Jena
Jena | |
---|---|
Sambandsland | Þýringaland |
Flatarmál | |
• Samtals | 114,29 km2 |
Hæð yfir sjávarmáli | 143 m |
Mannfjöldi (2019) | |
• Samtals | 111.000 |
• Þéttleiki | 942/km2 |
Vefsíða | www.jena.de |
Jena er næststærsta borgin í þýska sambandslandinu Þýringalandi (Thüringen) og er með 111 þúsund íbúa (2019). Jena er háskólaborg en háskólinn þar er sá stærsti í Þýringalandi með rúmlega 20 þúsund stúdenta.
Lega
[breyta | breyta frumkóða]Jena liggur austarlega í Þýringalandi, rétt fyrir norðan miðhálendið Thüringer Wald. Næstu borgir eru Weimar til vesturs (20 km), Gera til austurs (30 km) og Leipzig til norðausturs (40 km).
Skjaldarmerki
[breyta | breyta frumkóða]Skjaldarmerki borgarinnar sýnir erkiengilinn Míkael, sem þrykkir lensu inn um gin græns dreka. Á hægri hendi Míkaels er gulur skjöldur með svörtu ljóni en það er gamalt merki greifanna frá Meissen. Neðst er annar skjöldur með vínberjum en hann vísar til vínræktunar héraðsins. Öll eru merkin orðin nokkuð gömul og hafa breyst í tímans rás. Síðustu breytingar voru gerðar 1999.
Orðsifjar
[breyta | breyta frumkóða]Elsta heiti borgarinnar er Jani en það er dregið af gamla orðinu Jahne og merkir hér sennilegast vínrunnaröð.[1]
Söguágrip
[breyta | breyta frumkóða]Upphaf
[breyta | breyta frumkóða]1182 kemur heiti borgarinnar fyrst við skjöl svo öruggt sé, en bærinn er þó nokkuð eldri. 1230 fékk Jena borgarréttindi og var þá byrjað að víggirða hana. Aðalatvinnuvegurinn er vínrækt. 1423 varð Jena hluti af kjörfurstadæminu Saxland.
Siðaskipti og háskóli
[breyta | breyta frumkóða]1523 urðu siðaskiptin í borginni með predikaranum Martin Reinhardt. Hann þótti helst til róttækur, þannig að Marteinn Lúther lét vísa honum burt úr borginni ári síðar. 1525 gerðu bændur uppreisn mikla og eyðilögðu tvö klaustur í borginni. 1558 var háskólinn í Jena stofnaður. Hann var á sínum tíma einn nafntogaðasti háskóli þýska ríkisins og jafnframt einn sá stærsti. Milli 1706 og 1720 námu þar 1.800 stúdentar, fleiri en í nokkrum öðrum þýskum skóla. Þar voru ýmsir merkir menn kennarar. Johann Wolfgang von Goethe var ráðgjafi í borginni og hafði umsjón með skólanum. Af þekktum kennurum má nefna Georg Hegel heimspeking og Friedrich Schiller skáld. Af þekktum nemendum háskólans má nefna Axel Oxenstjerna sænskur ríkiskanslari, Gottfried Wilhelm Leibniz eðlisfræðing og stærðfræðing, Ernst Abbe eðlisfræðing og á 19. öld Karl Marx heimspeking.
Orrustan við Jena
[breyta | breyta frumkóða]1806 réðist Napoleon inn í héraðið. Prússar tóku þar á móti þeim og kom þar til stórorrustu við Jena 14. október. Prússar voru með varaher sinn í og við Jena. Aðalherinn, ásamt herjum Saxlands, voru við Auerstedt, 22 km norðaustar. Þar sem Napoleon vissi ekki nákvæma staðsetningu á herjum Prússa vegna þoku, taldi hann herinn við Jena vera aðalher þeirra. Napoleon var með 95 þúsund manns en prússar aðeins 53 þús. Frakkar gjörsigruðu í orrustunni. Í valnum lágu 10 þúsund Prússar. Varaher Frakka gekk hins vegar beint í flasið á aðalher prússa við Auerstedt. Þrátt fyrir það náðu Frakkar að sigra í þeirri orrustu líka en hún fór fram samtímis orrustunni við Jena. Eftir þennan stórsigur Napoleons, hertók hann Jena, seinna Erfurt og þremur vikum síðar hélt hann innreið sína í Berlín. Austurþjóðverjar héldu minningarhátíð um þessa orrustu 1986 en þá voru liðin 180 ár frá því hún átti sér stað. 2006, 200 árum eftir orrustuna, var sett upp viðamikil útileiksýning við Jena þar sem orrustan við Jena var leikin eftir. Leiksýning þessi er endurtekin á fimm ára fresti.
Nýrri tímar
[breyta | breyta frumkóða]1830 voru íbúar í Jena 5.491 samkvæmt manntali. Með upprennandi iðnbyltingu jókst íbúafjöldinn mjög. Auk mikilvægra iðngreina var landbúnaður, ekki síst vínberjarækt, mikilvægur. 1846 stofnaði Carl Zeiss linsufyrirtæki í Jena sem síðar varð að heimsmerki. 1874 fékk borgin járnbrautartengingu. Í heimstyrjöldinni síðari varð borgin fyrir talsverðum loftárásum. Þær verstu urðu 19. mars 1945 en í þeim eyðilagðist stór hluti miðborgarinnar. 11. apríl stóðu Bandaríkjamenn við borgardyrnar. Þeir náðu ekki að hertaka borgina fyrr en eftir tveggja daga skotbardaga við nasista. 1. júlí var borgin afhent Sovétmönnum, enda á þeirra hernámssvæði. Jena var þar af leiðandi í Austur-Þýskalandi eftir stríð. 1953 varð allsherjar uppreisn borgarbúa gegn kommúnistastjórninni en 30 þúsund manns kröfðust frjálsra kosninga, sameingar Þýskalands og afsögn ríkisstjórnarinnar í Austur-Berlín. Stjórnin bað um aðstoð Sovétmanna, sem sendu her og skriðdrekaflokk. Lýst var yfir neyðarástandi meðan hermennirnir börðu mótmælin niður. Mörg hundruð manns voru handteknir og nokkrir teknir af lífi. 1989 var efnt til stærstu mótmælaöldu borgarinnar en þá söfnuðust 40 þúsund manns saman til að krefjast lýðræðis. Aðeins fáeinum dögum síðar var Berlínarmúrinn fallinn.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Aðalknattspyrnufélag borgarinnar er F.C. Carl Zeiss Jena, sem þrisvar varð austurþýskur meistari (1963, 1968 og 1970), fjórum sinnum bikarmeistari (síðast 1980) og komst í úrslit Evrópukeppni bikarhafa 1981 (tapaði þá fyrir Dynamo Tiflis frá Georgíu). Liðið leikur í neðri deildum í dag.
Frægustu börn borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]- (1911) Bernard prins, eiginmaður Júlíönu Hollandsdrottningar
- (1973) Bernd Schneider landsliðsmaður í knattspyrnu
- (1977) Robert Enke landsliðsmarkmaður í knattspyrnu (framdi sjálfsmorð 2009)
Byggingar og kennileiti
[breyta | breyta frumkóða]- Mikjálskirkjan er aðalkirkja borgarinnar. Hún var reist í tveimur áföngum. Fyrst 1380-1450 og síðan stækkuð verulega 1474-1557. Hún er helguð heilögum Míkael, sem einnig er verndardýrlingur borgarinnar síðan á 13. öld. Meðal frægari organista kirkjunnnar voru Johann Nikolaus Bach (frændi Johanns Sebastians) og Max Reger. Í heimstyrjöldinni síðari skemmdist kirkjan talsvert í loftárásum. Helstu lagfæringum lauk ekki fyrr en 1956. Aðalviðgerðir hófust þó ekki fyrr en 1996 og lauk 2007. Ráðgert er að lagfæra hana enn frekar í framtíðinni.
- JenTower er einkennisbygging borgarinnar og næsthæsta skrifstofubygging hins gamla Austur-Þýskalands. Turninn var reistur 1970-72 og er 149 metra hár (með mastri). Í fyrstu var háskólinn í borginni eini notandinn en hann flutti út 1995. Turninn er notaður sem skrifstofuhúsnæði í dag. Á 28. og 29. hæð eru þó veitingasalir og útsýnisrými fyrir almenning.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 145.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Jena“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júlí 2010.
- Fyrirmynd greinarinnar var „Schlacht bei Jena und Auerstedt“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júlí 2010.