Fara í innihald

Þjóðernishreyfing Íslendinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þjóðernishreyfing Íslendinga
Leiðtogi Jón H. Þorbergsson
Eiður S. Kvaran
Gísli Sigurbjörnsson
Stofnár 1934
Lagt niður 1944
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Nasismi, íslensk þjóðernishyggja, Gyðingahatur, andkommúnismi
Ganga niður Bankastræti á fjórða áratugnum til stuðnings nasisma.

Þjóðernishreyfing Íslendinga (ÞHÍ) var íslensk stjórnmálahreyfing, stofnuð 1933. Helstu leiðtogar hennar voru Jón H. Þorbergsson frá Laxamýri, Eiður S. Kvaran sagn- og mannfræðingur og frímerkjasalinn Gísli Sigurbjörnsson. Þeir Eiður og Gísli höfðu báðir dvalist í Þýskalandi og orðið þar vitni að framgöngu nasista. Aðalstefnumál hreyfingarinnar var að efla íslenska menningu á þjóðlegum grundvelli og vernda kynstofn Íslendinga. Mikilvægt þótti að útlendingar fengju ekki landvistarleyfi á Íslandi, nema um sérfræðinga væri að ræða í þeim greinum atvinnulífs, þar sem Íslendingar réðu ekki yfir sambærilegum fræðingum. ÞHÍ var skipuð tveimur andstæðum hópum: annars vegar óánægðum sjálfstæðis- og framsóknarmönnum og hins vegar ungu fólki sem hrifist hafði af þýska nasismanum. [1] Tímaritið Íslenzk endurreisn, sem kom út árin 1933 og 1934, var helsta málgagn ÞHÍ.

Hreyfingin klofnaði 1934 og stofnuðu fylgjendur þýsku nasistanna Flokk þjóðernissinna, en ÞHÍ lagði fljótlega niður stafsemi. Meginstefna flokksins var andstaða við kommúnista og takmark „þjóðernissinna væri alger útrýming kommúnista ... engir flokkar, aðeins sameinuð og sterk íslenzk þjóð.“

„Takmark þjóðernisjafnaðarstefnunnar er að skapa Volksgemeinschaft —þjóðarsamfélag, órjúfandi þjóðarheild…Stéttamunurinn á að hverfa og allur ágreiningur, sem stafað getur af mismunandi uppeldi manna… Í því skyni starfa hin stóru æskulýðsfélög —Hitlersæskufélögin … „Ef þjóðin á að lifa, verður Marxisminn að deyja".[2]

Þrátt fyrir að Gyðingahatur væri eitt meginatriði í stefnu þýskra nasista skrifuðu flest málgögn íslenskra þjóðernissinna lítið um það. Hins vegar var Gyðinga stöku sinnum getið í tengslum við kommúnisma. Mjölnir, málgagn Félags þjóðernissinnaðra stúdenta við Háskóla Íslands, skrifaði harðast á móti Gyðingum. Hins vegar var dýrkun á öllu „íslensku“ og kynþáttahatur mikilvægur þáttur í hugmyndafræðinni. Helstu málgögn þjóðernissinnaflokksins voru Ísland og Ákæran.

Flokkur þjóðernissinna hætti að mestu störfum um 1940 en var formlega lagður niður 1944 þegar ósigur Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni var orðinn augljós. Flokkurinn bauð fram í Alþingiskosningum og bæjarstjórnarkosningum og varð fylgi hans mest í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík árið 1934, 2,8%, en það voru samanlagt 399 atkvæði.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Iceland and the Jewish Question until 1940, Snorri G. Bergsson, 1994,1995.
  2. Ásgeir Guðmundsson: "Nazismi á Íslandi: Saga Þjóðernishreyfingar Íslendinga og Flokks Þjóðernissinna" Saga XIV (1976), 3-44.

Frekari fróðleikur[breyta | breyta frumkóða]

  • Ásgeir Guðmundsson (2009). Berlínarblús: íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb þýskra nasista (2. útgáfa). Reykjavík: Skrudda.
  • Hrafn Jökulsson & Illugi Jökulsson (1988). Íslenskir nasistar. Reykjavík: Tákn.
  • Þór Whitehead (1998). Íslandsævintýri Himmlers 1935-1937 (2. útgáfa). Reykjavík: Vaka-Helgafell.