Alþjóðasamtök kommúnista

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Komintern)
Alþjóðasamtök kommúnista
Komintern
Stofnár 2. mars 1919; fyrir 105 árum (1919-03-02)
Stofnandi Vladímír Lenín
Lagt niður 15. maí 1943; fyrir 80 árum (1943-05-15)
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Kommúnismi, marx-lenínismi
Einkennislitur Rauður     

Alþjóðasamband kommúnista eða Komintern (alþjóðlegt heiti: Comintern, kýrillískt letur: Коминтерн), oft kallað þriðja alþjóðasambandið voru alþjóðleg samtök kommúnista, stofnuð í Moskvu 1919. Fyrsta alþjóðasambandið hafði Karl Marx stofnað, og annað alþjóðasambandið var í höndum jafnaðarmanna. Ágreiningsefni kommúnista og jafnaðarmanna var hvort aðeins bæri að fara lýðræðisleiðina að settu marki eins og jafnaðarmenn vildu eða gera byltingu, ef þess þyrfti, eins og kommúnistar töldu.

Skipulag og starfsemi Kominterns[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti forseti Kominterns var rússneski kommúnistinn Grígoríj Zínovjev, 1919–1926. Annar forseti sambandsins var Níkolaj Búkharín, 1926–1928. Búlgarski kommúnistinn Georgíj Dímítrov var síðasti forseti þess, 1935–1943. Fimm manna framkvæmdanefnd stjórnaði sambandinu á milli þinga.

Komintern skipulagði byltingartilraunir víða um heim, meðal annars í Þýskalandi og Eistlandi. Margir aðildarflokkar Kominterns voru bannaðir vegna ólöglegrar starfsemi, til dæmis finnski kommúnistaflokkurinn. Í bókinni Í álögum, sem kom út í tveimur bindum á íslensku 1942 og 1944, lýsti Jan Valtin, réttu nafni Richard Krebs, undirróðri og skemmdarverkum á vegum Kominterns.

Náin tengsl mynduðust á milli leynilögreglu Ráðstjórnarríkjanna og Kominterns, og var forstöðumaður starfsmannadeildar Kominterns, Míkhaíl Trílísser, í raun og veru yfirmaður hinnar erlendu deildar leynilögreglunnar og notaði þá dulnefnið Míkhaíl Moskvín. Talið er, að 133 af 492 starfsmönnum Kominterns hafi týnt lífi í hreinsunum Stalíns.

Komintern var lagt niður að skipun Stalíns 1943 þegar hann vildi þóknast bandamönnum sínum í seinni heimsstyrjöldinni, Bretum og Bandaríkjamönnum.

Íslendingar á þingum Kominterns 1920–1928[breyta | breyta frumkóða]

Fulltrúar íslenskra kommúnista á öðru þingi Kominterns í Moskvu 1920 voru Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson. Á Lenín að hafa á því þingi haft orð á hernaðarlegu mikilvægi Íslands í hugsanlegri styrjöld. Á því þingi voru Moskvusetningarnar samþykktar, meðal annars með atkvæðum íslensku fulltrúanna, en þær kváðu á um skilyrðislausa hlýðni einstakra kommúnistaflokka við Komintern.

Fulltrúar íslenskra kommúnista á þriðja þingi Kominterns í Moskvu 1921 voru Ólafur Friðriksson og Ársæll Sigurðsson. Eftir það þing tók Ólafur Friðriksson með sér munaðarlausan ungling til Íslands, sem vísað var úr landi vegna smitandi augnsjúkdóms, og urðu af því átök, sem kölluð hafa verið „Drengsmálið“.

Fulltrúi íslenskra kommúnista á fjórða þingi Kominterns í Moskvu 1922 var Ólafur Friðriksson. Olli utanför hans hörðum deilum í Alþýðuflokknum, en hann var þá ritstjóri Alþýðublaðsins. Margir Alþýðuflokksmenn voru andvígir Komintern.

Fulltrúi íslenskra kommúnista á fimmta þingi Kominterns í Moskvu 1924 var Brynjólfur Bjarnason. Var þar samþykkt ályktun um Ísland, sem kvað á um, að stofna þyrfti sérstakan kommúnistaflokk í landinu, en ekki fyrr en eftir nokkurn undirbúning.

Fulltrúar íslenskra kommúnista á sjötta þingi Kominterns í Moskvu 1928 voru Einar Olgeirsson og Haukur Siegfried Björnsson.

Aðild að Komintern[breyta | breyta frumkóða]

Brynjólfur Bjarnason og Hendrik Siemsen Ottósson voru fulltrúar Alþýðuflokksins á öðru þinginu 1920. Íslendingar á næstu þingum Kominterns voru hins vegar ekki fulltrúar Alþýðuflokksins, heldur Jafnaðarmannafélags Reykjavíkur, sem Ólafur Friðriksson og bandamenn hans í röðum ungra kommúnista réðu yfir. Samband ungra kommúnista, sem stofnað var snemma árs 1924, var hins vegar aðili að Alþjóðasambandi ungra kommúnista, sem var í samstarfi við Komintern.

Þegar Kommúnistaflokkur Íslands var stofnaður 29. nóvember 1930, gekk hann í Komintern og varð deild í honum. Um tuttugu Íslendingar stunduðu nám í byltingarskólum Kominterns í Moskvu, Lenínskólanum og Vesturskólanum, en markmið þeirra var að þjálfa dygga flokksmenn, ekki aðeins í marxískum fræðum, heldur líka í byltingartækni. Kunnastur íslensku námsmannanna var Benjamín H. J. Eiríksson, en á meðal þeirra voru einnig tveir alþingismenn sósíalista, Þóroddur Guðmundsson og Steingrímur Aðalsteinsson, og framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, Eggert Þorbjarnarson.

Eggert Þorbjarnarson starfaði á vegum Kominterns við Lenínskólann í Moskvu 1934–1937. Hann var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins, 1943–1957.

Fulltrúar íslenskra kommúnista á sjöunda (og síðasta) þingi Kominterns í Moskvu 1935 voru Brynjólfur Bjarnason og Einar Olgeirsson (sem var áheyrnarfulltrúi).

Kommúnistaflokkur Islands var lagður niður 1938, þegar kommúnistar gengu til samstarfs við vinstra arm Alþýðuflokksins og stofnuðu Sósíalistaflokkinn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Arnór Hannibalsson: Moskvulínan. Reykjavík 1999: Nýja bókafélagið.
  • Einar Olgeirsson: Kraftaverk einnar kynslóðar. Jón Guðnason skráði. Reykjavík 1983: Mál og menning.
  • Hannes Hólmsteinn Gissurarson: Íslenskir kommúnistar 1918–1998. Reykjavík 2011: Almenna bókafélagið.
  • Jón Ólafsson: Kæru félagar. Reykjavík 1999: Mál og menning.
  • Þór Whitehead: Sovét-Ísland. Óskalandið. Reykjavík 2010: Ugla.