Gvatemala
República de Guatemala | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: El País de la Eterna Primavera (spænska) Land hins eilífa vors | |
Þjóðsöngur: Himno Nacional de Guatemala | |
Höfuðborg | Gvatemalaborg |
Opinbert tungumál | spænska |
Stjórnarfar | Forsetaræði
|
Forseti | Bernardo Arévalo |
Sjálfstæði | |
• frá Spænska heimsveldinu | 15. september 1821 |
• frá Fyrsta mexíkóska keisaradæminu | 1. júlí 1823 |
• frá Sambandslýðveldi Mið-Ameríku | 17. apríl 1839 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
105. sæti 108.889 km² 0,4 |
Mannfjöldi • Samtals (2021) • Þéttleiki byggðar |
69. sæti 17.608.483 129/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2022 |
• Samtals | 185,8 millj. dala (77. sæti) |
• Á mann | 9.931 dalir (121. sæti) |
VÞL (2021) | 0.627 (135. sæti) |
Gjaldmiðill | quetzal |
Tímabelti | UTC-6 |
Þjóðarlén | .gt |
Landsnúmer | +502 |
Gvatemala er land í Mið-Ameríku með landamæri að Mexíkó í norðri, Belís í norðaustri og Hondúras og El Salvador í suðaustri, og strönd við bæði Kyrrahaf og Karíbahaf. Höfuðborg Gvatemala heitir la Asunción en er betur þekkt sem Gvatemalaborg. Gvatemala er þekkt fyrir náttúrufegurð sína og gott kaffi. Þjóðarhljóðfæri Gvatemala er marimban.
Gvatemala var í miðju þess landsvæðis þar sem menningarsamfélag Maja stóð. Á 16. öld lögðu Spánverjar landið undir sig og gerðu það að hluta varakonungdæmisins Nýja-Spánar. Gvatemala fékk sjálfstæði frá Spáni og Mexíkó árið 1821. Árið 1823 varð landið hluti af Sambandslýðveldi Mið-Ameríku sem var leyst upp árið 1841.
Frá miðri 19. öld ríktu mikill óstöðugleiki og átök í Gvatemala. Frá því snemma á 20. öld var landið undir stjórn ýmissa einræðisherra sem nutu stuðnings United Fruit Company og ríkisstjórnar Bandaríkjanna. Árið 1944 var einræðisherranum Jorge Ubico steypt af stóli af herforingjum sem vildu koma á lýðræði, en það leiddi til 10 ára byltingar og umfangsmikilla félagslegra umbóta. Byltingin var brotin á bak aftur þegar Bandaríkin studdu herforingjastjórn til valda 1954 og komu á einræði á ný.[1] Frá 1960 til 1996 stóð blóðug borgarastyrjöld í landinu, þar sem stjórnarherinn framdi meðal annars þjóðarmorð gegn frumbyggjum Maja.[2][3][4] Friður var saminn að undirlagi Sameinuðu þjóðanna og eftir það hefur landið búið við hagvöxt og lýðræði, en glímir við vandamál tengd ójöfnuði, fátækt og glæpagengjum.
Rúmur helmingur íbúa Gvatemala eru Mestísar af blönduðum evrópskum og amerískum uppruna, en um 40% teljast til frumbyggja af ýmsum þjóðarbrotum Maja. Íbúar eru nú yfir 17 milljónir en voru aðeins 885.000 um aldamótin 1900. Gvatemala er því fjölmennasta land Mið-Ameríku og 11. fjölmennasta land Ameríku. Ójöfnuður er mikill og talið að um helmingur þjóðarinnar sé undir fátæktarmörkum. Vegna borgarastyrjaldarinnar 1960-1996 búa margir Gvatemalar utan landsins og peningasendingar brottfluttra íbúa eru stærsti stofn gjaldeyristekna í landinu.
Þekktust Gvatemalabúa utan landsteinana er án efa nóbelsverðlaunahafinn Rigoberta Menchú. Hún er þekkt fyrir að vekja athygli á stöðu frumbyggja í landinu, en á þeim frömdu stjórnvöld skipulegt þjóðarmorð í borgarastríðinu.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Nafnið Gvatemala kemur úr nahúatl, Cuauhtēmallān „staður margra trjáa“, dregið af orði K'iche-Maja yfir „mörg tré“, eða hugsanlega af heiti Cuate-trésins (Eysenhardtia). Þetta var það sem stríðsmenn Tlaxcala sem fylgdu Pedro de Alvaro í herförum hans nefndu landið.[5]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Í Gvatemala eru miklar fornleifar frá tímum Maja sem ríktu yfir svæðinu allt þar til Spánverjar lögðu það undir sig á fyrri hluta 16. aldar. Gvatemala var síðan hluti af Nýja Spáni þar til Mexíkó lýsti yfir stofnun sjálfstæðs keisaradæmis árið 1821. Gvatemala klauf sig síðan frá þessu nýja ríki og myndaði Mið-Ameríkusambandið með öðrum löndum í Mið-Ameríku. Sambandið leystist upp í kjölfar borgarastyrjaldar milli 1838 og 1840. Frá lokum 19. aldar ríktu einræðisherrar yfir landinu, oft studdir af bandaríska fyrirtækinu United Fruit Company.
Fyrstu frjálsu forsetakosningarnar fóru fram 1944 eftir að herforingjabylting hafði steypt einræðisherranum Jorge Ubico Castañeda af stóli. Árið 1954 stóð bandaríska leyniþjónustan fyrir valdaráni í Gvatemala til að vernda hagsmuni United Fruit Company sem taldi landbúnaðarumbætur forsetans ógnun við sig. Í kjölfarið fylgdu fleiri herforingjauppreisnir, óheiðarlegar kosningar og valdarán að undirlagi Bandaríkjanna. Bandaríkin sáu einnig stjórnarliðum og hægrisinnuðum hópum fyrir vopnum og herþjálfun. Skæruhernaði á vegum stjórnarandstöðuflokka var mætt af mikilli hörku sem leiddi meðal annars til vopnasölubanns í forsetatíð Jimmy Carter og slita stjórnmálatengsla við Spán vegna mannréttindabrota Gvatemalastjórnar. Herinn og vopnaðir hópar drápu þúsundir óbreyttra borgara í sveitum landsins og tugþúsundir flúðu yfir landamærin til Mexíkó á 9. áratug 20. aldar.
Borgarastyrjöldinni í Gvatemala lauk árið 1996 þegar stjórnvöld sömdu um frið við skæruliða. Ættingjar fórnarlamba mannréttindabrota stjórnvalda vinna nú að því að lögsækja þá sem báru ábyrgð á mannránum og morðum og sérstök sannleiksnefnd fer yfir skjöl sem tengjast borgarastyrjöldinni. Árið 2012 var fyrrum forseti landsins, Efraín Ríos Montt, sóttur til saka vegna glæpa stjórnvalda og dæmdur í 80 ára fangelsi.
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Gvatemala er forsetalýðræði þar sem forseti Gvatemala er bæði þjóðhöfðingi og stjórnarleiðtogi. Landið býr við fjölflokkalýðræði. Ríkisstjórn Gvatemala fer með framkvæmdavald, en löggjafarvald skiptist milli ríkisstjórnarinnar og þingsins. Dómsvaldið er óháð löggjafar- og framkvæmdavaldi.
Þann 2. september 2015 sagði Otto Pérez Molina forseti af sér vegna spillingarmáls. Alejandro Maldonado tók þá við til 2016.[6] Núverandi forseti er Bernardo Arévalo sem tók við embætti árið 2024.
Stjórnsýslueiningar
[breyta | breyta frumkóða]Gvatemala skiptist í 22 umdæmi (departamentos) sem aftur skiptast í um 332 sveitarfélög.
Efnahagslíf
[breyta | breyta frumkóða]Hagkerfi Gvatemala er það stærsta í Mið-Ameríku með 5.200 dali á mann. Samt glímir Gvatemala við miklar félagslegar áskoranir og er eitt af fátækustu löndum Rómönsku Ameríku. Dreifing tekna er mjög ójöfn og yfir helmingur íbúa er undir fátæktarmörkum. Rétt yfir 400.000 (3,2%) eru atvinnulaus. CIA World Factbook mat það sem svo að 54% íbúa lifðu við fátækt árið 2009 þegar efnahagskreppa var í landinu.[7][8]
Árið 2010 var 3% hagvöxtur í Gvatemala sem rétti úr kútnum eftir efnahagskreppu, sem stafaði af minnkandi eftirspurn frá Bandaríkjunum og öðrum mörkuðum í Mið-Ameríku, auk þess sem hægði á erlendri fjárfestingu vegna Alþjóðlegu fjármálakreppunnar.[9]
Peningasendingar frá Gvatemölum búsettum í Bandaríkjunum eru nú stærsta uppspretta gjaldeyristekna (2/3 af útflutningi og 10% af landsframleiðslu).[7]
Helstu útflutningsafurðir Gvatemala eru ávextir, grænmeti, blóm, handverk, föt og annað. Landið er einn helsti framleiðandi kardemommu[10] og kaffis.[11]
Vegna vaxandi eftirspurnar eftir lífeldsneyti fer ræktun og útflutningur á hráefni fyrir lífeldsneytisframleiðslu, sérstaklega sykurreyr og pálmaolíu, vaxandi. Gagnrýnendur segja að þetta leiði til hærra verðs fyrir undirstöðumatvæli eins og maís, sem er mikilvægur hluti af mataræði Gvatemalabúa. Vegna niðurgreiðslna á bandarískum maís flytur Gvatemala nú inn nær helming af þeim maís sem neytt er innanlands frá Bandaríkjunum, sem aftur kaupa 40% af landbúnaðarframleiðslu Gvatemala fyrir framleiðslu á lífeldsneyti.[12] Árið 2014 leitaði ríkisstjórn landsins leiða til að lögleiða framleiðslu á ópíumvalmúa og maríjúana í þeirri von að hægt væri að nýta hana sem skattstofn til að fjármagna baráttu gegn fíkniefnaneyslu og fleiri félagslegum vandamálum.[13]
Verg landsframleiðsla með kaupmáttarjöfnuði var árið 2010 áætluð 70,15 milljarðar dala. Þjónustugeirinn var stærsti hluti hennar, eða 63%, en þar á eftir komu iðnaður (23,8%) og landbúnaður (13,2%). Í Gvatemala eru námur sem framleiða gull, silfur, sink, kóbalt og nikkel.[14] Um tveir þriðju hlutar útflutnings og helmingur vinnuaflsins liggur í landbúnaðargeiranum. Lífrænt kaffi, sykur, textíll, ferskt grænmeti og bananar eru helstu útflutningsafurðir. Árið 2010 var verðbólga í landinu 3,9%.
Eftir friðarsamningana sem bundu enda á borgarastyrjöldina árið 1996 hefur erlend fjárfesting farið vaxandi. Samhliða því hafa tekjur af ferðaþjónustu vaxið.
Í mars 2006 staðfesti Gvatemala Fríverslunarsamning Dóminíska lýðveldisins og Mið-Ameríku (DR-CAFTA) milli nokkurra Mið-Ameríkuríkja og Bandaríkjanna.[15] Gvatemala hefur líka gert fríverslunarsamninga við Taívan og Kólumbíu.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Blakeley 2009, bls. 92.
- ↑ Cooper 2008, bls. 171.
- ↑ Solano 2012, bls. 3–15.
- ↑ Rain Forest Wordpress 2013.
- ↑ „Maldonado Aguirre revala su terna vicepresidencial“. Prensa Libre (spænska). Guatemala. 3. september 2015. Afrit af uppruna á 5. september 2015. Sótt 3. september 2015.
- ↑ 7,0 7,1 „CIA World Factbook, Guatemala“. Júlí 2011. Sótt 22. desember 2011.
- ↑ „Guatemala: An Assessment of Poverty“. World Bank. Afrit af uppruna á 2. mars 2010. Sótt 9. janúar 2009.
- ↑ El Producto Interno Bruto de Guatemala Geymt 3 júlí 2015 í Wayback Machine DeGuate
- ↑ „The World Market for Cardamom“ (PDF). USAID.
- ↑ „Guatemala's coffee exports to fall up to 3% this season“. Reuters.
- ↑ As Biofuel Demands Grows, So Do Guatemala's Hunger Pangs Geymt 8 janúar 2013 í Wayback Machine. The New York Times. 5. janúar 2013
- ↑ Guatemala sees opium poppies as potential revenue-spinners Reuters. 7. maí 2014. Sótt 6. janúar 2020.
- ↑ Dan Oancea Mining In Central America. Mining Magazine. Janúar 2009 Geymt 16 maí 2011 í Wayback Machine
- ↑ „Guatemala Report 2006: Summary Review“. Afritað af uppruna á 8. febrúar 2007. Sótt 15. janúar 2007. Amnesty International, 2006. Sótt 26. janúar 2007.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Blakeley, Ruth (2009). State Terrorism and Neoliberalism: The North in the South. Routledge. ISBN 978-0415686174.
- Cooper, Allan (2008). The Geography of Genocide. University Press of America. bls. 171. ISBN 978-0-7618-4097-8.
- Navarro, Mireya (26. febrúar 1999). „Guatemalan Army Waged 'Genocide,' New Report Finds“. The New York Times. Sótt 20. nóvember 2016.
- Rain Forest Wordpress (4. apríl 2013). „Guatemala Rainforest Interesting fact | rainforest facts“. Rainforestcentralamerica.wordpress.com. Sótt 22. september 2013.
- Solano, Luis (2012). Contextualización histórica de la Franja Transversal del Norte (FTN) (PDF). Centro de Estudios y Documentación de la Frontera Occidental de Guatemala, CEDFOG. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 13. nóvember 2014. Sótt 31. október 2014.