Dögun (stjórnmálasamtök)
Dögun - stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði voru íslensk stjórnmálasamtök, stofnuð 18. mars 2012. Félaginu var formlega slitið 7. nóvember 2021 og gekk til liðs við Flokk fólksins í kjölfarið.[1] Flokkurinn var stofnaður þegar að Frjálslyndi flokkurinn, Hreyfingin og Borgarahreyfingin sameinuðust í einn og sama flokkinn. Flokkurinn bauð fram í alþingiskosningum 2013, 2016 og 2017 og einnig í sveitarstjórnarkosningunum 2014.
Formenn
[breyta | breyta frumkóða]Formaður | Kjörinn | Hætti |
---|---|---|
Andrea Ólafsdóttir | 2012 | 2015 |
Helga Þórðardóttir | 2015 | 2017 |
Pálmey Gísladóttir | 2017 | 2018 |
Helga Þórðardóttir | 2018 | 2021 |
Alþingiskosningar 2013
[breyta | breyta frumkóða]Dögun bauð fram í alþingiskosningum 2013. Dögun var sameining flokkanna Hreyfingin, Borgarahreyfingin og Frjálslyndi flokkurinn og auk þess voru fulltrúar úr stjórnlagaráði í flokknum. Meðal þeirra sem gáfu kost á sér voru Margrét Tryggvadóttir þingmaður, Ragnar Þór Ingólfsson stjórnarmaður í VR og Gísli Tryggvason úr stjórnlagaráði.[2][3] Andrea Ólafsdóttir var formaður flokksins.
Dögun hlaut 3,1% fylgi í kosningunum 2013 og náði ekki manni á þing.
Sveitarstjórnarkosningar 2014
[breyta | breyta frumkóða]Dögun bauð fram í sveitarstjórnarkosningunum 2014 í Reykjavík og ásamt umbótasinnum í Kópavogi. Þorleifur Gunnlaugsson leiddi listann í Reykjavík en hann hafði áður verið í Vinstrihreyfingunni - grænt framboð. Árni Þór Þorgeirsson, frumkvöðull leiddi listann í Kópavogi.
Dögun fékk 1,4% í Reykjavík og 0,8% í Kópavogi og hlaut engan mann inn í sveitarstjórn.
Alþingiskosningar 2016
[breyta | breyta frumkóða]Dögun bauð fram í öllum kjördæmum í alþingiskosningunum árið 2016[4] Helga Þórðardóttir, kennari á Barnaspítala Hringsins var kjörin formaður Dögunar árið 2015. Hún leiddi á listann í Reykjavík suður, Hólmsteinn A. Brekkan framkvæmdastjóri samtaka leigjenda, leiddi listann í Reykjavík norður, Ragnar Þór Ingólfsson stjórnarmaður í VR og stjórnarmaður í hagsmunasamtökum heimilanna leiddi listann í Suðvesturkjördæmi.[5]
Dögun hlaut 1,7% í kosningunum og tapaði 1,4% fylgi frá kosningunum árið 2013.
Alþingiskosningar 2017
[breyta | breyta frumkóða]Dögun bauð fram í einu kjördæmi, Suðurkjördæmi í alþingiskosningunum 2017. Helga Þórðardóttir leiddi listann, þrátt fyrir að Pálmey Gísladóttir væri orðin formaður. Tilkynnt var um framboð 1. október 2017.
Flokkurinn hlaut 0,1% atkvæða eða 101 atkvæði í kosningunum og misstu því 1,6% frá kosningunum árið 2016.
Sveitarstjórnarkosningar 2018
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2018 hætti Pálmey sem formaður og Helga Þórðardóttir varð aftur að formanni. Í febrúar 2018 tilkynnti flokkurinn að hann myndi ekki bjóða fram í sveitarstjórnarkosningunum 2018.[6]
Aðalfundur 2021
[breyta | breyta frumkóða]Á aðalfundi Dögunar sem var haldin 7. nóvember 2021 var tilkynnt að Dögun væri formlega slitið, ástæðan væri annars vegar vegna þess að engin virkni hafði verið í flokknum síðan árið 2018 og að það væru fleiri flokkar sem hafa verið að berjast fyrir sama málstað væru að ganga betur svo ekki væri þörf lengur á flokknum, sem dæmi um flokka voru Flokkur fólksins og Sósíalistaflokkurinn nefndir í því samhengi. Flokkurinn gekk því formlega í Flokk fólksins og mikið af flokksfólki Dögunar gekk í Flokk fólksins eftir slitin. Þar á meðal Sigurjón Þórðarson, oddviti flokksins í kosningunum 2017 og fyrrum þingmaður Frjálslynda flokksins, Helga Þórðardóttir formaður Dögunnar og Ragnar Þór Ingólfsson.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Dögun leggur upp laupana“. RÚV. 7. nóvember 2021. Sótt 7. nóvember 2021.
- ↑ „Gísli og Lýður í framboð fyrir Dögun“. 29. nóvember 2012.
- ↑ „Gefa kost á sér fyrir Dögun“. 26. nóvember 2012.
- ↑ Vel á annan tug flokk bjóða fram til Alþingis Rúv. Skoðað 17. ágúst, 2016.
- ↑ Helga, Ragnar og Hólmsteinn í fyrsta sæti Rúv. Skoðað 7. september, 2016.
- ↑ Hólmkelsdóttir, Hulda (2. maí 2018). „Dögun býður ekki fram í vor - Vísir“. visir.is. Sótt 5. júlí 2024.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Vefsíða Dögunar Geymt 30 janúar 2019 í Wayback Machine
- Dögun skal hún heita, frétt á Rúv.is 18. mars 2012