Fara í innihald

Litlu-Sundaeyjar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort sem sýnir Litlu-Sundaeyjar

Litlu-Sundaeyjar (indónesíska: Nusa Tenggara) eru röð lítilla eyja sem mynda suðvesturhluta Sundaeyja. Eyjarnar eru hluti af eldfjallahring, Sundahringnum, sem stafar af niðurstreymi við Sundadjúpálinn í Jövuhafi. Flestar Litlu-Sundaeyja eru hluti af Indónesíu (héruðin Balí, Vestur-Nusa Tenggara og Austur-Nusa Tenggara og syðri hluti Malukuhéraðs), en austurhluti eyjunnar Tímor er ríkið Austur-Tímor.

Litlu-Sundaeyjar mynda tvo aðskilda eyjaklasa. Í þeim nyrðri eru eyjarnar Balí, Lombok, Súmbava, Flóres og Wetar, sem eru eldfjallaeyjar með nokkur virk eldfjöll. Í syðri eyjaklasanum eru eyjarnar Súmba, Tímor og Babareyjar, sem ekki eru eldfjallaeyjar og eru hluti af Ástralíuflekanum. Nyrðri eyjaklasinn á margt sameiginlegt með Mólúkkaeyjum sem eru framhald hans til austurs.

Lífríki eyjanna er fjölbreytt og þar eru margar einlendar tegundir, þeirra á meðal kómodódrekinn á Kómodóeyjum. Breski náttúrufræðingurinn Alfred Russel Wallace setti árið 1859 fram hugmyndina um Wallace-línuna, mörk sem greindu að fánu Asíu og Wallacíu sem er sambland Asíu og Ástralíu. Línan liggur að vestanverðu um hið djúpa Lomboksund milli eyjanna Balí og Lombok. World Wildlife Fund hefur skilgreint laufskóga Litlu-Sundaeyja sem sérstakt vistsvæði.