Fara í innihald

Leiden

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fáni Skjaldarmerki
Upplýsingar
Hérað: Suður-Holland
Flatarmál: 23,16 km²
Mannfjöldi: 121.224 (1. jan 2014)
Þéttleiki byggðar: 5.234/km²
Vefsíða: www.leiden.nl
Lega
Staðsetning Eindhoven í Hollandi

Leiden er borg í hollenska héraðinu Suður-Hollandi með 121 þúsund íbúa (1. janúar 2014). Borgin er þekkt fyrir gömlu miðborgina, elsta háskóla Hollands og fyrir að vera fæðingarstaður málarans Rembrandts.

Lega og lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Leiden liggur við ána Oude Rijn (Gamla Rín) nær vestast í Hollandi, aðeins steinsnar frá Norðursjó. Næstu borgir eru Haag til suðvesturs (10 km), Alphen an den Rijn til austurs (10 km) og Zoetermeer til suðurs (10 km). Schiphol-flugvöllur er 25 km til norðausturs. Mikið er um ár og síki í Leiden, þar sem Oude Rijn og Nieuwe Rijn sameinast, ásamt smærri ám.

Skjaldarmerki og fáni[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Leiden samanstendur af tveimur rauðum lyklum í kross á hvítum grunni. Lyklarnir eru tákn Péturs postula, en hann er verndardýrlingur borgarinnar. Merkið kom mjög snemma fram. Núverandi merki með ljón í bakgrunni var tekið formlega upp 25. janúar 1950. Ljónið er aðalsmerki héraðsins Suður-Hollands. Fáninn var sniðinn eftir skjaldarmerkinu. Rendurnar þrjár (rauð, hvít og rauð) eru litirnir úr skjaldarmerkinu. Lyklarnir eru sömuleiðis teknir úr skjaldarmerkinu.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Borgin hét upphaflega Leithon, sem merkir að líða eða að þjást á hollensku (lijden). Heitið er þó ef til vill dregið af rómversku þorpi í grennd sem hét Lugdunum Batavorum. Gamli rithátturinn er Leyden, en á síðustu öld hefur það breyst í Leiden. Borgin er gjarnan kölluð Sleutelstad, sem merkir lyklaborgin (vegna lyklanna í skjaldarmerkinu).

Saga Leiden[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Leiden myndaðist sem bær á 11. öld í grennd við rómverskan bæ. Rómverski bærinn lá þó nær ströndinni, en fundist hafa leifar af rómversku virki innan borgarmarkanna. Leiden kom fyrst við skjöl árið 860 en var sennilega aðeins lítið þorp þá, við samflæði Oude Rijn og Nieuwe Rijn (tveir Rínararmar). Nokkur verslun var í borginni og var aðallega verlsað með ull til Englands og Flandurs (Belgíu). Á 13. öld hafði Leiden stækkað svo að Floris V, greifi af Hollandi, veitti honum borgarréttindi 1266.

Sjálfstæðisstríð[breyta | breyta frumkóða]

Íbúar í Leiden fá loks að borða eftir umsátrið mikla 1574

Þegar Hollendingar hófu uppreisn sína gegn Spánverjum á 16. öld, var Leiden í fyrstu hlutlaus, það er að segja hún studdi hvorugan aðilann. En 1572 gekk hún til liðs við uppreisnarmenn. Alba, spænski landstjórinn, var að hertaka borgina Haarlem í þann mund og sneri sér að Leiden í október 1573. Hann lét gera umsátur um borgina til að neyða borgarbúa til uppgjafar. Lúðvík frá Nassau, herforingi uppreisnarmanna, nálgaðist með her í apríl 1574 til aðstoðar borginnni. Þá léttu Spánverjar á umsátrinu og réðust á hollenska herinn. Spánverjar sigruðu í orrustunni við Mookerheide en það veitti borgarbúum ráðrúm til að afla vista og skemma spænsku umsáturstækin. Í maí voru Spánverjar aftur komnir til Leiden og hófu umsátrið að nýju undir stjórn Francisco de Valdez. Það stóð yfir í allt sumar og létust allt að 6000 manns (þriðjungur borgarbúa). Þá safnaði Vilhjálmur af Óraníu saman liði. 3. október eyðilögðu Hollendingar nokkra vatnagarða og hleyptu vatni inn í umsátursliðið og samfara því í borgina líka. Umsátursliðið varð að hörfa og hætta við áform sín um að hertaka Leiden. Síðan þá er enn í dag haldin mikil hátíð þann 3. október. Vilhjálmur þótti svo mikið um hugrekki borgarbúa, að hann veitti þeim leyfi til að stofna háskóla. Hann var stofnaður ári síðar, 1575, og er elsti háskóli Hollands. Eftir þetta flúðu margir siðaskiptamenn frá kaþólsku Niðurlöndum til Leiden, þannig að borgin varð nokkrum sinnum á tímabilinu 1575-1650 að útvíkka borgarmúrana. Hún var þá næststærsta borg Hollands, á eftir Amsterdam. Í hönd fór blómaskeið borgarinnar, bæði efnahags- og menningarlega. Á þessum tíma starfaði vísindamaðurinn Antoni van Leeuwenhoek í borginni, sem og málarinn Rembrandt ásamt nemendum sínum.

Sprengingin mikla[breyta | breyta frumkóða]

Loðvík Bonaparte skoðar verksumerki eftir sprenginguna miklu 1807

Frakkar hertóku Leiden, eins og aðrar hollenskar borgin í lok 18. aldar. 12. janúar 1807 varð gífurleg sprenging í skipi sem flutti rúmlega 17 tonn af fallbyssupúðri frá Haarlem til Delft. Sprengingin varð þegar skipið var statt á einu síkinu í Leiden. Í sprengingunni létust 151 maður og 2000 slösuðust. Um það bil 220 hús jöfnuðust við jörðu eða skemmdust það mikið að þau voru óíbúðarhæf. Sprengingin var svo öflug að hún heyrðist alla leið til Haag, sem er í um 10 km fjarlægð. Loðvík Bonaparte, konungur Niðurlanda, heimsótti Leiden samdægurs til að kynna sér eyðilegginguna. Hann skipaði frönskum hermönnum að hjálpa til við uppbygginguna og létti á skattgreiðslum borgarbúa í tíu ár. Einnig lét hann breyta lítinn kastala í spítala til að annast hina sáru. Eftir þetta var alls staðar í Hollandi talað um Loðvík hin góða.

Nýrri tímar[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1842 fékk Leiden járnbrautartengingu er lína var lögð norður til Haarlem. Þremur árum fyrr var línan til Amsterdam lögð frá Haarlem, en það var fyrsta járnbrautin í Hollandi. Árið 1848 samdi Johan Rudolf Thorbecke fyrstu hollensku stjórnarskrána í Leiden. Árið 1883 skók sú frétt bæði Leiden og allt Holland að Goeie Mie (Maria Swanenburg) hefði drepið 27 manneskur í borginni með eitri. Það er enn í dag eitt mesta fjöldamorð í hollenskri sögu. Í vísindum tókst Heike Kamerlingh Onnes að gera helíum fljótandi árið 1908 og seinna að frysta efni eina gráðu fyrir ofan alkul. Fyrir þetta hlaut hann Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði 1913. Albert Einstein var um skamma hríð í háskólanum í Leiden snemma á ferli sínum. Í heimstyrjöldinni síðari varð Leiden fyrir talsverðum loftárásum bandamanna áður en þeir náðu að hrekja Þjóðverja úr landi.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Leiden viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Málarinn Rembrandt er þekktasta barn borgarinnar Leiden. Hin árlega Rembrandt-hátíð þar í borg er helguð honum.
 • Werfpop er árleg tónlistarhátíð í poppstíl sem fram fer í garðinum Leidse Hout í júlí undir berum himni.
 • Rembrandtfestival er árleg hátíð helguð málaranum Rembrandt.
 • Leidens ontzet er nokkurs konar þjóðhátíð borgarinnar. Hún er haldin 3. október ár hvert til minningar um sigur yfir Spánverjum 1573.
 • Leids Film Festival er kvikmyndahátíð sem haldin er síðustu helgi í október.
 • Zomerjam (sumardjamm) er viðburður tengd hiphop-menningunni. Þá fer fram rapp, breikdans, veggjakrot, plötuskrap (Turntablism) og margt fleira.
 • Gouden Pet er keppni götulistamanna sem keppa um verðlaun.
 • Leidse Jazzweek er jazzhátíð í janúar.

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Hooglandse Kerk
Burcht van Leiden er gamalt virki
 • Péturskirkjan í Leiden er elsta kirkja borgarinnar. Elstu hlutar hennar eru frá 1100. Hún skartaði áður 110 metra háum turni, en hann hrundi í óveðri 1512. Kirkjan er gjarnan notuð sem fyrirlestrarsalur fyrir háskólann.
 • Hooglandse Kerk er önnur stór kirkja í miðborginni. Hún var reist 1377-1415 en bætt var við hana á 16. öld. Framkvæmdum var hætt er siðaskiptin gengu í garð og varð hún reformeruð 1572. Kirkjan hlaut aldrei turna. Hún er gjarnan notuð fyrir ráðstefnur og tónleika.
 • Burcht van Leiden er gamalt virki sem reist var á 11. öld. Það er staðsett á lítilli, manngerðri hæð. Með tímanum voru íbúðir og önnur mannvirki reist í kringum virkið og missti það þá hlutverk sitt. Það kom því ekkert við sögu í umsátrinu um Leiden 1573 en varð þó að tákngervingi sigurs eftir sigur borgarbúa á umsátursmönnum.
 • Vogarhúsið (De Waag) er gömul vog og tollstöð í Leiden. Hún var reist 1657-59. Þar voru vörur vigtaðar, greiddar og seldar. Bygging var notuð sem vog allt til 1972 er síðasti osturinn var seldur þaðan. Í dag er húsið friðað og notað fyrir viðburði eins og tónleika, gallerí og giftingarstað.
 • Tvö gömul borgarhlið standa enn. Morspoort og Zijlpoort, bæði frá 17. öld.
 • Stjörnuathugunarstöðin í Leiden (Sterrewacht Leiden) var reist 1633 fyrir háskólann þar í borg. Hún er þar með elsta háskólastjörnustöð heims. Árið 1861 var stöðin stækkuð verulega og fleiri sjónaukum bætt við. Nú eru fjórir stjörnuturnar í stöðinni.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Leiden“ á hollensku útgáfu Wikipedia. Sótt 13. september 2011.