Fara í innihald

Mongólía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Монгол Улс)
Mongólía
Mongolia name in Mongolian Script
Монгол Улс
Fáni Mongólíu Skjaldarmerki Mongólíu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Mongol Ulsiin töriin duulal
Staðsetning Mongólíu
Höfuðborg Úlan Bator
Opinbert tungumál Mongólska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Ukhnaagiin Khürelsükh
Forsætisráðherra Luvsannamsrain Oyun-Erdene
Stofnun
 • Xiongnu-veldið 209 f.o.t. 
 • Mongólaveldið 1206 
 • Sjálfstæði frá Tjingveldinu 29. desember 1911 
 • Alþýðulýðveldið Mongólía 11. júlí 1924 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
18. sæti
1.564.116 km²
0,67
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
134. sæti
3.353.470
2,07/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 47 millj. dala (115. sæti)
 • Á mann 14.270 dalir (93. sæti)
VÞL (2019) 0.737 (99. sæti)
Gjaldmiðill Tögrög
Tímabelti UTC+7/+8
Þjóðarlén .mn
Landsnúmer +976

Mongólía er landlukt land í Austur-Asíu sem á landamæri að Rússlandi í norðri og Kína í suðri. Landið er rúmlega 1,5 milljón ferkílómetrar að stærð, en íbúar eru aðeins 3,3 milljónir sem gerir það að dreifbýlasta sjálfstæða ríki heims. Mongólía er stærsta landlukta land heims sem ekki á strönd að innhafi. Stór hluti landsins er þakinn gresju, með fjöll í norðri og Góbíeyðimörkina í suðri. Um helmingur íbúa landsins býr í höfuðborginni, Úlan Bator.

Mörg hirðingjaveldi hafa orðið til þar sem Mongólía er nú, meðal annars Xiongnu-veldið, Xianbei-veldið, Rouran-veldið, Göktürk-veldið og fleiri. Árið 1206 stofnaði Djengis Khan Mongólaveldið, sem var stærsta samfellda heimsveldi sögunnar. Barnabarn hans, Kúblaí Kan, lagði Kína undir sig og stofnaði Júanveldið. Eftir að það hrundi hörfuðu Mongólar til Mongólíu og tóku aftur upp fyrri hætti sem einkenndust af átökum milli ættbálka, fyrir utan valdatíð Dayan Khan og Tumen Zasagt Khan. Á 16. öld breiddist tíbeskur búddismi út í Mongólíu og styrktist enn frekar þegar Tjingveldið lagði landsvæðið undir sig á 17. öld. Snemma á 20. öld var nær þriðjungur karlmanna í Mongólíu búddamunkar.[1][2] Þegar Tjingveldið hrundi árið 1911 lýstu Mongólar yfir sjálfstæði og fengu það formlega árið 1921. Skömmu síðar lenti Mongólía á áhrifasvæði Sovétríkjanna. Árið 1924 var Alþýðulýðveldið Mongólía stofnað sem sósíalistaríki.[3] Eftir byltingarnar 1989 varð friðsöm lýðræðisbylting í Mongólíu árið 1990 sem leiddi til fjölflokkalýðræðis með nýrri stjórnarskrá 1992 og þróun í átt til markaðsbúskapar.

Um 30% íbúa Mongólíu eru hirðingjar eða hálfhirðingjar og hrossarækt er stór hluti af mongólskri menningu. Búddismi er ríkjandi trúarbrögð en trúlausir eru annar stærsti hópurinn. Íslam eru önnur stærstu trúarbrögðin í Mongólíu, einkum meðal Kasaka. Flestir íbúar eru Mongólar að uppruna, en um 5% eru Kasakar, Túvanar og aðrir minnihlutahópar, sem búa aðallega í vesturhluta landsins. Mongólía á aðild að Sameinuðu þjóðunum, Samstarfsráði Asíu, G77, Innviðafjárfestingabanka Asíu, Samtökum óháðra ríkja, og á í samstarfi við NATO. Mongólía gerðist aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni árið 1997.[4]

Heitið Mongólía merkir einfaldlega „land Mongóla“ á latínu. Uppruni mongólska orðsins монгол mongol er óviss og orðið hefur ýmist verið talið dregið af heiti fjalls eða fljóts, afbökun á mongólska orðinu mongkhe-tengri-gal („eilífur himnaeldur“)[5] eða dregið af Mugulü sem stofnaði Rouran-veldið á 4. öld.[6] Upphaflega kemur heitið Mungu[7] (kínverska: 蒙兀, pinyin Měngwù, miðkínverska Muwngu[8]) fyrir sem nafn á grein af Shiwei-þjóðinni í lista yfir norræna ættbálka frá tímum Tangveldisins á 8. öld, og tengjast líklega Mungku frá tímum Liaoveldisins.[7] (kínverska: 蒙古, pinyin Měnggǔ, miðkínverska MuwngkuX[9]).

Eftir fall Liao-veldisins árið 1125 urðu Khamag-Mongólar leiðandi ættbálkur á mongólsku sléttunni. Styrjaldir þeirra gegn Jurchenum Jinveldisins (1115-1234) og Tatarabandalaginu drógu úr þeim mátt. Síðasti foringi ættbálksins var Yesügei, en sonur hans, Temüjin, sameinaði loks alla Shiwei-ættbálkana í eitt Mongólaveldi (Yekhe Monggol Ulus). Á 13. öld varð orðið „Mongólar“ að regnhlífarheiti yfir margar ólíkar mongólskumælandi þjóðir sem Djengis Khan ríkti yfir.[10]

Í stjórnarskrá Mongólíu frá 1992 er opinbert heiti landsins Mongol Uls („Mongólía“).

Þjóðin er komin af hirðingjaættflokkum sem um aldir hafa reikað um slétturnar. Djengis Khan gerði Mongólíu að stórveldi á þrettándu öld. Hann náði að sameina allar hirðingjaþjóðirnar og byggði upp ósigrandi reiðmannaher. Hver hermaður hafði þrjá til reiðar í hverjum herleiðangri til að yfirferðin yrði sem hröðust. Með ótrúlegri hörku og grimmúð náði Mongólía að þenja sig yfir stóran hluta Asíu, þar með talið Kína. Þegar ríki Mongóla var hvað stærst náði það allt frá Víetnam í austri að Ungverjalandi í vestri. Sonarsonur Djengis, Kublai Khan, var í ýmsum landvinningum og reyndi að halda ríkinu saman, en það tókst ekki og ríkið leystist fljótlega upp í minni einingar.

Seinna náðu Kínverjar völdum í Mongólíu og skiptu henni í Innri- og Ytri-Mongólíu sem voru héruð innan Kína. Ytri-Mongólía sagði skilið við Kína árið 1921 með stuðningi Sovétríkjanna og hefur kallað sig Alþýðulýðveldið Mongólíu frá árinu 1924. Kommúnismi var tekinn upp í landinu og hélst þangað til Sovétríkin féllu. Sovétríkin vörðu landið fyrir Japönum í síðari heimsstyrjöld og þegar slettist upp á vinskap Sovétmanna og Kínverja árið 1958 tóku Mongólar afstöðu með Sovétríkjunum og leyfðu þeim að reka herstöðvar á landi sínu.

Árið 1990 var bann við rekstri annarra stjórnmálaflokka en Kommúnistaflokksins afnumið en kommúnistar héldu þó áfram að vera með stærstu flokkum landsins. Árið 1992 var tekin upp ný stjórnarskrá í Mongólíu þar sem alþýðulýðveldið var afnumið og blöndu af forseta- og þingræði komið á.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Mongólía er hálf önnur milljón ferkílómetra að stærð, sem jafngildir ríflega fimmtánfaldri stærð Íslands, og eins og Ísland er Mongólía afar fámennt land. Einungis tvær milljónir af 5 ½ milljón Mongóla, búa í Mongólíu, hinir búa í ýmsum héröðum nágrannalandanna. Þetta fámenni gerir landið allnokkru strjálbýlla, með 1,7 íbúa á ferkílómetra, en til dæmis Ísland, sem hefur 3,4 íbúa á ferkílómetra. Í höfuðborginni, Ulaanbataar, búa um 700.000 manns. Aðrar borgir eru öllu minni. Landið liggur beggja vegna við 46°N sem þýðir að hnattstaða þess er svipuð og Frakklands.

Í Norður-, Mið- og Vestur-Mongólíu mikið fjalllendi sem nær upp í 3600 metra hæð. Á landamærunum við Rússland er nokkuð um eldfjöll. Flestar ár landsins aldrei komast til sjávar en hverfa í sölt stöðuvötn. Fjölbreytt dýralíf er í kringum stöðuvötn landsins, einkum norðantil. Loftslag Mongólíu er hefðbundið meginlandsloftslag en öfgakennt, vetur eru langir, kaldir og þurrir en sumrin heit. Úrkoma er allt frá 50 mm á ári í Góbíeyðimörkinni upp í 500 mm í fjöllunum, en meirihluti landsins er allþurr.

Dýra- og plöntulíf er fjölbreytt, skógar, gresjur og steppur skiptast á með sínum plöntu- og dýrategundum. Veðurfar og hæð yfir sjó setja vistkerfinu þó þröngar skorður.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Þar til 27. júní 2004 var Byltingarflokkur Alþýðunnar stærsti flokkur Mongólíu, en hann var stofnaður af fyrrverandi kommúnistaleiðtogum landsins þegar Kalda stríðinu lauk. Stærsti andstöðuflokkurinn hefur verið Lýðræðisflokkurinn sem leiddi samsteypustjórn á árunum 1996-2000. Í kosningunum 2004 beið Byltingarflokkurinn mikinn ósigur og lenti í stjórnarandstöðu en kosningaþátttaka hafði aldrei verið meiri í landinu. Byltingarflokkurinn, endurnefndur Alþýðuflokkurinn, komst aftur til valda í kosningum árið 2016.

Í ríkinu er við lýði tvöfalt framkvæmdavald þar sem kjörinn forseti gegnir hlutverki þjóðhöfðingja og forsætisráðherra er æðsti maður ríkisstjórnar. Löggjafarþingið kallast Hural, í því eru 76 sæti í einni deild.

Skipting í stjórnsýsluumdæmi

[breyta | breyta frumkóða]

Mongólía skiptist í 21 hérað (aimag) sem aftur skiptast í 331 umdæmi (sum).[11] Höfuðborgin er undir sérstakri stjórn og hefur sömu stöðu og hérað. Héruðin eru:

Kaupmáttur er rúmlega fimmtán sinnum minni en á Íslandi, sem jafnast ögn út vegna lægra verðlags þar. Þó er ljóst að fátækt er mjög mikil og í því sambandi má nefna að 36% íbúa lifa undir fátæktarmörkum. Landið er ríkt af málmum og kolum og kemur megnið af útflutningstekjum landsins af sölu þessa, einkum kopars. Mest viðskipti eiga Mongólar við Rússland, Kína og Japan.

Kommúnismi, sem var tekinn upp 1921, olli straumhvörfum í lifnaðarháttum Mongóla. Heilsugæsla stórefldist og komið varð böndum á marga helstu sjúkdóma þess tíma. Iðnaður, sem áður var enginn, var rifinn upp og skóp landinu velsæld. Enn í dag er þó hráefnaútflutningur mikilvægastur í útflutningi, og róa nú stjórnvöld öllum árum að því að skapa meiri verðmæti úr þessum auðlindum með fullvinnslu og að koma styrkari og fjölbreyttari stoðum undir atvinnulífið. Einkavæðing hefur verið nokkur undanfarin ár en slæmir vetur hafa verið nokkuð tíðir og ýtt undir verðbólgu og hægt á hagvexti.

Úlan Bator er höfuðborg og stærsta borg Mongólíu.
Margar fjölskyldur búa í svokölluðum ger-hverfum.

Íbúar Mongólíu voru áætlaðir vera um 3,3 milljónir árið 2020.[12] Um 59% þjóðarinnar eru undir þrítugu og 27% eru undir 14 ára aldri. Mongólar eru því ung þjóð í hröðum vexti sem hefur valdið álagi á efnahagslíf landsins.[heimild vantar]

Fyrsta manntal 20. aldar var tekið árið 1918, en þá voru íbúar 647.500.[13] Síðan sósíalistastjórnin hvarf frá völdum hefur frjósemishlutfall minnkað hraðar en í nokkru öðru landi heims. Samkvæmt áætlun Sameinuðu þjóðanna var frjósemi talin vera 7,33 börn á konu milli 1970 og 1975, en var orðin 2,1 barn á konu milli 2000 og 2005.[14] Hlutfallið hefur síðan orðið stöðugt í kringum 2,2-2,3 börn á konu.[heimild vantar]

Um 95% þjóðarinnar eru Mongólar, aðallega Kalkamongólar og aðrir hópar sem tala ýmsar mállýskur mongólsku. Kalkamongólar eru 86% Mongóla í Mongólíu, en 14% eru Oiratar, Burjatar og önnur þjóðarbrot. Tyrkísku þjóðirnar Kasakar og Túvanar eru um 4,5% af íbúum Mongólíu, en þar búa líka litlir hópar Rússa, Kínverja, Kóreumanna og Bandaríkjamanna.[15]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Michael Jerryson, Mongolian Buddhism: The Rise and Fall of the Sangha, (Chiang Mai: Silkworm Books, 2007), 89.
  2. „Mongolia – Religion“. Michigan State University. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. mars 2015. Sótt 24. janúar 2015.
  3. Sik, Ko Swan (1990). Nationality and International Law in Asian Perspective. bls. 39. ISBN 9780792308768. Afrit af uppruna á 4. september 2015. Sótt 28. júní 2013.
  4. „Mongolia“. The World Factbook. CIA. Sótt 9. ágúst 2015.
  5. National University of Mongolia, School of Social Sciences, Department of History (1999). „2. Хүний үүсэл, Монголчуудын үүсэл гарвал“ [2. Origins of Humanity; Origins of the Mongols]. Монгол улсын түүх [History of Mongolia] (mongólska). Admon. bls. 67–69.
  6. Г. Сүхбаатар (1992). „Монгол Нирун улс“ [Mongol Nirun (Rouran) state]. Монголын эртний түүх судлал, III боть [Historiography of Ancient Mongolia, Volume III] (mongólska). 3. árgangur. bls. 330–550.
  7. 7,0 7,1 Svantesson, Jan-Olov & al. The Phonology of Mongolian, pp. 103–105. Oxford Univ. Press (Oxford), 2005.
  8. Pulleyblank, Edwin George. Lexicon of Reconstructed Pronunciation in Early Middle Chinese, Late Middle Chinese, and Early Mandarin. UBC Press, 1991. ISBN 0-7748-0366-5.
  9. Baxter, Wm. H. & Sagart, Laurent. „Baxter–Sagart Old Chinese Reconstruction“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. apríl 2012. (1.93 MB). 2011. Sótt 11. október 2011.
  10. Mongolia: Ethnography of Mongolia. Sótt 22. júlí 2007.
  11. Givaandondogiin Purevsambuu (2006). Mongolia. Montsame News Agency. bls. 46. ISBN 978-99929-0-627-9.
  12. „Renewed 2015–2045 population projection“. www.1212.mn. Mongolian Statistical Information Service. 1. janúar 2017. Sótt 28. maí 2020.
  13. „Mongolia“ (PDF). United Nations Economic and Social Commission for Asia and the Pacific. Afrit (PDF) af uppruna á 11. maí 2013. Sótt 28. júní 2013.
  14. Spoorenberg, Thomas (2009). „The impact of the political and economic transition on fertility and family formation in Mongolia. A synthetic parity progression ratio analysis“. Asian Population Studies. 5 (2): 127–151. doi:10.1080/17441730902992067. S2CID 153650562.
  15. „Second wave of Chinese invasion“. Sydney Morning Herald. 13. ágúst 2007. Afrit af uppruna á 21. október 2013. Sótt 28. júní 2013.

Helstu heimildir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Emblem, Hetland, Libæk, Stenersen, Sveen og Aastad. Heimsbyggðin. Mál og menning, Reykjavík. 1995.
  • Encyclopædia Britannica Online. Mongolia. Sótt þann 18. apríl 2003 af slóðinni [1]
  • Bandaríska leyniþjónustan. The World Factbook 2002. Sótt þann 18. apríl 2003 af slóðinni [2] Geymt 5 júlí 2006 í Wayback Machine
  • Sverrir Jakobsson. Umskipti í Mongólíu. Grein af vefritinu murinn.is. Sótt þann 21. apríl 2003 af slóðinni < [3]>