Fara í innihald

Alþingiskosningar 1971

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Alþingiskosningar 1971 voru kosningar til Alþingis sem fóru fram 13. júní 1971. Kosningaþátttaka var 90,4%. Þau stórtíðindi urðu að Viðreisnarstjórn Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks féll eftir tólf ára setu með þriggja þingmanna mun. Alþýðuflokkurinn fékk mikinn skell og missti þriðjung þingmanna sinna.

Í þessum kosningum buðu fram Samtök frjálslyndra og vinstri manna, klofningsframboð Hannibals Valdimarssonar vegna andstöðu við að Alþýðubandalaginu yrði breytt úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk. Samtökin fengu fimm þingmenn.

Framboðsflokkurinn, háðframboð ungs fólks sem gerði grín að hinum framboðunum og lagði fram stefnumál sem voru út í hött, fékk um 2% fylgi á landsvísu en það bauð fram í þremur kjördæmum. Eitt af slagorðum framboðsins var „jarðgöng í hvern hrepp!“. Meðal frambjóðenda voru Gunnlaugur Ástgeirsson, bróðir Kristínar Ástgeirsdóttur sem síðar sat á þingi fyrir Kvennalistann, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, síðar þingkona fyrir Þjóðvaka og Samfylkinguna, og Jörmundur Ingi Hansen, síðar allsherjargoði.

Stjórnarmyndun

[breyta | breyta frumkóða]

Samtök frjálslyndra og vinstri manna þóttu vera sigurvegarar kosninganna. Eftir mánaðar þóf tókst að mynda ríkisstjórn Alþýðubandalags, Framsóknarflokks og Samtakanna undir forsæti Ólafs Jóhannessonar, formanns Framsóknarflokksins. Stjórnin hafði tveggja þingmanna meirihluta og tók við völdum 14. júlí. Stjórnin tókst á við útfærslu landhelginnar í 50 mílur og erfiðleika í efnahagsmálum. Vestmannaeyjagosið 1973 bætti ekki úr skák. Verðbólga fór af stað og þegar grípa þurfti til erfiðra aðgerða í efnahagsmálum drógu Hannibal og þrír aðrir þingmenn Samtakanna stuðning sinn við ríkisstjórnina til baka. 8. maí 1974 baðst Ólafur Jóhannesson lausnar fyrir ráðuneyti sitt.

Niðurstöður

[breyta | breyta frumkóða]

Niðurstöður kosninganna voru þessar:

Flokkur Formenn Atkvæði % +/- Þingmenn +/-
Alþýðu­flokkurinn Gylfi Þ. Gíslason 11,020 10.5 -5,2 6 -3
Merki Framsóknar Framsóknar­flokkurinn Ólafur Jóhannesson 26,645 25.3 -2,8 17 -1
Merki Sjálfstæðisflokksins Sjálfstæðis­flokkurinn Jóhann Hafstein 38,170 36.2 -1,3 22 -1
Alþýðu­bandalagið Ragnar Arnalds 18,055 17.1 -0,5 10
Samtök frjálslyndra og vinstri manna Hannibal Valdimarsson 9,395 8.9 5
Framboðsflokkurinn 2,110 2.0 0
Alls 105,395 100 60

Forseti Alþingis var kjörinn Eysteinn Jónsson, Framsóknarflokki.

Kosningasaga

Fyrir:
Alþingiskosningar 1967
Alþingiskosningar Eftir:
Alþingiskosningar 1974