Fara í innihald

Vilhjálmur 1. Þýskalandskeisari

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vilhjálmur I (Prússland))
Skjaldarmerki Hohenzollern-ætt Keisari Þýskalands
Hohenzollern-ætt
Vilhjálmur 1. Þýskalandskeisari
Vilhjálmur 1.
Ríkisár 18. janúar 18719. mars 1888
SkírnarnafnWilhelm Friedrich Ludwig von Hohenzollern
Fæddur22. mars 1797
 Berlín, Prússlandi
Dáinn9. mars 1888 (90 ára)
 Berlín, þýska keisaradæminu
GröfCharlottenburg-kastali, Berlín
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Friðrik Vilhjálmur 3. Prússakonungur
Móðir Lovísa af Mecklenburg-Strelitz
KeisaraynjaÁgústa af Sachsen-Weimar-Eisenach
Börn

Vilhjálmur 1. (22. mars 1797 í Berlín – 9. mars 1888 í Berlín) var konungur Prússlands og fyrsti keisari Þýskalands. Eftir að hafa ráðið Otto von Bismarck sem ríkiskanslara, stóð hann í stríði við Danmörku, Austurríki og Frakkland og vann þau öll. Fyrir vikið varð hann krýndur keisari sameinaðs Þýskalands, en Þýskaland var keisararíki allt til loka heimstyrjaldarinnar fyrri.

Vilhjálmur fæddist í Berlín, höfuðborg Prússlands, 1797. Foreldrar hans voru Friðrik Vilhjálmur 3. konungur Prússlands og Lovísa drottning, dóttir Karls 2. hertoga af Mecklenburg-Strelitz. Vilhjálmur var þó ekki nema næstelstur, en Friðrik Vilhjálmur (seinna konungur Prússlands) var eldri. Vilhjálmur hlaut herþjálfun ungur og aðeins 9 ára gamall gerði faðir hans hann að yfirforingja. Þetta gerðist nokkrum mánuðum eftir að Prússar töpuðu fyrir Napóleon í orrustunum við Jena og Auerstedt. Hinn ungi yfirforingi fékk að fylgja föður sínum til Frakklands eftir fall Napóleons 1814, þá 17 ára gamall, og var með í för er París var hertekin. Þann 8. júní 1815 var hann gerður að majór.

Hin aldni konungur Prússlands, Friðrik Vilhjálmur 3., lést 1840. Varð þá eldri bróðir Vilhjálms næsti konungur landsins sem Friðrik Vilhjálmur 4.. Í byltingunni miklu 1848 fékk Vilhjálmur það verkefni að brjóta byltingarherinn á bak aftur, sem hafði reist götuvígi. Eftir mikið stapp tókst það verkefni, en við mikið mannfall. Fyrir vikið varð Vilhjálmur afar óvinsæll og jafnvel hataður. Meðan byltingin stóð enn yfir tók konungur, bróðir hans, það til bragðs að senda Vilhjálm til Lundúna. Hann fékk þó að snúa aftur sama ár og á næsta ári sló hann niður byltingarsinna í vesturhluta Prússlands. Eftir það settist hann að í Koblenz. Meðan hann dvaldi þar naut hann mikilla vinsælda, sem bárust alla leið til Berlínar. Menn voru fljótir að gleyma hlutverki hans í að hrinda byltinguna á bak aftur. Þegar konungur, eldri bróðir hans, varð veikur 1857, varð Vilhjálmur staðgengill hans, enda var konungur að vísu kvæntur, en barnlaus.

Konungskrýning Vilhjálms í Königsberg

Konungurinn lést 1861 og varð Vilhjálmur þá næsti konungur Prússlands. Hann var krýndur 18. október í Königsberg. Eitt stærsta vandamálið sem Vilhjálmur þurfti að glíma við var endurnýjun hersins. Þingið hafnaði breytingunni og vildu þingmenn sjálfir koma fram nýjum lögum sem konungi var ekki í geð. Þessi andstaða leiddi til þess að konungur réði Otto von Bismarck sem forsætisráðherra (þ.e. kanslara) í september 1862. Bismarck var reiðubúinn að starfa að málefnum konungs og fékk fyrir vikið að starfa að eigin hugðarefnum í leið. Bismarck var mikill skörungur í þinginu og í allri framkvæmd og varð það til þess að áhrif konungsins urðu meiri. Her og lögregla voru sett í fyrirrúmið, en innri bætur á þjóðfélaginu voru látnar bíða. Bismarck var harður á að festa landamæri ríkisins.

Fyrsta hindrunin var Slésvíkurmálið, sem tæknilega tilheyrði þýska ríkinu, en laut þó Danakonungi. Árið 1864 samþykkti Vilhjálmur stríðsyfirlýsingu á Dönum og í leifturstríði sigraði Bismarck Dani í orrustunni við Dybbøl 1864. Þessu fylgdi stríð við Austurríki, en bæði Prússar og Austurríkismenn sóttust eftir forræði í þýska bandalaginu. Árið 1866 tók Vilhjálmur að sér herstjórnina gegn Austurríki og sigraði þá í orrustunni við Königsgrätz. Ári síðar var norðurþýska sambandið stofnað og var Prússland þá leiðandi aðili í því með Vilhjálm konung sem forseta þess.

Árið 1870 sagði Frakkland Prússlandi stríð á hendur. Ástæða þess var að Prússland hafði boðið upp á Leópold prins af Hohenzollern-Sigmaringen sem nýjan konung Spánar. Þetta gátu Frakkar ekki sætt sig við, þar sem þeir óttuðust þýska innrás úr tveimur áttum. Aftur var Vilhjálmur konungur herstjórnandi Prússahers, sem sigraði í orrustunum við Gravelotte og við Sedan. Eftir þessa sigra var leiðin til Parísar greið. Í Versölum var samið um frið, en jafnframt fór fram undirbúningur á stofnun þýsks ríkis með Vilhjálm konung sem leiðtoga.

Keisarakrýning Vilhjálms í Versölum 1871. Fyrir miðju sér í Bismarck kanslara (í hvítum jakka).

Það var erfitt fyrir Bismarck að sannfæra Vilhjálm konung um að stofna þýska ríkið og láta Prússland leysast upp í því, jafnvel þó að Vilhjálmur ætti að vera þjóðarleiðtogi hins nýja ríkis. Bismarck lagði til að Vilhjálmur yrði krýndur keisari, en Vilhjálmur var mjög mótfallinn þeirri hugmynd, allt fram á síðasta dag. En hann lét loks undan. Vilhjálmur var krýndur keisari hins nýja þýska ríkis í speglasal kastalans í Versölum þann 18. janúar 1871. Þá voru nákvæmlega 170 ár liðin síðan að Prússland varð að konungsríki.

Við krýninguna var Vilhjálmur enn reiður Bismarck eftir rifrildi þeirra í milli um titil hins nýja keisara. Vilhjálmur hafnaði því að láta kalla sig keisara Þýskalands eða þýski keisarinn. Friðrik I, stórhertogi af Baden, sem fékk það hlutverk að hylla keisarann í krýningunni, leysti vandann með því að hrópa ‘Vilhjálmur keisari.’ Eftir krýninguna tók Vilhjálmur ekki í hönd Bismarcks. Keisarinn varð þess áþreifanlega var að stefna og stjórnmál voru ákvörðuð af Bismarck. Við þetta varð keisari æ gramari með hverju ári sem leið. Hann samþykkti þó að vera gestgjafi þriggjakeisarafundarins í Berlín árið 1872, er Frans Jósef 1. frá Austurríki og Alexender 2. frá Rússlandi, sóttu.

Árið 1878 var gerð skotárás á Vilhjálm er hann reið einsamall í opnum vagni í miðborg Berlínar. Hann fékk högl í andlit og öxl og særðist alvarlega. Það tók hann hálft ár að ná heilsu á ný.

Vilhjálmur naut vaxandi vinsælda í þýska ríkinu í elli sinni. Hann naut einnig friðar, enda stjórnaði Bismarck ríkinu í raun. Margir sáu í Vilhjálmi tákngerving Prússlands. Hann lést í Berlín 1888 á 91. aldursári.

Fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Vilhjálmur kvæntist 11. júní 1829 Ágústu frá Sachsen-Weimar-Eisenach. Hjónaband þeirra var ekki sérlega lukkulegt, enda skipulagt af foreldrum þeirra. Þeim var þó tveggja barna auðið.

Annað markvert

[breyta | breyta frumkóða]
  • Alls varð Vilhjálmur fyrir fjórum banatilræðum. 1861 var skotið á hann, en þá særðist hann lítillega á hálsi. 1878 var aftur skotið á hann tveimur blýkúlum er hann sat í opnum hestvagni ásamt dóttur sinni, en kúlurnar misstu marks. Aðeins þremur vikum seinna var skotið á hann með haglabyssu (sjá að ofan) og særðist hann þá alvarlega. 1883 var reynt að ráða hann af dögum með dínamíti er hann var viðstaddur afhjúpun á minnisvarða, en hvellhettan virkaði ekki sökum raka.
  • Milli 1867 og 1918 voru reist rúmlega 1000 minnismerki til heiðurs Vilhjálmi keisara.
  • Þýska hafnarborgin Wilhelmshaven heitir í höfuðið á Vilhjálmi keisara.
  • Kílarskurðurinn, sem opnaður var umferð 1895, hét upphaflega Kaiser-Wilhelm-Kanal honum til heiðurs. 1948 var heitinu breytt í Nord-Ostsee-Kanal og þannig heitir hann enn á þýsku í dag.

Fyrirmynd greinarinnar var „Wilhelm I. (Deutsches Reich)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt ágúst 2010.


Fyrirrennari:
Friðrik Vilhjálmur 4.
Konungur Prússlands
(18611871)
Eftirmaður:
Friðrik 3.
Fyrirrennari:
Fyrstur í embætti
Keisari Þýskalands
(18711888)
Eftirmaður:
Friðrik 3.