Fara í innihald

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki embættis forseta fulltrúadeildarinnar.

Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, er æðsta embætti neðri deildar bandaríkjaþings, fulltrúadeildarinnar. Embættið er grundað í fyrstu grein stjórnarskrár Bandaríkjanna og hefur því embættið verið til staðar frá fullgildingu stjórnarskráarinnar árið 1789. Samkvæmt stjórnarskrá er forseti fulltrúadeildarinnar næstur í röðinni á eftir varaforseta Bandaríkjanna til að taka við stöðu Bandaríkjaforseta skyldi hann deyja, segja af sér, eða á einhvern hátt vera leystur frá störfum. Núverandi forseti fulltrúadeildarinnar er Mike Johnson, en hann tók við embættinu þann 25. október 2023. Johnson er þingmaður 4. kjördæmis Louisiana.

Kosning forseta fulltrúadeildarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Allir þeir flokkar sem sitja í fulltrúadeild þingsins tilnefna frambjóðenda á sínum vegum til embættisins. Fyrsta dag hvers þings er kosið um forseta og þarf hreinan meirihluta til að hljóta kosningu. Þess ber að geta að samkvæmt stjórnarskrá er ekki skilyrði að kjörinn forseti sé þingmaður. Hinsvegar hefur það aldrei gerst að kjörinn forseti sé ekki sitjandi þingmaður [1].

Oftast er sá háttur á að forseti fulltrúadeildarinnar kemur frá þeim flokki sem situr í meirihluta. Þó hefur það gerst að forsetinn komi úr röðum flokks sem er í minnihluta innan deildarinnar. Þetta er þó ekki algengt, þar sem ætlast er til þingmenn kjósi þann frambjóðanda sem að tilnefndur hefur verið af eigin flokki. Í þeim tilvikum þar sem þingmaður kýs ekki þann sem hefur verið valinn af eigin flokki til framboðs er ætlast til þess að þingmaðurinn kjósi annan einstakling úr eigin flokki eða sitji hjá. Ef að þingmaður kýs ekki eftir flokkslínum á hann í hættu að missa starfsaldurstengd forréttindi. Seinast átti slíkt sér stað þegar kosið var til forseta fulltrúadeildarinnar árið 2000. Þá notaði demókratinn James Traficant atkvæði sitt til að kjósa tilnefningu repúblikana, Dennis Hastert. Traficant var þá refsað af demókrötum á þann hátt að hann missti öll starfsaldurstengd forréttindi ásamt því að vera leystur frá öllum nefndarstörfum á vegum flokksins. Síðar var Traficant ákærður og dæmdur fyrir að þiggja mútur, svíkjast undan skatti, misbeita valdi sínu og fjárkúga[2].

Upphafsár embættisins[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti forseti fulltrúadeildarinnar var Frederic Muhlenberg sem sat á þingi fyrir Federalista, sambandsstjórnarsinna. Muhlenberg gegndi embættinu frá 1789 til 1791 og aftur frá 1793 til 1795[3]. Það var hins vegar í höndum Henry Clay að völd og áhrif embættisins jukust, en Clay var kjörinn forseti fulltrúadeildar árið 1811 og gegndi hann embættinu í þrígang með hléum á milli. Clay notaði forsetaembættið til að stýra málum innan þingsins með það að markmiði að ná fram þeim breytingum sem hann var hlynntur. Það er í valdatíð Clay að forseti fulltrúadeildar verður að málefnalegum leiðtoga innan bandarískra stjórnmála.[4]

Það ber að nefna að Clay hafði til að mynda mikil áhrif á niðurstöðu kosninganna til embættis forseta Bandaríkjanna árið 1824. Enginn frambjóðenda hlaut meirihluta kjörmanna í þeirri kosningu og samkvæmt stjórnarskrá var það því í höndum fulltrúadeildar að kjósa forseta Bandaríkjanna. Ákvörðun Clay að styðja John Quincy Adams er talin hafa ráðið úrslitum í því að Adams sigraði.

Skyldur þingforseta[breyta | breyta frumkóða]

Þingforseti hefur þó nokkur völd þó þau hafi raunar verið takmörkuð í seinni tíð. Þingforseti er, líkt og aðrir þingmenn, fulltrúi síns fylkis og á að gæta hagsmuna þess en hann tekur þó sjaldan þátt í umræðum né kýs, nema þegar atkvæði hans gæti haft úrslitaáhrif eða í mikilvægum málefnum eins og stjórnarskrárbreytingum. Þingforsetinn er annar í röðinni til forsetaembættisins á eftir varaforsetanum ef forseti deyr, er leystur frá störfum, segir af sér eða annað kemur í veg fyrir að forseti geti sinnt starfi sínu. Það gerir þingforseta að þriðja æðsta manni ríkisins.

Helstu skyldur þingforseta eru að halda reglu í þinginu, láta þingmenn sverja embættiseið, skipuleggja dagskrá þingsins og stjórna umræðum og mælendaskrá eða útdeila því til annars þingmanns. [5] Þingforseti hefur mikil völd yfir nefndarferlinu þar sem hann stýrir því í hvaða nefndir frumvörp eru send auk þess að velja níu fulltrúa af þrettán í eina valdamestu nefndina, löggjafarnefndina (e. Committee on Rules). Hann velur einnig fulltrúa til setu í þingnefndum (e. Select committees) og ráðgjafanefndum (e. Conference committees). Þingforseta ber skylda til að framfylgja reglum þingsins og sjá til þess að aðrir fylgi þeim einnig og á hann að vera sanngjarn gagnvart minnihluta þó flestir vænti þess að þingforseti nýti sér forréttindin er fylgja embættinu flokk sínum í hag, til dæmis með því að stjórna dagskránni og reyna þannig að tryggja að frumvörp meirihlutans fái samþykki.

Önnur formleg störf þingforseta eru til dæmis að staðfesta úrslit forsetakosninga, hafa eftirlit með embættismönnum fulltrúadeildarinnar og skipa í ýmis embætti innan hennar.

Flokkshollusta forsetans[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnarskrá Bandaríkjanna gerir engar kröfur til forseta fulltrúadeildarinnar er snúa að hlutleysi og hefur sú hefð myndast í gegnum tíðina að forsetinn er flokkshollur. Slíkt er í skarpri andstæðu við, til að mynda, forseta neðri-málstofu breska þingsins. Forseti fulltrúadeildarinnar telst leiðtogi flokks síns innan þingsins og er staðan jafnan talin sú valdamesta innan flokksins. Forsetinn stýrir málum í lagasetningu en hefur hefur jafnframt kosningarétt og ávarpsrétt þó að mjög sjaldgæft að forsetinn kjósi um málefni eða taki þátt í umræðum á þingi.

Þekktir þingforsetar[breyta | breyta frumkóða]

Meðal þekktra þingforseta má nefna Demókratann James K. Polk en hann þingforseti á árunum 1835-1939. Polk er einni þingforsetinn til þess að gegna síðar embætti Bandaríkjaforseta en það var árin 1845-1849. Einnig má nefna Repúblíkanann Thomas Brackett Reed sem var þingforseti á árunum 1889–1891 og 1895–1899 en hann hafði mikil áhrif á embættið með því víkka út völdin sem því fylgdu. Hann ruddi þannig brautina fyrir komandi þingforseta en Joseph Gurney Cannon sem varð þingforseti á árunum 1903 til 1911 var einn þeirra sem nýtti sér það mjög. Hann er oft talinn öflugasti þingforseti í sögu Bandaríkjanna en hann stjórnaði hvaða frumvörp voru rædd og hvernig, hann ákvað hvers konar breytingar mætti gera á frumvörpum og hvernig skyldi kosið um þau. Þannig hafði Cannon gríðarleg völd yfir þinginu.

Annar þekktur þingforseti í sögu Bandaríkjanna er repúblíkaninn Newt Gingrich sem var þingforseti á árunum 1995-1999. Hann var eitt helsta andlit repúblikanaflokksins í sigri flokksins í þingkosningunum 1994 en þá höfðu Repúblikanar ekki haft meirihluta í fulltrúadeildinni í 40 ár. Gingrich er helst þekktur fyrir að leiða öfluga andstöðu gagnvart þáverandi Bandaríkjaforseta, demókratanum Bill Clinton.

Sá eini sem setið hefur lengur en 15 ár sem þingforseti er demókratinn Sam Rayburn en hann var þingforseti í 17 ár. Hann sat á árunum 1941-1960 með tveim tveggja ára hléum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Remini, Robert (2006). The House: the history of the House of Representatives. New York: Smithsonian Books in association with HarperCollins. ISBN 9780060884345.
  2. „Traficant guilty of bribery, racketeering“. CNN.com. 12. apríl, 2002. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. apríl 2008. Sótt 15. október 2010.
  3. Seidensticker, Oswald (1889). „Oswald Seidensticker, "Frederick Augustus Conrad Muhlenberg, Speaker of the House of Representatives, in the First Congress, 1789“. Pennsylvania Magazine of History and Biography. 13 (2): 184–206.
  4. Strahan (2000). „The Clay Speakership Revisited“. Polity. 32 (4): 561–593.
  5. „The Role of the Speaker of the House“. Sótt 21. október 2010.
  • Katz, Richard S. (2007). Political Institutions in the United States. Oxford University Press. ISBN 9780199283835.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]