Frjálslyndi flokkurinn (Ísland, 1998–2012)
Frjálslyndi flokkurinn | |
---|---|
Fylgi | 2,2%¹ |
Stofnár | 1998 |
Lagt niður | 2012 |
Gekk í | Dögun |
Stjórnmálaleg hugmyndafræði |
Frjálslyndisstefna[1] |
Einkennislitur | ljósblár |
Listabókstafur | F |
¹Fylgi á síðustu Alþingiskosningum 2009 |
- Tveir aðrir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa heitið Frjálslyndi flokkurinn: Frjálslyndi flokkurinn (1) (1926-1929) og Frjálslyndi flokkurinn (2) (1973-1974).
Frjálslyndi flokkurinn var íslenskur stjórnmálaflokkur, stofnaður árið 1998. Flokkurinn fékk tvo þingmenn í kosningunum 1999, fjóra í kosningunum 2003 og 2007 en fékk ekki fulltrúa í kosningunum 2009. Árið 2012 var flokkurinn laggður niður og sameinaðist hann og Hreyfingin í stjórnmálaflokkinn Dögun sem að bauð fram í kosningnum 2013, 2016 og 2017 en náði inn engum þingmanni og var formlega lögð niður árið 2021.
Meginstefnumál flokksins var barátta fyrir breytingum á núverandi kvótakerfi í stjórnun fiskveiða við Ísland en einnig áherslur á að setja hömlur á flæði innflytjenda inn í landið. Helsta vígi Frjálslynda flokksins var á Vestfjörðum sem eru hluti Norðvesturkjördæmis. Flokkurinn sótti fylgi út um allt land.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður af Sverri Hermannssyni, fyrrverandi þingmanni Sjálfstæðisflokksins og bankastjóra Landsbankans, í nóvember 1998. Meðal helstu baráttumála var að breyta fiskveiðistjórn, umhverfisvernd, sér í lagi á hálendi Íslands og að varðveita velferðarkerfið.[2] Að undirbúningi að stofnun flokksins komu samtökin Samtök um þjóðareign, helstu baráttumál þeirra samtaka var að útgerðarmenn í íslenskum sjávarútveg þyrftu að greiða fyrir aflaheimildir til ríkissjóðs.[3] Uppúr samstarfi Sverris og Samtaka um þjóðareign slitnaði þó og stofnuðu framamenn innan samtakanna stjórnmálaflokkinn Frjálslynda lýðræðisflokkinn um sömu mundir.[4]
Fyrsta landsþing flokksins var haldið í Reykjavík í janúar 1999 og á það mættu á fjórða hundrað manns. Sverrir Hermannsson var kosinn formaður með 183 atkvæðum, Gunnar Ingi Gunnarsson varaformaður með 167 atkvæðum og Margrét Sverrisdóttir, dóttir Sverris Hermannsssonar, var kosin ritari flokksins. Meðal tillagna á þinginu var að Ísland yrði gert að einu kjördæmi og að þingmönnum yrði fækkað í 51.[5]
Í fyrstu Alþingiskosningum sínum árið 1999 fékk Frjálslyndi flokkurinn 4,2% og tvo menn kjörna á Alþingi. Flokkurinn fékk langmesta fylgi sitt á Vestfjörðum eða 17,7% í öðrum kjördæmum fór fylgið hvergi yfir 5%.[6] Eftir að niðurstöður kosninganna voru ljósar sagði Sverrir Hermannsson að flokkurinn hefði unnið „málfrelsissigur“ þar sem fjölmiðlar, og þá sér í lagi Morgunblaðið hefðu lagt sitt af mörkunum til „að drepa á dreif aðalmáli kosninganna“ en með því átti hann við baráttu flokksins fyrir breyttu kvótakerfi.[7] Í Alþingiskosningunum 2003 jók flokkurinn fylgi sitt í 7,4% og fékk fjóra þingmenn. Ekki munaði nema 13 atkvæðum að flokkurinn fengi einn þingmann til. Í Alþingiskosningunum 2007 fékk flokkurinn aðeins lægra fylgi, 7,26% en hélt fjórum þingmönnum. Mikil innanflokksátök einkenndu flokkinn kjörtímabilið 2007-2009 og tveir af fjórum þingmönnum flokksins gengu úr honum. Í kosningunum 2009 beið flokkurinn afhroð, datt af þingi og hlaut aðeins 2,2% atkvæða.
Frjálslyndi flokkurinn bauð fram í Reykjavík og á Ísafirði í sveitastjórnarkosningunum 2002. Flokkurinn fékk 10,1% atkvæða í Reykjavík og einn fulltrúa, Ólaf F. Magnússon. Í Ísafjarðarbæ fékk flokkurinn 13,4% atkvæða og einn fulltrúa sömuleiðis.
Flokkur hætti að vera virkur eftir um árið 2010. Á árinu 2012 bárust fréttir af því að Frjálslyndi flokkurinn væri skuldugur.[8] Árið 2012 gekk flokkurinn inn í Dögun þannig að flokkurinn er óvirkur eða hefur verið aflagður þó ekki hafi komið opinber yfirlýsing þess efnis en listabókstafur flokksins var lagður niður fyrir kosningarnar 2013.[9][10]
Formenn
[breyta | breyta frumkóða]Formaður | Kjörinn | Hætti |
Sverrir Hermannsson | 1998 | 2003 |
Guðjón Arnar Kristjánsson | 2003 | 2010 |
Sigurjón Þórðarson | 2010 | 2012 |
Varaformenn
[breyta | breyta frumkóða]Varaformaður | Kjörinn | Hætti |
Gunnar Ingi Gunnarsson | 1998 | 2003 |
Magnús Þór Hafsteinsson | 2003 | 2009 |
Ásgerður Jóna Flosadóttir | 2009 | 2009 |
Kolbrún Stefánsdóttir | 2009 | 2010 |
Ásta Hafberg | 2010 | 2012 |
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Frjálslyndi flokkurinn - Stjórnmálayfirlýsing Geymt 8 mars 2009 í Wayback Machine, samþykkt á Landsþingi Frjálslynda flokksins 26. – 27. janúar 2007.
- ↑ „Orðsending til kjósenda“. Morgunblaðið. 21. nóvember 1998.
- ↑ „Tekur tvö ár að komast út úr núverandi kerfi“. Morgunblaðið. 25. september 1998.
- ↑ „Stefnt að framboði í öllum kjördæmum“. Morgunblaðið. 28. nóvember 1998.
- ↑ „Öllum auðlindum verði skilað til þjóðarinnar“. Morgunblaðið. 24. janúar 1999.
- ↑ „Úrslit Alþingiskosninga 1999“. Morgunblaðið. 11. maí 1999.
- ↑ „Gagnrýnir skrif Morgunblaðsins“. Morgunblaðið. 11. maí 1999.
- ↑ „Frjálslyndir vilja fé frá borginni“. Vísir.is. 19. janúar 2012.
- ↑ Dögun skal hún heita Rúv. Skoðað 13. okt. 2016
- ↑ „Nýjum listabókstöfum úthlutað“. www.stjornarradid.is. Sótt 14. maí 2024.