar fréttir urðu siðaskiptamenn á Niðurlöndum órólegir, enda var Filippus rammkaþólskur. Þeir hófu almenna uppreisn gegn yfirvaldinu. Í Gent kom til átaka milli Kalvínista og kaþólikka, og höfðu hinir síðarnefndu betur til að byrja með. Í kjölfarið stjórnuðu kaþólikkar borginni með harðri hendi, ekki síst er uppreisn Niðurlendinga varð að algeru sjálfstæðisstríði 1568. Í því tókst Vilhjálmi af Óraníu að ná yfirráðum yfir Gent. 1576 hittust fulltrúar héraðanna Sjálands, Hollands og Flæmingjalands í Gent og gerðu með sér samning (Pacificatie van Gent), þar sem þeir hétu því að styðja hver annan í því að hrekja Spánverja úr löndum sínum. Meðan samningamenn sátu enn í Gent, lögðu Spánverjar nágrannaborgina Antwerpen í rúst. Aðeins ári síðar neyddist Jóhann af Austurríki, landstjóri Spánverja á Niðurlöndum og yngri bróðir Filippusar konungs, að samþykkja þennan samning. Á því ári, 1577, varð Gent að kalvínísku borgríki og stóð það til 1584. Á þeim tíma var háskóli borgarinnar stofnaður. 17. ágúst 1584 náði hertoginn af Parma, Alessandro Farnese, að hertaka Gent fyrir Spán. Allir Kalvínistar flúðu borgina og fóru þeir flestir til Hollands. Gent var í framhaldi af því í föstum höndum Spánverja, sem komu kaþólskri trú aftur á, og varð borgin ekki hluti af nýstofnuðu ríki Hollendinga.

Frakkar[breyta | breyta frumkóða]

Bretar og Bandaríkjamenn undirrita friðarsamninga í Gent 1814

Afleiðingin af spænskri hertöku Gent var efnahagsleg kreppa. Allur iðnaður gekk tilbaka og fólkfjöldinn fór úr 50 þús niður í 30 þús fram á 18. öld. Það reyndist auðvelt fyrir franskan her að hertaka Gent 1745 í austurríska erfðastríðinu, en franski herinn samanstóð aðeins af 5 þús hermönnum. Borginni var þó skilað í stríðlok 1748. Þá lokaðist aðgengi borgarinnar að Westerschelde vegna framburðar og grynninga í ánni Leie. Þetta breyttist ekki fyrr en að skipaskurður var grafin til borgarinnar Brugge, en þaðan var hægt að sigla til Norðursjávar. 1794 hertóku Frakkar Gent á nýjan leik. Íbúar voru þá aftur orðnir rúmlega 50 þús. Sökum hafnbanns Breta á franskar hafnir á Napoleontímanum varð mikil uppsveifla í atvinnuvegum borgarinnar og reyndist aðgengið að Norðursjó í gegnum Brugge nú dýrmætt. Þúsundir manna fluttu til Gentar, þar á meðal margir gyðingar. Eftir brotthvarf Frakka 1814 hittust fulltrúar Bretlands og Bandaríkjanna í Gent og undirrituðu friðarsáttmálann sem kenndur er við Gent. Löndin höfðu háð verslunarstríð frá 1812, en við friðarsamningnum var ástand ríkjanna óbreytt. Eftir að Napoleon slapp frá eyjunni Elbu flúði Loðvík XVIII til Gentar og dvaldi þar, þar til Napoleon beið lægri hlut í orrustunni við Waterloo. 1815 varð Gent hluti af nýstofnuðu konungsríki Niðurlanda.

Iðnbylting[breyta | breyta frumkóða]

Strax 1827 lét Gent setja upp gasljós til að lýsa upp götur borgarinnar og var hún þarmeð fyrsta borgin í núverandi Belgíu sem það gerði. Sett voru upp 700 luktir. Gent tók ekki þátt í belgísku uppreisninni 1830, en lenti engu að síður í Belgíu þegar landið splittaði sig frá Hollandi. Á 19. öld varð Gent einnig fyrsta borgin á meginlandi Evrópu þar sem iðnbyltingin skaut rótum. Aðaliðnaðurinn var vefnaður með nýjum spunavélum, en fyrsta vélin var smygluð inn frá Englandi. Borgin varð á tímabili stærsta borg núverandi Belgíu, áður en Antwerpen fór fram úr aftur. Til að skapa betra aðgengi að sjó var skipaskurðurinn Gent-Terneuzen grafinn, þannig að aftur var hægt að sigla til Westerschelde. Skipaskurðurinn er enn í notkun í dag. Í Gent mynduðust einnig fyrstu nútíma verkalýðsfélög Belgíu. Upp úr 1860 voru borgarmúrarnir rifnir niður til að skapa meira pláss fyrir íbúðarsvæði og iðnað. Borgin var vel í stakk búin til að halda heimssýninguna 1913.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Þjóðverjar hertóku Gent í heimstyrjöldunum báðum á 20. öld. Borgin slapp þó við loftárásir, þannig að nánast allar gamlar byggingar sluppu við skemmdir á styrjaldarárunum. 1977 sameinuðust nær öll nágrannasveitarfélög Gent, þannig að íbúatalan nánast tvöfaldaðist. Í einu vettfangi varð Gent því næststærsta borg Belgíu (á eftir Antwerpen).

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Iðrunarganga borgarbúa. Snörurnar eru á sínum stað um háls göngumanna.

Í Gent eru ýmsar stórar tónlistarhátíðir haldnar. Þar á meðal:

  • Festival van Vlaanderen er tónlistarhátíð sem haldin er árlega í ýmsum borgum í Flæmingjalandi, þar á meðal í Gent. Aðaltónlistin er klassík og kirkjutónlist.
  • Gentse Feesten er eingöngu er haldin í Gent. Hún er tíu daga að lengd og er ávallt haldin í júlí. Leikin er þá tónlist á götum úti og á sviðum. Hátíð þessi hefur þróast í að vera ein allra stærsta alþýðuhátíð Evrópu. Meðan hátíðin stendur yfir ganga hundruðir íbúa Gentar um götur í iðrunarklæðum og með snöru um hálsinn. Þessi hefð er til að minnast niðurlægingu borgarbúa þegar Karl V keisari hertók borgina 1536 og refsaði íbúunum fyrir uppreisn þeirra.
  • Gent Jazz er djasshátíð.
  • I Love Techno er tileinkuð raftónlist. 40 þús manns sækja hátíðina heim og koma þeir frá ýmsum nágrannalöndum Belgíu.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er KAA Gent sem þrisvar hefur orðið belgískur bikarmeistari (1964, 1984 og 2010).

Sex daga keppnin er alþjóðleg hjólreiðakeppni sem árlega fer fram í Gent. Þetta er liðakeppni, þar sem tveir hjólreiðakappar mynda eitt lið. Hjólað er innanhúss á hringlaga braut og er, eins og nafnið gefur til kynna, sex daga langt.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Gent viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Graslei er gamli miðborgarkjarninn í Gent
  • Graslei er hinn sögulegi miðbær borgarinnar Gent. Hér er um ána Leie að ræða, ásamt götunni Korenlei sitthvoru megin. Gömlu húsin við götuna eru orðin mörg hundruð ára gömul, en fengu ærlega andlitslyftingu fyrir heimssýninguna 1913.
  • Dómkirkjan í Gent (Sint-Baafskathedraal) er höfuðkirkja miðborgarinnar í Gent. Kirkjan reis á grunni eldri kirkju og var vígð 942, en stækkuð til muna á 11. öld. Hún var enn stækkuð á 14.-16. öld. Árið 1500 var Karl V keisari skírður í þessari kirkju. Kirkjan var ekki fullkláruð fyrr en 1569, en þá var turninn einnig reistur. Mörg listaverk eru í kirkjunni, það elsta frá 8. öld. Þekktasta listaverkið er háaltarið, en altaristöfluna málaði Jan van Eyck. Klukkuturn kirkjunnar er á heimsminjaskrá UNESCO.
  • Nikulásarkirkjan (Sint-Niklaaskerk) er eitt helsta kennileiti borgarinnar Gent. Hún reis á 13. öld í gotneskum stíl. Kirkjan var mjög vinsæl meðal gildanna, en meðlimir þeirra reistu sér hinar og þessar kapellur innan kirkjunnar, sérstaklega á 14. og 15. öld. Turninn þjónaði sem klukkuturn og útsýnisturn, en klukkurnar voru færðar í nýja klukkuturn dómkirkjunnar þegar hann var fullkláraður á 16. öld.
  • Gravensteen (Greifasteinn) er gamla kastalavirki greifanna af Flæmingjalandi og er jafnframt einn allra stærsti vatnakastali Evrópu. Hann reis á tímum Karlamagnúsar og liggur við ána Leie. Talið er að víkingar hafi setið þar í upphafi. 1128 var kastalinn eyðilagður í umsátri. Hann var endurreistur 1180-1200 og sátu þar greifarnir af Flæmingjalandi í margar aldir. 1407-1708 var kastalinn notaður sem dómshús, en borgarráð hafði einnig aðstöðu í honum. Þá var sett í hann dýflissa og pyntingarklefi. 1780 var kastalanum breytt í vefnaðarverksmiðju. Á 19. öld stóð til að rífa kastalann, en borgin stöðvaði gjörninginn og keypti hann. Í dag er kastalinn sögusafn, en þar er vopnasafn, pyntingarsafn og dómssafn.
  • Het Groot Begijnhof (Stóra Begínuhverfið) í Gent. Það var ekki reist fyrr en síðla á 19. öld þegar eldra Begínuhverfið í borginni var yfirgefið. Þrátt fyrir þennan unga aldur var hverfið sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1998, eins og önnur slík hverfi á Niðurlöndum.

Gallerí[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]