Fara í innihald

Blönduós

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Blöndós)
Blönduós, gamli bærinn og kirkjan.
Byggðamerki Blönduósbæjar sem notað var þegar bærinn var sjálfstætt sveitarfélag.
Staðsetning Blönduósbæjar eins og mörk sveitarfélagsins voru á árunum 2002 til 2022.

Blönduós er bær í sveitarfélaginu Húnabyggð, við ósa Blöndu. Íbúar voru um 930 árið 2022. Byggðin á Blönduósi stendur í kvos undir bröttum marbökkum, báðum megin Blöndu, og eru bakkarnir víðast um 40 m háir. Bærinn er byggður í landi jarðanna Hjaltabakka og Hnjúka, vestan ár (eða sunnan ár, eins og heimamenn segja) og Ennis austan (norðan) ár. Þjóðvegur 1 liggur í gegnum Blönduós.

Bærinn var upphaflega í tveimur sveitarfélögum, byggðin sunnan ár tilheyrði Torfalækjarhreppi en norðan ár Engihlíðarhreppi, en árið 1914 var Torfalækjarhreppi skipt og byggðin sunnan ár varð að sérstökum hreppi, Blönduóshreppi. Þann 1. febrúar 1936 var byggðin norðan ár svo sameinuð afganginum af kauptúninu. Hreppurinn varð bæjarfélag 4. júlí 1988 og kallaðist þá Blönduósbær og hélst það nafn áfram við sameiningu við Engihlíðarhrepp 9. júní 2002. Íbúar Blönduósbæjar samþykktu sameiningu við Húnavatnshrepp í atkvæðagreiðslu 19. febrúar 2022 og tók sú sameining gildi í kjölfar sveitarstjórnarkosninga 2022 undir heitinu Húnabyggð.

Blönduóss er fyrst getið sem lendingarstaðar í Landnámabók og víða í Íslendingasögum er talað um skipakomur þangað en á síðari öldum virðist ekki hafa verið siglt þangað fyrr en á 19. öld. Eini verslunarstaðurinn í Húnaþingi var þá Höfðakaupstaður (Skagaströnd). Mörgum Húnvetningum þótti þó langt að sækja verslun þangað og þann 1. janúar 1876 var Blönduós löggiltur sem verslunarstaður. Sumarið eftir voru útmældar nokkrar verslunarlóðir og tveir verslunarskúrar reistir. Kaupfélag Austur-Húnvetninga fékk útmælda lóð 1896 og árið 1909 var reist steinsteypt verslunarhús sem enn stendur.

Íbúðarhús risu einnig kringum verslanirnar. Árið 1890 voru 52 íbúar á Blönduósi og um aldamótin voru þeir orðnir 106. Árið 1920 voru á Blönduósi 11 steinhús, 15 timburhús og 31 torfbær. Lögferja kom á ósa Blöndu um það bil sem byggð hófst þar og brú var svo reist á árunum 1896-1897 og var mjög mikil samgöngubót og tengdi líka þorpið, sem var að byggjast upp báðum megin árinnar. Núverandi brú var reist 1962-1963. Á árunum 1894-1895 var gerð bryggja utan við ána og varð Blönduós þá fastur viðkomustaður strandferðaskipa.

Kvennaskóli Húnvetninga var fluttur á Blönduós 1901 og var núverandi skólahús reist 1912. Skólinn starfaði allt til 1978 en var þá lagður niður og eru Textílsetur Íslands og Heimilisiðnaðarsafnið nú í húsakynnum skólans. Á Blönduósi er einnig Hafíssetrið í Hillebrandtshúsi og verið er að koma upp Laxasetri Íslands í bænum.

Gamla kirkjan á Blönduósi var flutt þangað frá Hjaltabakka 1894 og reist sunnan ár. Hún er nú friðuð en ný kirkja var reist norðan ár 1993. Prestssetur hefur verið á Blönduósi frá 1968. Sýslumaður Húnvetninga hefur haft aðsetur á Blönduósi frá 1897 og sama ár varð þar læknissetur. Sjúkrahúsið, Héraðshæli Austur-Húnvetninga, var tekið í notkun 1956.

Atvinnulíf Blönduóss byggist á margs konar matvælaiðnaði og öðrum léttum iðnaði, svo og verslun og þjónustu við íbúa héraðsins og ferðamenn.

Á Blönduósi hefur verið sjálfvirk veðurathugunarstöð Veðurstofunnar síðan 1998.

Fyrirtæki á Blönduósi

[breyta | breyta frumkóða]


Ósar Blöndu.
  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.