Władysław Reymont
Władysław Reymont, fæddur Władysław Rejment, (7. maí 1867 – 5. desember 1925) var pólskur rithöfundur. Hann hlaut nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 1924.
Ævi og störf
[breyta | breyta frumkóða]Reymont fæddist inn í fjárvana aðalsætt. Hann nam klæðskeraiðns en vann sem lestarvörður og leikari í farandleikhópi. Ferðalögin urðu honum hvatning til að setja saman smásögur. Árið 1899 sendi hann frá sér skáldsöguna Fyrirheitna landið (pólska: Ziemia obiecana) sem sló í gegn. Í henni beindi höfundurinn athyglinni að arðráni, kúgun og illri meðferð á verkafólki í iðnaðarborginni Lodz. Sagan var hörð gagnrýni á samfélagsleg áhrif óbeislaðrar iðnvæðingar.
Frá 1904 til 1909 sendi hann frá sér fjögurra binda flokkinn Bændurna (pólska: Chopi), sem varð hans langfrægasta verk. Það segir frá einu ári í pólsku bændasamfélagi, þar sem hvert bindi fjallar um sína árstíð.
Verkum Reymont var mjög hampað í Póllandi í valdatíð kommúnista, enda var tónninn blandaður pólskri ættjarðarást og gagnrýni á kapítalisma.
Síðasta skáldsaga Reymont birtist sem framhaldssaga árið 1922 og kom út í heilu lagi árið 1924. Hún nefnist Uppreisn (pólska: Bunt) og er lítt dulin allegóría um rússnesku byltinguna þar sem dýr á sveitabæ gera byltingu. Líkindin við Dýrabæ eftir George Orwell eru augljós en ekki er ljóst hvort Orwell var kunnugt um sögu hins pólska skáldbróður síns.
Nóbelsverðlaun Reymont árið 1924 komu nokkuð á óvart. Samkeppnin var hörð, þar sem Thomas Mann, George Bernard Shaw og Thomas Hardy voru allir orðaðir við verðlaunin. Pólskir bókmenntaáhugamenn bundu frekar vonir við rithöfundinn Stefan Żeromski en sterk and-þýsk voðhorf hans munu hafa komið í veg fyrir að hann hreppti hnossið. Heilsu Reymont var farið að hraka og gat hann ekki haldið til Stokkhólms til að veita verðlaununum móttöku. Hann lést árið eftir.