Útlendingastofnun

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Útlendingastofnun er ein af undirstofnunum Dómsmálaráðuneytisins.[1] Stofnunin var sett á fót sem deild innan lögreglunnar árið 1937 í kjölfar samþykktar nýrra laga um eftirlit með útlendingum (nr. 59/1936).[2] Til ársins 2002 hét stofnunin útlendingaeftirlitið en nafninu var breytt með nýjum lögum um útlendinga nr. 96/2002 sem sett voru í kjölfar þess að samningur um Schengen-samstarfið gekk í gildi á Íslandi.[3][4] Með nýju lögunum varð Útlendingastofnun að sérstakri ríkisstofnun með eigin forstjóra en stofnunin hafði áður verið aðskilin frá lögreglunni með lagabreytingu árið 1999. Stofnuninni er skylt að starfa eftir útlendingalöggjöf Íslenska ríkisins sem „gildir um heimild útlendinga til að koma til landsins og dvelja hér á landi, en útlendingur telst hver sá sem ekki er íslenskur ríkisborgari samkvæmt lögum um íslenskan ríkisborgararétt“.[5] Umfangsmesti þátturinn í starfsemi stofnunarinnar er útgáfa dvalarleyfa.[6]

Kristín Völundardóttir er forstjóri stofnunarinnar.[7]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu heildstæðu lögin um dvöl og brottrekstur útlendinga voru samþykkt á Alþingi árið 1920[8]. Dómsmálaráðuneytið fór þá með úrskurðarvald. Með nýjum lögum 1936 var komið á fót útlendingaeftirliti innan íslensku lögreglunnar og sá hún um eftirlit með komum útlendinga til landsins og útgáfu dvalarleyfa. Árið 1939 var hert mjög á eftirliti með útlendingum um alla Evrópu vegna ótta við njósnir og hryðjuverk. Í kjölfar þess að Síðari heimsstyrjöld braust út var hert mjög á útlendingaeftirlitinu á Íslandi og þess meðal annars krafist að útlendingar tilkynntu um breytingar á búsetu sinni innanlands. Samkvæmt Þór Whitehead stóð Hermann Jónasson fyrir því 1939 að komið var upp leynilegu eftirgrennslanakerfi undir hatti útlendingaeftirlitsins sem náði einnig til Íslendinga sem taldir voru geta ógnað öryggi ríkisins[9].

Árið 1955 gekk bókun um norræna vegabréfasambandið í gildi á Íslandi og var formlega lögfest þegar lög um útlendinga voru endurskoðuð í heild árið 1965. Þá var kveðið á um réttarstöðu flóttamanna þar sem Ísland hafði gerst aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna frá 1951[10] Þeim ákvæðum var breytt árið 2001 í kjölfar þess að Ísland gerðist aðili að Dyflinnarreglugerðinni[11]. Verulegar breytingar voru gerðar á lögunum í kjölfar þess að Ísland gerðist aðili að EES-samningnum 1993. Þá var meðal annars kveðið á um kærurétt vegna úrskurða útlendingaeftirlitsins.

Ný lög um útlendinga nr. 96/2002 tóku gildi um áramótin 2002/2003. Þau eru mun viðameiri en fyrri lög. Með nýju lögunum var nafni útlendingaeftirlitsins breytt í Útlendingastofnun.[3]

Gagnrýni[breyta | breyta frumkóða]

Útlendingaeftirlitið hefur oft verið gagnrýnt fyrir málsmeðferð hælisumsókna og stofnunin verið sökuð um að fara ekki að lögum við vinnslu þeirra.[12]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. https://www.stjornarradid.is/raduneyti/stofnanir/
  2. Ragnar Jónsson (16.06.1938). „Eftirlit með útlendingum“. Nýja dagblaðið. bls. 3.
  3. 3,0 3,1 „96/2002: Lög um útlendinga“. Alþingi. Sótt 14. mars 2024.
  4. „Schengen“. Lögreglan. 17. apríl 2020. Sótt 14. mars 2024.
  5. „Um Útlendingastofnun“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. apríl 2014. Sótt 3. apríl 2014.
  6. „Útlendingastofnun“. island.is. Sótt 14. mars 2024.
  7. „Skipurit | Útlendingastofnun“. island.is. Sótt 14. mars 2024.
  8. Íris Björg Kristjánsdóttir (2010). Lög um útlendinga á Íslandi: Mannfræðirýni á lagaumhverfi innflytjenda á Íslandi frá 1920-2009. MA-ritgerð í mannfræði við Háskóla Íslands: s. 23 (Skemman.is)
  9. Þór Whitehead (2006). Smáríki og heimsbyltingin: um öryggi Íslands á válegum tímum. Þjóðmál 2: s. 55-85.
  10. Íris Björg Kristjánsdóttir. Op cit: s. 26.
  11. Ibid
  12. „Útlendingarstofnun of fámenn til að sinna hlutverki sínu“. Kjarninn. 21. október 2014. Sótt 14. mars 2024.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi Íslandsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.