Reaganbyltingin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, 1981.
Reagan í General Electric leikhúsinu, á árunum 1954-1962.
The Speech - A Time for Choosing(en) Ræðan til stuðnings Barry Goldwater, forsetaframbjóðanda, 27. október 1964.
Reagan og kona hans Nancy, fagna kosningasigri í Los Angeles Kalifornínu, 8. nóvember 1966.
Reagan og Nancy hitta Richard Nixon forseta Bandaríkjanna og konu hans Pat Nixon(en), í júlí 1970.
Reagan og Gerald Ford eftir útnefningu Repúblikana á flokksþingi(en), 19. ágúst 1976.
Niðurstöður forsetakosninga 1976, eftir fylkjum.
Niðurstöður forsetakosninga 1980, eftir fylkjum.
Reagan og Nancy eftir fyrri embættistökuna, 20. janúar 1981.
Reagan flytur sjónvarpsávarp frá Hvíta húsinu þar sem hann kynnir skattalækkanir, í júlí 1981.
Reagan leggur fram áætlun um efnahagslega endurreisn (e. Program for Economic Recovery), í fyrstu ræðunni eftir að honum var sýnt banatilræði, 28. apríl 1981.
Reagan flytur ræðu í Minneapolis, Minnesota, 8. febrúar 1982.
Reagan flytur ræðu í breska þinginu, fyrstur bandaríkjaforseta, þar sem hann spáði því að „frelsi og lýðræði myndu skila Marxisma og Lenínisma á ruslahauga sögunnar“ (e. ash heap of history), 8. júní 1982.
Reagan og Margaret Thatcher fyrir utan Downingstræti 10 í Lundúnum, 9. júní 1982.
Reagan og Nancy fagna afmæli forsetans á heimaslóðum í Dixon, Illinois, 6. febrúar 1984.
Niðurstöður forsetakosninga 1984, eftir fylkjum.
Reagan og Nancy við síðari embættistökuna á tröppum þinghússins í Washington, 21. janúar 1985.
Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, 1985.
Reagan ávarpar þjóðina í kjölfar Challenger-slyssins(en), 28. janúar 1986.
Reagan og Mikhail Gorbachev, aðalritari sovéska Kommúnistaflokksins, á leiðtogafundi í Höfða í Reykjavík, 12. október 1986.
Reagan og Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands, á göngu fyrir utan Bessastaði, í október 1986.
„Mr. Gorbachev, Open this Gate. Tear Down This Wall.“ Reagan flytur ræðu fyrir framan Brandenborgarhliðið og Berlínarmúrinn í Berlín, 12. júní 1987.
Reagan og Gorbachev skrifa undir sáttmála um fækkun kjarnorkuvopna, INF-sáttmálann(en), í Hvíta húsinu í Washington, 8. desember 1987.
Mælingar Gallup á vinsældum Reagan sem forseta, frá árinu 1981 til 1989.

Reaganbyltingin (e. The Reagan Revolution) er samheiti yfir þjóðfélagsþróun og samfélagsbreytingar í Bandaríkjunum, einkum á sviði efnahagsmála, sem tengja má við setu Ronald Reagan á forsetastóli. Breytingunum var ætlað að endurheimta horfin þjóðfélagsgildi og íhaldssöm fjölskylduviðmið, draga úr þjónustu og umfangi alríkisins, efla hinn frjálsa markað og auka hagvöxt og þjóðarframleiðslu; stækka kökuna. Að sumu leyti var Reaganbyltingin andsvar við þeirri samfélagslegu framþróun sem kenna má við Réttindabyltinguna (e. The Rights Revolution) og and-menningarhreyfinguna (e. counterculture) sem spratt upp á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar.[1][2][3][4]

Reaganbyltingin gekk að mörgu leyti upp og hafði varanleg áhrif, því umpólun (e. realigment) varð á landslagi stjórnmálanna á valdatíma Reagans í átt til íhaldssamra (e. conservative) samfélagsgilda, sérstaklega í málefnum innan Bandaríkjanna, en einnnig í stefnumörkun á alþjóðavettvangi. Talsverður efnahagsbati fylgdi valdasetu Reagans, sá mesti á friðartímum og hagvöxtur var að meðaltali um 3% á Reaganárunum. Sagnfræðingar hafa kallað tímabilið Reagantímann (e. Reagan Era), eða Reaganöldina (e. Age of Reagan).[5]

Reagantímabilið fylgdi í kjölfar fjögurra áratuga sem kennd eru við New Deal-hugmyndafræðina; stefnumótun og umbótaferli Franklin D. Roosevelt, forseta Bandaríkjanna 1933-1945, sem innleidd var vegna afleiðinga verðbréfahrunsins árið 1929 og Kreppunnar miklu á þriðja og fjórða áratugnum.[6]

Ronald Reagan[breyta | breyta frumkóða]

Ronald Reagan, sem var forsetaefni Rebúblikana, sigraði Jimmy Carter, sitjandi forseta Demókrata í forsetakosningum í nóvember 1980. Reagan sór embættiseið þann 20. janúar 1981 sem 40. forseti Bandaríkjanna, hann var tvö kjörtímabil við völd í Hvíta húsinu og lét af embætti 20. janúar 1989, þegar George Bush (eldri) tók við stjórnartaumunum.

Reagan hafði ekki bakgrunn né menntun í hagfræði þegar hann steig inn á svið stjórnmálanna. Hann hafði meðal annars starfað sem íþróttafréttamaður, var talsmaður General Electric og ríkisstjóri Kaliforníu. Reagan var þó þekktastur fyrir kvikmyndaleik og var ein skærasta stjarnan í Hollywood um árabil. Hann fæddist 6. febrúar 1911 í Tampico, Illinois og lést 5. júní 2004 í Los Angeles eftir baráttu við Alzheimer-sjúkdóminn, þá 93ja ára að aldri.

Hugmyndafræði[breyta | breyta frumkóða]

Reaganhagfræði[breyta | breyta frumkóða]

Efnahagsstefna og hugmyndafræði Reagans hefur verið kölluð Reaganhagfræði (e. Reaganomics) og er í anda laissez-faire hagfræðikenninga.[7] Kjarni stefnunnar snýst meðal annars um aukið frjálslyndi í viðskiptalífinu, afregluvæðingu og eftirlitsleysi, skattalækkanir gagnvart einstaklingum og fyrirtækjum og að draga skuli verulega úr útgjöldum og umfangi ríkisvaldsins, alríkisins.[8] Fyrstu mánuðir Reaganstjórnarinnar voru helgaðir endurskipulagningu skattkerfisins og aukningar útgjalda til hernaðar og varnarmála.[5] Í innsetningarræðu í janúar árið 1981 sagði Reagan: „Í yfirstandandi kreppu, er ríkisvaldið ekki lausnin á vandanum; ríkisvaldið er vandamálið.“[9]

Þegar Reagan tók við valdataumunum var efnahagslægð í heiminum, sem rekja má til olíu- og orkukreppa áttunda áratugarins. Atvinnuleysi var 7% þegar Reagan tók við, fór í 10,8% árið 1982, en aftur niður í 5,4% árið 1988. Verðbólga fór úr 10% árið 1980 í 4% árið 1988. Ójöfnuður fór vaxandi og útgjöld og skuldir alríkisins jukust á Reaganárunum, fóru úr 997 milljörðum (26% af VLF) árið 1980 í 2,85 trilljónir dollara (41% af VLF) árið 1988, þrátt fyrir fyrirheit um samdrátt.[10][8]

Bandaríkin fóru frá því að vera helsti lánveitandi heims í það að vera skuldugusta ríkið. Reagan lýsti því yfir að skuldasöfnunin hafi verið mestu vonbrigðin sem hann upplifði á forsetastóli. Útgjöld til hermála margfölduðust einnig í samræmi við umdeilda utanríkisstefnu Reagans (e. Reagan Doctrine) og umsvif Bandaríkjanna fóru vaxandi á alþjóðavettvangi.[5][11]

Reagan dró úr útgjöldum alríkisins til velferðarmála og dró úr umfangi almannatrygginga (e. Social Security). Stefnumörkun Reagantímans sneri því bakinu við hugmyndum hagfræðingsins John Maynard Keynes (e. Keynesian Economics) um velferðarríkið og almennar félagslegar lausnir í efnahagsmálum, sem miðuðu að því að jafna kjör og efnahaslegar aðstæður í samfélaginu, draga úr stéttskiptingu og halda markaðinum í skefjum.[12]

Reaganismi[breyta | breyta frumkóða]

Samfélagssýn Reagans eða Reaganismi er náskyldur Thatcherisma, efnahagsstefnu ríkisstjórnar Margaret Thatcher, fyrrum forsætisráðherra Bretlands, enda störfuðu þau allþétt saman við innleiðingu kapítalísks markaðshagkerfis (e. free-market economy).[5][13] Hugmyndafræðin á rætur sínar að rekja til kenninga Chicago-hagfræðingana (e. Chicago-boys) og er innblásin af ný-frjálshyggju (e. neoliberalism) og ný-íhaldshyggju (e. neoconservativism).[14][15][16]

Reagan vildi endurvekja frjálslyndi á sviði viðskipta, styðja við einstaklingsframtakið og koma á fót samskonar opnu og frjálsu markaðshagkerfi og var við lýði fyrir Kreppuna miklu og New Deal-árin. Óþol var farið að myndast gagnvart fyrirferðarmiklu ríkisvaldi og hin ósýnilega hönd markaðarins ætti fremur að ráða för.[8]

Hugmyndir Reagans voru í mikilli andstöðu við hugmyndafræði kommúnismans (e. communism), um ríkisdrifið þjóðfélag og áætlunarbúskap, sem var ríkjandi á þessum tíma í ráðstjórnarríkjunum með Sovétríkin sálugu í fararbroddi. Reaganhagfræðin er í grunninn framboðshagfræði (e. supply-side economics), en af gagnrýnendum hafa fræðin fengið viðurnefnið Voodoohagfræði (e. Voodoo Economics) og Brauðmolakenningin (e. trickle-down economics), einkum vegna hugmyndarinnar um að áhrif skattalækkana á hátekjuhópa myndu, með aukinni neyslu, skila sér til þeirra sem hafa lægri tekjur.[17][18]

Fjórar stoðir Reaganhagfræði eru að; hefta vöxt ríkisútgjalda, lækka tekjuskatt og fjármagnstekjuskatt, minnka regluverkið á sviði viðskipta og halda peningamagni í umferð í lágmarki til að draga úr verðbólgu.[8]

Uppgangur nýfrjálshyggju[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa lengi aðhyllst frjálslyndi í efnahagsmálum og verið kyndilberar þess kapítalíska hagkerfis sem hefur verið ríkjandi á Vesturlöndum og víðar um áratugaskeið, sérstaklega eftir fall Berlínarmúrsins og hrun Kommúnismans í upphafi tíunda áratugar 20. aldar.[19][20] Ríki víða um heim innleiddu samskonar efnahagsstefnu á áttunda, níunda og tíunda áratugnum og segja má að Reaganbyltingunni hafi ekki lokið fyrr en með efnahagshruninu á Wall Street árið 2008 og alþjóðafjármálakreppunni sem fylgdi í kjölfarið. Að mörgu leyti má þó segja að eftir hrunið hafi kerfið verið endurreist, hugmyndirnar um hinn frjálsa markað lifa góðu lífi og í því ljósi er Reaganbyltingunni í raun ekki lokið enn.[5]

Áhrif Reagan eru enn mjög mikil í bandarískum stjórnmálum og aðdáendur hans leynast víða. Í aðdraganda forsetakosninga árið 2008, fjallaði Barack Obama, þá frambjóðandi demókrata, um Reagan í kosningabaráttunni: „Að mínu mati breytti Reagan stefnu Bandaríkjanna með afgerandi hætti, sem Richard Nixon tókst ekki og Bill Clinton ekki heldur. Reagan fetaði nýjar slóðir vegna þess að samfélagið var tilbúið til þess. Honum tókst að draga saman í ríkisútgjöldum eftir að starfsemi ríkisins hafði vaxið mikið á sjöunda og áttunda áratugnum og margt mátti vel missa sín. Hann skynjaði á hvaða leið fólkið í landinu var, við vildum skýra framtíðarsýn, bjartsýni og endurheimta frumkraftinn og nýsköpunarhæfileikana sem var lengi einkenni á bandarísk atvinnulífi.“

Utanríkisstefna[breyta | breyta frumkóða]

Kjarni utanríkisstefnunnar fólst í því að mynda hernaðarlegt og hugmyndafræðilegt mótvægi við Sovétríkin sem þá voru annað tveggja stórvelda á heimsvísu. Allt frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar höfðu Sovétríkin vaxið undir alræðisstjórn Kommúnistaflokksins og í augum Bandaríkjamanna voru þau helsti óvinur lýðræðisins og ógn við hugmyndir um einstaklingsfrelsi og frjálsan markað. Fyrir utan gríðarmikla hernaðaruppbyggingu víða um heim, ekki síst í Evrópu og í þeim löndum sem áttu landamæri að Sovétríkjunum, fjármagnaði Reaganstjórnin m.a. skæruliðasveitir í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Þessar leyniherdeildir höfðu það markmið að berjast gegn stjórnvöldum sem Sovétríkin höfðu fjármagnað. Bandaríkin höfðu um áratugaskeið stutt við ríkisstjórnir sem þóttu viðkvæmar gagnvart áhrifum frá Sovétríkjunum, m.a. Grikkland og Tyrkland, svo ekki kæmi til þess að kommúnistar næðu tökum á þessum löndum.[11]

Í ávarpi í febrúar 1985 sagði Reagan: „Við megum ekki aðskilja okkur frá þeim sem eru að hætta lífi sínu, um allan heim, frá Afganistan til Nígaragua, til þess að berjast gegn yfirgangi Sovétríkjanna og vilja tryggja réttindi sem við höfum notið frá fæðingu. Stuðningur við þá sem berjast fyrir frelsi er í raun sjálfsvörn okkar.“ Reagan reyndi með þessum orðum meðal annars að afla stuðnings fyrir baráttu Kontraskæruliðanna í Nígaragua gegn stjórn Sandinista og talaði um að þeir væru í raun siðferðilega á pari við landsfeður Bandaríkjanna á 18. öld. Sú yfirlýsing varð umdeild vegna mannréttindabrota sem skæruliðarnir beittu, sem og tengingu þeirra við glæpastarfsemi, einkum kókaínsmygl. Með sambærilegum hætti voru Mujahideen-skæruliðarnir fjármagnaðir og þjálfaðir í baráttu við heri Sovétríkjanna í Afghanistan.[11][21][22]

Markmið Reagans og ráðgjafa hans var þó að mynda öflugt mótvægi við Sovétríkin, sem þeir kölluðu gjarnan heimsveldi hins illa (e. evil empire). Þessi stefna, að fjármagna og þjálfa skæruliðahópa, að mestu leynilega, og sjá þeim fyrir vopnum, hefur á síðari árum reynst Bandaríkjunum ljár í þúfu, því margir hópanna hafa lagt síðan upp laupana eða sameinast öðrum, sem ekki eru eins hliðhollir Bandaríkjunum. Þó má segja að stefnan hafi átt þátt í því að Sovétríkin liðuðust í sundur en þar skipti ósigur Sovétmanna í Afghanistan ekki hvað síst miklu máli. Eftir árásirnar 11. september 2001 hefur ógnin af hryðjuverkum ekki minnkað og margar aðgerðir Reagans í utanríkismálum, sem og eftirmanna hans á forsetastóli, því ekki reynst farsælar hvað þetta varðar.[11]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Vefslóðir[breyta | breyta frumkóða]