Fara í innihald

Norska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Norska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
GælunafnLøvene (Ljónin)
ÁlfusambandUEFA
ÞjálfariFáni Noregs Ståle Solbakken
FyrirliðiStefan Johansen
LeikvangurUllevaal Stadion
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
41 (31. mars 2022)
2 (júlí-ágúst 1995)
88 (júlí 2017)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
11-3 gegn Svíþjóð, 12. júlí 1908)
Stærsti sigur
12-0 gegn Finnlandi, 28. júní 1946
Mesta tap
0–12 gegn Danmörku, 7. október 1917
Heimsmeistaramót
Keppnir3 (fyrst árið 1938)
Besti árangur16. liða úrslit (1938, 1998)

Norska knattspyrnulandsliðið (norska: Norges herrelandslag i fotball) er fulltrúi Noregs á alþjóðlegum mótum og er stjórnað af norska knattspyrnusambandinu. Heimavöllur Norðmanna er Ullevaal Stadion í Osló. Núverandi þjálfari þeirra er Ståle Solbakken.

Bestu ár norska landsliðsins voru á árunum 1990-1998. Á þeim árum tókst því að komast á þrjú stórmót HM 1994, HM 1998 og EM 2000.

John Arne Riise er leikjahæsti leikmaður Noregs frá upphafi með alls 110 landsleiki.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Knattspyrna barst til Noregs frá Bretlandi á níunda áratug nítjándu aldar og hlaut skjóta útbreiðslu. Fyrsta knattspyrnufélagið, Christiania FC, var stofnað 1885 en elsta starfandi félagið er Odd Grenland frá 1894. Norska knattspyrnusambandið var svo stofnsett árið 1902 og efndi það til síns fyrsta knattspyrnumóts það sama ár. Enn liðu þó nokkur ár í að landsliði væri komið á legg.

Fyrsti landsleikurinn[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti landsleikur Norðmanna fór fram 12. júlí árið 1908 í Gautaborg og voru mótherjarnir Svíar. Leikurinn var haldinn að frumkvæði sænska knattspyrnusambandsins og var þetta fyrsti landsleikur beggja þjóða. Í fyrstu var ákveðið að norska landsliðið skyldi alfarið vera skipað leikmönnum meistaraliðsins Mercantile FK frá Ósló, en þegar til átti að taka reyndust nokkrir leikmenn félagsins meiddir og þurfti því að fylla upp í hópinn með mönnum úr öðrum liðum.

Athygli vekur að í norska liðinu var Paul Hauman, belgískur verkfræðingur sem búsettur var í Noregi og lék með liði Mercantile, en hugmyndir um nákvæmt ríkisfang landsliðsmanna voru ekki fyllilega mótaðar á þessum árum. Hauman er enn til þessa dags eini maðurinn sem leikið hefur fyrir norska landsliðið án þess að vera norskur ríkisborgari. Af öðrum markverðum leikmönnum mætti nefna Tryggve Gran, sem síðar varð kunnur fluggarpur og heimskautafari.

Norðmenn skoruðu fyrsta markið en síðan tóku Svíar öll völd á vellinum. Lokatölur urðu 11:3. Þótt um vináttuleik væri að ræða var grunnt á því góða milli þjóðanna enda ekki nema þrjú ár liðin frá sambandsslitum ríkjanna. Hermir sagan að þegar langt var liðið á viðureignina hafi sænskir áhorfendur dregið norska fánann niður í hálfa stöng. Tryggve Gran brást þá við með því að hlaupa út af vellinum í miðjum klíðum og dregið fánann að húni á ný.

1910-1930: Brösótt byrjun og Ólympíuafrek[breyta | breyta frumkóða]

Eftir útreiðina gegn Svíum liðu tvö ár í Norðmenn léku landsleik á ný. Aftur voru mótherjarnir Svíar, en að þessu sinni í Ósló. Svíar unnu stórsigur. Norðmenn sendu lið á Ólympíuleikana 1912 en töpuðu stórt á móti Dönum og lutu einnig í lægra haldi fyrir Austurríkismönnum í sérstakri keppni liðanna sem ekki komust í undanúrslit. Raunar tókst Norðmönnum ekki að vinna sigur í landsleik næstu árin og máttu meðal annars sætta sig við 12:0 tap gegn Dönum árið 1917, sem enn er stærsti ósigur landsliðsins í sögunni.

Viðspyrnan hófst á árinu 1918. Þá var ráðinn nýr landsliðsþjálfari, Svíinn Birger Möller. Undir hans stjórn unnu Norðmenn sína tvo fyrstu leiki þetta sama ár. Fyrst á heimavelli gegn Dönum 3:1 og síðan 5:1 stórsigur á Svíum í Gautaborg.

Norðmenn tóku þátt í knattspyrnukeppni Ólympíuleikana 1920 í Antwerpen. Mótherjar þeirra í fyrstu umferð voru lið Bretlands. Bretland var vagga íþróttarinnar og þótt lið þeirra væri einungis skipað áhugamönnum var leikurinn talinn hreint formsatriði. Norðmenn komu gríðarlega á óvart og unnu 3:1, sem lengi voru talin einhver óvæntustu úrslit í alþjóðlegri knattspyrnukeppni. Í næstu umferð reyndist sterkt lið Tékkóslóvakíu þó of stór biti að kyngja.

Þetta fyrsta blómaskeið norskrar knattspyrnu varð skammlíft. Norðmenn unnu raunar frægan sigur á Frökkum í París 1923 og höfðu erkifjendurna Svía undir í nokkrum viðureignum, en frá 1924 til 1928 unnu Norðmenn enga leiki gegn öðrum en Finnum, sem voru lægst skrifaðir allra Norðurlandaliðanna.

1930-1945: Hitler gert gramt í geði[breyta | breyta frumkóða]

Viðspyrna norska landsliðsins á fjórða áratugnum var að miklu leyti Asbjørn Halvorsen að þakka. Hann hafði dvalist lengi í Þýskalandi fyrst sem leikmaður og síðar þjálfari stórliðsins Hamburger SV en sneri til fósturjarðarinnar árið 1934 og tók við sem aðalknattspyrnustjóri norska knattspyrnusambandsins. Sem slíkur sá hann um að velja landsliðið og sá líka um þjálfun þess.

Undir stjórn Halvorsen mættu Norðmenn til leiks á Ólympíuleikunum 1936 í Berlín. Þar unnu þeir Tyrki í fyrstu umferð, 4:0. Því næst tók við leikur í fjórðungsúrslitum gegn ógnarsterku liði heimamanna. Margir af helstu leiðtogum Nasistaflokksins voru meðal áhorfenda, þar á meðal sjálfur Adolf Hitler. Sagt er að þetta hafi verið fyrsti og eini knattspyrnuleikur Hitlers sem hann horfði á sem þjóðhöfðingi, en Norðmenn komu mjög á óvart og unnu 2:0. Segir sagan að Norðmenn hafi verið svo vissir um ósigur fyrir leikinn að þeir hafi þegar verið búnir að panta farseðla heim á leið. Grípa þurfti til framlengingar í undanúrslitaleiknum við Ítali, sem unnu að lokum 2:1 og urðu síðar Ólympíumeistarar. Norðmenn máttu þó vel við una með bronsverðlaunin eftir 3:2 sigur á Pólverjum þar sem „ofurstinn“ Arne Brustad skoraði þrennu.

Eftir þennan góða árangur á Ólympíuleikunum tóku Norðmenn þátt í sínu fyrsta heimsmeistaramóti í Frakklandi 1938. Leikið var með útsláttarfyrirkomulagi og drógust Norðmenn á móti heimsmeisturum Ítala. ítalir höfðu betur, 2:1, eftir framlengdan leik og vörðu í kjölfarið titil sinn. Eftir mótið var framherjinn Arne Brustad valinn í úrvalslið Evrópu sem keppti við Englendinga á Wembley.

Hernám Þjóðverja árið 1940 kom í veg fyrir öll alþjóðleg knattspyrnusamskipti landsins til ársins 1945. Ýmsir forystumenn knattspyrnuhreyfingarinnar, þar á meðal Asbjørn Halvorsen, voru handteknir og sendir í fangabúðir.

1945-1960: Grjóthörð áhugamennska[breyta | breyta frumkóða]

Stríðsárin rændu marga lykilmenn norska landsliðsins sínum bestu árum og byggja þurfti liðið upp að nýju í lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Norðmenn stóðu grönnum sínum Svíum og Dönum talsvert að baki á þessum árum en unnu þó stórsigra á þjóðum sem voru enn lægra skrifaðar, s.s. 11:0 sigur á Bandaríkjamönnum og 12:0 gegn Finnum árið 1946, sem er enn í dag stærsti sigur landsliðsins.

Árið 1949 lék átján ára piltur sinn fyrsta landsleik, Per Bredesen frá félaginu Ørn-Horten. Hann sló þegar í gegn og svo virtist sem norska landsliðið hefði eignast nýja stórstjörnu. Sú gleði varð skammvinn því árið 1952 gerðist Bredesen atvinnumaður á Ítalíu og lék þar með stórliðum á borð við Lazio og AC Milan næsta áratuginn. Í samræmi við strangar áhugamannareglur Norðmanna var hann því ekki lengur gjaldgengur í landsliðið. Sama gilti um fleiri norska leikmenn sem spreyttu sig í atvinnumennsku á þessum árum. Norska landsliðið var alfarið skipað áhugamönnum sem léku í heimalandinu og varð því veikara en ella.

Sigurleikir Norðmanna á sjötta áratugnum voru fáir og þá helst gegn liðum á borð við Finna og Íslendinga. Þó vannst góður sigur á sterku ungversku landsliði í forkeppni HM 1958, 2:1. Á þessum árum stóð Thorbjørn Svenssen einatt í hjarta norsku varnarinnar en hann lék alls 104 landsleiki á ferlinum og varð á sínum tíma einungis annar leikmaðurinn í sögunni til að komast í 100 leikja flokkinn, sá fyrsti var Englendingurinn Billy Wright.

1960-1990: Atvinnumenn en áframhaldandi basl[breyta | breyta frumkóða]

Á sjöunda og áttunda áratugnum töldust Norðmenn áfram í hópi lakari landsliða Evrópu. Stöku góð úrslit litu dagsins ljós í æfingaleikjum en inn á milli komu líka ljótir skellir. Meðal bestu úrslitanna mætti nefna 3:0 sigur á firnasterku liði Júgóslava í forkeppni HM 1966, þar sem Norðmenn náðu óvænt öðru sæti í riðlinum á eftir Frökkum. Það dugði þó ekki til að komast í úrslitakeppnina. Fjórum árum síðar unnu Norðmenn óvæntan útisigur á Frökkum í sömu keppni.

Árið 1969 endurskoðaði norska knattspyrnusambandið áhugamannareglur sínar og heimilaði atvinnumönnum erlendis að leika fyrir landsliðið. Það styrkti liðið talsvert og varð líka til þess að fleiri leikmenn hugsuðu sér til hreyfings og freistuðu gæfunnar utan landsteinanna. Þessar rýmkuðu reglur skiluðu sér þó ekki í betri árangri á vellinum fyrst um sinn. Í forkeppni EM 1972 fengu Norðmenn t.d. aðeins eitt stig í sex leikjum og í forkeppni HM 1974 tapaði liðið með níu mörkum gegn einu fyrir Hollendingum.

Norðmenn veittu Svíum og Svisslendingum harða keppni um að komast á HM 1978. Um svipað leyti tefldu Norðmenn fram sterku áhugamannaliði sem tókst að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum 1980 í Moskvu en að lokum fór svo að Norðmenn tóku kalli Bandaríkjamanna og sniðgengu leikana.

Forkeppni HM 1982 varð söguleg. Norska liðið stóð sig bærilega, en bestu úrslitin urðu þó í lokaleiknum eftir að úrslitin voru ráðin. Enska landsliðið kom í heimsókn á Ullevaal. Þrátt fyrir stífa sókn gestanna tókst heimamönnum að vinna 2:1 sigur, sem varð frægur víða um lönd ekki hvað síst vegna hljóðupptöku af útvarpslýsingu íþróttafréttamannsins Bjørge Lillelien sem ákallaði ýmsar kunnar persónur úr enskri sögu með upphrópuninni: „Your boys took a hell of a beating!“

Eftir vonbrigðin í tengslum við Ólympíuleikana 1980 tókst Norðmönnum að tryggja sér sæti á ÓL 1984 í Los Angeles, að þessu sinni var það reyndar sniðganga ýmissa Austur-Evrópuríkja sem varð til þess að Norðmenn komust að. Norska liðinu mistókst að komast upp úr erfiðum riðli eftir tap gegn meistaraliði Frakka. Margir úr leikmannahópnum frá ÓL 1984 áttu síðar eftir að gegna veigamiklu hlutverki í aðalliðinu.

Sigrar í vináttuleikjum gegn Ítölum og Argentínumönnum árin 1985 og 1986 kættu norska knattspyrnuáhugamenn en þeim var jafnóðum kippt niður á jörðina aftur með ljótum skellum gegn sterkari knattspyrnuþjóðum Evrópu. Eftir afleita byrjun í forkeppni EM 1992 ákvað stjórn knattspyrnusambandsins að segja upp þjálfaranum Ingvar Stadheim.

1990-2000: Noregur í hæstu hæðum[breyta | breyta frumkóða]

Arftaki Stadheim í embætti landsliðsþjálfara var Egil Olsen, oftast nefndur „Drillo“, sem stýrt hafði umgmennalandsliðinu. Fáa óraði fyrir að ráðning hans yrði upphafið að mestu gullöld norskrar knattspyrnusögu. Leikstíll liðsins var að sönnu ekki áferðarfagur. Hugmyndafræði Drillo gekk út á stífan varnarleik þar sem nánast var blátt bann lagt við því að halda knettinum lengi innan liðsins, heldur skyldi flestum sóknum ljúka með örfáum sendingum á fáeinum sekúndum. Óháð fagurfræðinni reyndist þetta mjög árangursrík leikaðferð. Fyrstu merkin mátti sjá í 2:1 sigri á Ítölum vorið 1991 í forkeppni EM.

Frammistaða liðsins undir stjórn Egils Olsen var þeim mun merkilegri í ljós þess að Norðmenn áttu nánast ekki yfir neinum alþjóðlegum stórstjörnum að búa á fyrri hluta tíunda áratugarins. Olsen og stjórnendur knattspyrnusambandsins sýndu einnig mikil klókindi við val á andstæðingum í vináttuleikjum með það að markmiði að komast sem hæst á styrkleikalista FIFA. Það skilaði þeim árangri að í október 1993 og aftur frá júlí til ágúst 1995 komust Norðmenn í annað sæti listans.

Norðmenn lentu í gríðarlega erfiðum riðli í forkeppni HM 1994 ásamt m.a. Englendingum, Hollendingum og Pólverjum. Sigur og jafntefli gegn Englendingum gerðu það að verkum að Norðmenn komust í úrslitakeppnina í fyrsta sinn frá 1938 og skildu Englendinga eftir með sárt ennið.

Keppnin í Bandaríkjunum olli nokkrum vonbrigðum. Í kjölfar sigurs á Mexíkó fylgdi 0:1 tap gegn Ítölum sem léku þó manni færri í 70. mínútur. Öll liðin í riðlinum voru jöfn að stigum fyrir lokaumferðina. Þar gerðu Mexíkó og Ítalía 1:1 jafntefli en Írland og Noregur skildu jöfn 0:0, sem þýddi að Norðmenn sátu eftir á markatölu með heil fjögur stig, jafn mörg og hin liðin þrjú sem öll komust áfram í næstu umferð.

Norðmenn komust ekki á EM 1996 en voru meðal keppnisþjóða á HM 1998 í Frakklandi. Á meðan á undankeppninni stóð unnu Norðmenn 4:2 sigur á Brasilíu, en Norðmenn geta státað af því fágæta meti að hafa aldrei tapað fyrir Brasilíu í karlalandsleik. Það kom sér vel í úrslitakeppni HM 1998 þar sem Norðmenn gerðu jafntefli við Marokkó og Skotland en komust í 16-liða úrslitin með 2:1 sigri á Brasilíumönnum með tveimur mörkum undir lokin. Mótherjarnir í 16-liða úrslitunum voru Ítalir. Andstæðingarnir felldu Norðmenn á eigin bragði með því að skora snemma og pakka svo í vörn. Líkt og sextíu árum fyrr féllu Norðmenn því úr leik gegn Ítölum á HM í Frakklandi. Olsen lét af störfum eftir mótið en aðstoðarmaður hans, Nils Johan Semb, tók við keflinu.

Leikstíll Norðmanna undir stjórn Semb var svipaður og í tíð forverans, þótt liðið nyti óneitanlega góðs af tilkomu nýrra og öflugra leikmanna. Noregur komst í fyrsta og enn sem komið er í eina sinn í úrslitakeppni EM 2000 sem fram fór í Hollandi og Belgíu. Þar vann liðið sigur á Spánverjum í fyrsta leik, 1:0 en tapaði með sömu markatölu fyrir Júgóslövum í næstu umferð. Lokaleikurinn var gegn Slóvenum og hefði sigur tryggt Norðmönnum sæti í útsláttarkeppninni. Þess í stað lögðu Norðmenn höfuðáherslu á að verjast, vitandi að markalaust jafntefli myndi koma þeim áfram svo fremi sem Spánverjar ynnu ekki Júgóslava með einu marki. Það veðmál virtist ætla að ganga upp uns spænska liðið skoraði tvö mörk í uppbótartíma og breytti stöðunni úr 2:3 í 4:3. Norðmenn voru úr leik og fékk þjálfarateymið harða gagnrýni fyrir að sýna ekki meiri dirfsku.

2000-: Kippt niður á jörðina[breyta | breyta frumkóða]

Fljótlega eftir að forkeppni HM 2002 hófst varð ljóst að Norðmönnum myndi ekki takast að byggja á velgengni liðinna ára. Fáa óraði þó fyrir því að tími norska liðsins í úrslitakeppnun stórmóta (til dagsins í dag) væri liðinn. Gamla landsliðskempan Åge Hareide tók við af Semb snemma árs 2004 og byrjaði með látum. Undir hans stjórn var farið að tala um „Nýja Noreg“ en liðið hafnaði þó að lokum fyrir neðan Ítali í forkeppni HM 2006, þar sem við tóku umspilsleikir gegn Tékkum sem töpuðust.

Eftir slaka byrjun í forkeppni HM 2010 freistaði norska knattspyrnusambandið þess að róa á gömul mið. Egil Olsen var fenginn til að hlaupa í skarðið sem landsliðsþjálfari á ný og byrjaði hann á að vinna Þjóðverja í fyrsta vináttuleik. Norðmenn réttu nokkuð úr kútnum undir stjórn Olsen og nældu að lokum í annað sæti í forriðlinum á eftir Hollendingum, en þar sem þeir voru með lakastan árangur allra liðanna í öðru sæti dugði það ekki í umspil.

Þrátt fyrir vonbrigðin hélt Drillo áfram með liðið og freistaði þess að koma Norðmönnum á EM 2014. Eftir góða byrjun endaði norska liðið í þriðja sæti riðilsins og komst ekki í umspil. Noregur naut sem fyrr sterkrar stöðu á styrkleikalista FIFA, þrátt fyrir að það skilaði sér sjaldnast þegar á hólminn var komið. Norðmenn voru þannig í efsta styrkleikaflokki þegar dregið var í forriðla fyrir HM 2014. Sú keppni fór hins vegar öll í handaskolum. Drillo var sagt upp störfum í miðjum klíðum og norska liðið hafnaði í fjórða sæti riðilsins.

Litlu betur tókst til í forkeppni EM 2016. Norðmenn máttu sæta sig við þriðja sæti riðils síns sem þó gaf umspilsleiki við Ungverja sem töpuðust. Lars Lagerbäck, fyrrum landsliðsþjálfari Svíþjóðar og Íslands tók við liðinu í miðri forkeppni HM 2018 en náði ekki að snúa erfiðri stöðu við. Í forkeppni EM 2020 lentu Norðmenn á móti sterkum liðum Spánverja og Svía. Liðið hafnaði í þriðja sæti en góð frammistaða í Þjóðadeildinni gaf þó sæti í umspili þar sem norska liðið tapaði fyrir Serbum og mátti enn á nú sitja heima þegar kom að stórmótum. Sama varð upp á teningnum í forkeppni HM 2022 þar sem Hollendingar og Tyrkir skutu þeim ref fyrir rass í lokaumferðinni.

Flestir leikir[breyta | breyta frumkóða]

 1. John Arne Riise: 110
 2. Thorbjørn Svenssen: 104
 3. Henning Berg: 100
 4. Erik Thorstvedt: 97
 5. Brede Hangeland: 91
 6. John Carew: 91

Flest mörk[breyta | breyta frumkóða]

 1. Jørgen Juve: 33
 2. Einar Gundersen: 26
 3. Harald Hennum: 25
 4. John Carew: 24
 5. Ole Gunnar Solskjær: 23
 6. Tore Andre Flo: 23

Þekktir leikmenn[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]