Wolfgang Amadeus Mozart

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Wolfgang Amadeus Mozart

Wolfgang Amadeus Mozart fæddur Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart, 27. janúar 17565. desember 1791) var eitt mikilvægasta og áhrifamesta tónskáld Klassíska tónlistartímabilsins í Evrópu. Hann notaði sjálfur nafnið "Wolfgang Amadè Mozart". Þrátt fyrir stutta ævi náði Mozart að koma frá sér rúmum sex hundruð verkum af ýmsum toga. Hann samdi óperur, Sinfóníur, píanó konserta, píanó sónötur, kammerverk, svo fátt eitt sé nefnt. Mozart litli var aðeins fjögurra ára þegar Leopold fannst tími til kominn að kenna stráknum á píanó. Leopold vissi ekki að Wolfgang hafði æft sig í laumi og varð yfir sig hissa þegar hann uppgötvaði að strákurinn gat leikið heilt lag á píanóið án þess að ruglast. Frægðin sem hafði fylgt því að geta leikið snilldarlega á hljóðfæri ungur að árum dofnaði hratt.

Leopold Mozart pabbi Wolfgangs var ættaður frá Bæjaralandi og var tónlistarmaður við hirð Sigismunds von Schrattenbach erkibiskups í Salzburg. Móðir Wolfgangs, Anna María fæddist í Pertl árið 1720, einu ári á eftir manni sínum. Anna María var hins vegar Austurrísk. Þau Anna María og Leopold eignuðust sjö börn en aðeins tvö þeirra komust á legg.

Yngri ár[breyta | breyta frumkóða]

Hann fæddist í Salzburg (þá furstadæmi, nú hluti af Austurríki) og var skírður Johannes Chrysostomus Wolfgangus Theophilus Mozart. Frá unga aldri lærði hann hjá föður sínum, Leopold Mozart (17191787), og lærði Mozart að spila á bæði píanó og fiðlu. Hann samdi fyrsta tónverk sitt fimm ára að aldri og fyrstu sinfóníuna sjö ára. Eftir að hafa farið um helstu borgir Evrópu í mörgum tónleikaferðalögum var hann ráðinn sem hirðtónskáld til erkibiskupsins af Salzburg, sem jafnframt var furstinn yfir borginni. Honum líkaði ekki við vinnuveitanda sinn og eftir nokkurra ára vist sagði hann upp og hélt til Vínar.

Mozart í Vín[breyta | breyta frumkóða]

Þar sem honum tókst ekki að fastráða sig vann hann lausavinnu, þ.e. hann samdi, og fékk borgað fyrir, eitt og eitt verk eftir pöntun. Nokkru eftir að Mozart kom til Vínar fór heilsu hans að hraka og um það leyti er hann sá fram á að hann mundi hugsanlega ekki ná sér af þeim veikindum keypti eldri maður af honum sálumessu til handa konunni sinni. Fljótlega fékk hann þó þá tilfinningu að hann væri að semja sína eigin sálumessu. 5. desember 1791 lést Wolfgang Amadeus Mozart af veikindum sínum í sárafátækt og var jarðaður í ómerktri gröf. Hann kláraði aldrei sálumessuna, en lærisveinn hans Franz Xaver Süssmayr lauk við hana eftir að Joseph Eybler, annar og virtari lærisveinn hans og vinur, hafði beðist undan verkinu. Goðsögnin segir að nokkrir vinir tónskáldsins hafi sungið messuna yfir honum, nokkru eftir greftrunina sjálfa. Eftir dauða hans hefur nafn Mozarts hins vegar orðið eitt mesta og arðbærasta vörumerki heims þar sem það kemur nú fyrir, ásamt brjóstmynd af tónskáldinu, á flestu sem hægt er að ímynda sér þar með töldu bjór, marsipankúlum og Hollywood-kvikmynd.

Dauði[breyta | breyta frumkóða]

Wolgang Amadeus Mozart lést svo 5.desember árið 1791 og var grafinn í ómerktri fjöldagröf fyrir fátæklinga. Þar sem hann kláraði aldrei sálumessuna lauk lærisveinn hans Franz Xaver Süssmayr við hana. Sagan segir að nokkrir vinir Mozarts hafi sungið messuna yfir honum stuttu eftir að hann var jarðaður.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]