Fara í innihald

Sverrir Hermannsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sverrir Hermannsson (f. 26. febrúar 1930, dáinn 12. mars 2018) var alþingismaður og ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn og síðar þingmaður fyrir Frjálslynda flokkinn, sem hann stofnaði eftir að hann sagði sig úr Sjálfstæðisflokknum. Sverrir var þekktur fyrir skrautlegt málfar. Hann var faðir Margrétar Sverrisdóttur og tók 20. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar fyrir Norðausturkjördæmi í Alþingiskosningunum árið 2007.

Sverrir fæddist á Svalbarði í Ögurvík við Ísafjarðardjúp. Foreldrar hans voru Hermann Hermannsson útvegsbóndi þar og kona hans Salóme Rannveig Gunnarsdóttir. Sverrir kvæntist þann 27. desember 1953 Gretu Lind Kristjánsdóttur (f. 25. júlí 1931, d. 20. nóvember 2009). Þau eignuðust fjórar dætur og einn son auk einnar fósturdóttur.

Sverrir lauk stúdentsprófi frá MA árið 1951. Hann útskrifaðist svo með viðskiptafræðipróf frá 1955. Veturinn 1954-1955 sat hann í stúdentaráði ásamt því að vera formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta. Sverrir var síðan formaður Stúdentafélags Reykjavíkur 1957-1958.

Starfsferill og félagsstörf

[breyta | breyta frumkóða]

Sverrir starfaði víða. Helst ber að nefna að hann var formaður og framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra verslunarmanna frá stofnun þess 1957 til 1972 og forstjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins 1975-1983. Eftir að Sverrir hætti á þingi 1988 varð hann bankastjóri Landsbanka Íslands og gegndi því starfi til 1998.

Stjórnmálastarf

[breyta | breyta frumkóða]

Ungur gekk Sverrir í Sjálfstæðisflokkinn og settist fyrst á þing í apríl 1964 sem varaþingmaður Austurlands. Hann náði svo kjöri sem þingmaður Austurlandskjördæmis í kosningunum 1971 og hélt þingsætinu til 1988 þegar hann hvarf til starfa í Landsbankanum. Sverrir var oft áberandi á þingi og var forseti neðri deildar 1979-1983. Hápunktinum á sínum ferli innan Sjálfstæðisflokksins náði Sverrir í fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar þar sem hann var ráðherra. Hann var iðnaðarráðherra frá 26. maí 1983 - 16. okt. 1985 en eftir að Þorsteinn Pálsson kom inn í stjórnina var hann menntamálaráðherra til 28. apríl 1987 (gegndi samt störfum til 8. júlí). Sverrir sat í Norðurlandaráði 1975-1983 og aftur 1987-1988.

Stuttu eftir að hann hætti sem bankastjóri stofnaði Sverrir ásamt stuðningsmönnum sínum Frjálslynda flokkinn og var formaður flokksins frá upphafi til ársins 2003. Hann sat svo á þingi 1999-2003 fyrir Reykvíkinga og var aldursforseti á Alþingi það kjörtímabil.

  • „Æviágrip á vef Alþingis“. Sótt 10. maí 2006.
  • Viðtal í Morgunblaðinu 1998