Menntaskólinn að Laugarvatni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Menntaskólinn að Laugarvatni (skammstöfun ML) er framhaldsskóli á Laugarvatni, formlega stofnaður sem sjálfstæður skóli 12. apríl 1953, en hafði frá árinu 1947 verið starfræktur í samvinnu við Menntaskólann í Reykjavík. Jónas frá Hriflu var einn ötulasti hvatamaður að stofnun skólans. Núverandi skólameistari er Jóna Katrín Hilmarsdóttir.

Stofnun[breyta | breyta frumkóða]

Skólahald í sveitum tíðkaðist ekki í kring um 1880 og raunar hvergi í landinu. Skálholtsskóli var lagður niður árið 1785 og í staðinn reis Hólavallaskóli í Reykjavík og starfaði hann við lélegan orðstír til ársins 1800. Sífellt var verið að breyta og herða lög um skólaskyldu og árið 1907 voru sett fræðslulög um skólaskyldu 10-14 ára barna. Þessi lög höfðu greinilega mjög góð áhrif á lærdómsfýsn landans. Það varð til þess að Árnesingar stofnuðu hérðasskóla á Laugarvatni.[1]

Árið 1940 gengu í gildi lög um gagnfræðinám. Bjarni Bjarnason, skólastjóri héraðsskólans og þingmaður Framsóknarflokksins skildi mikilvægi náms Íslendinga og flutti hann þingsályktunartillögu árið 1941 fyrir umbótum. Hann var ekki einn í þessari tillögu heldur barðist Pálmi Hannesson, rektor Menntaskólans í Reykjavík fyrir þessu einnig. Þingsályktunartillagan fól í sér bættara námsframboð á landsbyggðinni. Hún komst á endanum í gegn árið 1947 þó eftir mikið basl og var ákveðið að stofna menntaskóla á Laugarvatni en skólinn starfaði sem útibú fyrir Menntaskólann í Reykjavík fyrstu árin. Það var síðan 6 árum síðar, þann 12. apríl 1953, kl. 16 nánar tiltekið, sem Menntaskólinn að Laugarvatni var settur sem sjálfstætt starfandi skóli, en ekki útibú frá MR.

Fyrsti skólameistari menntaskólans var dr. Sveinn Þórðarson. Margir tóku til máls við stofnun skólans, þar á meðal Björn Ólafsson, þáverandi menntamálaráðherra og Jónas Jónsson frá Hriflu, fyrrverandi ráðherra. Jónas færði einnig menntaskólanum Hvítbláinn, útfararfána Einars Benediktssonar, að gjöf.Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson Menntaskólinn að Laugarvatni, Forsaga, stofnun og saga til aldarloka bls 15 Við útför Einars var kista hans sveipuð bláhvíta fánanum, sem hann hafði barist lengi fyrir að yrði þjóðfáni Íslendinga, en ekki fengið í gegn. Við lát Einars lét Már, sonur Einars, Jónas frá Hriflu fá fánann til varðveislu og leyfi til að ráðstafa honum vel. Hann ákvað við stofnun menntaskólans að færa skólanum fánann að gjöf. Telst þetta vera ein merkasta eign skólans enn þann dag í dag. Talið er að Jónas hafi haft það í hyggju að vekja áhuga æskunnar á verkum þjóðskáldsins Einars Benediktssonar.

„Til fánans“
 
Rís þú unga Íslands merki,
upp með þúsund radda brag.
Tengdu' í oss að einu verki
anda, kraft og hjartarlag.
Rís þú, Íslands stóri, sterki
stofn, með nýjan frægðardag.
 
Skín þú, fáni, eynni yfir
eins og mjöll í fjallahlíð.
Fangamarkið fast þú skrifir
fólks í hjartað ár og síð.
Munist, hvar sem landinn lifir,
litir þínir alla tíð.

Eftir stofnun skólans ákvað dr. Sveinn Þórðarson að Hvítbláinn skyldi vera merki skólans og ljóðið „Til fánans“ söngur hans, auk þess sem hann kom á þeirri hefð, að halda 31. október ár hvert skyldu verk þjóðskáldsins vera kynntur fyrir nemendum skólans.[2]

Sveinn Þórðarson valdi einnig einkunnarorð skólans, „Manngildi, þekking, atorka“, en það er þýðing Baldvins Einarssonar á hugtakinu humanismus.

Nemendafjöldi[breyta | breyta frumkóða]

Til að byrja með voru nemendur um 83-100 talsins. Við fyrstu skólasetninguna árið 1953, voru til að mynda tæplega 90 nemendur, og þar af aðeins 12 stúlkur, sem var mjög dæmigert á þessum tímum.

Fjöldi nemanda fyrstu árin í skólanum
Vorið-1953 52
1953-1954 87
1954-1955 100
1955-1956 88
1956-1957 100
1957-1958 83
1958-1959 85+8
1959-1960 80
  • Hvanneyringar í bændadeild[3][við hvað er átt?]

Húsnæði[breyta | breyta frumkóða]

Í skólahúsnæðinu var heimavist sem tók 84 nemendur, en þá voru kröfur til pláss ekki jafn miklar og þær eru í dag. Nös og Kös eru heimavistarhús sem voru byggð á árunum 1966-1969 en þau rúmuðu rúmlega 140 nemendur. [4] Skólaárið 1972-1973 var tekin í gagnið viðbygging við skólann og í henni er góð aðstaða til raungreinakennslu, fyrirlestrarsalur og salernisaðstaða. Þá var, árið 1996, tekin í notkun hæð, sem var byggð ofan á viðbygginguna, en þar eru nútíma herbergi fyrir elstu nemendur skólans. Þessi heimavist kallast Fjarvist.[5]

Nemendafélagið Mímir[breyta | breyta frumkóða]

Stofnfundur nemendafélagsins var 25. október 1952, að frumkvæði Bjarna Bjarnasonar, skólastjóra héraðsskólans. Á Laugarvatni heitir formaður nemendafélagsins Stallari. Talið er að Ólafur Briem kennari og seinna skólameistari, eða Haraldur Matthíasson hafi eitthvað haft með nafngiftina að gera,[6] en orðið Stallari kemur úr fornu máli og var notað um einn af mikilvægustu hirðmönnum konungs og fólst starf hans í að tilkynna fólkinu boðskap konungsins.[7] Fyrsti formaður nemendafélagsins var kosinn og var það Jóhannes Sigmundsson sem varð fyrir valinu. Í önnur embætti voru kosnir Kjartan Pálsson, varaformaður, Árni Sveinsson ritari og Jóhann Gunnarsson ritari.[8] Fyrsta verk nýrrar stjóranar var að finna nafn á nemendafélagið. Á fundi 1. nóvember var samþykkt einróma að nemendafélagið skildi heita Mímir. Smátt og smátt fóru umsvif nemendafélagsins að aukast og urðu til fleiri embætti. Nú í dag eru innan stjórnar nemendafélagsins 10 embætti.

  • Stallari (formaður nemendafélagsins)
  • Varastallari (Ritari og hægri hönd stallara)
  • Gjaldkeri (sér um fjármál nemendafélagsins)
  • Jafnréttis- og skólaráðsfulltrúar (Tveir, fara reglulega á fund með stjórn skólans og ræða þar hvað má betur fara. Hanna einnig ML varning svo sem peysur og hálsmen)
  • Árshátíðarformenn (Tveir, sjá um allt sem tengist árshátíð og leikriti skólanns)
  • Skemmtinefndarformenn (Tveir, sjá um flestar skemmtanir á vegum nemendafélagsins, oft í samvinnu við aðra meðlimi stjórnarinnar)
  • Íþróttaformenn (Tveir, sjá um alla skipulagða íþróttastarfsemi á vegum nemendafélagsins og skipuleggja ML-tíma)
  • Tómstundarformaður (Sér um N-stofu eða stofu nemenda, sér um Ými (rafíþróttahóp skólans) og allt tengt tómstundum t.d. spil, billjard og margt fleyra)
  • Ritnefndarformaður (sér um útgáfu Mímisbrunns, einnig sér hann um útgáfu slúðurfréttabréfsins Mímings, sem kemur reglulega út)
  • Vef- og Markaðsformaður (Sér um ljósmyndun á öllum atburðum á vegum nemendafélagsins. Einnig sér hann um vefsíðu félagsins.)

Eitt það merkilegasta sem tengist nemendafélaginu er útgáfa skólablaðsins Mímisbrunns. Fyrsti ritstjóri blaðsins var Björgvin Salómonsson, en í ritnefnd, ásamt ritstjóra sat einn úr hverjum bekk.[9]

Hefðir[breyta | breyta frumkóða]

Menntaskólinn að Laugarvatni er skóli þar sem mikið er um hefðir af ýmsu tagi. Margar hefðir hafa haldið sér frá upphafi fram á þennan dag, en aðrar hafa verið lagðar niður af ýmsum ástæðum. Fyrst skal nefna göngudag. Sú hefð hófst skólaárið 1956-7, þegar allir nemendur skólans skelltu sér í gönguferð upp á Gullkistu, en hún er ekki langt frá staðnum. Þessi hefð hefur haldið sér allt til dagsins í dag og er gengið hvert haust á eitthvert fjall í nágrenninu. Önnur hefð sem er mjög einkennandi fyrir skólann er húsþing. Menntaskólinn að Laugarvatni er örugglega eini framhaldsskólinn á landinu þar sem skólameistari boðar til húsþings þar sem allir nemendur skólans safnast saman og hlýða á orð hans. Húsþingin eiga rætur að rekja sín allt til fyrsta skólameistara skólans, dr. Sveins Þórðarsonar. Bekkjarveisla kallast það, bekkur kemur saman að kvöldlagi og borðar góðan mat. Hefðin hófst skólaárið 1960-1 og þá komu nemendur saman í vel skreyttri skólastofu. Á árunum 1962-66 varð hins vegar breyting á og pöntuðu nemendurnir þá mat úr Kaupfélagi Árnesinga og elduðu sjálfir. Stelpurnar sáu aðallega um eldamennskuna. Frá árunum 1967 og til dagsins í dag hefur bryti mötuneytisins séð um matseldina og hittast bekkjarfélagar fínt klæddir og eiga góða stund saman. Þessi hefð er enn til staðar. Bjölluslagur var fyrst haldinn skólaárið 1958-9. Reglur eru nokkrar, en í stuttu máli að þá eiga 2. bekkingar, sem sjá um vanalega um að hringja inn og út úr tíma, að reyna að hringja bjöllunni, en allir nemendurnir í hinum bekkjunum eiga að hindra þá í að hringja henni. Ef ekki næst að hringja bjöllunni á 15 mínútum, fæst frí í tímanum eftir það. Eina skilyrðið fyrir bjölluslag er, að skólameistarinn má ekki vera á staðnum. Þessi hefð er enn til staðar Söngsalur er skemmtileg hefð, sem upphaflega er fengin alla leið frá Akureyri. Þá safnast nemendur skólans saman og syngja heila kennslustund. Þessi hefð er enn til staðar. Göngufrí: Hægt er að spyrja kennara einu sinni á önn hvort hann vilji fara í göngufrí og ef hann samþykkir það að þá fellur niður ein kennslustund og kennarinn fer í gönguferð með nemendum þess bekkjar um Laugarvatn. Þessi hefð er enn til staðar. Kaffitímar er þegar nemendur geta spurt kennarana hvort þeir vilji fara með skólabækurnar upp á setustofur vistanna og kenna þar. Kamel og Kvemel: Kamel (Karlrembufélag Menntaskólans að Laugarvatni) og Kvemel(Kvenrembufélag Menntaskólans að Laugarvatni) eru félög sem ,,berjast á móti” hvoru öðru. Félögin eru frekar leynileg og vita félögin mjög lítið um hvort annað. Helstu atburður félagana eru að halda svokallaðar átveislur án þess að hitt kynið viti neitt af því. Upphaflega voru stelpurnar með vöffluveislu. Nú eru þær með ísveislu og strákarnir með pizzaveislu. Stelpurnar þurfa að borða 25 lítra af ís og strákarnir að borða 25 16” pizzur. Þá voru hluti af þessum hefðum voru svokallaðar táskoðanir hjá stelpum og naflaskoðanir hjá strákunum. Þessar hefðir hafa verið lagðar nýlega niður sökum þess að þetta særði blygðunarkennd sumra. Margar aðrar hefðir hafa verið lagðar af og hér koma nokkrar.

Listavika er hefð sem lagst hefur niður og var haldin í fyrsta skipti skólaárið 1970-71 og var tilraun nemenda skólans að vera menningarleg. Buðu nemendur upp á t.d myndlistasýningar, bókmenntakynningar og kvikmyndasýningar. Reiptog: Hefð þegar Kvemel og kennaralið fóru í reiptog sín á milli einu sinni á ári og var keppt á stéttinni fyrir framan skólahúsið. Talið er að þessi siður hafi hafist skólaárið 1961-2. Teygja er hefð, sem var notuð til að refsa fólki fyrir að fara inn í skólahúsnæðið á útiskóm. 4. bekkingar sáu um teygjuna og hófst þetta skólaárið 1975-6 Vimmun var tekin upp skólaárið 1976-7 og fól hún í sér að fylla rörið á ryksugu, sem hægt var að láta blása út með ræstiduftinu ,,Vim”. Rörið var sett upp að skráargatinu á tilteknu herbergi og ryksugan síðan sett í gang. [10]

Skólameistarar[breyta | breyta frumkóða]

Eftirfarandi er listi yfir skólameistara skólans:[11]

  • Sveinn Þórðarson(1953-1959)
  • Ólafur Briem (1958-1960)
  • Jóhann S. Hannesson (1960-1970)
  • Kristinn Kristmundsson (1970-2002)
  • Halldór Páll Halldórsson (2001 - 2022)
  • Jóna Katrín Hilmarsdóttir (2022 til dagsins í dag)

Námið[breyta | breyta frumkóða]

Lengi vel voru 3 deildir við skólann, máladeild, náttúrufræðideild og eðlisfræðideild, eða frá 1975 fram til 1999, þegar ný aðalnámsskrá var tekin í notkun. Lítil aðsókn hafði verið í eðlisfræðibraut og því var hún því sameinuð náttúrufræðibraut. Reynt hefur verið að setja af stað íþróttabraut en hún reyndist mjög dýr í rekstri auk þess sem brottfall nemenda var mikið. Árið 2005 var í fyrsta skipti byrjað að kenna á félagsfræðibraut við menntaskólann og er sú braut ennþá starfandi[12]

Þekktir nemendur[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi listi er ekki tæmandi. Þú getur hjálpað til með því að bæta við hann

Allnokkrir þekktir einstaklingar hafa stundað nám við Menntaskólann að Laugarvatni.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson Menntaskólinn að Laugarvatni, Forsaga, stofnun og saga til aldarloka bls 17
  2. Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson Menntaskólinn að Laugarvatni, Forsaga, stofnun og saga til aldarloka bls 47
  3. Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson Menntaskólinn að Laugarvatni, Forsaga, stofnun og saga til aldarloka bls 39
  4. Elísabet Jónasdóttir ofl. Menntaskólinn að Laugarvatni 30 ára, afmælisrit. Bls 12
  5. „Ágrip af sögu skólans“[óvirkur tengill] á vefsíðu skólans.
  6. Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson Menntaskólinn að Laugarvatni, Forsaga, stofnun og saga til aldarloka bls 49
  7. [1]
  8. Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson Menntaskólinn að Laugarvatni, Forsaga, stofnun og saga til aldarloka bls 43
  9. Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson Menntaskólinn að Laugarvatni, Forsaga, stofnun og saga til aldarloka bls 52
  10. Elísabet Jónasdóttir ofl. Menntaskólinn að Laugarvatni 30 ára, afmælisrit. Bls 20-29
  11. „Ágrip af sögu skólans“[óvirkur tengill] á vefsíðu skólans.
  12. „Ágrip af sögu skólans“[óvirkur tengill] á vefsíðu skólans.
  13. Æviágrip Sigurðar I. Jóhannssonar af vef Alþingis
  14. Dómarar
  15. Æviágrip Unnar B. Konráðsdóttur af vef Alþingis

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]