Fara í innihald

Greifswald

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Greifswald
Skjaldarmerki Greifswald
Staðsetning Greifswald
SambandslandMecklenborg-Vorpommern
Flatarmál
 • Samtals50,5 km2
Hæð yfir sjávarmáli
0−5 m
Mannfjöldi
 • Samtals59.232 þúsund (2.019)
 • Þéttleiki1.081/km2
Vefsíðawww.greifswald.de

Greifswald er borg í þýska sambandslandinu Mecklenborg-Vorpommern og er með 59 þúsund íbúa (2019). Greifswald er háskólaborg.

Miðborgin í Greifswald. Fyrir miðju er Nikulásarkirkjan. Rauða húsið er ráðhúsið.

Greifswald liggur í norðurhluta Vorpommern, nær alveg við Eystrasalt. Hún er suðvestan við hafnaborgina Stralsund. Borgarhlutarnir Wieck og Eldena liggja við Dänische Wieck (Dönsku víkina), vík inn úr Eystrasalt.

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar sýnir rautt griffón, sem er örn að framan en ljón að aftan. Fyrirbæri þetta heitir Greif á þýsku og er einkennismerki Pommern. Griffónið stendur á tré, en skógur myndar seinni hluta heitisins Greifswald.

Borgin heitir eftir ævintýraverunni griffón, sem er Greif á þýsku. Eldri ritháttur borgarinnar er Pripheswald og Grypswold (Gryps er latneska heitið). Endingin –wald merkir skógur.[1]

Saga Greifswald

[breyta | breyta frumkóða]

Greifswald myndaðist í kringum klaustrið Eldena um miðja 13. öld. Bærinn óx svo hratt í fyrstu að hann hlaut almenn borgarréttindi 1250. Skömmu seinna gekk borgin í Hansasambandið. Ekki er vitað hvenær það gerðist en á skjali frá 1278 kemur fram að Greifswald sé meðlimur sambandsins. Borgin var í eigu hertoganna af Pommern, sem oftar en ekki átti í útistöðum og deilum við greifanna í Mecklenborg. Í þakklætisskyni fyrir góðan stuðning, stofnaði hertoginn í Pommern, Wartislaw IX, háskóla í borginni. Greifswald varð þar með einn allra minnsta borgin í þýska ríkinu með háskóla.

Siðaskipti og stríð

[breyta | breyta frumkóða]
Greifswald 1652. Mynd eftir Matthäus Merian

1531 verða siðaskiptin í borginni. Farandpresturinn Johannes Knipstro hóf að predika lúterstrú og breiddist hún hratt og nær án andstöðu út í borginni. 1626 lét hertoginn Bogislaw XIV gera sérstök varnarvirki umhverfis borgina, enda geysaði 30 ára stríðið í landinu. Ári seinna veiktist Bogislaw og yfirgaf Pommern. Wallenstein stóð við borgardyrnar 20. nóvember 1627 og hertók Greifswald fyrirhafnarlaust. Þar kom hann á grimmilegri stjórn með nauðung og ofríki. Næstu fimm árin fækkaði borgarbúum um helming. 1631 birtist Gústaf Adolf II við borgardyrnar. Eftir snarpa bardaga við keisaraherinn náðu Svíar að frelsa borgina. Svíar hertóku Pommern og réðu borginni Greifswald næstu 184 árin. Hertoginn í Brandenborg reyndi að hrifsa borgina til sín og 1678 náði hann að hertaka hana. Hann hélt henni þó aðeins í tæpt ár áður en Svíar náðu að taka hana til baka. Enn í dag eru nokkrar fallbyssukúlur frá þessum tíma fastar í borgarveggjunum. Í Norðurlandaófriðinum mikla var borgin neydd til að taka inn hermenn frá Danmörku, Saxlandi og Rússlandi til skiptis. Í 7 ára stríðinu sprakk vopnageymsla í borginni og olli gríðarlegu tjóni. Heilu hverfin eyðilögðust í sprengingunni og eldunum sem af henni hlutust.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]
Hafnarinnsiglingin

Frakkar hertóku Greifswald í Napoleonstríðunum og heldu borginni frá 1807-1810. Þeir voru aftur í borginni veturinn 1812-13 meðan Napoleon fór í herferð til Rússlands. En eftir fall Napoleons úrskurðaði Vínarfundurinn að Svíar skyldu missa Pommern. Greifswald varð því prússnesk. Sem slík kom borgin lítið við sögu eftir það. Iðnaður náði ekki að þróast eins mikið og í öðrum borgum og litla höfnin lenti undir í samkeppni við stærri hafnir, svo sem Rostock og Szczecin. Í lok heimstyrjaldarinnar síðari hertóku Sovétmenn borgina bardagalaust. Það var ekki fyrr en borgin varð hluti af Austur-Þýskalandi að hún náði að dafna. Íbúafjöldinn fór mest í 68 þús árið 1988, en minnkaði talsvert eftir sameiningu Þýskalands 1990.

Viðburðir

[breyta | breyta frumkóða]

Nordischer Klang er heiti á stærstu menningarhátíð um Norðurlönd í norðurhluta Evrópu, utan Norðurlanda. Þar fá listamenn Norðurlanda að flytja eigin tónlist, lesa úr ritum sínum, sýna kvikmyndir og sýna aðrar listir. Árið 2008 var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra (menningarmálaráðherra skv. þýskum heimildum), verndari hátíðarinnar.

Greifswalder Bachwoche er tónlistarhátíð sem helgar sig tónskáldinu Johann Sebastian Bach. Festspiele Mecklenburg-Vorpommern er önnur tónlistarhátíð sem fram fer í ýmsum borgum í sambandslandinu, þar á meðal í Greifswald.

Greifswald viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Rústir klaustursins Eldena
  • Nikulásarkirkjan er einkennisbygging borgarinnar. Hún kemur fyrst við skjöl 1263 og er breytt í dómkirkju 1457. Turninn er tæplega 100 metra hár. Í 60 metra hæð er útsýnispallur. Tvisvar hefur turninn hrunið, 1515 og 1650, bæði vegna storms. Seinna skiptið lenti hann á kirkjuskipinu og urðu skemmdir talsverðar. Kirkjan hefur verið stanslaust í notkun til dagsins í dag.
  • Eldena-klaustrið eru einungis rústir í dag. Það var reist á 12. öld við sjávarsíðuna, gegnt eyjunni Rügen, af furstanum Jaromar I. Klaustrið hét upphaflega Hilda, en vegna nálægðar við þorpið Eldena breyttist heitið brátt í Eldena. Klaustrið átti stóran þátt í að kristna slavneska íbúa Pommern. Það átti líka sinn þátt í stofnun borgarinnar Greifswald. Þegar siðaskiptin urðu 1525 breytti Philipp I hertogi af Pommern klaustrinu í herragarð. Hann skemmdist hins vegar töluvert í 30 ára stríðinu, þannig að 1634 var hann gefinn háskólanum. Þegar Svíar tóku Pommern, notuðu þeir grjótið í varnarmúra, þannið að upp frá því er gamla klaustrið einungis rústir einar. Á 7. áratug 20. aldar voru rústirnar lagfærðar, þannig að hægt var að nota svæðið í kring fyrir menningarviðburði.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 116.