Fara í innihald

Menntaskólinn Hraðbraut

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Menntaskólinn Hraðbraut
Innsigli Menntaskólans Hraðbrautar Innsigli Menntaskólans Hraðbrautar
Einkunnarorð „Tveimur árum á undan.“
Stofnaður Stofnaður: 1. ágúst 1996 [1]

Kennsla hófst: Ágúst 2003[2]

Tegund Einkaskóli
Skólastjóri Ólafur Haukur Johnson
Nemendur 150 (veturinn 2006–07)
Nemendafélag Autobahn
Staðsetning Faxafen 10 [3][4]
Gælunöfn nemenda Hraðbrautingar, Hraðbrautlingar, Hraðlingar
Heimasíða www.hradbraut.is

Menntaskólinn Hraðbraut eða einfaldlega Hraðbraut var íslenskur framhaldsskóli sem var starfandi frá 2003–2012.[5] Nafn skólans hlýst af því að þar var hægt að ljúka stúdentsprófi á tveimur skólaárum í stað fjögurra, en aldrei fyrr hafði opinberlega verið boðið upp á tveggja ára framhaldsskólanámi á Íslandi. Á þessum tveimur skólaárum skiptist námið upp í 15 lotur, þar af 7 lotur fyrra skólaárið og 8 lotur hið síðara, þar sem hver lota er 6 vikur (nema síðasta lotan sem er aðeins 2 vikur). Nemendur gátu valið um náttúrufræðibraut og málabraut, en báðar brautirnar lögðu umtalsverða áherslu á raunvísindi; svo sem stærðfræði og líffræði og var auk þess lögð sterk áhersla á enskukennslu.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Menntaskólinn Hraðbraut var einkarekinn framhaldsskóli og var formlega stofnaður þann 1. ágúst 1996 en skólinn tók til starfa haustið 2003.[1] Hann var lítill í samanburði við aðra íslenska framhaldsskóla, sem flestir hafa um 200-500 nemendur. Fyrstu nemendur skólans útskrifuðust með stúdentspróf árið 2005.

Um skólann[breyta | breyta frumkóða]

Menntaskólinn Hraðbraut var til húsa að Faxafeni 10,[3][4] í Reykjavík, í húsi Framtíðarinnar.[4] Skólagjöld námu um 200.000 kr. á ári og hann rúmaði um 210 nemendur. Skólastjóri var Ólafur Haukur Johnson[6][7] og aðstoðarskólastjóri var Sigríður Þrúður Stefánsdóttir.[7]

Brottfall nemenda við Hraðbraut er hlutfallslega hærra en meðalbrottfall við aðra Íslenska menntaskóla sem er um 16,4%,[8] en brottfall nemenda í Hraðbraut er um 17,6%.[9]

Skólinn var í eigu Hraðbrautar ehf. sem er í eigu skólastjóra og eiginkonu hans. Eignuðust þau 100% hlut í fyrirtækinu um áramótin 2008-2009 eftir að hafa keypt hlut Gagns ehf., Nýsis hf., og Verslunarmannafélags Reykjavíkur. Áður áttu hjónin helmings hlut.[10][11][12]

Fyrirmynd[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd Menntaskólans Hraðbrautar er Sumarskólinn ehf. sem Ólafur Haukur Johnson skólastjóri Hraðbrautar rak árin 1993-2004. Í Sumarskólanum ehf. bauðst nemendum á framhaldsskólastigi að taka áfanga sem fást viðurkenndir af þeirra framhaldsskóla í sumarfríi framhaldsskólanna til að flýta útskrift sinni.[13][14]

Fjöldi nemenda og skipting kynja[breyta | breyta frumkóða]

Að neðan er tafla sem sýnir nemendafjölda skólans frá upphafi og kynjahlutföll. Athygli vekur að konur hafa alltaf verið fleiri en karlar í Hraðbraut að undanskildu árinu 2007 þegar karlkyns nemendur voru einum fleiri.

Ár Karlar ♂ Konur ♀ Samtals Hlutfall karla ♂ Hlutfall kvenna ♀
2003[15] 21 ( +21) 31 ( +31) 52 ( +52) 40% 60%
2004[16] 55 ( +34) 76 ( +45) 131 ( +79) 42% 58%
2005[17] 50 ( -5) 83 ( +7) 133 ( +2) 38% 62%
2006[18] 64 ( +14) 94 ( +11) 158 ( +25) 41% 59%
2007[19] 87 ( +23) 86 ( -8) 173 ( +15) 50% 50%
2008[20] 62 ( -25) 85 ( -1) 147 ( -26) 42% 58%
2009[21] 48 ( -14) 106 ( +21) 154 ( +7) 31% 69%

Endalok[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2010 kom upp að skólinn ætti í rekstrarerfiðleikum. Úttekt leiddi í ljós að skólinn hefði fengið frá ríkinu 192 milljónir umfram hefðbundið framlag með nemendum á árunum frá 2003 til 2009. Á sama tíma greiddi skólinn 82 milljónir í arð til eigenda og 50 milljónir í lán til tengdra aðila. Árið 2012 ákvað ríkið að endurnýja ekki þjónustusamning við skólann. Í kjölfarið var skólinn lagður niður.

Námsskipulag[breyta | breyta frumkóða]

Skipulag náms við Menntaskólann Hraðbraut er með öðru móti en almennt gerist í skólum á framhaldskólastigi, þar sem hann sameinar skólakerfi sem hingað til hafa verið ráðandi; eða kosti bekkjarkerfis og áfangakerfis. Skólinn notast við bekkjarkerfi að því leyti að nemendur fylgja að mestu sama nemendahópnum frá upphafi skólaársins til enda, en hann notast við áfangakerfi að því leyti að námsárinu er skipt upp í lotur, og ljúka nemendur ákveðnum áföngum (oftast þremur) í hverri lotu, en á fyrsta árinu eru 7 lotur, og á því síðara eru 8.

Fyrsta ár[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta árið er skólinn starfræktur frá miðjum ágúst og lýkur um miðjan júní, þar sem jólafríið hefst snemma í desember og lýkur í byrjun janúar. Á fyrra árinu eru teknar fyrir 7 lotur þar sem í hverri eru þrír áfangar kenndir.

Annað ár[breyta | breyta frumkóða]

Annað árið er skólinn starfræktur frá miðjum ágúst til júní, þar sem jólafríið hefst snemma í desember og lýkur í byrjun janúar. Á síðara árinu eru teknar fyrir 8 lotur þar sem í hverri eru þrír áfangar kenndir, nema í síðustu lotunni þar sem aðeins tveir áfangar eru teknir fyrir.

Loturnar[breyta | breyta frumkóða]

Námið í Hraðbraut samanstendur af 15 lotum þar sem hver lota er því sem næst sex vikur að lengd[22] (samtals er allt námið um 90 vikur með 15 frívikum). Í hverri lotu eru þrír þriggja eininga áfangar kenndir í senn (nema í fimmtándu og síðustu lotu skólans þar sem kenndir eru tveir þriggja eininga áfangar[22]), og að henni lokinni hefst næsta lota og þannig koll af kolli.

Í hverri lotu er kennt í fjórar vikur og svo eru prófin þreytt í fimmtu vikunni. Að því loknu er hlé í eina viku (svo kölluð "frívika"), nema nemandi hafi ekki staðist próf, og þá þarf hann að taka próf úr námsgreinunum sem hann féll í, í sjöttu vikunni. Nemendur ljúka því 9 einingum í hverri lotu[22] að frátalinni síðustu lotu þar sem þeir klára aðeins 6 einingar.[22]

Endurupptektarpróf[breyta | breyta frumkóða]

Ef nemandi fellur á upptektarprófi (þ.e.a.s. ef hann hefur fallið í sama fagi tvisvar) fær hann möguleika á að taka próf sem gildir hundrað prósent af einkunninni gegn gjaldi, eða endurupptektarpróf. Ef nemandi fellur líka í því prófi er hann fallinn í skólanum, þó mögulegt sé að semja um þetta við fulltrúa skóla.

Stundaskrá[breyta | breyta frumkóða]

Stundaskráin er þannig að kennt er þrjá daga í viku, þ.e. mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Þessa daga er kennt frá kl. 8:30 - 16:05. Hinsvegar er yfirseta á þriðjudögum og fimmtudögum þar sem yfirsetukennari situr yfir nemendum, sem þá læra á eigin spýtur. Setið er yfir nemendum hvern þessara daga frá kl. 8:30 - 16:05.

Íþróttir[breyta | breyta frumkóða]

Annað atriði við námsskipulag sem er ólíkt öðrum skólum er íþróttakennsla við skólann, en gert er ráð fyrir því í námsskrá framhaldsskólanna að nemendur fái tilsögn í líkamsrækt allan námstímann en vegna þess að námið við skólann stendur aðeins 4 annir taka nemendur hans einungis fjóra áfanga í íþróttum. Verkleg íþróttakennsla skólans fer fram í líkamsræktarstöðinni Hreyfingu, Glæsibæ.

Bókasafn[breyta | breyta frumkóða]

Ekki er bókasafn við Hraðbraut, en skólinn hefur samning við Borgarbókasafn Reykjavíkur um aðgang nemenda.

Kennslustofur[breyta | breyta frumkóða]

Nemendur á síðara námsári við Menntaskólann Hraðbraut í enskutíma í stofu 4.

Kennslustofur skólans voru átta talsins, að meðtalinni einni raungreinastofu. Á veggjum allra skólastofa var texti; ljóð, brot eða úrtök úr sögum eða málsháttum, og var þetta sett upp við upphaf skólaársins 2006-2007.

Félagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Félag nemenda í skólanum heitir Autobahn, og stendur það fyrir öflugu félagslífi og er þátttaka nemenda almennt virk.

Þemadagar[breyta | breyta frumkóða]

Í hverri törn eru þemadagar þar sem nemendum er gefinn kostur á því að klæða sig eftir ákveðnu þema í einn ákveðinn dag. Dæmi um þema sem hafa komið upp eru bleikur dagur, appelsínugulur dagur, klæðskiptinga dagur, veisluklæða dagur, her dagur og goth dagur. Við lok dags eru gefin stjörnuverðlaun fyrir besta strákinn, bestu stelpuna og besta bekkin og fær sá bekkur sem hefur fengið flestar stjörnur í lok ársins verðlaun; eins og að fara út að borða eða ferð í bíó fyrir allan bekkinn.

Framhaldsskólakeppnir[breyta | breyta frumkóða]

Árlega tekur Hraðbraut þátt í ógrynni af framhaldsskólakeppnum svo dæmi má nefna; Morfís, Gettu Betur, stærðfræði-, paintball- og hæfileikakeppni.[23]

Nefndir og klúbbar[breyta | breyta frumkóða]

Innan skólans er starfrækt nemendafélagið Autobahn, sem merkir einmitt Hraðbraut á þýsku, og hefur það verið starfrækt frá stofnun skólans og sér um að skipulagningu samkvæma- sem og þema-vikna; listafélag; málfundafélag; ritnefnd og vídeónefnd, sem sér um að halda vídeo-kvöld.[23]

Samkvæmi og böll[breyta | breyta frumkóða]

Árlega eru haldin samkvæmi á vegum Hraðbrautar, og má þar helst nefna jólaböll, busaböll, árshátíðarböll og útskriftarball. Einnig eru haldin önnur böll, og taka nemendur oft upp á því að halda böll á eigin vegum.

Gettu betur[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Menntaskólinn Hraðbraut var nýstofnaður, voru fjölfróðir nemendur leitaðir uppi í spurningalið skólans þar sem þjálfari var fenginn til að undirbúa krakkana undir keppnina, en komst Hraðbraut þá í undanúrslit (árið 2004) í sinni fyrstu þátttöku.

Gagnrýni, ádeilur og umfjöllun[breyta | breyta frumkóða]

Kort af rými Hraðbrautar.

Spurning um persónulega hagi[breyta | breyta frumkóða]

Persónuvernd úrskurðaði að Menntaskólinn Hraðbraut megi ekki spyja út í persónulega hagi umsækjanda (eins og hvort þeir ættu við lestrarörðugleika að stríða eða hvort þeir hefðu neytt fíkniefna[24]) eins og hann hefur gert hingað til.[25] Helga Sigurjónsdóttir segir að skólinn hafi notað svör við þessum spurningum til þess að meta það hvaða umsækjendur „eigi enga von um að ná árangri og taka þá því ekki inn í skólann.“[25] Helga segist vera á móti slíkum aðferðum.

[Ég] tel alls ekki rétt að gera þetta. Því miður nýtur sú stefna vaxandi fylgis í grunn- og framhaldsskólum að skólarnir séu að meta hvern og einn og segja þeim fyrir um hvaða nám henti hinum og þessum. [...] Hvernig ætla ég sem kennari að segja fyrir um það hvað nemandi mun geta? Í námi hjá mér eru börn og fullorðnir sem hafa verið dæmd óhæf til að læra almennilega að lesa og skrifa, en ég kenni öllum.
 

Skólastjóri Hraðbrautar, Ólafur Haukur Johnson segir úrskurð Persónuverndar ekki koma til með að hreyfa staf í starfi skólans og sagði þetta einungis hafa verið tilraun þeirra til að afla þessara upplýsinga.

[skólinn hefur] gripið til þessara aðgerða á sínum tíma til að reyna að vinsa út góða nemendur. Þetta hafi verið gert vegna þess að skólinn hafi fengið fjölda dæma þess efnis að fólk sem stundaði þar nám hætti í skólanum vegna vandamála sinna og hafi þá samt sem áður staðið uppi með skólagjöldin, sem í tilfelli Menntaskólans Hraðbrautar eru 190 þús. kr. á vetri. Að sögn Ólafs má skipta umsækjendahópnum í tvennt, þá sem komi beint úr grunnskóla og þá sem eldri eru. Þeir eldri búi oft við einhver vandamál sem verði til þess að þeir gefist upp á skólagöngunni. „Við höfum ítrekað horft upp á að erfiðleikar nemenda hafi orðið til þess að þeir hafi hætt í námi, hvort sem um er að ræða þunglyndi, fíkniefnavanda eða eitthvað annað. Það er ekki ljúft að horfa upp á fólk missa fótanna sem þarf síðan að greiða há skólagjöld.“
 
Ólafur Haukur, skólastjóri Hraðbrautar í viðtali við DV þann 11. október árið 2007.[24]

Engum hefur hinsvegar verið vísað frá vegna þessara upplýsinga, þannig að aldrei hefur þurft að reyna á þær.[24]

Allir umsækjendur koma til okkar í viðtal og ef einhver ákveðinn hakaði við eitthvað þeirra atriða sem getið er um var það rætt. Þessar upplýsingar er ekki að finna í neinu kerfi og hafa einungis þrír aðilar haft aðgang að þeim, þ.e. námsráðgjafi, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri.
 
Ólafur Haukur, skólastjóri Hraðbrautar í viðtali við DV þann 11. október árið 2007.[24]

Á forsendum atvinnulífsins, ekki faglegum[breyta | breyta frumkóða]

Margir hafa gagnrýnt að umræða styttingu náms til stúdentsprófs, og Menntaskólann Hraðbraut, er ekki á faglegum forsendum heldur á forsendum atvinnulífsins og áherslunar á að koma nemendum sem fyrst út á vinnumarkaðinn. Þar má til dæmis nefna grein sem varaformaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Katrín Jakobsdóttir, skrifaði árið 2003 þar sem hún gagnrýnir þessa áherslu.[26] Þar skrifar hún m.a.: „Gegnum þessum faglegu rökum má vitaskuld tefla öðrum faglegum rökum. Í umræðum um Hraðbrautina hefur hins vegar ekki heyrst mikið af slíku, nema þá helst að nauðsynlegt sé að fólk komist fyrr út á vinnumarkaðinn eða í annað nám. Þau rök duga hins vegar í sjálfu sér skammt.“

Styttri námstími á kostnað félagslífs[breyta | breyta frumkóða]

Önnur algeng gagnrýni á skólann er að vegna þess hve hratt skólinn er tekinn njóti nemendur ekki eins mikils félagslífs og nemendur við aðra menntaskóla.

Góð breyting[breyta | breyta frumkóða]

Einnig hefur verið bent á hvernig skólinn sé góð breyting miðað við menntaskóla á þeim tíma, og að hann veiti nemendum kost á hraðari yfirferð í námi, og námsskipulag sem henti þeim betur.

Það er mikilvægur og kærkominn áfangi í menntastefnu ríkisstjórnarinnar að sjá þennan skóla verða að veruleika. Það er skemmst að minnast þess að alþjóðleg rannsókn (PISA) sýndi að Íslendingar stæðu sig ekki nánda nógu vel í því að sinna þeim námsmönnum sem væru yfir meðaltali í skólanámi. Menntaskólinn Hraðbraut er einmitt settur fram sem valkostur fyrir þá nemendur sem standa sig mjög vel í skóla og þurfa hraðari yfirferð í námi sínu til að halda áhuga sínum og til að nálgast markmið sín.
 
— Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir 11. júní 2003, tekið af tikin.is[27]

Sölumennska í Menntaskólanum Hraðbraut[breyta | breyta frumkóða]

Menntaskólinn Hraðbraut hefur ekki stefnu varðandi sölumennsku innan skólans samkvæmt könnun sem Neytendasamtökin gerðu árið 2003.[28] Það hefur komið fyrir að fyrirtækjum hefur verið gefið leyfi fyrir því að vera með kynningarbása eða sölustarfsemi í skólanum og nemendafélagið Autobahn hefur leyfi til þess að hafa samband við fyrirtæki í sambandi við sölumennsku sem tengist nemendum.[28] Skólinn hefur hinsvegar aldrei haft fjárhagslegan ávinning af því að fyrirtæki markaðsetji vörur sínar innan skólans. Árið 2003 veitti Hraðbraut nemendum sínum hvorki kennslu í fjármálum né neytendafræðslu[28], en árið 2005 hófst kennsla í lífsleikni 103 en þar er farið yfir hvort þessara efna.

Endurskoðun á samstarfi við ríkið árið 2010[breyta | breyta frumkóða]

Mennta- og menningarmálaráðuneytið birti tilkynningu 1. október 2010. Þar segir meðal annars, að ríkisendurskoðun hafi að beiðni ráðuneytisins lokið úttekt á framkvæmd á þjónustusamningi þess „við Menntaskólann Hraðbraut og birt skýrslu með niðurstöðum hennar. Telur ráðuneytið niðustöður úttektarinnar gefa tilefni til þess að taka samstarf þess við skólann til endurskoðunar og meta kosti þess að halda því áfram. Við þá endurskoðun mun ráðuneytið leggja áherslu á að hagsmuna nemenda sé gætt og að vel sé farið með almannafé."[29][30][31][32]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 Stofnun skólans Þar stendur undir „Stofnun skólans“ að „Menntaskólinn Hraðbraut er einkarekinn framhaldsskóli. Hann var formlega stofnaður 1. ágúst 1996. Sá dagur var jafnframt gildisdagur nýrra laga um framhaldsskóla á Íslandi, laga nr. 80/1996. Með lögum þessum opnaðist möguleiki á að stofna einkarekinn framhaldsskóla.“
 2. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20050302230556/www.shopping.is/lix/jalta?MatGroupTemp=106525&Devo&nysir&&edit=
 3. 3,0 3,1 Prentari og þráðlaust net Skólinn er staðsettur í glæsilegum húsakynnum að Faxafeni 10 í Reykjavík.Búnaður og aðstaða í skólanum er ein sú besta sem þekkist á þessu skólastigi og fer því vel um nemendur í björtu og rúmgóðu húsnæði sem nýtur góðra samgangna við allt höfuðborgarsvæðið. Kennslustofur eru stórar og nemendur sitja við rúmgóð borð í þægilegum skrifstofustólum. Nemendur hafa aðgang að þráðlausu neti um allan skólann ásamt því að prentari er í hverri stofu.
 4. 4,0 4,1 4,2 Af framhald.is undir „Aðstaða“ Geymt 18 maí 2007 í Wayback Machine Skólinn er staðsettur í [...] húsakynnum að Faxafeni 10 í Reykjavík. Búnaður og aðstaða í skólanum er ein sú besta sem þekkist á þessu skólastigi og fer því vel um nemendur í björtu og rúmgóðu húsnæði sem nýtur góðra samgangna við allt höfuðborgarsvæðið. Kennslustofur eru stórar og nemendur sitja við rúmgóð borð í þægilegum skrifstofustólum. Nemendur hafa aðgang að þráðlausu neti um allan skólann ásamt því að prentari er í hverri stofu.
 5. „Menntaskólinn Hraðbraut hættir rekstri“. Morgunblaðið. 13. ágúst 2014.
 6. Umfjöllun um skólastjórn Hraðbrautar.
 7. 7,0 7,1 Listi yfir Stjórnendur og starfsmenn á heimasíðu Hraðbrautar.
 8. Blaðsíða 3- Brottfall alls: 3.170 af 19.347 eða 16,4%.
 9. Blaðsíða 3- Brottfall Hraðbrautar alls: 23 af 13 eða 17,6%.
 10. „Nýir eigendur að Menntaskólanum Hraðbraut“. mbl.is. Sótt 8. febrúar 2010.
 11. „Nýsir selur í Hraðbraut“. visir.is. Sótt 8. febrúar 2010.
 12. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20050302230556/www.shopping.is/lix/jalta?MatGroupTemp=106525&Devo&nysir&&edit=
 13. "Sumarskólinn ehf. Geymt 5 desember 2006 í Wayback Machine er nú að hefja sitt 14 starfsár."
 14. Er hægt að ljúka stúdentsprófi á 2 árum? Ástæðan fyrir því að [starfsmenn Menntaskólans Hraðbrautar] geta fullyrt það er að [þeir hafa] þrautreynt námsfyrirkomulagið í 10 ár í öðrum skóla, Sumarskólanum, sem hefur lengst af starfað í Háskóla Íslands. Sumarskólinn er að mörgu leyti fyrirmynd Menntaskólans Hraðbrautar, að því er námið varðar, en Sumarskólann hafa fjölmargir nemendur lokið 9 eininga námi í júní á hverju ári. Námsfyrirkomulagið hefur gefist vel og námið reynst nemendum viðráðanlegt. Nám við Menntaskólann Hraðbraut er lagað að þörfum duglegra og metnaðarfullra námsmanna. Um langt árabil var námsþörfum slíkra nemenda ekki sinnt í menntakerfinu og allir nemendur sveigðir undir sama fjögurra ára fyrirkomulagið. Meiri sveigjanleika hefur gætt í seinni tíð þar sem sums staðar er möguleiki á að ljúka námi til stúdentprófs á þremur árum en aldrei fyrr hefur gefist kostur á tveggja ára námi.
 15. „Tafla yfir fjölda nemenda“. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. september 2007. Sótt 16. janúar 2007.
 16. „Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2004“. Hagstofa Íslands. Sótt 8. febrúar 2010.
 17. „Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2005“. Hagstofa Íslands. Sótt 8. febrúar 2010.
 18. „Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2006“. Hagstofa Íslands. Sótt 8. febrúar 2010.
 19. „Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2007“. Hagstofa Íslands. Sótt 8. febrúar 2010.
 20. „Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2008“. Hagstofa Íslands. Sótt 8. febrúar 2010.
 21. „Skráðir nemendur í framhalds- og háskólum haustið 2009“. Hagstofa Íslands. Sótt 8. febrúar 2010.
 22. 22,0 22,1 22,2 22,3 Námsfyrirkomulag
 23. 23,0 23,1 ...Undir „Félgaslíf“ Geymt 18 maí 2007 í Wayback Machine Á stuttum starfstíma hafa nemendur skólans tekið þátt í öllum keppnum framhaldsskólanema svo sem Morfís, Gettur Betur, Stærðfræði -, knattspyrnu-, paintball- og hæfileikakeppni, svo eitthvað sé nefnt. Meðal nefnda og klúbba sem starfrækt eru innan veggja skólans eru skemmtinefnd, listafélag, málfundafélag, ritnefnd og videónefnd. Skólinn hverut [sic] og styrkir nemendur eindregið til þátttöku í hvers kyns athöfnum sem stuðla að heilbrigðri og jákvæðri lífssýn.
 24. 24,0 24,1 24,2 24,3 http://wayback.vefsafn.is/wayback/20080319013424/www.dv.is/vidtalid/lesa/1442
 25. 25,0 25,1 25,2 Frétt í Fréttablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 11. október árið 2007.
 26. Pistill á www.vinstri.is
 27. http://www.tikin.is/tikin/leitarnidurstodur/frettir/?cat_id=1&ew_0_a_id=107158 Geymt 28 september 2007 í Wayback Machine Frétt á www.tíkin.is
 28. 28,0 28,1 28,2 Spurningar og svör 1. Hefur skólinn markað sér stefnu varðandi sölumennsku innan veggja skólans? [...] Nei. [...] 2. Fá fyrirtæki að vera með kynningarbása eða sölustarfsemi á göngum eða í kennslustofum skólans? [...] Já, það hefur gerst. [...] 3. Fær nemendafélagið að vera í samstarfi við fyrirtæki varðandi sölumennsku er beinist að nemendum? [...] Já. [...] 4. Hefur skólinn haft fjárhagslegan ávinning af samstarfi við fyrirtæki sem hafa markaðsett vörur sínar innan skólans? [...] Nei. [...] 5. Veitir skólinn nemendum sínum ráðgjöf eða kennslu í fjármálum? [...] Það mun væntanlega verða gert í áfanganum Lkn-103 eftir því sem áfangalýsing í námskrá gefur tilefni til. [...] 6.. Er neytendafræðsla hluti af einhverjum námsgreinum skólans og þá hvaða námsgreinum og hvaða námsefni er notað? [...] Væntanlega verður einhver slík fræðsla í áfanganum Lkn-103, en sá áfangi verður væntanlega kenndur í fyrsta sinn vorið 2005. Spurningar og svör sem framhaldskólar landsins fengu tækifæri til að svara og til er vitnað í Neytendablaðinu 4. tbl. 2003.
 29. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, tilkynning frá 1. október 2010. Skoðað 26. október 2010.
 30. Ríkisendurskoðun, tilkynning frá 1. október 2010 Geymt 4 desember 2010 í Wayback Machine. Skoðað 26. október 2010.
 31. Mbl.is 26. október 2010: Ósammála um reikniaðferðir. Skoðað 27. október 2010.
 32. Mbl.is 27. október 2010: Stendur við útreikninginn´´. Skoðað 27. október 2010.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Um skólann[breyta | breyta frumkóða]

Fréttir[breyta | breyta frumkóða]