Fara í innihald

Al Thani-málið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Al Thani-málið var umfangsmikið efnahagsbrotamál sem rekið var fyrir íslenskum dómstólum í kjölfar bankahrunsins 2008. Fjórir fyrrum stjórnendur og hluthafar Kaupþings banka voru ákærðir að hafa með sýndarviðskiptum haldið uppi hlutabréfaverði Kaupþings og skapað þannig falska eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum.[1] Svikin fóru þannig fram að katarskur höfðingi, sjeikinn Múhameð Al Thani, var fenginn til að kaupa 5% hlut í Kaupþingi, en kaupin fjármagnaði Kaupþing sjálft með eigin fjármagni bankans og skapaði þar með eigin eftirspurn.[2]

Málið var á meðal umfangsmestu sakamála sem rekin hafa verið á Íslandi og dómarnir þeir þyngstu sem fallið hafa um efnahagsbrot.

Múhameð Al Thani

[breyta | breyta frumkóða]
Múhameð Al Thani sést hér í opinberri heimsókn sinni til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna 2017.

Múhameð Al Thani (f. 1988) er af katörskum höfðingjaættum og ber virðingartitilinn sjeik. Hann var einungis tvítugur þegar hann keypti 5,01% hlut í Kaupþingi fyrir 25,7 milljarða króna. Kaupin fóru fram 22. september 2008. Það var Ólafur Ólafsson, einn aðaleiganda Kaupþings, sem kom á sambandi Al Thanis og bankans.

Eftir að bankinn féll og skilanefnd var sett yfir hann 8. október 2008 vaknaði grunur um að viðskiptin hefðu verið annars eðlis en gefið hafði verið í skyn í yfirlýsingum bankans og stjórnenda hans. Al Thani hafði ekki lagt bankanum til nýtt fé með kaupunum heldur voru þau alfarið fjármögnuð með lánum frá bankanum sjálfum sem veitt voru í gegnum aflandsfélög.

Með embætti sérstakur saksóknari í málefnum efnahagshrunsins fór Ólaf Þór Hauksson.

Rannsakað var hvort ráðamenn Kaupþings hefðu gerst sekir um:

  1. Umboðssvik – Bankinn veitti lán til aflandsfélaga sem veitt voru án trygginga og án samþykkis lánanefnda bankans.
  2. Markaðsmisnotkun – Með því að hafa staðið að viðskiptafléttunni og með því að hafa gefið opinberlega rangar og villandi yfirlýsingar um eðli viðskiptanna var reynt að hafa áhrif á eftirspurn eftir hlutabréfum bankans á verðbréfamarkaði.

Rannsóknarnefnd Alþingis, sem sett hafði verið til að skoða aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, birti niðurstöður sínar í 8. kafla í skýrslu nefndarinnar þar sem skoðuð voru útlán bankanna. Skýrslan kom út 2010.

Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu í febrúar 2015 þar sem allir ákærðu voru sakfelldir.

  • Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, fékk 5½ árs fangelsisdóm. Hann var sakfelldur fyrir umboðssvik.
  • Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþing, fékk 4 ára fangelsisdóm. Hann var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun, en sýknaður af umboðssvikum.
  • Ólafur Ólafsson, einn aðaleiganda Kaupþings, fékk 4½ árs fangelsisdóm. Hann var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun, en sýknaður af umboðssvikum.
  • Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fékk 4½ árs fangelsisdóm. Hann var sakfelldur fyrir umboðssvik.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. https://www.visir.is/g/2015150219606
  2. https://www.rna.is/eldri-nefndir/addragandi-og-orsakir-falls-islensku-bankanna-2008/skyrsla-nefndarinnar/bindi-2-kaflar-7-og-8/8.-kafli/