Steingervingar á Íslandi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Elstu steingervingar sem hafa fundist á Íslandi eru frá míósen, um 15 milljón ára gamlar plöntuleifar. Auk plöntuleifa hafa fundist steingerðar leifar skordýra frá míósen og plíósen[1].Fundarstaðir steingervinga frá míósen og plíósen eru helst á Vesturlandi og á Vestfjörðum. Í jarðlögum frá ísöld hafa fundist í setlögum, einkum í vatna- og sjávarseti, nokkuð af leifum hryggleysingja. Sjaldgæft er að finna steingerðar landdýraleifar á Íslandi en þó hefur m.a. fundist bein úr hjartardýri[1].

Jarðlög með steingervingum[breyta | breyta frumkóða]

Á milli hraunlaga íslensku blágrýtismyndunarinnar eru víða rauðleit leirborin silt- og sandsteinslög. Þessi lög eru mynduð úr fornum jarðvegi og í þeim hafa fundist steingerðar leifar plantna. Talið er að um fimm til tíu þúsund ár líði að meðaltali á milli myndunar tveggja hraunlaga í blágrýtismynduninni[1][2]. Tíð eldvirkni með gjóskufalli á nokkurra ára fresti hefur auðveldað jarðvegsmyndun og þar með plöntum við að ná fótfestu. Í þessum setlögum á milli hraunlaganna má víða sjá för eftir stöngla og blöð ásamt koluðum plöntuleifum. Þessi setlög eru þó ekki þau einu sem bera leifar plantna, meðal þykkustu setlaganna í blágrýtismynduninni eru fínkorna silsteins- og leirsteinslög sem myndast hafa í dældum fylltum af fornum stöðuvötnum. Þessi lög innihalda einnig plöntusteingervinga. Í jarðlögum frá ísöld sem orðið hafa fyrir áhrifum jökla hafa fundist í setlögum nokkuð af leifum hryggleysingja, einkum í vatna- og sjávarseti. Gríðarmikið af leifum sjávarhryggleysingja er að finna í setlögum á Tjörnesi[1].

Jurtaleifar[breyta | breyta frumkóða]

Í setlögum hafa fundist leifar plantna sem lifðu á Íslandi á síðari hluta nýlífsaldar sem gefið hafa upplýsingar um loftslag, gróðurfar og dýralíf á þeim tíma. Plöntusteingervingar finnast helst í setlögum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Aðgengilegar og vel varðveittar plöntuleifar hafa fundist í Þórishlíðarfjalli í Selárdal, í Botni í Súgandarfirði, við Ketilseyri í Dýrafirði, í Surtarbrandsgili í Brjánslæk, við Tröllatungu og í Húsavíkurkleif í Steingrímsfirði, í Mókollsdal í Kollafirði í Strandasýslu og í nágrenni Hreðavatns og Stafholts í Borgarfirði[1][3][4].

Plöntusteingervingar í hraunlögum[breyta | breyta frumkóða]

Í hraunlögum hafa fundist menjar um gróður frá efri hluta nýlífsaldar og eru holur og för eftir greinar og trjáboli algengastar, t.d. í Kotagili í Skagafirði en einnig á Barðaströnd og Jökulfjörðum[1]. Afsteypur af trjábolum hafa einnig fundist í Strandasýslu, Barðaströnd, Skagafjarðardölum og í Hornafirði[1][5].

Setlög tengd surtarbrandi[breyta | breyta frumkóða]

Surtarbrand má finna víða í setlögum á milli hraunlaga en hann er kolaður mór eða trjágróður. Viðarbrandur frá Vestfjörðum og Tjörnesi inniheldur einkum leifar barrtrjáa eins og furu, risafuru, vatnafuru og lerki en einnig lauftrjáa[1][3][4]. Í setlögum sem fylgja Surtarbrandinum hafa fundist margs konar plöntuleifar. Leifarnar eru einkum varðveittar í silt- eða sandkenndu vatnaseti t.d. í Surtarbrandsgili í Brjánslæk.

Gróðurfarssaga[breyta | breyta frumkóða]

Íslenskar gróðurmenjar eldri en 10 milljón ára gamlar bera vott um skyldleika við tegundir sem uxu í laufskógabelti Norður-Ameríku og bera vitni um mildara loftslag en nú er ríkjandi á landinu[1][3][6]. Það er því líklegt að á þessum tíma eða fyrr hafi verið landbrú á milli frum-Íslands og Norður-Ameríku[1]. Meðalhiti hefur verið um 8-12°C þegar þær plöntur sem nú finnast steingerðar í Botni, Selárdal, við Brjánslæk og Seljá uxu hér[1][4].

Heittemprað loftslag[breyta | breyta frumkóða]

Gróðurmenjarnar í Þórishlíðarfjalli í Selárdal eru um 15 milljón ára gamlar og innihalda leifar heittempraðs skógs lauf- og barrtrjáa. Mest ber á beyki, kastaníu, álmi, lind, magnólíu, hjartartré, vatnafuru, risarauðviði og fornrauðviði[1][4][7][8].

Temprað loftslag[breyta | breyta frumkóða]

Jurtaleifar í Dufansdal í Fossafirði (í botni Arnarfjarðar) innihalda 13,5 milljón ára gamlar leifar skógs sem óx í tempruðu loftslagi. Mest ber á beyki, birki, agnbeyki og álmi en dulfrævingar eru meira áberandi en berfrævingar[1][8]. Leifarnar í Surtarbrandsgili hjá Brjánslæk og við Seljá í Vaðalsdal eru taldar um 12 milljón ára gamlar. Mest áberandi eru þinur, greni, risafura, lárviður, magnólía, hlynur, elri, birki, víðir, túlípantré, álmur og hesliviður[1][4]. Á þessum tíma voru lauftré farin að víkja fyrir barrtrjám og beyki var ekki lengur aðaltré. Plöntuleifar úr setlögum við Tröllatungu og í Húsavíkurkleif í Steingrímsfirði og í Hólmatindi við Reyðarfjörð eru 10-9 milljón ára gamlar. Burknar, víðir, hlynur, magnolía, birki, valhnota og hikkoría virðast hafa verið ríkjandi í láglendisgróðri á þessum tíma[1][4]. Í Hrútagili í Mókollsdal í Strandasýslu eru 9-8 milljón ára gamlar jurtaleifar þar sem beyki virðist aftur hafa verið algengt en einnig finnst hlynur, birki, elrir, álmur, vænghnota og hesliviður[1][4].

Kaldtemprað loftslag[breyta | breyta frumkóða]

Leifar í nágrenni Hreðavatns eru taldar 7-6 milljóna ára gamlar en þar eru birki, víðir og barrtré orðin ríkjandi fremur en kulvísari tegundir. Loftslag fór kólnandi á efri hluta míósen eins og leifarnar við Hreðavatn bera með sér. Leifar við Sleggjulæk í Borgarfirði benda til frekari kólnunar en þær er líklega um 3,5 milljón ára gamlar. Birki, víðir og grös urðu sífellt meira áberandi á sama tíma og skógurinn fór minnkandi[1][4].

Ísaldarloftslag[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir um 2,6 milljón árum mynduðust svo jökulbergslög í Borgarfirði sem benda til enn frekari kólnunar[1][9]. Í setlögum í Breiðuvík á Tjörnesi finnast jurtaleifar neðst í setlögunum. Um er að ræða um tveggja milljón ára gömul frjókorn af furu, elri, birki og grösum. Því hefur skógurinn verið að mestu horfinn á þessum tíma og runnagróður tekinn við ásamt barrtrjám og elri. Á seinni hlýskeiðum ísaldar virðist birki hafa verið eina skógartréð og gróður svipaður því sem nú er[1]. Í Bakkabrúnum í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu hafa fundist um 70m þykk setlög sem virðast um 1,7 milljón ára gömul. Þar eru víða blaðför eftir birki, víði, elri og lyng[1][4]. Í Stöð á norðanverðu Snæfellsnesi hafa einnig fundist menjar um svipaðan gróður, þó yngri, um 1,1 milljón ára gömul[1][4]. Í 120 metra þykkum setlögum á Svínafellsfjalli í Öræfum finnast blaðför þar sem elri er algengt. Leifarnar eru taldar um 800 þúsund ára gamlar[1][4]. Í Elliðavogi við Reykjavík er um 20 cm þykkt lag af koluðum viðarleifum sem hvíla á völubergi en viðarleifarnar eru rétt neðan við Reykjavíkurgrágrýtið. Í þessum lögum, líklega seint frá ísöld hafa fundist fræ og aldin af ýmsum núverandi landlægum plöntutegundum ásamt frjókornum af birki, víði og öðrum jurtum[1][3]. Gróður á ísöld færðist smám saman í núverandi horf. Af um 440 tegundum háplantna sem nú lifa hér á landi teljast 97% vera evrópskar að uppruna, einungis um 10 tegundir eru af amerískum uppruna[1][10].

Land- og ferskvatnsdýraleifar[breyta | breyta frumkóða]

Leifar land- og ferskvatnsdýra finnast sjaldan í lögum íslensku blágrýtismyndunarinnar enda geymast þær illa í kalksnauðum setlögunum og leysast fljótt upp[1].

Ferskvatnsdýr[breyta | breyta frumkóða]

Af ferskvatnsdýrum hafa fundist örsmá svipudýr og stoðnálar úr litlum svampdýrum í surtabrandslögunum í Brjánslæk[1][6]. Vatnaflær hafa fundist í Mókollsdal og Langavatnsdal[1][11]. Í gili ofan við Illugastaði í Fnjóskadal hafa fundist setkjarnar úr samlokum sem líklega lifðu í fersku vatni en nokkuð er af leifum af plöntum og kísilþörungum í setinu[1].

Landdýr[breyta | breyta frumkóða]

Leifar landdýra hafa sjaldan fundist í íslenskum jarðlögum[1].

Landskordýr[breyta | breyta frumkóða]

Bjölluleifar hafa fundist í surtabrandslögunum við Brjánslæk og skjaldlúsum hefur verið lýst úr setlögum við Tröllatungu í Steingrímsfirði[1][3]. Í Hrútagili innarlega í Mókollsdal hafa fundist vel varðveitt rykmý og blaðlús[1][11]. Blaðlúsin tilheyrir tegundinni Longistigma caryae, stóru hikkoríublaðlúsinni. Þessi lús lifir nú í austurhluta Norður-Ameríska laufskógabeltisins. Er þetta elsta eintak þessarar tegundar sem fundist hefur. Einnig er þetta með stærstu blaðlúsum sem fundist hafa[1].

Leifar hjartardýrs[breyta | breyta frumkóða]

Í Þuríðargili í Hofsárdal í Vopnarfirði fundust leifar Hjartardýrs[1][12]. Þær voru í rauðu siltsteinslagi í um það bil 330 metra hæt yfir sjó. Þarna fundust leifar beina úr herðasvæði ungs dýrs og má greina hluta úr herðablaði. Aldur setlagsins er 3,5-3 milljónir ára og því eldra en byrjun Ísaldar. Það má því vera ljóst að dýr og plöntur hafa einangrast á landinu eftir að það varð eyja[1].

Leifar frá hlýskeiði[breyta | breyta frumkóða]

Einu landdýraleifarnar sem fundist hafa frá hlýskeiði eru skordýr og vatnakrabbar sem fundust í setlögum með koluðum jurtaleifum í Elliðavogi við Reykjavík[1]. Lítið hefur fundist af landdýraleifum frá síðjökultíma. Þó hefur fundist jaxl úr ísbirni í um það bil 13.000 ára gömlum setlögum í Röndinni við Kópasker[1][13]. Við Elliðaár við Reykjavík hafa fundist fótspor eftir sundfugl[1][13] og bein úr æðarfugli í sjávarsetlögum í Melabökkum í Melasveit[1].

Sædýraleifar[breyta | breyta frumkóða]

Allvíða hafa fundist leifar sædýra sem fyrrum lifðu við strendur landsins. Mest er um lindýr en má finna leifar fiska og sjávarspendýra. Rostungsbein hafa til dæmis fundist allvíða á svæðinu frá Faxaflóa til Húnaflóa; hauskúpur, tennur, rifbein og reðurbein[1].

Tjörneslögin[breyta | breyta frumkóða]

Á Tjörnesi má finna mikil sjávarsetlög eldri en frá ísöld (þau elstu um 5 miljón ára) og er heildarþykkt laganna vart minni en 500 metrar[1][14]. Þar hafa fundist leifar af mismunandi samfélögum sædýra og hafa hvergi á Íslandi fundist fleiri tegundir sjávardýra í íslenskum setlögum. Aldursgreiningar benda til þess að lögin hafi tekið að hlaðast upp fyrir um 5 milljón árum. Mest ber á lindýrum, krabbadýrum og götungum en einnig hafa þar fundist leifar fiska og sjávarspendýra, það er sela, rostunga og hvala[1][14][15]. Skipta má lögunum í þrjú belti, neðsta og elsta gáruskeljalag, í miðið tígulskeljalag og efst og yngst er krókskeljalag[1][14].

Gáruskeljalagið[breyta | breyta frumkóða]

Þrjár tegundir gáruskelja hafa fundist í gáruskeljalaginu og lifir ein þeirra nú ekki norðar en í Norðursjó[1].

Tígulskeljalagið[breyta | breyta frumkóða]

Tígulskeljar í samnefndu lagi eru nú útdauðar. Tegundir sem finnast í gáru- og tígulskeljalögunum eru þær sömu og finnast í öðrum álíka gömlum setlögum annars staðar við Norður-Atlantshafið. Hins vegar lifa margar þeirra í hlýrri sjó en nú er við landið[1].

Krókskeljalagið[breyta | breyta frumkóða]

Neðst í krókskeljalögunum breytist sædýrafánan með tilkomu tegunda sem áður voru óþekktar á svæðinu. Má þar nefna beitukóng, hafkóng, krókskel, halloku og rataskel (Hiatella arctica) en þessar tegundir eru nú meðal algengustu skeldýrategunda hér við land[1][15]. Í krókskeljalögunum hafa fundist um 80 tegundir lindýra, aðalega snigla- og samlokutegundir[1][15]. Í Breiðuvík á Tjörnesi er um 125 metra þykk setlagasyrpa mynduð að hluta til af sjávarseti sem inniheldur leifar sædýra, einkum götunga, krabbadýra og lindýra[1].

Hnyðlingar[breyta | breyta frumkóða]

Í Mýrdal í Vestur-Skaftafellssýslu hafa fundist molar úr silt- eða sandsteini með skeldýraleifum hér og þar í móbergi. Svipaðir molar eða hnyðlingar hafa fundist í móbergi í Surtsey og Heimaey. Hnyðlingarnir hafa brotnað úr gosrásum og borist upp með gosefnum[1][3].

Búlandshöfði[breyta | breyta frumkóða]

Á norðanverðu Snæfellsnesi frá Kirkjufelli vestur að Skarðslæk má rekja allt að 50 metra þykkar setlagasyrpur. Í þessum syrpum við Búlandshöfða hafa fundist kaldsjávartegundir eins og jökultodda, trönuskel, rataskel, lambaskel og turnrósa[1][16]. Neðst í lögunum við Búlandshöfða eru hins vegar hlýsjávartegundir eins og kræklingur, kúskel og fjörudoppa. Flest bendir til að lögin í Búlandshöfða hafi því myndast við lok jökulskeiðs og við byrjun eftirfarandi hlýskeiðs. Aldursgreining á lögunum við Búlandshöfða benda til þess að þau séu elst um 1,1 milljón ára[1][16].

Ísaldarlög við Reykjavík og Seltjarnarnes[breyta | breyta frumkóða]

Í Háubökkum í Elliðavogi við Reykjavík eru setlög undir Reykjavíkurgrágrýtinu með skeljum; gljáhnytlu, halloku og smirslingi[1][17]. Setlög má finna varðveitt á Setjarnarnesi og í norðanverðum Fossvogi sem geyma leifar sædýra; götunga, snigla, samloka og krabbadýra. Þessi lög hafa myndast í sjó við lok síðasta jökulskeiðs[1].

Nákuðungslögin[breyta | breyta frumkóða]

Menjar um hærri sjávarstöðu á núverandi hlýskeiði nefnast nákuðungslögin, einkum þekkt við Húnaflóa annars vegar og Eyrarbakka og Stokkseyri hins vegar. Lögin innihalda dæmigerða strandfánu og eru nákuðungar og doppur þar helst[1].

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,00 1,01 1,02 1,03 1,04 1,05 1,06 1,07 1,08 1,09 1,10 1,11 1,12 1,13 1,14 1,15 1,16 1,17 1,18 1,19 1,20 1,21 1,22 1,23 1,24 1,25 1,26 1,27 1,28 1,29 1,30 1,31 1,32 1,33 1,34 1,35 1,36 1,37 1,38 1,39 1,40 1,41 1,42 1,43 1,44 1,45 1,46 1,47 1,48 1,49 1,50 1,51 1,52 Leifur A. Símonarson & Jón Eiríksson (2012). Steingervingar og setlög á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 82 (1-4). bls. 13-25.
  2. Kristján Sæmundsson (1979). Outline of the Geology of Iceland. Jökull 29. bls. 7-28.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 Leifur A. Símonarson (1981). Íslenskir steingervingar. Náttúra Íslands 2. útg. bls. 157-173.
  4. 4,00 4,01 4,02 4,03 4,04 4,05 4,06 4,07 4,08 4,09 4,10 Denk, T., Friðgeir Grímsson, Zetter, R. & Leifur A. Símonarson (2011). Late Cainozoic floras of Iceland. Topics in Geobiology 35. bls. 854.
  5. Leifur A. Símonarson, Friedrich, W.L. & Páll Imsland (1975). Hraunafsteypur af trjám í íslenskum tertíerlögum. Náttúrufræðingurinn 44. bls. 140-149.
  6. 6,0 6,1 Friedrich, W.L. (1966). Zur Geologie von Brjanslaekur unter besonderer Berücksichtigung der fossilen Flora. Sönderveröffentlichungen des Geologischen Institutes der Universität Köln 10. bls. 1-10.
  7. Friðgeir Grímsson & Leifur A. Símonarsson (2006). Beyki úr íslenskum setlögum. Náttúrufræðingurinn 74. bls. 81-102.
  8. 8,0 8,1 Friðgeir Grímsson, Denk, T. & Leifur A. Símonarson (2007). Middle Miocene floras of Iceland - the early colonization of an island? Review of Paleobotany and Palynology 144. bls. 181-219.
  9. Jón Eiríksson (2008). Glaciation events in the Pliocene-Pleistocene volcanic succession of Iceland. Jökull 58. bls. 315-329.
  10. Eyþór Einarsson (1963). The elements and affinities of Icelandic flora. North Atlantic biota and their history. Pergamon Press, Oxford. bls. 297-302.
  11. 11,0 11,1 Friedrich, W.L., Leifur A. Símonarson & Heie, O.E. (1972). Steingervingar í millilögum í Mókollsdal. Náttúrufræðingurinn 42. bls. 4-17.
  12. Leifur A. Símonarson (1990). Fyrstu landspendýraleifarnar úr íslenskum tertíerlögum. Náttúrufræðingurinn 59. bls. 189-195.
  13. 13,0 13,1 Jóhannes Áskelsson (1961). Um íslenska steingervinga. Náttúra Íslands. Almenna Bókafélagið, Reykjavík. bls. 47-63.
  14. 14,0 14,1 14,2 Guðmundur G. Bárðarson (1925). A stratigraphical survey of the Pliocene deposits at Tjörnes, in Northern Iceland. Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab, Biologiske Meddelelser 4 (5). bls. 1-118.
  15. 15,0 15,1 15,2 Leifur A. Símonarson & Jón Eiríksson (2008). Tjörnes - Pliocene and Pleistocene sediments and faunas. Jökull 58. bls. 331-342.
  16. 16,0 16,1 Ólöf E. Leifsdóttir (1999). Ísaldarlög á norðanverðu Snæfellsnesi. Setlög og skeldýrafánur. Óbirt M.Sc. ritgerð. Háskóli Íslands, Reykjavík.
  17. Þorkell Þorkelsson (1935). A fossiliforeus interglacial layer at Elliðaárvogur, Reykjavík. Vísindafélag Íslendinga, Greinar 1. bls. 78-91.