Fara í innihald

Héraðsdómar Íslands

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Héraðsdómur Reykjavíkur)

Héraðsdómar Íslands eru lægsta dómstigið af þremur á Íslandi en dómum þeirra má áfrýja ýmist til Landsréttar eða Hæstaréttar sem eru æðri dómstigin. Áfrýjanir beint til Hæstaréttar frá héraðsdómstólum eftir gildistöku nýrra dómstólalaga eiga að vera afar sjaldgæfar. Héraðsdómstólarnir eru 8 talsins en þeim var komið á með lögum um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði frá 1989 sem tóku gildi 1992.[1] Núgildandi lög um héraðsdóma eru nr. 50/2016 er tóku gildi þann 1. janúar 2018. Héraðsdómarar skulu vera 42 og skipaðir ótímabundið af dómsmálaráðherra að fenginni umsögn sérstakrar dómnefndar sem skipuð er fimm fulltrúum, einum sem tilnefndur er af Hæstarétti, einum tilnefndum af Landsrétti, einum tilnefndum af Dómstólasýslunni sem má ekki vera starfandi dómari, einum sem tilnefndur er af Lögmannafélagi Íslands, og hinum fimmta sem kjörinn er af Alþingi.

Áður hafði dómsvald í héraði hvílt hjá sýslumönnum og bæjarfógetum nema í Reykjavík þar sem dómsvaldið hvíldi hjá embættum borgardómara, borgarfógeta og sakadómara. Í stærstu kaupstöðum utan Reykjavíkur voru einnig starfandi sérstakir héraðsdómarar við embætti bæjarfógeta. Með lögunum var allt dómsvald fært til hinna nýju héraðsdóma og skerpt var á hlutverki sýslumanna en embætti bæjarfógeta voru lögð niður, embætti borgarfógeta í Reykjavík varð að sýslumanninum í Reykjavík sem fór með sömu störf að dómsvaldinu undanskildu. Lengi hafði verið rætt um fullan aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds á Íslandi, meirihluti þingnefndar sem skipuð var 1914 til að fjalla um málið lagði til slíkan aðskilnað 1916 en Alþingi kaus að ráðast ekki í þær breytingar að svo stöddu. Það var ekki fyrr en mál Akureyrings sem dæmdur var fyrir umferðarlagabrot barst inn á borð mannréttindanefndar Evrópuráðsins (undanfara núverandi Mannréttindadómstóls Evrópu) 1987 að undirbúningur hófst að lagasetningunni. Maðurinn hafði verið dæmdur af fulltrúa bæjarfógetans á Akureyri sem starfaði undir stjórn fógetans sem jafnframt var yfirmaður lögreglunnar sem rannsakaði málið. Málið var kært til mannréttindanefndarinnar á þeirri forsendu að mál sakbornings hefði ekki hlotið meðferð í undirrétti fyrir óháðum dómara. Nefndin ákvað að taka málið til efnismeðferðar sem þýðir að hún taldi líkur á að þetta fyrirkomulag bryti í bága við Mannréttindasáttmála Evrópu. Dómur féll þó aldrei í þessu máli þar sem gerð var sátt sem fól í sér loforð íslenskra stjórnvalda um að ráðast í breytingarnar á kerfinu.

Dómstólarnir

[breyta | breyta frumkóða]
Héraðsdómar Íslands er staðsett á Íslandi
Héraðsdómur Austurlands
Héraðsdómur Austurlands
Héraðsdómur Norðurlands eystra
Héraðsdómur Norðurlands eystra
Héraðsdómur Norðurlands vestra
Héraðsdómur Norðurlands vestra
Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Suðurlands
Héraðsdómur Suðurlands
Héraðsdómur Vestfjarða
Héraðsdómur Vestfjarða
Héraðsdómur Vesturlands
Héraðsdómur Vesturlands
Héraðsdómar á Íslandi
  1. [1]