Fara í innihald

Fangelsismálastofnun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kennimerki Fangelsismálastofnunar

Fangelsismálastofnun ríkisins er opinber stofnun íslenska ríkisins. Hlutverk stofnunarinnar er að sjá um fullnustu refsingar með því að reka fangelsi. Stofnunin annast eftirlit með þeim sem frestað er ákæru gegn, dæmdir eru skilorðsbundið, fá skilorðsbundna reynslulausn, náðun eða frestun afplánunar. Forstjóri fangelsismálastofnunar, nefndur fangelsismálastjóri, er Páll Winkel. Hann er skipaður til fimm ára í senn af dómsmálaráðherra.

Fangelsismálastofnun ber að reka fangelsi með þeim hætti að öryggi fanganna og almennings sé tryggt. Einnig er það í þágu samfélagsins að fanginn hljóti endurhæfingu þannig að hann sé betur í stakk búinn til þess að fóta sig í samfélaginu að afplánun lokinni.

Á Íslandi eru rekin fimm fangelsi:

Hegningarhúsið í miðbæ Reykjavíkur er lang elst, það var tekið í notkun 1874 en húsnæðið hefur einnig verið nýtt í öðrum tilgangi. Þar starfaði Hæstiréttur á tímabili. Í dag er þar aðstaða fyrir 16 fanga þar af tvö einangrunarpláss. Fangelsið uppfyllir þó ekki ströngustu skilyrði um aðstöðu fyrir fanga enda stendur til að leggja það niður.[1]

Fangelsið í Kópavogi var tekið í notkun 1989 og getur vistað 12 fanga. Það er fyrrverandi unglingaheimili ríkisins. Þar eru allir kvenfangar landsins hafðir en einnig karlar þar sem að jafnaði afplána aðeins 4-5 konur dóma á hverjum tíma. Í fangelsinu vinna fangarnir greidda verktakavinnu samkvæmt samningum sem verkstjóri fangelsins gerir við fyrirtæki á einkamarkaði. Menntaskólinn í Kópavogi býður upp á námskeið í fangelsinu.

Fangelsið á Litla-Hrauni var stofnað 8. mars 1929. Það er stærsta fangelsi landsins og tekur 33 fanga. Fangelsinu er skipt í mismunandi byggingar sem nefnast Hús 1, 2, 3 og 4. Við fangelsið starfa 43 fangaverðir, fjórir deildarstjórar og einn fulltrúi. Í fangelsinu fá fangarnir greidd laun fyrir vinnu við vörubrettasmíði, hellusteypu, þrif, þvottahús, skrúfbútaframleiðslu, skjalaöskjuframleiðslu, bílnúmera- og skiltagerð, samsetningar í járn- og trésmíði og bón og þvott bíla. Fjölbrautaskóli Suðurlands býður föngum upp á nám á meðan á afplánun stendur.

Fangelsið á Kvíabryggju var upphaflega notað 1954 til þess að vista feður sem ekki greiddu meðlag eða barnalífeyri. Fangelsið var tekið í almenna notkun 1963. Þar er pláss fyrir 14 fanga. Þar eru ekki rimlar fyrir gluggum og svæðið er ekki afgirt.

Á Akureyri er fangelsisdeild í húsnæði lögreglunnar sem tekur 9 fanga. Þar er ekki aðstaða til vinnu eða náms. Fangar eru ekki vistaðir þar lengur en í nokkra mánuði.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „www.visir.is - Hegningarhúsið stenst ekki undanþáguskilyrði“. Sótt 2. febrúar 2007.