Fara í innihald

Bandarísk stjórnmál

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bandarísk stjórnmál lúta að almennri opinberri stjórnun Bandaríkjanna, í heild sinni eða í einstökum fylkjum. Bandaríkin eru stjórnarskrárbundið sambandsríki með sterka þrískiptingu ríkisvaldsins. Ennfremur eru Bandaríkin lýðveldi sem býr við forsetaræði. Þjóðhöfðingi Bandaríkjanna er forsetinn, en forsetinn er einnig höfuð framkvæmdavaldsins. Núverandi forseti Bandaríkjanna er Joe Biden. Aðrar greinar ríkisvaldsins eru þingið, sem situr í tveimur deildum, öldungadeild og fulltrúadeild. Dómskerfið dæmir eftir lögum sem sett eru af Bandaríkjaþingi. Hæstiréttur Bandaríkjanna er æðsta dómsstig landsins.

Hvert af 50 ríkjum Bandaríkjanna hefur sitt eigið þing og ríkisstjóra, auk síns eigin dómkerfis og hæstarétt.

Í Bandaríkjunum er tveggja flokka kerfi, þar sem demókrataflokkurinn (til vinstri) og repúblíkanaflokkurinn (til hægri) keppa um völd. Auk þessara tveggja flokka starfar fjöldinn allur af smærri stjórnmálaflokkum, en sögulega hafa þeir átt erfitt með að koma mönnum á þing. Það er helst á ríkisþingum sem flokkum utan tvíflokkakerfisins hefur tekist að fá menn kjörna.

Algengt er að vinsælir stjórnmálamenn bjóði sig fram utan flokka, sem sjálfstæðir þingmenn.

Þó spurningin um rétt ríkja til að segja sig úr lögum við Bandaríkin hafi verið útkljáð í Bandaríska borgarastríðinu hafa spurningar um valdssvið alríkisstjórnarinnar komið upp margsinnis (e. states rights).

Sérkenni stjórnkerfis Bandaríkjanna[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnkerfi Bandaríkjanna er um margt mjög ólíkt stjórnkerfum annarra þróaðra ríkja. Eitt þeirra er hversu margir synjunarvaldsleikendur (e. veto player) eru í löggjafarferlinu. Á sama tíma er nánast ógerlegt að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu í Bandaríkjunum. Þjóðaratkvæðagreiðslur er í raun aðeins hægt að halda um breytingar á stjórnarskrá Bandaríkjanna, en í þeim ræður þó ekki meirihluti þjóðarinnar, heldur meirihluti ríkjanna. Annar mikilvægur munur er vald öldungadeildar þingsins. Þá er valdssvið hæstaréttar óvanalega mikið. Forsetinn skipar hæstaréttardómara, en þeir eru skipaðir til lífstíðar og eru með öllu óháðir framkvæmda- eða löggjafarvaldinu.

Þá er mikilvægur munur á stjórnmálum Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda hversu stórt hlutverk stjórnarskráin leikur í öllum stjórnmálum og stjórnmálaumræðu í Bandaríkjunum.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Bandarísk stjórnmálasaga[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi stjórnmálagrein sem tengist Bandaríkjunum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.