Eisenach

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Eisenach Lega Eisenach í Þýskalandi
Upplýsingar
Sambandsland: Þýringaland
Flatarmál: 103,84 km²
Mannfjöldi: 41.567 (31. des 2013)
Þéttleiki byggðar: 400/km²
Hæð yfir sjávarmáli: 215 m
Vefsíða: www.eisenach.de

Eisenach er borg í þýska sambandslandinu Þýringalandi og er með 42 þúsund íbúa (2019). Borgin var einn starfsvettvangur Marteins Lúthers, ekki síst Wartburgkastalinn þar í grennd sem er eitt þekktasta kastalavirki Þýskalands. Í Eisenach var auk þess stjórnmálaflokkurinn SPD stofnaður og þar voru bílaverksmiðjur Wartburg-bifreiðarinnar á tímum Austur-Þýskalands. Johann Sebastian Bach er fæddur í borginni.

Lega[breyta | breyta frumkóða]

Horft yfir Eisenach

Eisenach er vestasta borgin í Þýringalandi og liggur við landamerkin að Hessen. Næstu borgir eru Erfurt til austurs (40 km), Kassel til norðvesturs (50 km) og Göttingen til norðus (60 km).

Skjaldarmerki[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki borgarinnar sýnir heilagan Georg í herklæðum. Í vinstri hönd heldur hann á skildi með rauðum krossi og er kornöx þar fyrir ofan. Í hægri hönd heldur hann á spjóti með rauða krossinum á borða. Bakgrunnurinn er blár, en auk þess er hvítur riddarakross til vinstri. Heilagur Georg hefur verið á innsiglum borgarinnar alveg frá 13. öld, enda dýrkaði landgreifinn Ludwig der Springer hann og valdi hann sem verndardýrling borgarinnar.

Orðsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Heitið Eisenach er samsett úr Isen (eða Ysen) og Ache. Isen gæti merkt járn (þýska: Eisen). Ache merkir lækur.[1]

Saga Eisenach[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf[breyta | breyta frumkóða]

Kastalavirkið Wartburg

Talið er að frankneskir landnemar hafi fyrst sest að á svæðinu á 8. öld. Hins vegar kemur bærinn ekki við skjöl fyrr en eftir að kastalavirkið Wartburg er reist frá og með árinu 1067 af Ludwig dem Springer. Í lok 12. aldar varð Wartburg aðalaðsetur landgreifanna í Thüringen og við það efldist Eisenach og varð að borg. Meðan Wartburg varð að einu merkasta menningarsetri þýska ríkisins, var lífið í Eisenach sjálfri frekar fábreytt. Listamenn og trúbedúrar fóru oft úr virkinu í borgina og léku listir sínar en Wartburg var eitt þekktasta aðsetur trúbedúra í ríkinu á miðöldum.

Siðaskipti[breyta | breyta frumkóða]

1498 kom Marteinn Lúter til Eisenach og gekk í klausturskólann. Hann var þá aðeins 15 ára gamall. Eftir nám sitt þar fór hann í háskólann í Erfurt. Lúther kom aftur til Eisenach 1521. Þá var hann búinn að mótmæla gegn kaþólsku kirkjunni og var bannfærður maður. Hann fékk að predika nýju trúna í Georgskirkjunni. Síðan dvaldist hann í Wartburg, þar sem hann þýddi Nýja testamentið á þýsku. 1523 kom upp mikill ágreiningur meðal borgarbúa, sem endaði þannig að múgur æddi inn í allar kirkjur og klaustur, og eyðilagði margt. Sumar kirkjur voru brenndar niður. 1525 kom hluti úr bændahernum í uppreisninni miklu til Eisenach til að biðja um vistir og skjól. Borgarstjóranum tókst að lokka bændur inn í borgina, þar sem þeir voru handteknir. Foringjar þeirra voru teknir af lífi á markaðstorginu eftir stutt réttarhöld. 1528 fóru siðaskiptin formlega fram í borginni.

Dauði og listir[breyta | breyta frumkóða]

Eisenach 1647. Virkið Wartburg má sjá á í bakgrunni. Mynd eftir Matthäus Merian.

Eisenach kom ekki við sögu í 30 ára stríðinu sjálfu, en leið mikið af afleiðingum stríðsins. 1617 og 1636 urðu stórbrunar í borginni og 1626 geysaði svarti dauðinn þar. Seinna á 17. öld voru einstaklingar í Bach fjölskyldunni þekktir tónlistarmenn. Johann Sebastian Bach fæddist þar 1685 og var skirður í Georgskirkjunni. Eftir aldamótin bjó Georg Philipp Telemann í Eisenach og samdi þar mörg af verkum sínum. Síðla á 18. öld voru margir þekktir listamenn í borginni og má þar nefna þjóðskáldið Goethe.

19. öldin[breyta | breyta frumkóða]

1807 kom Napoleon til Eisenach til að hvílast. Hann var þá búinn að sigra prússa í mörgum orrustum og hafði samið frið við þá og við Rússa. Frakkar voru með herstöð í borginni og vopnabúr. 1810 varð stórslys er vopnabúrið sprakk í loft upp. Stór hluti borgarinnar eyðilagðist í sprengingunni og eldinum sem braust út. 70 manns biðu bana. Frakkar voru aftur fjölmennir í Eisenach eftir hrakfarir Napoleons í Rússlandi veturinn 1813-14. Þreyttir og veikir hermenn komu í herstöðina, en við það braust út taugaveikisfaraldur. Seinna á árinu 1814 kom rússneski keisarinn Alexander I til Eisenach, en þá voru allir Frakkar á bak og burt. Fyrsta Wartburghátíðin var haldin 1817 til minningar um siðaskiptin, en þá voru liðin 300 ár frá því að Lúther hengdi upp mótmælarit sín á kastalakirkjuna í Wittenberg. Síðan þá hafa tvær aðrar Wartburghátíðir farið fram: 1848 og 1948. Um miðja 19. öldina hóf iðnbyltingin innreið sína í Eisenach. Fyrstu stóru iðngreinarnar voru vefnaður og málningaframleiðsla. 1847 fékk borgin járnbrautartengingu til austurs (Gotha og Erfurt). Til að greiða leið fyrir verkafólki stofnuðu August Bebel og Wilhelm Liebknecht sósíaliska vinnuflokkinn 1869, sem breyttist í stjórnmálaflokkinn SPD 6 árum síðar. Fleiri iðngreinar fylgdu í kjölfarið. 1896 var bifreiðaverksmiðja stofnuð í borginni en Eisenach varð þó ekki að bílaborg fyrr en á eftirstríðsárunum.

20. öldin[breyta | breyta frumkóða]

Dæmigerð Wartburg bifreið

Íbúum fjölgaði og voru þeir orðnir 40 þúsund við lok heimstyrjaldarinnar fyrri. Verksmiðjum fjölgaði. BMW-verksmiðja tók til starfa og framleiddi meðal annars flugvélar. Á árum heimstyrjaldarinnar síðari voru stríðsfangar gjarnan notaðir í þessum verksmiðjum. Langflestir voru frá Úkraínu og Rússlandi (tæplega 3.500). Eisenach varð fyrir nokkrum loftárásum bandamanna í stríðinu. Skemmdir voru þó tiltölulega litlar. Flestar byggingar voru lagfærðar strax eftir stríð. Borgin var á sovéska hernámssvæðinu og var landamæraborg í Austur-Þýskalandi. Þegar múrinn mikli var reistur milli Austur- og Vestur-Þýskalands, var vestasti hluti borgarinnar á bannsvæði landamæranna og ekki aðgengilegur almenningi. Á kommúnistatímanum var Eisenach lítil iðnarðarborg. Þar voru Wartburg verksmiðjurnar stofnaðar 1956 en árleg framleiðsla á bifreiðunum nam tugum þúsunda, mest 1985 (74 þúsund bifreiðar). Vegna mikils iðnaðar, bílaumferðar og kolakyndingar fór rykmengun einatt yfir hættumörk í borginni. Vandamál þetta hvarf ekki fyrr en með sameiningu Þýskalands 1990. Árið 1998 sótti Bill Clinton borgina heim í boði kanslarans Helmuts Kohl.

Viðburðir[breyta | breyta frumkóða]

Sommergewinn í Eisenach er ein stærsta vorhátíð Þýskalands. Hátíðin er ævagömul og á uppruna sinn í heiðni. Hér eru vetur og sumar látin mætast. Hús borgarinnar eru fagurlega skreytt eftir fornum sið. Hlaupið er með brennandi vagnhjól í fjölfarinni skrúðgöngu. Herra Vetur og frú Sunna sitja á rökræðum, en vitanlega fer frú Sunna með sigur á hólmi að lokum. Hún táknar sólgyðjuna. Veturinn er síðan brenndur í formi hálmdúkku.

Thüringer Bachwochen er tónlistarhátíð tileinkuð Johann Sebastian Bach.

Snemmsumars hittast hundruðir gamalla bíla í miðborginni og taka rúntinn í kringum borgina.

Vinabæir[breyta | breyta frumkóða]

Eisenach viðheldur vinabæjatengslum við eftirfarandi borgir:

Röð Vinabær Land Síðan
1 Marburg Þýskalandi 1986
2 Sedan Frakklandi 1972
3 Waverly Iowa, BNA 1992
4 Skanderborg Danmörku 1993
5 Mogilew Úkraínu 1996
6 Sárospatak Ungverjalandi 2008

Frægustu börn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti[breyta | breyta frumkóða]

Georgskirkjan
Nikulásarkirkjan og Nikulásarhliðið. Styttan af Marteini Lúther er til vinstri.
  • Wartburg er gamalt kastalavirki við borgarmörkin og ein þekktasti kastali Þýskalands. Hann var reistur frá og með 1067 og var í 200 ár þekktasta virki Ludowinger-ættarinnar. Virkið hefur síðan þá verið stækkað mikið og lagfært. Á 13. öld hófst mikil söngmenning í kastalanum, kallað Sängerkrieg, sem breyddist út í héraðinu. 1521-22 bjó Marteinn Lúther í felum í kastalanum eftir að hann var bannfærður og þar þýddi hann Nýja testamentið á þýsku. 1817 átti sér stað hin fræga Wartburghátíð í kastalanum, en það markar upphaf þingræðis í Þýskalandi. Kastalinn er á heimsminjaskrá UNESCO.
  • Georgskirkjan er þekktasta kirkja borgarinnar. Hún kemur 1196 fyrst við skjöl, en núverandi bygging var reist frá og með 1515. Í lok 16. aldar var hún uppgerð og aftur á 17. og 18. öld. Í kirkjunni predikaði Marteinn Lúter eftir að hann hóf mótmæli sín gegn kaþólsku kirkjunni. Í kirkjunni var einnig Johann Sebastian Bach skírður 1685.
  • Nikulásarkirkjan og Nikulásarhliðið er semsetning tveggja gamalla bygginga í miðborginni. Báðar voru byggingarnar reistar á 12. öld. Hliðið var aðalinngangur inn í borgina að austan í margar aldir. Hliðið, kirkjan og styttan af Marteini Lúther þar fyrir framan er eitt aðaleinkenna miðborgarinnar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 88.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]