Stórveldistími Svíþjóðar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Svíaveldi á hátindi sínum eftir friðarsamningana í Hróarskeldu 1658. Rauða svæðið er Svíþjóð fyrir 1561, svæði sem Svíar lögðu undir sig eru sýnd með öðrum litum.

Stórveldistími Svíþjóðar er tímabil í sögu Svíþjóðar sem nær frá 1611 til 1718 þegar Svíþjóð gerðist stórveldi í Evrópu. Á undan stórveldistímanum kemur Fyrra Vasatímabilið (1521–1611) og eftir að því lauk tók Frelsistími Svíþjóðar (1719–1772) við.

Upphaf stórveldistímans má rekja til tilrauna Karls hertoga til að tryggja hagsmuni Svíþjóðar og Finnlands með því að tryggja og leggja undir sig landsvæði við Eystrasaltið í upphafi 17. aldar. Við þetta lenti Svíum saman við Rússneska keisaradæmið, Pólsk-litháíska samveldið og Dansk-norska ríkið.

Hinn eiginlegi stórveldistími miðast oftast við það þegar Gústaf 2. Adolf, elsti sonur Karls hertoga, tók við völdum árið 1611. Gústaf tókst að vinna lönd af Rússum og Pólverjum þannig að Eystrasalt var á góðri leið með að verða sænskt haf. 1630 tók hann þátt í Þrjátíu ára stríðinu og eftir lát hans 1632 héldu Svíar áfram að leika stórt hlutverk á meginlandi Evrópu og tókst þar að auki að vinna mikilvæga sigra á Dönum 1645, 1658 og 1679. Með þeim tókst að afla ríkinu náttúrulegra landamæra við Eyrarsund og vinna héruð í Noregi.

Endalok stórveldistímans urðu vegna eflingar Rússlands í valdatíð Péturs mikla. Til uppgjörs kom í Norðurlandaófriðnum mikla 1700–1721 og endalok tímabilsins eru höfð við lát Karls 12. árið 1718.