Al Thani-málið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Al Thani-málið var umfangsmikið efnahagsbrotamál sem rekið var fyrir íslenskum dómstólum í kjölfar bankahrunsins 2008. Fjórir fyrrum stjórnendur og hluthafar Kaupþings banka voru ákærðir að hafa með sýndarviðskiptum haldið uppi hlutabréfaverði Kaupþings og skapað þannig falska eftirspurn eftir hlutabréfum í bankanum.[1] Svikin fóru þannig fram að katarskur höfðingi, sjeikinn Múhameð Al Thani, var fenginn til að kaupa 5% hlut í Kaupþingi, en kaupin fjármagnaði Kaupþing sjálft með eigin fjármagni bankans og skapaði þar með eigin eftirspurn.[2]

Málið var á meðal umfangsmestu sakamála sem rekin hafa verið á Íslandi og dómarnir þeir þyngstu sem fallið hafa um efnahagsbrot.

Múhameð Al Thani[breyta | breyta frumkóða]

Múhameð Al Thani sést hér í opinberri heimsókn sinni til utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna 2017.

Múhameð Al Thani (f. 1988) er af katörskum höfðingjaættum og ber virðingartitilinn sjeik. Hann var einungis tvítugur þegar hann keypti 5,01% hlut í Kaupþingi fyrir 25,7 milljarða króna. Kaupin fóru fram 22. september 2008. Það var Ólafur Ólafsson, einn aðaleiganda Kaupþings, sem kom á sambandi Al Thanis og bankans.

Rannsókn[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að bankinn féll og skilanefnd var sett yfir hann 8. október 2008 vaknaði grunur um að viðskiptin hefðu verið annars eðlis en gefið hafði verið í skyn í yfirlýsingum bankans og stjórnenda hans. Al Thani hafði ekki lagt bankanum til nýtt fé með kaupunum heldur voru þau alfarið fjármögnuð með lánum frá bankanum sjálfum sem veitt voru í gegnum aflandsfélög.

Með embætti sérstakur saksóknari í málefnum efnahagshrunsins fór Ólaf Þór Hauksson.

Rannsakað var hvort ráðamenn Kaupþings hefðu gerst sekir um:

  1. Umboðssvik – Bankinn veitti lán til aflandsfélaga sem veitt voru án trygginga og án samþykkis lánanefnda bankans.
  2. Markaðsmisnotkun – Með því að hafa staðið að viðskiptafléttunni og með því að hafa gefið opinberlega rangar og villandi yfirlýsingar um eðli viðskiptanna var reynt að hafa áhrif á eftirspurn eftir hlutabréfum bankans á verðbréfamarkaði.

Rannsóknarnefnd Alþingis, sem sett hafði verið til að skoða aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna, birti niðurstöður sínar í 8. kafla í skýrslu nefndarinnar þar sem skoðuð voru útlán bankanna. Skýrslan kom út 2010.

Dómur[breyta | breyta frumkóða]

Hæstiréttur kvað upp dóm í málinu í febrúar 2015 þar sem allir ákærðu voru sakfelldir.

  • Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings, fékk 5½ árs fangelsisdóm. Hann var sakfelldur fyrir umboðssvik.
  • Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþing, fékk 4 ára fangelsisdóm. Hann var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun, en sýknaður af umboðssvikum.
  • Ólafur Ólafsson, einn aðaleiganda Kaupþings, fékk 4½ árs fangelsisdóm. Hann var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun, en sýknaður af umboðssvikum.
  • Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, fékk 4½ árs fangelsisdóm. Hann var sakfelldur fyrir umboðssvik.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. https://www.visir.is/g/2015150219606
  2. https://www.rna.is/eldri-nefndir/addragandi-og-orsakir-falls-islensku-bankanna-2008/skyrsla-nefndarinnar/bindi-2-kaflar-7-og-8/8.-kafli/