Wolfgang Amadeus Mozart
Wolfgang Amadeus Mozart (27. janúar 1756 – 5. desember 1791) var eitt mikilvægasta og áhrifamesta tónskáld klassíska tímabilsins í evrópskri tónlist. Þrátt fyrir stutta ævi náði Mozart að koma frá sér rúmum átta hundruð verkum af öllum gerðum tónverka sem tíðkuðust á hans tíma. Hann samdi óperur, sinfóníur, píanókonserta, píanósónötur og kammerverk sem mörg eru talin með því besta sem samið hefur verið af slíkri tónlist.
Mozart fæddist í Salzburg sem þá var sjálfstætt furstadæmi í Heilaga rómverska ríkinu, en er nú innan Austurríkis. Hann sýndi undraverða tónlistarhæfileika frá barnæsku. Fimm ára gamall gat hann leikið bæði á fiðlu og píanó og samdi lög sem hann flutti við hirðir Evrópu. Faðir hans fór með hann í tónleikaferðir um Evrópu og þrisvar til Ítalíu. Þegar Mozart var 17 ára varð hann hirðtónskáld við hirð biskupsfurstans í Salzburg, en varð brátt leiður og hélt af stað í leit að betri stöðu.
Eftir komu hans til Vínarborgar árið 1781 missti hann stöðu sína sem hirðtónskáld í Salzburg. Hann bjó áfram í Vín þar sem hann naut frægðar en átti erfitt með að framfleyta sér. Lokaár sín í borginni samdi hann margar af sínum þekktustu sinfóníum, konsertum og óperum. Sálumessan hans var ókláruð þegar hann lést, aðeins 35 ára gamall. Margt er á huldu um dauða hans sem hefur leitt til alls kyns vangaveltna og flökkusagna um það hvernig hann bar að.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Æska
[breyta | breyta frumkóða]Mozart fæddist í Getreidegasse 9 í Salzburg. Daginn eftir fæðinguna var hann skírður Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart í dómkirkjunni í Salzburg. Sem fullorðinn maður notaði hann sjálfur nafnið „Wolfgang Amadè Mozart“. Leopold Mozart (1719–1787), faðir Wolfgangs, var frá Augsburg í Bæjaralandi og var tónlistarmaður við hirð Sigismunds von Schrattenbach erkibiskups í Salzburg, sem jafnframt var fursti yfir borginni. Móðir Wolfgangs, Anna Maria Mozart (1720–1778) fædd Pertl, var fædd í Salzburg. Wolfgang var yngstur sjö systkina, en aðeins tvö þeirra komust á legg: Wolfgang og eldri systir hans, Maria Anna Mozart (1751–1829), kölluð Nannerl.
Leopold Mozart lék á fiðlu í hljómsveit erkibiskupsins. Hann var lítt þekktur sem tónskáld en reyndur tónlistarkennari. Sama ár og Wolfgang fæddist gaf hann út vinsæla kennslubók í fiðluleik, Versuch einer gründlichen Violinschule.[1] Þegar Nannerl var sjö ára gömul hóf hún píanónám hjá föður sínum og þriggja ára bróðir hennar fylgdist með. Mörgum árum síðar sagði hún frá því að hann hefði eytt löngum stundum við píanóið og leitað uppi hljóma. Hún sagði að þegar hann var fjögurra ára hafi Leopold kennt honum nokkur einföld lög sem hann gat þá leikið villulaust. Fimm ára var hann farinn að semja tónlist.[2]
Fyrstu tónsmíðar Mozarts er að finna í Nótnabók Nannerl þar sem Leopold skrifaði lög fyrir dóttur sína að æfa á píanóið. Þetta eru 12 mjög stutt lög frá árunum 1761-1764. Á þessum árum var Leopold eini kennari barna sinna og kenndi þeim tungumál og aðrar námsgreinar auk tónlistar. Wolfgang tók sjálfur upp á því að semja tónverk og reyna að læra á fiðlu, sem kom föður hans á óvart. Eftir því sem tónsmíðahæfileikar Wolfgangs komu betur í ljós hætti Leopold sjálfur að semja tónlist.[3]
Tónleikaferðir 1762-1773
[breyta | breyta frumkóða]Frá 1762 hóf Mozart-fjölskyldan að ferðast til hirða aðalsfólks í Evrópu þar sem Nannerl og Wolfgang komu fram sem undrabörn og fluttu þar tónlist. Fyrstu tónleikarnir af þessum toga voru við hirð kjörfurstans Maximilíans 3. af Bæjaralandi í München. Í kjölfarið komu þau fram við keisarahirðina í Prag og Vínarborg. Eftir það héldu þau í þriggja og hálfs árs tónleikaferðalag þar sem þau komu við í München, Mannheim, París, London, Dover, Haag, Amsterdam, Utrecht, Mechelen og aftur París, og svo heim í gegnum Zürich, Donaueschingen og München. Í ferðinni kynntist Wolfgang fjölda tónlistarmanna og verkum þeirra. Johann Christian Bach (sonur Johanns Sebastians Bach) sem hann hitti í London, hafði sérstaklega mikil áhrif á hann. Átta ára gamall samdi hann sína fyrstu sinfóníu sem faðir hans skrifaði líklega upp fyrir hann.[4]
Ferðirnar voru erfiðar og aðstæður sem fjölskyldan bjó við oft frumstæðar.[5] Þau urðu oft að bíða eftir því að fá boð og greiðslu frá aðalsfólki, og veiktust öll alvarlega; fyrst Leopold (í London sumarið 1764)[6] og svo bæði börnin (í Hag sumarið 1765).[7] Þau sneru aftur til Vínarborgar 1767 og bjuggu þar til ársloka 1768.
Eftir að hafa eytt ári í Salzburg héldu Leopold og Wolfgang einir til Ítalíu og dvöldu þar frá 1769 til 1771. Líkt og áður reyndi Leopold að koma tónsmíðahæfileikum sonar síns á framfæri. Wolfgang hitti tónskáldin Josef Mysliveček og Giovanni Battista Martini í Bologna og fékk inngöngu í hinn virta tónlistarskóla Accademia Filarmonica di Bologna. Til er sú flökkusaga af Mozart á Ítalíu að hann hafi hlýtt á verkið Miserere eftir Gregorio Allegri tvisvar í Sixtínsku kapellunni og eftir það getað skrifað það niður eftir minni. Þannig hafi orðið til fyrsta óheimila afritið af þessu vel geymda leyndarmáli Vatíkansins. Margir efast um sannleiksgildi þessarar sögu.[8][9][10]
Meðan Mozart dvaldi í Mílanó samdi hann sína fyrstu óperu, Mitridate, re di Ponto, sem sló í gegn og var flutt 21 sinni. Þetta varð til þess að hann var ráðinn til að semja fleiri óperur. Hann sneri tvisvar aftur til Mílanó ásamt föður sínum (ágúst-desember 1771 og október 1772 til mars 1773) til að vera við frumsýningar óperanna Ascanio in Alba og Lucio Silla. Leopold vonaði að þetta yrði til þess að hann fengi stöðu og erkihertoginn, Ferdinand íhugaði að ráða hann, en hætti við vegna andstöðu móður sinnar, Maríu Teresu, við að ráða „gagnslaust fólk“.[11] Undir lok ferðarinnar samdi Mozart einsöngsmótettuna Exsultate, jubilate.
Salzburg 1773-1777
[breyta | breyta frumkóða]Þegar Mozart sneri aftur frá Ítalíu með föður sínum 13. mars 1773, fékk hann stöðu sem hirðtónskáld biskupsfurstans í Salzburg, Hieronymus von Colloredo. Í Salzburg átti Mozart marga vini og aðdáendur og fékk tækifæri til að vinna við margs konar tónsmíðar, þar á meðal sinfóníur, sónötur, strengjakvartetta, messur, næturljóð og nokkrar stuttar óperur. Frá apríl til september 1775 varð hann upptekinn af fiðlukonsertum og samdi fimm slíka í röð, hvern öðrum fágaðri. Þeir þrír síðustu eru enn með þekktustu tónverkum þessarar gerðar. Árið 1776 sneri hann sér að píanókonsertum. Gagnrýnendur hafa nefnt Píanókonsert nr. 9 sem brautryðjandaverk.
Þrátt fyrir listræna velgengni, varð Mozart smám saman vansælli í Salzburg og lagði mikið á sig til að finna stöðu annars staðar. Ein ástæðan voru lág laun, 150 flórínur á ári, en Mozart langaði líka til að semja óperur og tækifærin til þess voru fá í Salzburg. Aðstæður versnuðu enn þegar hirðleikhúsinu var lokað 1776. Hitt leikhúsið í Salzburg var þá oftast frátekið fyrir aðkomuhljómsveitir.
Mozart ferðaðist víða með föður sínum í leit að vinnu á þessum árum. Frá 14. júlí til 26. september 1773 voru þeir í Vínarborg, og frá 6. desember 1774 fram í mars 1775 voru þeir í München. Hvorug ferðin leiddi til ráðningar, þótt Mozart hafi samið vinsæla óperu í München, La finta giardiniera.
Parísarferð 1777-1778
[breyta | breyta frumkóða]Mozart sagði upp stöðu sinni í Salzburg í ágúst 1777.[12] Þann 23. september hélt hann enn af stað í leit að vinnu og ferðaðist til Augsburg, Mannheim, Parísar og München,[13] í þetta sinn í fylgd móður sinnar.
Í Mannheim kynntist Mozart hinni frægu hljómsveit borgarinnar, sem var talin sú besta í Evrópu á þeim tíma. Hann varð líka ástfanginn af Aloysia Weber sem var ein af fjórum systrum í tónlistarfjölskyldu. Hann hafði vonir um atvinnu í Mannheim, en ekkert varð af því.[14] Þann 14. mars 1778 hélt Mozart því áfram til Parísar.[15] Í einu bréfi frá París minnist hann á lausa stöðu organista við Versalahöll, en hann hafði ekki áhuga á þeirri vinnu.[16] Hann safnaði skuldum og hóf að pantsetja verðmæti sem hann átti.[17] Lágpunktinum var náð þegar móðir Mozarts veiktist og lést 3. júlí 1778.[18] Samkvæmt Halliwell dróst að sækja lækni þar sem peninga skorti.[19] Mozart bjó hjá þýska gagnrýnandanum Melchior Grimm í húsi Louise d'Épinay markgreifynju.[20]
Meðan Mozart dvaldi í París leitaði faðir hans að atvinnu fyrir hann í Salzburg.[21] Fyrir orð aðalsfólks í borginni var Mozart boðin staða organista og hljómsveitarstjóra við hirðina. Árslaunin voru 450 flórínur,[22] en hann var tregur til að þiggja boðið.[23] Á þeim tíma hafði samband Mozarts og Grimms versnað og Mozart flutti þaðan. Í september hélt hann af stað til Strassborgar og dvaldi í Mannheim og München í von um að fá einhverja stöðu annars staðar en í Salzburg. Í München hitti hann Aloysia aftur sem var orðin fræg söngkona og hafði misst allan áhuga á honum.[24] Mozart sneri loks aftur til Salzburg 15. janúar 1779 og tók við nýju stöðunni, en var jafn ósáttur og áður.[25]
Þekktustu tónsmíðar hans frá ferðinni til Parísar eru Píanósónata nr. 8 og Parísarsinfónían (nr. 31), sem voru frumfluttar í París 13. og 18. júní 1778;[26] og Konsert fyrir þverflautu, hörpu og hljómsveit.[27]
Árin í Vín 1781-1788
[breyta | breyta frumkóða]Í janúar 1781 var óperan Idomeneo frumsýnd í München og naut töluverðra vinsælda.[28] Í mars boðaði Colloredo erkibiskup Mozart til Vínar sem hluta af starfsliði hans fyrir krýningu Jósefs 2. Mozart kvartaði yfir því að þurfa að matast með þjónum og matsveinum biskupsins.[29] Hann skrifaði föður sínum um þá fyrirætlan sína að hitta keisarann til að losna úr þjónustu Colloredos.
Í sama bréfi sagði hann frá hugmyndum sínum um að gerast einleikari fyrir Tonkünstler-Societät, röð styrktartónleika. Þetta gekk eftir þegar aðalsfólk í borginni fékk Colloredo til að láta af andstöðu sinni við það.[30] Oftast neitaði biskupinn Mozart um leyfi til að koma fram annars staðar, sem vakti reiði Mozarts. Deilur þeirra náðu hápunkti í maí. Mozart reyndi að segja upp, en var neitað um það. Í næsta mánuði fékk hann leyfi, en með bókstaflegu sparki í rassinn frá ráðsmanni biskupsins, Arco greifa. Mozart ákvað að freista gæfunnar sem sjálfstætt starfandi tónlistarmaður í Vín, þrátt fyrir andstöðu föður síns sem vonaði að hann sneri aftur til Salzburg í fylgdarliði biskupsins. Solomon talar um að þetta hafi verið skref sem breytti lífi og ferli Mozarts.[31]
Eftir sparkið frá Colloredo flutti Mozart inn til Weber-fjölskyldunnar sem hafði flutt til Vínar tveimur árum fyrr. Brátt kom í ljós að eitthvað var á milli hans og þriðju systurinnar, Constanze, sem þá var 19 ára, svo móðir hennar bað hann að flytja út. Árið eftir flutti hún inn til hans þrátt fyrir að móðir hennar hefði hótað að senda lögreglu til að sækja hana. Faðir Mozarts neyddist til að samþykkja ráðahaginn til að forðast hneyksli. Þau giftu sig í ágúst 1782. Constanze og Mozart eignuðust sex börn, en aðeins tvö náðu fullorðinsaldri: Karl Thomas Mozart (1783-1858) og Franz Xaver Wolfgang Mozart (1791-1844).
Mozart naut töluverðrar velgengni sem tónlistarmaður fyrstu árin í Vín og fékk meðal annars að leika fyrir keisarann. Hann varð brátt þekktur sem „besti píanóleikari Vínarborgar“. Í júlí 1782 var Brottnámið úr kvennabúrinu frumflutt. Óperan naut mikilla vinsælda og bar hróður Mozarts um alla Evrópu. Árin 1782 og 1783 kynntist hann verkum Johann Sebastian Bach og Georg Friedrich Händel í gegnum vináttu sína við Gottfried van Swieten sem átti handrit með verkum þeirra.
Árið 1783 heimsóttu Mozart-hjónin Salzburg þar sem faðir hans og systir tóku kurteislega á móti Constanze. Þar var frumflutt Messa í C-moll þar sem hún söng einsöng. Árið eftir kynntist Mozart Joseph Haydn í Vínarborg og þeir urðu vinir. Mozart tileinkaði honum sex strengjakvartetta sem hann samdi milli 1783 og 1785. Á sama tíma flutti hann sjálfur 3-4 nýja píanókonserta á hverju tímabili. Hann bókaði oft óhefðbundna tónleikastaði til að geta tekið við fleiri áheyrendum. Tónleikarnir voru vinsælir og konsertarnir sem hann flutti eru enn með því þekktasta sem hann samdi.
Vegna aukinnar velgengni fluttu Mozart-hjónin inn í stóra íbúð sem kostaði 460 flórínur á ári, keyptu fortepíanó og billjardborð, réðu þjónustufólk og sendu Karl Thomas í dýran heimavistarskóla. Mozart lagði ekkert fyrir af launum sínum á þessum tíma. Þann 14. desember 1784 gekk Mozart í Frímúrararegluna sem lék stórt hlutverk í lífi hans eftir það.
Eftir Brottnámið úr kvennabúrinu fékkst Mozart lítið við óperur, en árið 1785 hóf hann samstarf við ítalska líbrettistann Lorenzo Da Ponte. Brúðkaup Fígarós var frumflutt árið eftir og sló í gegn. Árið eftir var Don Giovanni frumsýnd við litlu minni vinsældir.
Í desember 1787 fékk Mozart loks fasta stöðu við keisarahirðina, þegar Jósef 2. skipaði hann hirðtónskáld. Þetta var hlutastarf fyrir 800 flórínur á ári og það eina sem Mozart var skuldbundinn til að gera var að semja dans fyrir árlegt ball í Redoutensaal í Hofburg-höll. Þessi laun áttu eftir að koma sér vel síðar, þegar Mozart lenti í fjárhagskröggum. Árið 1787 kom hinn ungi Ludwig van Beethoven til Vínar í von um að komast í nám hjá Mozart, en engar heimildir eru til um að þeir hafi hist.
Síðustu árin 1788-1791
[breyta | breyta frumkóða]Undir lok 9. áratugarins versnaði fjárhagur Mozarts. Um 1786 hætti hann að koma jafn oft fram opinberlega og tekjurnar drógust saman.[32] Á þessum tíma stóð stríð Austurríkis og Tyrkjaveldis og bæði almenn hagsæld og geta aðalsins til að styðja við tónlist dróst saman. Tekjur Mozarts minnkuðu um tvo þriðju miðað við bestu tekjur hans árið 1781.[33]
Um mitt ár 1788 flutti Mozart með fjölskyldu sinni frá miðborg Vínar í úthverfið Alsergrund.[32] Mozart skrifaði Michael von Puchberg að þetta hefði verið til að minnka leigukostnað, en í raun hafði hann aðeins stækkað húsnæðið sem hann hafði til umráða.[34] Mozart tók að slá lán, oftast frá vini sínum og félaga í Frímúrarastúkunni, Puchberg. Til er röð bréfa þar sem hann betlar um lán.[35] Maynard Solomon og fleiri hafa stungið upp á því að Mozart hafi þjáðst af þunglyndi. Á sama tíma virðist hafa hægt á tónsmíðum hans.[36] Helstu verk hans frá þessum tíma eru síðustu þrjár sinfóníurnar (nr. 39, 40 og 41), allar frá 1788; og síðasta Da Ponte-óperan, Così fan tutte, sem var frumflutt árið 1790.
Á þessum tíma tókst Mozart á hendur löng ferðalög í von um að bæta stöðu sína, til Leipzig, Dresden og Berlínar, vorið 1789, og til Frankfurt, Mannheim og fleiri þýskra borga árið 1790.
Árið áður en Mozart veiktist jukust tónsmíðar hans á ný, og sumir segja að andleg heilsa hans hafi batnað.[37] Meðal þess sem hann samdi á þessum tíma eru nokkur af frægustu verkum hans: óperan Töfraflautan, síðasti píanókonsertinn (Píanókonsert nr. 27), Klarinettukonsertinn, síðasti strengjakvintettinn (Strengjakvintett nr. 6), mótettan Ave verum corpus og ókláraða Sálumessan.
Fjárhagur Mozarts, sem olli honum miklum áhyggjum árið 1790, tók loksins að batna. Þótt það sé ekki vitað fyrir víst[38] virðist sem auðugir styrktaraðilar í Ungverjalandi og Amsterdam hafi lofað honum árlegum þóknunum í skiptum fyrir stöku tónverk. Talið er að hann hafi grætt á sölu danstónlistarinnar sem hann samdi fyrir hirðina.[38] Mozart hætti að taka stór lán frá Puchberg og fór að greiða niður skuldir sínar.[38]
Hann gekkst upp í þeim vinsældum sem sum verka hans nutu, sérstaklega Töfraflautan sem var flutt mörgum sinnum á þeim skamma tíma sem leið frá frumsýningu að andláti Mozarts.[39]
Andlát
[breyta | breyta frumkóða]Mozart veiktist í Prag, þar sem hann var við frumsýningu óperunnar Mildi Títós, sem var samin sama ár fyrir krýningarhátíð keisarans, Leópolds 2.[40] Hann hélt áfram að vinna í nokkurn tíma eftir það og stýrði frumflutningi Töfraflautunnar 30. september. Heilsu hans hrakaði 20. nóvember og hann lagðist í rúmið með bólgur, verki og uppköst.[41]
Síðustu dagana sem Mozart lifði hjúkruðu eiginkona hans og yngsta systir hennar honum, og læknir fjölskyldunnar, Thomas Franz Closset, vitjaði hans. Hann var sjálfur upptekinn af því að ljúka við Sálumessuna, en engar öruggar heimildir eru fyrir því að hann hafi lesið nemanda sínum Franz Xaver Süssmayr fyrir nótur að verkinu.[42]
Mozart lést á heimili sínu 5. desember 1791 rétt eftir miðnætti, eða 12:55.[43] Útför hans er lýst þannig að hann hafi verið lagður í almenna gröf, samkvæmt venju í Vínarborg, í St. Marx-kirkjugarðinum utan við borgina þann 7. desember. Löngu seinna (1856) skrifaði Otto Jahn að einu syrgjendurnir við útförina hefðu verið Salieri, Süssmayr, van Swieten og tveir aðrir tónlistarmenn. Sagan um að stormur og snjóhríð hafi einkennt veðrið er ósönn. Veður var stillt og bjart þennan dag.[44]
Hugtakið „almenn gröf“ merkir ekki fjöldagröf, heldur vísar til þess að gröfin var fyrir alþýðumann en ekki aðalsmann. Almennar grafir voru endurnýttar á tíu ára fresti meðan grafir aðalsfólks voru ekki endurnýttar.[45]
Dánarorsök Mozarts er ekki þekkt með vissu. Í opinberum skrám var hún sögð vera hitziges Frieselfieber („heiftarlegur dreifhiti“) sem vísar til útbrota á stærð við frækorn og er fremur lýsing á einkennum en greining á dánarorsök. Yfir hundrað mögulegar dánarorsakir hafa verið nefndar af rannsakendum, þar á meðal alvarleg gigtsótt.[46][47] streptókokkasýking,[48][49] purkormasótt,[50][51] inflúensa, kvikasilfurseitrun, og sjaldgæfur nýrnasjúkdómur.[46]
Hin lágstemmda útför Mozarts endurspeglaði ekki frægð hans sem tónskálds. Almenningur flykktist á minningartónleika honum til heiðurs í Vín og Prag. Orðspor hans jókst raunar töluvert í kjölfar dauða hans og verk hans vöktu enn meiri áhuga en áður.[52] Fyrstu ævisögur Mozarts voru ritaðar af Schlichtegroll, Niemetschek og Nissen, og útgefendur kepptust við að gefa út heildarsöfn verka hans.[52]
Eins og frægt er var Sálumessu Mozarts ólokið þegar hann lést. Greifinn Franz von Walsegg hafði pantað hana í minningu látinnar eiginkonu sinnar, og hugðist eigna sér hana, líkt og hann hafði gert við fleiri tónverk. Eftir lát Mozarts fékk Constanze vini og nemendur Mozarts til að ljúka við verkið svo hún gæti látið líta út fyrir að Mozart hefði lokið við hana og innheimt þóknunina. Sagan um að Mozart hafi ekki vitað hver kaupandinn var og að hann hafi haldið sig vera að semja eigin sálumessu er frá henni komin líkt og fleiri sögur sem ætlað var að breiða yfir hinar raunverulegu tónsmíðar sem fóru fram eftir dauða Mozarts. Franz Xaver Süssmayr afhenti Walsegg þá útgáfu sálumessunnar sem er almennt talin hin endanlega, með falsaðri undirskrift Mozarts. Seinna, á 19. öld, uppgötvaðist fjöldi handrita að verkinu eftir ólíka höfunda sem margir létu eftir sig misvísandi upplýsingar um aðkomu sína að því.
Eftirmæli
[breyta | breyta frumkóða]Mozart hafði mikil áhrif á seinni tíma tónskáld og verk hans urðu fljótt hluti af klassískri tónlistarmenntun margra kynslóða tónlistarfólks. Þekktasti nemandi hans var Johann Nepomuk Hummel, en hann hafði líka mikil áhrif á Ludwig van Beethoven sem var 15 árum yngri.
Eftir dauða Mozarts hefur nafn hans orðið eitt þekktasta og arðbærasta vörumerki heims. Það kemur nú fyrir, ásamt brjóstmynd af tónskáldinu, á flestu sem hægt er að ímynda sér; þar með töldu bjór, marsipankúlum og Hollywood-kvikmynd.
Árið 1830 samdi Alexander Púskín leikritið Mozart og Salieri þar sem hann skáldaði inn í söguna af andláti Mozarts samkeppni á milli tónskáldanna Mozarts og Antonio Salieri, og að hugsanlega hefði verið eitrað fyrir Mozart. Seinna samdi Nikolaj Rimskíj-Korsakov óperu byggða á leikritinu. Árið 1979 byggði enska leikskáldið Peter Shaffer leikrit á þessari hugmynd þar sem áherslan er á andstæðuna á milli hins sanna snillings (Mozarts) og handverksmannsins (Salieri). Kvikmynd Miloš Forman, Amadeus, frá 1984 byggist á leikriti Shaffers. Fjöldi annarra kvikmynda hefur verið gerður um ævi Mozarts, síðast myndin Interlude in Prague frá 2017.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Solomon 1995, bls. 32.
- ↑ Deutsch 1965, bls. 455.
- ↑ Solomon 1995, bls. 33.
- ↑ Meerdter, Joe (2009). „Mozart Biography“. midiworld.com. Afrit af uppruna á 1. júlí 2017. Sótt 20. desember 2014.
- ↑ Halliwell 1998, bls. 51, 53.
- ↑ Halliwell 1998, bls. 82–83.
- ↑ Halliwell 1998, bls. 99–102.
- ↑ „Allegri's Miserere: Conclusions“. www.ancientgroove.co.uk. Afrit af uppruna á 9. nóvember 2022. Sótt 11. nóvember 2022.
- ↑ Gutman 2000, bls. 271.
- ↑ Chrissochoidis, Ilias (Summer 2010). „London Mozartiana: Wolfgang's disputed age & early performances of Allegri's Miserere“. The Musical Times.. árgangur 151 no. 1911. bls. 83–89.
- ↑ Halliwell 1998, bls. 172, 183–185.
- ↑ Halliwell 1998, bls. 225.
- ↑ Sadie 1998.
- ↑ Drebes, Gerald (1992). „Die 'Mannheimer Schule'—ein Zentrum der vorklassischen Musik und Mozart“. gerald-drebes.ch (þýska). Afrit af upprunalegu geymt þann 7. febrúar 2015.
- ↑ Deutsch 1965, bls. 174.
- ↑ Solomon 1995, bls. 149.
- ↑ Halliwell 1998, bls. 304–305.
- ↑ Abert 2007, bls. 509.
- ↑ Halliwell 1998, bls. 305.
- ↑ "Letter by W. A. Mozart to his father" Geymt 22 janúar 2023 í Wayback Machine, Paris, 9 July 1778 (in German); in English Geymt 22 janúar 2023 í Wayback Machine; Mozarteum
- ↑ Halliwell 1998, chs. 18–19.
- ↑ Solomon 1995, bls. 157.
- ↑ Halliwell 1998, bls. 322.
- ↑ Sadie 1998, §3.
- ↑ Jean Massin; Brigitte Massin, ritstjórar (1983). Histoire de la musique occidentale. Paris: Fayard. bls. 613.
- ↑ Deutsch 1965, bls. 176.
- ↑ Einstein 1965, bls. 276–277.
- ↑ Sadie 1980, vol. 12, p. 700.
- ↑ Spaethling 2000, bls. 235.
- ↑ Spaethling 2000, bls. 238–239.
- ↑ Solomon 1995, bls. 247.
- ↑ 32,0 32,1 Sadie 1998, §6
- ↑ Solomon 1995, bls. 427, 432.
- ↑ Lorenz 2010.
- ↑ Sadie 1980, vol. 12, p. 710.
- ↑ Steptoe 1990, bls. 208.
- ↑ Solomon 1995, §30.
- ↑ 38,0 38,1 38,2 Solomon 1995, bls. 477
- ↑ Solomon 1995, bls. 487.
- ↑ Freeman 2021, bls. 193–230.
- ↑ Solomon 1995, bls. 491.
- ↑ Solomon 1995, bls. 493, 588.
- ↑ „Mozart's final year and death—1791“. Classic FM (UK). Afrit af uppruna á 19. desember 2017. Sótt 17. desember 2017.
- ↑ Sadie 1980, vol. 12, p. 716.
- ↑ Walther Brauneis [in þýska]. Dies irae, dies illa—Day of wrath, day of wailing: Notes on the commissioning, origin and completion of Mozart's Requiem (KV 626) (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 7. apríl 2014.
- ↑ 46,0 46,1 Wakin 2010
- ↑ Crawford, Franklin (14. febrúar 2000). „Foul play ruled out in death of Wolfgang Amadeus Mozart“. EurekAlert!. American Association for the Advancement of Science. Afrit af upprunalegu geymt þann 26. apríl 2014. Sótt 26. apríl 2014.
- ↑ Becker, Sander (20. ágúst 2009). „Voorlopig is Mozart bezweken aan streptokok“ [For the time being Mozart succumbed to streptococcus]. Trouw. Afrit af uppruna á 24. apríl 2014. Sótt 25. apríl 2014..
- ↑ Bakalar, Nicholas (17. ágúst 2009). „What Really Killed Mozart? Maybe Strep“. The New York Times. Afrit af uppruna á 30. júní 2014. Sótt 24. apríl 2014.
- ↑ Hirschmann, Jan V. (11. júní 2001). „Special Article: What Really Killed Mozart?“. JAMA Internal Medicine. 161 (11): 1381–1389. doi:10.1001/archinte.161.11.1381. PMID 11386887. Afrit af uppruna á 2. febrúar 2016. Sótt 26. janúar 2016.
- ↑ Dupouy-Camet, Jean (22. apríl 2002). „Editor's Correspondence: Trichinellosis Is Unlikely to Be Responsible for Mozart's Death“. JAMA Internal Medicine (Critical comment and reply). 162 (8): 946, author reply 946–947. doi:10.1001/archinte.162.8.946. PMID 11966352. Afrit af uppruna á 2. febrúar 2016. Sótt 26. janúar 2016.
- ↑ 52,0 52,1 Solomon 1995, bls. 499
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Deutsch, Otto Erich (1965). Mozart: A Documentary Biography. Peter Branscombe, Eric Blom, Jeremy Noble (trans.). Stanford: Stanford University Press. ISBN 978-0-8047-0233-1. OCLC 8991008.
- Einstein, Alfred (1965). Mozart: His Character, His Work. Galaxy Book 162. Arthur Mendel, Nathan Broder (trans.) (6th. útgáfa). New York City: Oxford University Press. ISBN 978-0-304-92483-7. OCLC 456644858.
- Freeman, Daniel E. (2021). Mozart in Prague. Minneapolis: Calumet Editions. ISBN 978-1-950743-50-6.
- Gutman, Robert (2000). Mozart: A Cultural Biography. London: Harcourt Brace. ISBN 978-0-15-601171-6. OCLC 45485135.
- Halliwell, Ruth (1998). The Mozart Family: Four Lives in a Social Context. New York City: Clarendon Press. ISBN 978-0-19-816371-8. OCLC 36423516.
- Sadie, Stanley, ritstjóri (1998). The New Grove Dictionary of Opera. New York: Grove's Dictionaries of Music. ISBN 978-0-333-73432-2. OCLC 39160203.
- Sadie, Stanley, ritstjóri (1980). The New Grove Dictionary of Music and Musicians (6th. útgáfa). London: Macmillan. ISBN 978-0-333-23111-1. OCLC 5676891.
- Solomon, Maynard (1995). Mozart: A Life (1st. útgáfa). New York City: HarperCollins. ISBN 978-0-06-019046-0. OCLC 31435799.
- Mozart's Letters, Mozart's Life: Selected Letters. Þýðing eftir Robert Spaethling. W.W. Norton. 2000.
- Steptoe, Andrew (1990). The Mozart–Da Ponte Operas: The Cultural and Musical Background to Le nozze di Figaro, Don Giovanni, and Così fan tutte. Oxford: Clarendon Press. ISBN 978-0-19-816221-6. OCLC 22895166.